Oldman forsætisráðherra

gary oldmanBreski Batman leikarinn Gary Oldman er líklegur til að túlka innan skamms einn af þekktustu stjórnmálamönnum Breta á 20. öldinni, en hann á nú í viðræðum um að leika Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, í mynd Joe Wright, Darkest Hour.

Handrit skrifar The Theory of Everything höfundurinn Anthony McCarten, og mun myndin gerast í Bretlandi árið 1940, einu ári eftir að Seinni heimsstyrjöldin hófst.

Churchill var útnefndur forsætisráðherra í maí  það ár, og tók við af Neville Chamberlain, sem sagði af sér. Churchill leiddi Breta svo í styrjöldinni næstu fimm ár þar á eftir.

Churchill fékk óteljandi viðurkenningar á ferlinum, allt frá því að vera aðlaður og fá ríkisútför, að því að verða fyrsti heiðursborgari Bandaríkjanna, og valinn merkasti Breti allra tíma, í könnun sem gerð var árið 2002.

Oldman má sjá næst í Criminal, sem væntanleg er í bíó síðar í mánuðinum.