Rodriguez úthellir (vonandi) blóði í ár

Það er ekkert leyndarmál að í sex ár hafa aðdáendur hinnar frábæru Sin City beðið eftir hverfula framhaldinu með þvílíkri eftirvæntingu, aðeins til að enda með ekkert í höndunum. Í október síðastliðnum glittaði hins vegar fyrir vonarneista þegar að leikstjórinn Robert Rodriguez sagði að handrit myndarinnar væri við það að klárast og að tökur myndu hefjast fyrir árslok 2011. Höfundur myndasagnanna, Frank Miller, steig síðar inn í og vildi meina að handritið ætti enn langt í land og að tökur hæfust ekki fyrr en í vor á þessu ári.
Eins og tíminn leiddi í ljós hafði Rodriguez rangt fyrir sér, en nú hefur hann stutt ummæli Millers og sagði í viðtali við The Hollywood Reporter að í apríl næstkomandi hefjast tökur á Machete Kills og strax eftir það hefst framleiðsla á Sin City 2. Tökur gætu jafnvel hafist í sumar.

Á Comic-Con hátíðinni síðasta sumar sagði Rodriguez að myndin yrði tekin upp í 3D, sem á að „bæta CG-noir landslag myndanna,“ og að þökk sé græna tjaldinu er dagskrá leikara ekkert vandamál. Við tökur á fyrstu myndinni gat hann tekið upp leikara í sama atriðinu með allt að 8 mánaða millibili, vonum bara að ferlið taki styttri tíma í ár, þar sem hann hefur áður sagt að framhaldið gæti verið klárað fljótt.

Líkt og fyrsta myndin þá samanstendur Sin City 2 af þremur til fjórum sögum úr myndasagnaheimi Millers: ‘A Dame to Kill For’ verður að sögn aðalfókus myndarinnar, en ásamt henni verður einblínt á smásöguna ‘Just Another Saturday Night’ og tvær ónefndar sögur sem Miller er að skrifa sérstaklega fyrir framhaldið.
Margar persónur úr fyrstu myndinni munu birtast aftur, en hingað til er enginn leikari staðfestur við framhaldið. Þrátt fyrir það er Rodriguez bjartsýnn og lofar að leikaraúrvalið verður aftur jafn fjölbreytt og „rafmagnað“.

Hvort að myndin sjái dagsins ljós í ár eða á því næsta hefur ekki verið nefnt, þannig þangað til verðum við bara að bíða og sjá hvort myrku götur Basin City lýsast ekki upp í sumar.