Nýjasta James Bond myndin Skyfall, sem nú þegar hefur þénað 350 milljónir Bandaríkjadala utan Bandaríkjanna, mun nú um helgina rústa metinu yfir stærstu Bond frumsýningu allra tíma í Bandaríkjunum.
Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum á föstudag og þénaði 30,8 milljónir Bandaríkjadala bara þann dag. Miðað við þá aðsókn, þá er búist við að í heild muni myndin þéna 80 milljónir dala yfir helgina fram á sunnudag. Að auki þénaði myndin 2,2 milljónir dala af forsýningum í Imax risabíóum og fleiri stöðum.
Fyrra Bond frumsýningarmetið í Bandaríkjunum átti Quantum of Solace sem þénaði 67,5 milljónir á frumsýningarhelgi sinni í nóvember árið 2008.
Toppmynd síðustu viku, teiknimyndin Wreck-It Ralph, var önnur mest sótta myndin á föstudag, með 7,8 milljónir dala í tekjur, og áætlað er að sú mynd skili framleiðendum sínum 32 milljónum Bandaríkjadala í kassann yfir helgina, og eru tekjur af þeirri mynd þá komnar upp í 68,4 milljónir dala alls, en hún var frumsýnd um síðustu helgi.