Nýtt upphaf hjá ofurhetjum – Frumsýning!

Sena frumsýnir á morgun, miðvikudag, ofurhetjumyndina The Fantastic Four, en um er að ræða „nýtt upphaf eins þekktasta ofurhetjuteymis Marvel“, eins og segir í frétt frá Senu.

The Fantastic Four er sýnd í Smárabíói, Laugarásbíói, Egilshöll, Álfabakka og Borgarbíói Akureyri.

fantastic-four-2015
Kvikmyndin er byggð á ofurhetjuteyminu vinsæla sem spratt fyrst fram á sjónarsviðið í teiknimyndablöðum frá Marvel í nóvember árið 1961. Hin fjögur fræknu eru fyrsta, og jafnframt eitt vinsælasta, ofurhetjuliðið úr smiðju Stans Lee og áttu sögurnar um þau stóran þátt í því að byggja upp stórveldið Marvel.

Hér er um að ræða nýtt upphaf sögunnar, sem hverfist um fjögur ungmenni sem eru hvert á sinn hátt utangátta í samfélaginu. Vísindamennirnir ungu, Sue Storm (Kate Mara), Reed Richards (Miles Teller), Ben Grimm (Jamie Bell) og Johnny Storm (Michael B. Jordan) eru send í annan heim sem er vægast sagt stórhættulegur og hefur ferðalagið þau áhrif á líkama þeirra að þau öðlast ofurkrafta.

Líf þeirra tekur stakkaskiptum í kjölfarið og ungmennin breytast í The Invisible Woman, Mr. Fantastic, The Thing og Human Torch. Þau neyðast til að færa sér í nyt hina nýju krafta sem breytt líkamsgerð hefur í för með sér og vinna saman að því að bjarga jörðinni frá stórhættulegum óvini, Victor Domashev, eða dr. Doom (Toby Kebbell).

Kíktu á íslenska stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

The Fantastic Four er sýnd í Smárabíói, Laugarásbíói, Egilshöll, Álfabakka og Borgarbíói Akureyri.

Áhugaverðir punktar til gamans: 

– Fantastic Four er önnur mynd leikstjórans Josh Trank í fullri lengd en sú fyrri, Chronicle sem frumsýnd var árið 2012, þótti afar vel gerð og vakti verðskuldaða athygli. Michael B. Jordan, sem leikur Johnny Storm/The Human
Torch í Fantastic Four lék einmitt eitt af aðalhlutverkunum í Chronicle.

– Sá sem leikur Jimmy Grimm í Fantastic Four, Chet Hanks, er eins og nafnið bendir til sonur Toms Hanks og Ritu Wilson og um leið yngri bróðir Colins Hanks. Chet, sem er fæddur 4. ágúst árið 1990, hefur komið fram í nokkrum myndum í smáhlutverkum, en telur þetta fyrsta alvöruhlutverkið sitt.

– Í einu atriði myndarinnar er verið að reyna að finna út hvaðan ákveðið merki berst og á skjánum sést Ip-talan 23.21.190.125. Prófið að slá henni inn. Spoiler: Þetta er Ip-tala síðunnar http://marvel.wikia.com/Latveria, en Latveria er ríkið þar sem dr. Doom býr og ræður yfir.

– Aðalhöfundur handritsins, Simon Kinberg, skrifaði einnig, eða átti stærsta þáttinn í handritum myndanna X-Men: Days of Future Past og This Means War. Hann skrifar einnig handritið að næstu X-Men-mynd, Apocalypse.

– Leikstjórinn Josh Trank segir að hann hafi alltaf litið á söguna í Fantastic Four meira sem vísindaskáldsögu en ofurhetjusögu og að frumkvöðullinn David Cronenberg og myndir hans eins og Scanners og The Fly hafi haft talsverð áhrif á gerð Fantastic Four. Josh sagði í viðtali fyrir skömmu að myndin hefði yfir sér einskonar „Cronenberg-ískan vísindaskáldsöguanda“.

– Tónlistin í Fantastic Four er eftir þá Marco Beltrami og Philip Glass. Marco á að baki tónlist við myndir eins og The Hurt Locker, World War Z, Warm Bodies, og hina væntanlegu Hitman: Agent 47, og Philip samdi m.a. tónlistina í The Hours, The Truman Show, The Illusionist og Secret Window.