Komið þið sæl! Hér er fyrsti skammtur af ördómum á þeim myndum sem ég hef séð á hátíðinni. Þetta er ekki djúp umfjöllun, heldur meira ætlað til þess að koma umræðu af stað og vonandi veita lesendum einhverjar leiðbeiningar um hvort að myndir henti þeim eða ekki. Gjörið svo vel!
Chasing Ice – Á eftir ísnum
Ég reið á vaðið með þessari heimildamynd sem að fjallar um ljósmyndarann James Balog, og þær jöklarannsóknir sem hann hefur staðið fyrir. Markmið hans var að framreiða óyggjandi sjónræn sönnunargögn um þær gífurlegu loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað – og því markmiði nær hann svo sannarlega í myndinni. „Time-lapse“ myndavélar voru settar upp á jöklum í Alaska, á Grænlandi, og síðast en ekki síst á Sólheimajökli hér á Íslandi. All svakalegt er að sjá þá rýrnun sem verður á þessum jöklum á aðeins örfáum árum. Myndin er skemmtilegt portrett af manni með óbilandi ástríðu fyrir starfi sínu og hugsjón. Fyrir þá sem hafa áhuga á málefninu er hún ómissandi.
Trivia: Ein stjarnan í The Avengers syngur lagið yfir kreditlistanum. Giskið á hver.
Comic-Con Episode IV: A Fan’s Hope
Kom mér virkilega á óvart hversu hjartnæm þessi mynd Morgan Spurlocks er, sem venjulega beitir óspart háði í heimildamyndum sínum. Það er á bak og burt hér, sem og nærvera Spurlocks sem í þetta skiptið er alfarið bakvið myndavélina. Þessi stefna virkar líka frábærlega, eftir stendur bara ástúðin gagnvart nördamenningunni í öllum sínum birtingarmyndum. Tómas Valgeirsson skrifaði dóm um myndina hér.
The Final Member – Lokalimurinn
Ein af þessum heimildamyndum sem myndi aldrei ganga sem leikin mynd, því aðstæðurnar eru svo ótrúlegar. Þetta er sem sagt sagan af Sigurði Hjartarsyni og hinu íslenska reðasafni, sem hann opnaði árið 1997 eftir áratuga söfnun. Ótrúlegt en satt, þá er typpasafnarinn nú bara langheilbrigðasti einstaklingurinn sem fram kemur í myndinni. Öðrum þræði er þetta nefninlega einnig saga „keppninnar“ um það hvaðan fyrsti mennski limur safnsins muni koma. Þar eru tveir kandídatar kynntir til sögunnar. Páll Arason, íslenskur kvennaflagari af gamla skólanum, sem segist engin not hafa fyrir tittlinginn á sér þegar hann er dauður. Hinsvegar er það Ameríkaninn Tom. Sá er öllu truflaðri og er tilbúinn til þess að gera nánast hvað sem er til þess að gera göndul sinn, sem ber nafnið Elmo, að frægasta limi mannkynssögunnar. Fínasta skemmtun, mynd sem örugglega mætti skrifa doktorsritgerð í kynjafræði um.
Queen of Montreuil – Drottningin af Montreuil
Opnunarmynd RIFF er óbeint framhald hinnar vanmetnu (á Íslandi allavega) Skrapp Út, eftir Sólveigu Anspach. Nú eru Anna og sonur hennar Úlfur strönduð í Frakklandi vegna gjaldþrots flugfélags. Þau kynnast ungri nýbakaðri ekkju og eru fljót að komast inn á hana. Atburðarásin sem fylgir er í súrari kantinum, og blandast meðal annars týndur selur, fundið viðhald, kranaverkamaður, Skypesamtöl til Íslands og Jamaica og týndur bleikur brúðarkjóll inn í hana. Gerð fyrir lítinn pening, skv. leikstjóranum, og með það að leiðarljósi að sýna þetta úthverfi Parísar í jákvæðu ljósi til tilbreytingar. Því markmiði nær myndin vel. Úlfur Ægisson á einnig skilið hrós fyrir skemmtilegan leik á frönsku, sem hann talaði ekki við gerð myndarinnar.
Den skaldede frisør – Hárlausi hárskerinn
Rómantísk gamanmynd frá Óskarsverðlaunahafanum Susanne Bier, sem síðast sendi frá sér hina stórgóðu Hævnen (In a better world). Myndin fjallar um móður sem fer niður að Miðjarðarhafi til þess að fagna brúðkaupi dóttur sinnar, og endar í ástarsambandi við Pierce Brosnan. Það er þó þarna sem samanburðinum við Mamma Mia lýkur. Tryne Dyrholm sýnir stórleik í titilhlutverki konu sem alltaf heldur jákvæðninni uppi þrátt fyrir mótlæti í lífinu, og Brosnan er ekki slæmur sem hinn harði faðir og bissnessmaður sem lærir að sýna á sér mjúku hliðarnar. Þau halda myndinni uppi, en það eru allar litlu aukapersónunnar sem gera hana að frábærri gamanmynd.
Íslenskar stuttmyndir 1
Ég sá einnig þetta prógram. Ætla ekki að leggja dóm á hverja og eina mynd, en fannst forvitnilegt að sjá þennan hrærigraut af íslenskri kvikmyndagerð í einu prógrammi. Það er meiri gróska í stuttmyndagerð en maður gæti haldið, og ákveðin synd að þær sjáist ekki víðar en raun ber vitni. Allar myndirnar höfðu eitthvað til brunns að bera, þó verulega ólíkar væru þær í stíl, lengd og efnistökum. Skemmtilegt bland í poka.
Jæja nóg í bili, ég er farinn í bíó! Hvað eruð þið annars búin að sjá?
Ps. eruð þið að skrifa eða vitið þið um einhvern sem er að skrifa um RIFF á bloggið sitt? Endilega deilið því með okkur í kommentunum. Veit allavega að Mr. Haux er að skrifa, tékkið á honum.