Nýtt í bíó – Straight Outta Compton

Hin sannsögulega tónlistarmynd Straight Outta Compton verður frumsýnd á morgun miðvikudag í Laugarásbíói, Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.

straight outta

Straight Outta Compton er saga hljómsveitarinnar N.W.A. sem náði gríðarlegum vinsældum á níunda áratug síðustu aldar og var í fararbroddi hip hop-tónlistarbyltingarinnar á vesturströnd Bandaríkjanna.

N.W.A. (Niggaz Wit Attitudes) var stofnuð árið 1986 af þeim Arabian Prince, DJ Yella, Dr. Dre, Eazy-E og Ice Cube sem allir voru úr Compton-hverfinu í suðurhluta Los Angeles-borgar, en þar hafði þá um langa tíð verið róstusamt og átök algeng á milli íbúanna og yfirvalda. Snemma árs 1988 gekk svo MC Ren til liðs við sveitina en Arabian Prince hætti til að sinna betur eigin tónlistargerð.

Fyrsta stúdíóplata N.W.A. kom út í ágúst árið 1988 og hlaut heitið Straight Outta Compton. Hún reyndist tímamótaverk sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á rapp- og hip hop-tónlistarmenninguna í Bandaríkjunum og víðar og skapaði svokallað gangsta-rapp, en einkenni þess voru sérlega bersöglir og hreinskilnir textar sem byggðu á reynslu þeirra sem í sveitinni voru. Textarnir ollu um leið miklum deilum þar sem mörgum fannst þeir upphefja ofbeldi og glæpagengi og spilla því unga fólki sem á þá hlýddi. Af þeim sökum var
Straight Outta Compton svo til ekkert spiluð á útvarpsstöðvum, en það kom þó ekki í veg fyrir að hún seldist í rúmlega tveimur milljónum eintaka.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Aðalhlutverk: O’Shea Jackson Jr., Corey Hawkins, Jason Mitchell, Neil Brown Jr. og Aldis Hodge Leikstjórn: F. Gary Gray

Áhugaverðir punktar til gamans:

– Leikstjórinn F. Gary Gray hefur gert margar góðar myndir í gegnum árin og
má þar nefna fyrstu mynd hans, Friday, árið 1995 sem var einmitt með Ice
Cube í öðru aðalhlutverkinu, glæpadramað Set It Off sem náði miklum vinsældum
árið 1996, hina afar góðu The Negotiator árið 1998, spennuhasarinn
The Italian Job árið 2003 og gamanmyndina ágætu, Be Cool, árið 2005.

– Aðalframleiðendur myndarinnar eru F. Gary Gray og þeir Ice Cube og Dr.
Dre sem voru einmitt á meðal stofnmeðlima N.W.A. og þekkja því efnið vel.

– Sá sem leikur Ice Cube í myndinni er sonur hans, O’Shea Jackson Jr., og það
ætti því ekki að koma neinum á óvart hversu líkir þeir eru í útliti og háttum.

– Margar aðrar þekktar persónur úr tónlistarbransanum koma fram í myndinni
og má þar nefna Snoop Dog, Suge Knight og útgefandann Jerry Heller,
en þeir eru leiknir af þeim Keith Stanfield, R. Marcos Taylor og Paul Giamatti.

– Í myndinni gefur auðvitað að heyra flest þekktustu lög N.W.A. af Straight
Outta Compton-plötunni eins og Gangsta Gangsta, Express Yourself, If It Ain’t
Ruff, Fuck tha Police og að sjálfsögðu titillagið, Straight Outta Compton.