Ofurtöffari í jólasveinabúning

Jólin nálgast óðfluga, og þá má einmitt eiga von á nýjum jólamyndum. Það eru ekki alltaf þekktustu leikararnir sem bregða sér í búning jólasveinsins í jólakvikmyndunum, en í myndinni The Christmas Chronicles, fáum við að sjá einn af þekktustu leikurum samtímans í rauðum búning og með skegg.

Leikarinn sem um ræðir er enginn annar en Kurt Russell, en hann hefur hingað til leikið öðruvísi töffara eins og hlutverk Snake Plissken úr Escape from New York, Gabriel Cash úr Tango and Cash og Stuntman Mike úr Grindhouse.

The Christmas Chronicles er framleidd af Netflix streymisveitunni og miðað við kitluna sem má sjá hér fyrir neðan, þá inniheldur myndin allt þetta helsta; álfa, óskalista og jólahald í hættu.

Framleiðandinn er ekki af verri endanum, en það er enginn annar en Chris Columbus, sem leikstýrði til dæmis Home Alone og Home Alone 2 og nokkrum Harry Potter kvikmyndum.

Leikstjóri The Christmas Chronicles er The Angry Birds Movie leikstjórinn Clay Kaytis.

Myndin kemur á Netflix 22. nóvember nk.

Kíktu á kitluna hér fyrir neðan: