Park tók bíómynd á iPhone

Hinn þekkti suður – kóreaski leikstjóri Park Chan-wook, sem þekkur er fyrir myndir eins og Oldboy, Lady Vengeance og Thirst, tók nýjustu bíómynd sína eingöngu upp með iPhone símanum frá Apple.

Myndin heitir Paranmanjang og er ævintýra-hryllingsmynd.

„Þessi nýja tækni býr til skrýtna effekta, af því að hún er ný og af því að þetta er miðill sem áhorfendur þekkja,“ sagði Park við fréttamenn AP í dag, mánudag.

Paranmanjang þýðir „það gengur á ýmsu í lífinu“ og er um mann sem er að skoða núverandi og fyrri líf sín. Hann krækir í konu þegar hann er að veiða í á um miðja nótt. Þau enda bæði flækt í línunni, og hann heldur að hún sé dauð. Skyndilega vaknar hún upp, kyrkir hann, og hann líður útaf. Þegar konan vekur hann, þá er hún komin í fötin hans og hann í hennar föt. Hún grætur og kallar hann „pabba“.

Myndin kostaði 150 milljón won, eða 15,7 milljónir íslenskra króna í framleiðslu. Notaður var iPhone 4 í tökurnar. Myndin verður frumsýnd í S-Kóreskum bíóhúsum þann 27. janúar nk. Myndina, sem er 30 mínútna löng, gerði Park í félagi við bróður sinn, Park Chan-kyong, sem einnig er leikstjóri.

Park Chan-kyong sagði að hægt hefði verið að nota mjög mörg sjónarhorn og mismunandi klippimöguleika, þar sem hægt var að nota margar „myndavélar“ í hverri töku.

„Það eru margir kostir við að nota iPhone í þetta, þar sem svo margir nota símann um allan heim, til að leika sér með,“ sagði Park. Miðað við aðrar kvikmyndatökuvélar þá var iPhone-inn góður „af því að hann er léttur og lítill og allir geta notað hann,“ bætti Park við.

Hann sagði að leikstjórarnir hafi sett linsur framan á símana, og þetta hafi ekki verið neitt öðruvísi en að taka mynd með hefðbundnum hætti.

Stikk: