Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Drive
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Einmanaleiki ökuþórsins
Nafnlausi ökumaðurinn (Gosling) í kvikmynd danans Nicholas Winding Refn er maður fárra orða. Hann sækir sterkt í brunn „nafnlausa mannsins“ sem Eastwood gerði garðinn frægan með í spaghettívestrum Sergio Leone, en einnig í minnið um borgarsamúræjann, sbr. Alain Delon í „Le Samourai“. Einstaklingur sem lifir eftir sterkum persónulegum gildum sem hann hvorki útskýrir né að því virðist gerir sér fyllilega grein fyrir að stýri hegðun hans upp að því marki sem þau gera.

Refn hefur verið að sækja í sig veðrið sem einn af fremstu leikstjórum Danaveldis á undanförnum árum með kvikmyndum eins og „Bronson“ og „Valhalla Rising“, og stimplar sig með þessari mynd sem einn af áhugaverðari leikstjórum samtímans. „Drive“ minnir að sumu leyti á fyrstu kvikmyndir Michael Manns, eins og „Thief“, og á það sameiginlegt með öðru verki Manns, „Collateral“ að vera ein af þeim fáu kvikmyndum sem sem sýnir aðra hlið af Los Angeles en áhorfendur eiga að venjast. Hvorki er einblínt á Hollywoodhæðir, né sveitt fátækrahverfin, heldur fær gyllt áferðarfegurðin að njóta sín í samfloti við stórborgarfirringuna. Borgin er í raun ein af persónum myndarinnar og er sett fram sem staður sem hægt er að eyða allri ævinni án þess að þekkja eða tengjast neinum nema á hversdagslegan og yfirborðskenndan hátt. Stafræn áferð myndarinnar, frábær notkun á slow-motion, lágstemmd (en áþreifanleg) stemming, ásamt tónlistar og lagavali myndarinnar (sem er eins og beint upp úr 80s þriller, sérlega vel heppnað) býr til sérlega samstæða og stílfærða heild, sem er eins og ferskur andblær í mikið til staðlaða og staðnaða kvikmyndagerð samtímans.

Þegar við hittum nafnlausa ökuþórinn okkar virðist hann hafa verið einn á báti árum saman. Hann starfar á þremur vígstöðum; við viðgerðir á bílaverkstæði, sem áhættubílstjóri í kvikmyndum og sem flóttabílstjóri fyrir innbrotsþjófa. Öll þrjú störfin nálgast hann með nákvæmlega sama viðhorfinu. Með rólegheitum, yfirvegun og kaldrifjun, en er þó nægilega einmana til þess að gleðjast yfir því (á sinn hátt) þegar ung móðir (Mulligan) og sonur hennar flækjast inn í líf hans. Frekar er gefið til kynna að hann fagni félagsskapnum heldur en að mikillar kynferðislegrar spennu sé að finna á milli þeirra. Allavega er hann fljótur að jafna sig á því þegar eiginmanni Mulligan er sleppt úr fangelsi og kemur aftur heim til konu og barns. Hinsvegar flæjast málin þegar þrjótar sem eiginmaðurinn skuldar verndarfé krefjast þess að hann brjótist inn hjá ákveðnum veðlánara ella fari illa fyrir konu hans og barni, og fær eiginmaðurinn ökumanninn Gosling með í lið með sér sem flóttabílstjóra við ránið. Ekki fer allt að óskum og neyðist ökuþórinn til þess að taka málin í sínar hendur með ófyrirséðum afleiðingum. Einn af þrjótunum er leikinn af Albert Brooks, sem betur var þekktur sem gamanleikari á árum áður í verkum eins og „Broadcast News“ og „Defending Your Life“ en hann á frábæra endurkomu hér og sýnir á sér nýja og harðari hlið. Gamla brýnið Ron Perlman og skutlan Christina Hendricks úr „Aðþrengdum Eiginkonum“ fylla svo út í leikaraval myndarinnar og skila bæði sínu feikna vel.

Fljótt á litið er auðvelt er að líta upp til ökuþórsins nafnlausa. Hann lætur ekkert yfir sig ganga, virðist óttalaus og ver sín gildi án tillits til persónulegs fórnarkostnaðar. Gróft ofbeldi hans, meira sláandi vegna annars rólegar stemmingar myndinnar í heild sinni, myndi í öðru verki og öðru samhengi vekja aðdáun hins Hollywood-skilyrta áhorfanda en Refn virðist þó hafa meiri áhuga á því að sýna okkur hversu tómlega tilveru slík gildi og hegðun færa.

Ólíkt öðrum fasískum hetjum/andhetjum, (sbr. Dirty Harry erkitýpan) er eftirmál myndarinnar ekki tilfinningaleg hreinsun fyrir áhorfendann, heldur finnur hann sterkt fyrir einmanaleika ökuþórsins er hann keyrir einn út í nóttina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei