Pitt í geimferðalag – bjargar sólkerfinu

Aðdáendur Brad Pitt hljóta að vera kátir þessa dagana, þar sem amk. tvær kvikmyndir með leikaranum í aðalhlutverki koma í bíó á árinu. Ein er Quentin Tarantino myndin Once Upon a Time in Hollywood, en hin er geimmyndin Ad Astra, en framleiðslufyrirtækið 20th Century Fox hefur nú sent frá sér fyrstu stikluna og plakatið fyrir myndina.

Brad Pitt svífandi í geimnum.

Myndin hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi, og hefur frumsýningu hennar verið frestað nokkrum sinnum, að því er segir á Movieweb.com. Sumir voru meira að segja farnir að halda að eitthvað væri í ólagi bakvið tjöldin.

Stiklan byrjar með glæsilegum myndum af Pitt úti í geimnum, en hann leikur geimfara í myndinni, sem fer að leita að föður sínum sem hefur verið týndur í geimnum í bráðum tuttugu ár. Öllu sólkerfinu er bráð hætta búin af veru hans þar, þar sem hann er talinn búa yfir mjög varasömum búnaði, miðað við það sem fram kemur í stiklunni.

Það er ekki laust við að hugurinn reiki til annarra geimmynda, eins og til dæmis 2001: A Space Odyssey, við skoðun stiklunnar, og jafnvel mynda eins og Armageddon, þar sem sendinefnd fór út í geim að sprengja loftstein á leið til jarðar.

Leikstjóri Ad Astra er James Gray, en síðasta mynd hans var The Lost City of Z.

Aðrir helstu leikarar í Ad Astra eru Tommy Lee Jones, Ruth Negga og Donald Sutherland. Frumsýning er áætluð hér á Íslandi og annars staðar 20. september nk.

Kíktu á stikluna og plakatið hér fyrir neðan: