Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Plan 9 from Outer Space
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábær mistök?
Það er margt hægt að segja um Edward Wood og myndir hans, en eitt er víst ekki. Það er ómögulega hægt að halda því fram að þær hafi heppnast vel. En slæm mynd getur sjálfsagt verið góð, fyrir það eitt að vera slæm. Myndir Wood's setja hins vegar nýtt viðmið fyrir illa gerðar myndir, eins og mörgum er kunnugt. Þá hefur lengi þótt ótrúlegt hvernig honum tókst að framleiða kvikmyndir yfir höfuð.

'Plan 9 From Outer Space' er líklega þekktasta verk Wood's, á meðal 'Glen or Glenda'. Ekki að 'Plan 9' sé mikið frábrugðin hinum myndunum hvað varðar gæði, að hún sé best eða verst, hvernig eftir því sem að fólk vill líta á það. Í rauninni eru allar myndirnar álíka slæmar.
Plan 9 From Outer Space er þó stórmerkileg hvað varðar myndatöku. Yfirfull af fáránlegum villum og klaufaskap, ásamt slæmum leik, hræðilegum söguþræði og einum verstu "tæknibrellum" allra tíma.
Til að byrja með; Geimverur um borð í fljúgandi diskum, grípa til 9. áætlunar sinnar um að eyða jarðarbúum. Áætlun 9 fellst í því að reisa upp uppvakninga,(Þeir verða ekki fleiri en 3) sem að af einhverjum ástæðum líta út eins og vampírur. Það er endalaust hægt að setja út á þessa mynd. Ekki nóg með þessa fáránlega langsóttu áætlun, þá er ástæðan fyrir komu geimveranna enþá fáránlegri. Og talandi um fáránlegt þá er ég ekki einu sinni byrjaður að lýsa þessum geimverum, útliti og umhverfi þeirra.

En hvert er hlutverk kvikmynda. Það er jú fyrst og fremst, skemmtun. Þar með er hörmungin 'Plan 9 From Outer Space' frábær mynd og yfirfull af þessu ákveðna, frekar sjaldgæfa skemmtunargildi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Greaser's Palace
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jesús snýr aftur... í zoot-suit.
Eins og fyrirsögn gefur til kynna, þá líklega er þetta furðulegasti vestri allra tíma og vafalaust á meðal sérstökustu kvikmynda sem að ég hef séð. Þetta merkilega verk Downey's Sr. 'Greaser's Palace' virkar á ýmsum stigum, fyrir trúleysingja til að skemmta sér yfir, fyrir hugsuði til að velta fyrir sér og þá einnig húmorista. En Greaser's Palace er einmitt yfirfull af efni sem að hæfa þessum þrem flokkum. Það nær ekki lengra.
Ef að svo vill til að þú veist lítið sem ekkert um myndina, en hefur samt sem áður áhuga, þá mæli ég eindregið.. Nei, ég raunar krefst þess að þú lesir þér sem minnst til um hana. Þetta er ein af þessum myndum, sem að maður má betur leyfa að koma sér á óvart. En ekki misskilja mig sem svo, að Greaser's Palace flokkist sem skylduáhorf fyrir hvern sem er. Ég endurtek, stórfurðulegt verk.
Hún er fyrst og fremst fjarstætt spoof beint að trúarbrögðum, kristni að sjálfsögðu. Jessy birtist okkur, svífandi niður af himnum í fallhlíf, lendir á jörðinni og tekur nokkur dansskref í þessum svakalegu Zoot jakkafötum sínum. Hann ætlar sér að fara til Jerúsalem að verða leikari/söngvari/dansari. Hann gefur sér engu að síður tíma til að lækna fólk og ganga á vatni í leiðinni.
Ég vil helst ekki fara lengra með þessa umfjöllun, þar sem að frekar augljóst er, að ekki er hægt að útskýra Greaser's Palace. Eða hingað til hef ég aðeins komist að því að það þýðir lítið gagn. Ég gæti það varla þótt ég reyndi, enda þykir mér margt langt úr samhengi. En hvað um það, það er tvímælalaust þess virði að gefa því tækifæri.
Eftir allt, get ég aðeins sagt að kvikmynd þessi var hinn fínasti hausverkur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Snabba Cash
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Svíarnir kunna þetta.
Mig langar ekki að skilja eftir neitt allsvakalegt hrós fyrir þessa mynd, þó að maður sé gjarnan snortinn eftir að hafa séð mjög góða mynd í bíóhúsum. Öllu heldur ætla ég bara að skilja eftir fáein orð. Til að byrja með vil ég mæla eindregið með þessari mynd, fyrir hvern þann sem að vill upplifa góða, raunsæja glæpasögu. Hiklaust þess virði að sjá í bíó. Líklegast skilar bókin sér mikið betur, þótt að ég hafi ekki lesið hana, en það verður að segjast eins og er, að það er ekki fyrir alla.
Söguþráðurinn er ansi þéttur, hinsvegar dálítið fyrirsjáanlegur á köflum, en það er bara fyrir hvern og einn að dæma. Það allra besta við kvikmyndina, þyrfti að vera persónurnar, ásamt jú auðvitað leikurunum sem að túlka þær. En leiðir þessara þriggja ólíkra aðalpersóna skarast á áhugaverðan hátt, þeir eiga þó eitt sameiginlegt og það er þráin um fljótfengið fé, en það mun reynast fjarri því frá að vera auðfengið.
Myndataka norðlenskra kvikmynda hefur sjaldan heillað mig, og ekki er þar með sagt að svo hafi verið í þetta skiptið. Ég neita því þó ekki að mörg atriði hafi verið ansi vel útfærð og frekar aðdáunarverð. Það er bara meðvitundin um að maður sé að horfa á sænska mynd. Alltaf sami stíllinn má segja.
En þó vil ég gjarnan taka fram að þessi kvikmynd hefur hækkað álit mitt á kvikmyndaiðnaði Norðurlandanna til mikilla muna.
Annars, þá segi ég enn og aftur, ekki hika við að skella þér á þessa. Kemur skemmtilega á óvart.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Roaring Twenties
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Cagney klikkar ekki.
Á meðal bestu glæpa mynda síns tíma, The Roaring Twenties leiðir mann í gegnum áhugavert lífsskeið Eddie Bartlett's (James Cagney) Þar sem að hann snýr heim að lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þegar að hann ætlar að endurheimta vinnu sína, fær hann að kynnast hvernig heimurinn er að breytast, þ.e.a.s. enga vinnu er að fá. Hann neyðist til að keyra leigubíl, slysast út í að skutla áfengi og tekur loks að framleiða það í stórum stíl. Kvikmyndin er þar með sagt um uppbyggingu glæpaveldis á þriðja áratugnum, með hjálp áfengisbannsins.
The Roaring Twenties inniheldur príðis leikaraval. svosem, Cagney og Humphrey Bogart, ásamt Priscilla Lane og Gladys George.
Myndin er ansi góð, sérílagi fyrir þá sem að hafa gaman af gamaldags glæpa myndum. Leikararnir eru frábær eins og til má ætlast ásamt því að sagan er ansi góð. Myndin breytir oft um stíl, svo að það er erfitt að þykja hún leiðinleg. Hún byrjar sem stríðsmynd, klifrar uppí hálfgerða fræðslumynd um þetta tímabil, verður að baráttu tveggja manna um að halda sér á lífi, þar næst gengur sagan upp að þeim punkti sem að Eddie er orðinn Big Shot, en áfengis banninu verður aflétt og Eddie hrapar niður. Jafnt sem og þessu, þá er myndin rómantísk, spennandi, skemmtandi og grípandi. Allt í mismiklum mæli en það er þó hægt að ábyrgjast vott af öllu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Wrong Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hitchcock kynnir.. Raunveruleikann.
Hrikalega vanmetin mynd, líklegast vegna þess hve frábrugðin hún er flestum (vinsælustu) kvikmyndum Alfred Hitchcock's. Ætli hún brjóti ekki aðeins væntingar og endar þar af leiðandi misskilin.
Mér er sagt að þessi mynd sé sannsöguleg, ég veit ekkert um það og ég á alls ekki bágt með að trúa því. Meiningin er að hún gæti þessvegna talist til heimildarmyndar. En það er önnur ástæða fyrir hve öðruvísi þessi mynd er. Aðalpersónurnar eru ekki að lenda í eins svaðalegum ævintýrum. Þvert á móti þá liggur spennan annarsstaðar. Myndin fjallar í stuttu máli um óskup einfaldann og eðlilegann mann, sem að Henry Fonda leikur frábærlega, og hve óheppinn hann er að líkjast öðrum manni. Hljómar eins og eitthvað dularfullt? Nei, ekki stökkva á þá ályktun. Hann á það gott heima fyrir, þ.e. kæra fjölskyldu (m.a. Vera Miles) sem að dregst með honum í gegnum þessa vesæld.
Myndin sýnir hversu skyndilega allt getur glatast og hve auðvelt og ófyrirkallað það getur verið að sökkva í eymd. En eins og Hitchock mynd tekst aðeins svo vel að fullkomna, þá er það ótti og áhyggjur sem að keyra myndina áfram. Einnig þá er hún dimm og drungaleg en umfram allt gríðarlega öflug. Eins og ég hafði tekið fram liggur spennan annarsstaðar og þá aðallega í að komast til botns í þessu máli. Myndin snýst þó ekki eingöngu útá það að byggja upp spennu fyrir loka-atriðið. Það er margt meir að finna, sérstaklega þennan raunveruleika, einfaldlega hve allt virkar eðlilegt. En því meira sem að maður pælir í því þá sér maður að þetta er sönn Hitchcock mynd í alla staði, fyrir utan það að hún er byggð á sannsögulegum atburðum.
Kannski er ekkert að marka mig, ég veit ekki. Vegna þess hve mikla ánægju ég hef af Hitchock kvikmyndum get ég kannski ekki horft nógu hlutleysislega. En ég get þó sagt að sambærilegir aðdáendur ættu vafalaust að sjá "The Wrong Man".
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
One Flew Over the Cuckoo's Nest
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Allt í lagi.
Ég er viss um að ég hefði elskað þessa mynd, en...
Þar sem að ég var svo heillaður af bókinni gat kvikmyndin auðvitað ekki staðist væntingar. Ég hefði mátt vita það. Þrátt fyrir að ég tók bókina með kvikmyndina í huga, jafnvel þótt að á kápu bókarinnar var mynd af Jack Nicholson, gat mér ekki líkað myndina eins vel og til mætti ætla, eftir lestur á bókinni.
Þetta var einfaldlega ekki sama upplifunin, ekki eins og ég hafði ímyndað mér hlutina, ekki eins og mér finnst að hlutirnir ættu að líta út.
Þá vaknar spurningin hvort að mér þætti ekki annað ef að atburðarásinn hefði verið á annan hátt. En sjálfsagt er þetta ekkert óalgeng vonbrigðis upplifun.
Það sem að mér þótti allra leiðinlegast var missirinn af sögumanninum, Indíánanum "Chief" Bromden. Það var einmitt af þessari ástæðu sem að Ken Kesey var ósamþykkur þessari kvikmynd. Sögumaðurinn skiptir nefnilega heilmiklu fyrir söguna sjálfa.
En jæja, myndin var þó góð, ég get ekki neitað því. Leikaravalið allt í lagi, yfir heildina litið. Jack Nicholson jú, ekkert nema stórkostlegur. Ég er alls ekki blindur á jákvæðu hliðarnar og vel meðvitaður afhverju kvikmyndin er svona vel metin. Engu að síður þá finnst mér bókin bara svo margfalt betri. Eitt má þó taka fram, að við lestur á bókinni þá sá ég alltaf fyrir mér Jack Nicholson þrátt fyrir að persónunni var líst örlítið öðruvísi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Bridge on the River Kwai
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Gullmoli 1957
7 Óskarsverðlaun, það segir heilmikið. Kvikmynd sem að hlaut verðlaun á bestu myndina fram yfir 12 Angry Men. Það segir enþá meir. The Bridge on the River Kwai er vafalaust á meðal bestu verka leikstjórans David Lean, enda fyrsta stórmynd hans. (Seinni voru Lawrence of Arabia (1962) og Doctor Zhivago (1965))

Kvikmyndin er byggð á skáldsögu Pierre Boulle sem að byggist léttilega á sönnum atburðum. Sagan gerist í seinni heimsstyrjöldinni, á vestur-Taílandi en er tekin upp í Sri-Lanka. Bretum hefur verið safnað saman í japönskum herfangabúðum til að byggja brú yfir ánna Kwai. Liðsforingi bresku herfanganna er Colonel Nicholson. (Alec Guinnes) Maður sem að ljómar af hinu breska stolti og agasemi. Sá sem að er við stjórn fangabúðanna, ásamt framkvæmdinni að brúar smíðunum er hinns vegar Colonel Saito. Maður sem virkar sem harðstjóri, en er í raun aðeins að gera það sem að hann telur nauðsynlegt.
