Rogen leikur Wozniak

Gamanleikarinn góðkunni, Seth Rogen, mun fara með hlutverk meðstofnanda tölvurisans Apple, Steve Wozniak, í nýrri kvikmynd frá Sony um Steve Jobs og Apple.

Rogen mun þar leika á móti Christian Bale sem fer með hlutverk Jobs. Danny Boyle mun leikstýra myndinni, en hann á að baki kvikmyndir á borð við Trainspotting, 127 Hours og Slumdog Millionare.

Sagan um Steve Jobs er stórmerkileg og fékk hann snemma áhuga á tölvum. Jobs stofnaði Apple fyrirtækið í bílskúrnum heima hjá sér aðeins 21 ára gamall ásamt Wozniak árið 1976.

Fyrirtækið var í raun og veru stofnað í kringum tölvu sem Wozniak hafði smíðað fyrir sjálfan sig. Fyrstu tölvur þeirra Apple I og Apple II komu svo á markað ári seinna. Wozniak seldi síðan síðar meir hlut sinn í Apple fyrir aðeins 800 dollara. Wozniak er þekktur fyrir að lifa frekar rólegu lífi og er enn mikill aðdándi Apple. Hann hefur m.a. oft sést í biðröð fyrir utan verslanir Apple þegar ný vara kemur út.

Seth Rogen mun næst sjást í gamanmyndinni The Interview, en þar leika hann og James Franco fræga blaðamenn sem fá viðtal við hinn stórkostlega leiðtoga Norður Kóreu, Kim Jong-Un.

Hér að neðan má sjá stutt viðtal við Wozniak þar sem hann bíður fyrir utan verslun til þess að næla sér iPad 3, sem var þá nýkomin út.