Robin Williams í Dark Knight Rises?

Gamanleikarinn Robin Williams lék í kvikmyndinni Insomnia í leikstjórn Christopher Nolan árið 2002, en nýlega var hann spurður hvort hann hefði áhuga á að vinna með leikstjóranum aftur. Það kemur ekki á óvart að talið barst að Batman-seríunni, nánar tiltekið hinni væntanlegu þriðju mynd, The Dark Knight Rises.

„Ég myndi leika í Batman án þess að hugsa mig um. Hvaða hlutverk sem er. Ég þarf samt að passa mig, Batman hefur brennt mig tvisvar. Fyrst var mér boðið að leika Joker áður en Jack Nicholson hreppti það, svo var mér boðið að vera Riddler en Jim Carrey nappaði því.“

Nú hefur vefsíðan BatmanOnFilm, sem sérhæfir sig í öllum fréttum sem við koma Leðurblökumanninum, sagt að Williams fundi nú með Nolan og framleiðendum myndanna, og sé hlutverk Dr. Hugo Strange í boði. Margir héldur að Tom Hardy myndi fara með hlutverk Hugo Strange áður en staðfest var að hann léki Bane, en báðir eru þeir andstæðingar Batman.

– Bjarki Dagur