Þessar persónur eru augljóslega tákn gagnstæðra siðmenninga, en eru í raun ansi líkar. Hvað varðar stollt, þrjósku og hollustu gagnvart eigin siðum og reglum.
Brúarsmíðin gengur illa til að byrja með sökum deilna á milli Nicholson og Saito. Þar er rifist um hvort að liðsforingjar skuli vinna verkamannavinnu á meðal óbreyttra eða ekki. Þar sem að Genfar sáttmálinn bannar það.
Loks nást þó sættir og fara hlutirnir að ganga betur uppúr því. En án vitundar Japanana þá stafar þeim hætta af strokufanga úr fangabúðunum. Kaninn, Shears (William Holden) sem að talinn var af, finnur vinveittar herbúðir þar sem að hann leysir frá skjóðunni og þar með er tafarlaust sett saman skemmdaraðgerðar áætlun.

Mynd þessi er vægast sagt frábær. Hún er litrík en ekki um of, heldur bíðst manni heldur þæginlegt áhorf, eins og David Lean er lagið að bjóða manni. Leikararnir eru einnig stórkostlegir, þá sérstaklega Guinnes en hann fékk jú óskarinn fyrir frammistöðu sína. Hann fékk mig í raun til að standa ekki á sama um þessa brú.
Eina tilnefning kvikmyndarinnar sem að ekki hlaut verðlaun átti Sessue Hayakawa um 'Best Supporting Actor' fyrir leik sinn sem Colonel Saito.
Engu að síður þá er The Bridge on the River Kwai sannkallað meistaraverk og ætlað að vera í tölu klassíka, kvikmyndasögunnar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
White Heat
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Glæpona Klassík
Á lista yfir allar bestu "gangster" kvikmyndirnar, má vafalaust telja White Heat. James Cagney fer á kostum sem hinn geðvillti og ofbeldisfulli þrjótur, Arthur 'Cody' Jarret sem að í samstarfi með móður sinni, stjórnar minniháttar glæpasamtökum. White Heat leiðir Cody í gegnum stutta fangelsisvist og loks að því að fremja, að því er virtist fullkomið rán.
Stórskemmtilegt áhorf, góð myndataka, leikstjórn og saga, ásamt því sem að getur aðeins verið lýst sem sniðugum samtölum.
Fyrir þá sem að eru hrifnir af þessum 'mafíósa' stíl eða þá bara glæpamyndum yfir höfuð, myndi ég mæla með þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Jazz Singer
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Maðurinn talar
Það hefur ekki alltaf þótt sjálfsagt að maðurinn á skjánum tali og þá er gaman að sjá hvernig tímarnir hafa breyst.
Hvað varðar sögulegt gildi, þá er þessi kvikmynd ómetanleg. Þessi kvikmynd er ein sú fyrsta til að bjóða upp á samræður og söng. Þannig framkvæmt að myndin og hljóðið er samstillt. Þetta er þó ekki fyrsta verkið til að innihalda þessa ákveðnu 'vitaphone' tækni. En fyrri myndskeið voru flest fremur stutt og ekkert í samanburði við The Jazz Singer.
Í rauninni er The Jazz Singer ekki að öllu leyti "talkie" mynd. Hún er uppbyggð og virkar rétt eins og þögul mynd. Þ.e.a.s. fyrir utan þessi nokkur tónlistar atriði, þar sem að Jakie (Al Jolson) ásamt fleirum, taka til máls.
The Jazz Singer fjallar um ungan dreng af gyðinga ættum sem að þráir það eitt að verða jazz söngvari. Faðir hanns er einsöngvari í samkunduhúsum, eins konar söfnuði og neitar að samþykkja draum Jakie's. Í framhaldi þess er honum sparkað út. (Ath. Vægur Spoiler) Þá stekkur sagan yfir á fullorðinsár sögupersónunnar. Þar sem söngvarinn okkar fær loks tækifæri á frægð og frama, en neyðist til að velja á milli ævilangs draums og fjölskyldunnar. ***

Yfir höfuð þá er þessi mynd ekki sem verst. Fyrir áhugasama um kvikmyndasöguna og þá sem að hafa gaman af því gamla góða, þá er um að gera að sjá þessa sem fyrst.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Singin' in the Rain
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þær gerast varla betri.
Mér finnst það hálfundarlegt að enginn skuli hafa látið af hendi fáein orð um þessa frábæru klassík.
Það kemst enginn hjá því að (í það minnsta) kannast við titillinn. Amk. enginn kvikmyndaáhugamaður, vegna jú fjöldans af tilvísunum frá öðrum þekktum verkum. Þá má allra helst nefna; A Clockworck Orange.
Singin' in the Rain er gjarnan talin á meðal bestu kvikmynda sögunnar og ég styð það eindregið. Myndin er gamansöm, þar sem að Donald O'Connor spilar lykilhlutverk og sjálfsagt eru það þau Gene Kelly og Debbie Reynolds sem að sjá um rómantíkina.
Tónlistin er frábær, reyndar ekki samin fyrir kvikmyndina, heldur tekin úr eldri kvikmyndum. Söguþráðurinn er góður og fjallar að hluta til á skemmtilegan hátt um kvikmyndagerð á 3. áratugnum, þar sem að heimurinn er í fyrsta sinn að kynnast "tal" kvikmyndum.
Það gerist varla nauðsynlegt að fjalla betur um myndina, þar sem að í rauninni er þetta bara spurning um áhuga. Ekkert annað ákvarðar það hvort að þú sjáir þessa mynd eða ekki.
Mér finnst þó að þessi flokkist undir skylduáhorf.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Blóðugt meistaraverk
Líklegast eru söngleikir bara spurning um smekk, ég lærði í það minnsta að meta góða tónlist, enda ólst maður upp með aðra hverja uppáhalds teiknimynd sem hálfgerðann söngleik. (Aladdin, Lion King)
.
Sweeney Todd kom mér virkilega á óvart. Mér þykir þessi mynd jafnvel vera á meðal bestu verka Tim Burton's, skotheld í alla staði. Kvikmyndin glóir öll af hæfileikum. Glæsilegt leikara val, sviðsmyndin afbragðsgóð og tónlistin, já tónlistin vægast sagt mögnuð. Þrátt fyrir að vera heldur myrk og drungaleg er hún samtímis full af lífi. Það er ekkert sem að ég hefði viljað sjá meir af.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
MirrorMask
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Stórkostlega bizarre.
Ég fékk um daginn löngun til að sjá einhverja afar furðulega kvikmynd, þá mundi ég eftir skjáskotum úr ákveðnari mynd og sú mynd var einmitt Mirror Mask.
Mér fannst þessi mynd áhugavekjandi, en með það í huga að ég fengi að sjá eitthvað virkilega disturbing. Já, á sinn hátt má finna mjög undarlega hluti í Mirror Mask, en þegar að maður dettur inn í söguna, hættir manni að bregða eins við það. Handritið er þó ekki upp á marga fiska og hlaut það mikla gagnrýni á sínum tíma.
Í mjög stuttu máli, fjallar myndin um unga stúlku sem að dettur inní sinn eiginn fantasíu heim. Það má draga þá ályktun að hve líf hennar er umlukt sirkusarstarfsemi og hve listræn hún er, geri þennan ákveðna hugarheim stórfurðulegann.
Ég tel að þessi mynd sé mjög vel heppnuð með tilliti til þess hvað hún á að vera. Draumar eru ekki alltaf raunverulegir. Leikstjórn Dave McKean's er svosem allt í lagi, en myndin virkar best sem glaðningur fyrir augað. Leikararnir eru ekki beint á neinn sérstakan hátt grípandi eða að sýna nein sérstök tilþrif, en þá er ég ekki svo viss um að það hafi nokkuð verið ætlunin.
Þessi kvikmynd er vafalaust ekki hin hefðbundna ævintýramynd, öllu heldur er hún frekar litlaus og dauf, þó skondin á sinn hátt en einnig á marga vegu heillandi.
Yfir heildina þá get ég ekki sagt annað en að mér líkaði við þessa mynd og ég skora á þig til að láta reyna á það sama.

7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei