Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Star Wars: Attack of the Clones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég held að það sannist með þessari mynd (sem hefur svosem verið sagt áður) að George Lucas á ekki að skrifa handritin sjálfur að Star Wars myndunum. Lítið bara á langbestu StarWars myndina, Empire Strikes Back, sem hann hvorki leikstýrði né skrifaði handritið að. Plís, Goggi, leyfðu Lawrence Kasdan að spreyta sig aftur!


Myndin sjálf er ekkert alslæm og mér leiddist ekkert, aksjónatriðin eru t.d. fín, mun betri en í Episode I. Samt fannst mér heldur minna fara fyrir frumleika í sviðsetningum, borgarlandslagið í fyrsta eltingaleiknum minnti óþægilega bæði á Fifth Element og Blade Runner, og bardagaatriðið milli Dooku og Yoda var óþægilega mikil endurtekning á bardaga Gandálfs og Sarúman í LOthR (kannski bara leiðinleg tilviljun, og þó). Hins vegar hefur Lucas þann veikleika að átta sig ekki á hvenær best er að hætta, t.d. var Gladiator-atriðið alltof langdregið og þessi stafrænu óargadýr voru beinlínis hallærisleg. Svo er þessi tendens til að troða stafrænu landslagi útum allt, þó þess sé alls engin þörf. Dæmi um það er atriðið á Tatúín, sem er greinilega tekið upp í raunverulegri eyðimörk, en þegar Anakin fer að leita að mömmu sinni er honum troðið inni í stafræna fjallasali þótt raunverulega landslagið hafi virkað ágætlega fram að því. Leikurinn sleppur fyrir horn, miðað við það að leikararnir hafa oftast þurft að tala við auðan, bláan skjá og blátt fólk og fara með hræðilegan texta. Svo verð ég að viðurkenna það að það fer alltaf í taugarnar á mér að sjá stafræn kvikindi við hliðina á venjulegu fólki, áferðin er svo greinilega ólík. Hinn nýi Yoda hefur sýna kosti (bardagafimin) en allavega var ég að pirra mig á þessari stafrænu plastáferð (hann lítur út eins og litli bróðir Shreks, bókstaflega).


Það versta er samt díalógurinn. Þvílík þvæla! Ef Goggi hefði haft vit á að setja smá Han Sóló-Leia kemistríu á milli Anakin og Amadalíu, hefði þetta verið miklu, mun skárra. Elskendur þurfa nefnilega ekki að tala um einhverja djúpa hluti, en það hjálpar allavega að það sem þau láti útúr sér veki smá áhuga manns.


Í stuttu máli, ágæt, pínu langdregin skemmtun, á meðan leikararnir halda kjafti:-)

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Y tu mamá también
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Y tú mamá también er frábær mynd. Hins vegar er hún hvorki evrópsk né gerist hún á Spáni. Myndin er mexíkósk og gerist í Mexíkó, aðalpersónurnar eru tveir mexíkóskir guttar, Julio og Tenoch, u.þ.b. 17-18 ára gamlir sem hafa enga stjórn á hormónunum. Kærusturnar þeirra fara í sumarleyfi til evrópu og Julio og Tenoch hugsa sér gott til glóðarinnar í grasekkilsstandi. Þeir kynnast Luisu, spænskri eiginkonu frænda Tenochs, og bjóða henni með sér í ferðalag til afskekktrar strandar í Suður-Mexíkó.


Þetta er ein af betri vegamyndum sem ég hef séð lengi, gott dæmi um þá grósku sem virðist vera í mexíkóskri kvikmyndagerð (annað dæmi er Amores perros, sem tilnefnd var til óskarsverðlauna í fyrra, en rataði held ég aldrei til Íslands. Frábær mynd sem enginn kvikmyndaáhugamaður ætti að missa af). Leikstjórinn er þar að auki nokkuð þekktur, Alfonso Cuaron, þekktustu myndir hans eru líklega Little Princess og Great Expectations. Kvikmyndatakan í Y tú mamá también er frábær, enda enginn aukvisi sem stendur að baki henni, Emmanuel Lubezki (Sleepy Hollow, Ali, o.fl.), sem er líka mexíkani. Leikararnir eru mjög góðir, sérstaklega Maribel Verdu (Belle Epoque), og það er eitt sem þessi mynd hefur fram yfir margar aðrar, kynlífssenurnar í myndinni eru opinskáar en eru felldar svo vel inn í frásögnina að manni finnst þeim aldrei ofaukið. Ekki lítið afrek það. Ég mæli eindregið með myndinni, ekki bara fyrir þá sem hafa gaman af evrópskri kvikmyndagerð (myndin er ekki evrópsk og ekkert sérstaklega mikið evrópskt við hana, þó um það megi auðvitað alltaf deila).
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei