Stjarna Michael Fassbender hefur risið hratt undanfarin ár, en hann virðist ekki vera hræddur við að taka sénsa. Nú var að koma stikla á netið fyrir myndina Shame, en þar vinnur hann aftur með leikstjóranum/listamanninum Steve McQueen, en Fassbender lék einnig í fyrstu mynd hans, Hunger. Sú mynd fjallaði um Boby Sands, leiðtoga írska hungurverkfallsins 1981, og var það einmitt hlutverkið sem fyrst vakti verulega athygli á Fassbender.
Shame fjallar hinsvegar um New York búa að nafni Brandon, sem á við nándarvandamál að stríða, og glímir þar að auki við kynlífsfíkn. Carey Mulligan (sem hefur verið á svipuðu stjörnuflugi) leikur yngri systur hans, sem kemur til borgarinnar og fær að gista hjá honum. Nærvera hennar rýfur upp hversdagslíf hans og minnir hann á óhamingju fortíðarinnar. Myndinni hefur gengið gríðarlega vel á kvikmyndahátíðum, og fá þau bæði Mulligan og Fassbender lof fyrir frammistöður sínar. Þó að myndin sé í eðli sínu hversdagsdrama hefur hún einnig vakið athygli fyrir að vera ekki að fela atriði með „nekt karla og kvenna, kynlífi karla við karla og karla við konur, sjálfsfróun og fleiru“. Annars gríðarlega góð viðbrögð við myndinni benda þó til þess að þessi atriði séu ekki í myndinni vegna athyglissýki eða löngun aðstandenda til að sjokka, heldur til að þjóna sögunni. Myndin kemur út beint í óskarskapphlaupinu 3. desember í Bandaríkjunum, ef henni gengur vel gætum við fengið að sjá hana eftir áramót. Hér er stiklan, sem ber að taka fram að er í „lagi að horfa á í vinnunni“ – engin nekt í henni.