Ekkjurnar í glæpina

Glæpir, sprengingar, dauði, hefnd. Allt þetta er fyrir hendi í fyrstu stiklu í fullri lengd úr nýjustu kvikmynd 12 Years a Slave Óskarsverðlaunaleikstjórans Steve McQueen, Widows, en þar er á ferðinni drungalegur sprennutryllir með einvalaliði leikara í öllum helstu hlutverkum. Gone Girl handritshöfundurinn Gillian Flynn skrifar handritið.

Með helstu hlutverk fara Viola Davis, Liam Neeson, Colin Farrell og Daniel Kaluuya.

Myndin er gerð eftir sjónvarpsdrama frá níunda áratug síðustu aldar, og segir frá fjórum ekkjum, en eiginmenn þeirra, sem allir voru meðlimir sama glæpagengisins, létu allir lífið þegar verkefni misheppnaðist.

Fráfall glæpamannanna reitir mafíósa til reiði, sem beina nú spjótum sínum að ekkjunum. Þær bregðast við með því að skipuleggja sjálfar rán, til þess að sleppa við að borga mafíósunum skuld. Davis er í aðalhlutverki sem Veronica, en hinar eru Alice, sem Elizabeth Debicki leikur, Linda, sem Michelle Rodriguez leikur, og Belle, sem Cynthia Erivo leikur.

Widows kemur í bíó hér á Íslandi 16. nóvember nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: