Biðst afsökunar á ofbeldi

Dr._Dre_in_2011Rapptónlistarmaðurinn, upptökustjórinn, frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Dr. Dre hefur beðist opinberlega afsökunar á ofbeldi sínu gegn konum á árum áður.

Í yfirlýsingu sem hann sendi bandaríska dagblaðinu New York Times í dag, föstudag, sagði Dre, sem heitir réttu nafni Andre Young: „Ég bið konurnar sem ég hef meitt afsökunar.  Ég sé innilega eftir því sem ég gerði og ég veit að þetta hefur haft áhrif á líf okkar allra, alla tíð.“

Dre, sem er 50 ára gamall, hefur verið kvæntur í um 20 ár og segist vera nýr og breyttur maður frá því þegar hann var á hátindi hip-hop ferils síns með rapphljómsveitinni NWA, en þá var hann sakaður um að hafa ráðist á nokkrar konur. Málið komst aftur í hámæli eftir frumsýningu hinnar ævisögulegu kvikmyndar Straight Outta Compton, sem er langvinsælasta myndin í Bandaríkjunum um þessar mundir. Myndin hefur verið gagnrýnd fyrir að láta undir höfuð leggjast að segja frá ofbeldinu.

Dre tók út refsingu fyrir hluta af gjörðum sínum, eins og fram kemur hér.

Rapparinn sagði við Los Angeles Times að hann væri ekki að réttlæta það sem hann hefði gert. „Fyrir 25 árum var ég ungur maður og drakk of mikið og líf mitt var í óreiðu. En ég vil ekki nota það sem afsökun fyrir því sem ég gerði. Ég hef verið kvæntur í 19 ár og ég reyni á hverjum degi að vera betri maður fyrir fjölskyldu mína [ …] Ég geri allt sem ég get til að ég verði ekki aftur sá maður sem ég var.“