Óskarsverðlaunin 2006 – Besti leikarinn

Óskarsverðlaunin 2006 – Besti leikari í aðalhlutverki Nú þegar senn fer að líða að Óskarnum ákvað ég að setja inn aðra frétt og kryfja hópinn Besti leikari í aðalhlutverki til mergjar. Tilnefndir eru: Philip Seymour Hoffman fyrir leik sinn í Capote
Terrence Howard fyrir leik sinn í Hustle & Flow
Heath Ledger fyrir leik sinn í Brokeback Mountain
Joaquin Phoenix fyrir leik sinn í Walk the Line
David Strathairn fyrir leik sinn í Good Night, and Good Luck

Philip Seymour Hoffman: Þessi leikari sýndi þvílíka snilld í kvikmyndinni Capote, sem var frumsýnd nú um helgina. Hann hefur nú þegar hreppt fjölmörg verðlaun fyrir leik sinn í Capote, þ.á.m. kvikmyndaverðlaun gagnrýnenda, BAFTA og fleiri . Sú staðreynd virðist styrkja þá kenningu að hann eigi eftir að hreppa titilinn sem Besti leikari í aðalhlutverki. Hann nær persónusköpun Trumans ótrúlega vel og gerði til dæmis sjálfur lítið úr því að ná röddinni hans rétt, sagði það aðeins vera tækniatriði, en hann náði henni óaðfinnanlega!. Philip er greinilega sá sigurstranglegasti í hópnum!

Terrence Howard: Myndin Hustle & Flow hefur hlotið nokkuð góða dóma, en er þó ekki talin vera fyrir alla. Ég varð frekar hissa á því að sjá hann tilnefndan í þessum flokki, því þegar ég sá hann í myndinni fannst mér ekki mikið til hans koma. Ekki misskilja mig, hann var mjög góður í myndinni, en hann þurfti lítið að fara út fyrir sitt venjulega svið til þess að finna sig í þessu ákveðna hlutverki. Þetta virtist allavega ekki vera mjög krefjandi fyrir hann. Hann hefur staðið sig vel undanfarið í vali á kvikmyndum til að leika í, og er með ekki meira né minna en 6 myndir nú í bígerð, þannig að það verður gaman að sjá meira af honum í framtíðinni. Samt sem áður tel ég að hann eigi ekki möguleika á titlinu að þessu sinni en að sjálfsögðu er það mikil viðurkenning fyrir hann að vera tilnefndur.

Heath Ledger: Stóð sig vel og var sannfærandi sem homminn í Brokeback Mountain. Sýndi það að hann getur verið eitthvað meira en þessi venjulegi hjartaknúsari sem hann hefur verið að leika undanfarin ár. Miðað við það hversu margar tilnefningar Brokeback Mountain fær á Óskarnum þá verður Heath að teljast mjög sigurstranglegur og gæti alveg eins hreppt hnossið, þó svo að mér hafi fundist Philip Seymour Hoffman gera meira til að ná sínu fram.

Joaquin Phoenix: Sýndi ótrúlega snilld í leik sínum í Walk The Line. Mér hefur alltaf fundist mikið til hans koma, en þarna sýndi hann hversu fjölhæfur leikari hann er í raun og veru. Eins og flestir vita söng hann öll lög Johnny Cash í myndinni sjálfur og gerði það af mikilli kostgæfni. Hefur hlotið mikla viðurkenningu fyrir myndina sem ég tel vera hápunkturinn á ferli hans til þessa. Walk the Line fær ekki nógu margar tilnefningar, að mínu mati, til Óskarsverðlauna, en mögulega hefur dómnefndin hugsað sér að taka myndina í sátt með því að koma óskarnum í hendur Joaquin að þessu sinni. Hver veit?!

David Strathairn: Önnur mynd ,,leikstjórans&8221; George Clooney og þykir myndin sjálf, Good Night, and Good Luckvera góð, en þykir leikur Davids í myndinni þó bera af. Hann sést nánast aldrei án sígarettu í myndinni og sumir segja jafnvel að þetta hafi verið eins og að fara 50 ár aftur í tímann og sjá sjálfan fréttamanninn á hvíta tjaldinu! Persónulega varð ég fyrir vonbrigðum með leik hans í myndinni, mér fannst hann engan veginn nógu ,,krassandi&8221; ef ég gæti orðað það þannig. Hann náði allavega ekki að skila sínu hlutverki fullkomnlega til mín. Það er greinilegt að flestir eru ekki á sömu skoðun og ég, þannig að frábær kvikmyndaferill David Strathairn mun ná nýjum hæðum eftir að sýningum á Good Night, and Good Luck verður lokið.

Greinilegt er að þetta er gríðarlega sterkur hópur sem keppir hér að því að vinna sem Besti leikari í aðalhlutverki. Þó svo að Heath Ledger, Joaquin Phoenix, David Strathairn hafi staðið sig framar vonum í sínum kvikmyndum finnst mér leikur Philip Seymour Hoffman bera af. Hann er hreint út sagt skrefi á undan öllum öðrum leikurum í hópnum. Hann ber myndina á herðum sér, ég get allavega ekki sagt að mér hefði líkað myndin jafn vel með öðrum aðalleikara en Philip Seymour Hoffman. Það skaðar ekki að verðlaununum hefur verið bókstaflega hent í hann undanfarin misseri og það virðist liggja í augum uppi að hann eigi eftir að standa uppi sem sigurvegari!