Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Fálkar
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndir Friðriks þórs hafa undantekningalaust verið góðar en þessi er því miður algjör hörmung. Hugmyndin byggir á sönnu íslensku sakamáli og var það mál mun meira krassandi heldur en steingelt handritið í myndinni. En hér eru nokkrar alvarlegar gloppur í handritinu: Í fyrsta lagi er greinilegt að aðstandendur myndarinnar vita greinilega ekkert um fálkaviðskipti eða fálka yfirhöfuð og hefðu þeir að ósekju mátt eyða smátíma í að kynna sér þessi mál betur. Það dytti engum heilvita manni í hug að reyna að selja fálka á mellubúllu við Herbertssrasse, þetta væri ekki einu sinni fyndið í gamanmynd. Þegar menn taka fyrir ákveðið málefni í kvikmynd þá er það lágmarkskrafa að menn hafi grunnþekkingu á því sem þeir eru að fjalla um. Í öðru lagi er með öllum ráðum reynt að koma skotvopnum fyrir í myndinni, líklega til að auðvelda sölu erlendis. Í þriðja lagi virðast þessi 500 mörk duga hreint ótrúlega vel til framfærslu svo vægt sé til orða tekið. Handritið gjörsamlega eyðileggur myndina og fátt annað er svosem upplífgandi nema þá helst leikur Ingvars E. Sigurðssonar, hann kemur myndinni í hálfa stjörnu. Ef þið hafið áhuga á kvikmyndum þar sem fálkar koma við sögu þá bendi ég á Ladyhawk með Rutger Hauer sem er frábær mynd þó ekki fjalli hún um fálkaviðskipti. Allir leikstjórar eiga sín flopp og þetta var floppið hans Friðriks. Ég vil nú reyndar skella skuldinni á mestu leyti á handritshöfunda, vonandi fengu þeir ekki of mikið borgað fyrir þessa endemis vitleysu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru til sögur sem eru svo stórkostlegar að manni finnst kvikmynd eftir þeim gæti aldrei orðið nema til þess að eyðileggja sögurnar. Til allrar hamingju vissi Peter Jackson nákvæmlega hvað hann var að gera og hann ber fullkomna virðingu fyrir sögunni og þessvegna heppnast þetta metnaðarfulla verk. Ég botnaði ekkert í þessu leikaravali fyrr en ég sá myndina. Fáir stórleikarar á ferð en þó margir traustir. Mest reynir vitaskuld á Elijah Wood í hlutverki Fróða og kemst hann virkilega vel frá því. Maður fékk það strax á tilfinninguna að leikararnir hefðu gefið sig alla í þetta verk líkt og allir sem komu að þessari mynd virðast hafa gert. Tæknilega séð nálgast myndin fullkomnun. Hún er feikilega góð í heildina og þó einhverntíman hafi sést betri leikur á tjaldinu, þá einfaldlega skiptir það ekki máli hér. Áhorfandinn þjáist og gleðst með föruneyti hringsins yfir sorgum og sigrum, þessi mynd heldur manni við efnið allan tímann og rúmlega það. Allt útlit, leikmyndir, búningar og tæknibrellur slær nánast öllu við sem ég hef áður séð. Þá er kvikmyndatökuvélinn beit mjög lipurlega og dýpkar myndina mikið. Ekki er músikin heldur til að skemma fyrir. Það er þegar ljóst að þetta er upphafskafli í seríu mynda sem verður ódauðleg líkt og Star Wars, Indiana Jones og Alien. Miðað við fyrstu myndina þá slær þessi þeim öllum við. Hér er um þriggja tíma snilld að ræða og ef þessi mynd á ekki eftir að hirða marga óskara þegar þar að kemur, þá er eitthvað að. Ég segi ekki að þetta sé besta mynd sem ég hef séð en hún kemst allavega á topp 5 hjá mér og hef ég séð ansi margar myndir í gegnum tíðina. Svona í lokin: nú á víst að fara að kvikmynda Njálu sem er annað ódauðlegt bókmenntaafrek og þó Baltasar sé góður leikstjóri þá liði mér betur ef hann fengi Peter Jackson til þess að aðstoða sig!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Philosopher's Stone
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn á ný sjáum við afrakstur stórkostlegrar markaðssetningar á kvikmyndatjaldinu. Harry Potter æði hefur varað í nokkurn tíma og miðað við hótanir framleiðenda myndarinnar um 7 myndir eða eitthvað slíkt þá líst mér ekki á framhaldið! Ekki hef ég lesið þessar bækur en ég ætla rétt að vona að þær séu skárri en myndin. Ekki svo að skilja að myndin sé alslæm, það er hún ekki en miðað við væntingarnar og æðið í kringum hana þá uppfyllir hún alls ekki þær kröfur sem áhorfendur hljóta að gera. Fyrir það fyrsta ætti að vara fullorðið fólk við því að eyða tíma í þetta því myndin höfðar á engan hátt til þeirra sem eru fermdir og eldri en það. En þá er það myndin: Það sem dregur myndina strax niður er skelfilegur leikur hjá Daniel Radcliffe, það hefði alveg eins verið hægt að hafa styttu í þessu hlutverki. Með fullri virðingu fyrir persónu guttans, þá ætti hann að snúa sér að einhverju öðru því hann bara hlýtur að hafa meiri hæfileika á einhverju öðru sviði. Aðrir leikarar eru flestir mun betri. Hinir nemendurnir í þessum hókus pókus skóla eru flestir mun áhugaverðari karakterar. Hitt sem fór verulega í mínar fínustu er endirinn, lokauppgjörið er beinlínis hlægilega lélegt. Greinilegt að tímaskortur og einbeitingarleysi hefur gert vart við sig. En myndin fær sínar stjörnur fyrir vel gerðar tæknibrellur og flotta sviðsmynd á köflum. Chris Columbus tókst best upp þegar hann gerði Home Alone myndirnar, annað af hans verkum verður ekki lengi í minnum haft og allra síst þessi miðjumoðs mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei