Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



The Bourne Ultimatum
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jason Bourne er mættur og leitar þeirra sem bera ábyrgð á því að hann er eins og hann er, þ.e. ofurnjósnari sem hefur misst minnið. Eltingaleikurinn berst um Evrópu þvera og endilanga og endar svo í Bandaríkjunum. Söguþráðurinn er einfaldur en myndin er keyrð áfram af þvílíkum krafti að áhorfandinn hefur vart tíma til að ná andanum. Paul Greengrass er að sanna sig sem einn besti leikstjórinn í Hollywood. Hann komst nálægt því með United 93 en með Bourne Ultimatum hefur hann svo sannarlega fest sig í sessi. Stíll Greengrass byggir á hreyfanlegri myndatöku og hröðum klippingum. Hasaratriðin eru, ólíkt öðrum hasarmyndum frá Hollywood, raunsæ og ótrúlega vel útfærð. Hefðbundið slagsmálatriði verður yfirgengilega spennandi í meðförum Greengrass.

Matt Damon er fantagóður sem Bourne. Aðrir leikarar á borð við Albert Finney, David Strathaim og Juliu Stiles gefa myndinni aukna dýpt.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Hitcher
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hollywood batteríið er iðið við það að endurgera myndir. Árið 1986 kom út lítil kvikmynd sem hét Hitcher. Sú mynd varð mjög vinsæl og eldist mjög vel. Reglulega er vitnað í þá mynd. Þeir í Hollywood ákváðu að endurgera þá mynd, með þó einhverjum útúrdúrum eins og gefur að skila. Útkoman er allt í lagi. Ágætist stundarafþreying. Í stuttu máli fjallar myndin um kærustuparið Grace (Sopiha Bush) og Jim (Zachary Knighton) en þau eru á ferðalagi til New Mexico. Á leiðinni taka þau upp nokkuð skuggalegan puttaferðalang sem kallar sig John Ryder (Sean Bean). Fljótlega átta þau sig á að hann er ekki allur þar sem hann er séður. Hann reynir að drepa þau en þau komast undan og eftirleikurinn reynist þeim erfiður því John Ryder fylgir þeim eins og skugginn.

Myndin á sýna spretti og verður á köflum nokkuð spennandi. Hún líður samt fyrir frekar lélega persónusköpun en áhorfandinn nær lítilli tengingu við persónurnar. Það er kannski helst að hægt sé að ná ákveðinni tengingu við John Ryder. Leikararnir standa sig ágætlega og það verður að segjast að Sean Bean er fantagóður sem puttaferðalangurinn.

Myndin líður samt fyrir mjög svo götótt handrit. Stundum er eins og atriðin séu samhengislaus og aðstæður verða oft frekar ótrúverðar.

En í heild er The Hitcher ágætist skemmtun svona þegar maður hefur ekkert að gera.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Rush Hour 3
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumarið 2007 verður skráð í kvikmyndasögubækurnar sem sumar þríleikjamynda, þ.e.a.s. í sumar hafa verið sýndar Spiderman 3, Shrek 3, Pirates of the C... 3, Bourne Ultimatum og Rush Hour 3. Það verður að segjast eins og er að þessi mynd, Rush Hour 3 er virkilega slæm mynd. Í stuttu máli fjallar myndin um lögguparið James Carter (Chris Tucker) og Lee (Jackie Chan). Þeir eiga í höggi við hættulegustu glæpasamtök heims og eltingaleikurinn við vondu kallana ber þá félaga til Frakklands. Söguþráðurinn er einfaldur og fyrirsjáanlegur. Leikararnir eru svo slæmir að það var vandræðanlegt að horfa á myndina á köflum. Jackie Chan getur allst ekki leikið og Chris Tucker er engu skárri. Það er með ólíkindum að þungavigtaleikari á borð við Max von Sydow hafi ákveðið að leika í þessum ósköpum.

Brandararnir miðast nær eingöngu við samskipti þeirra félaga og það er bara orðið svo þreytt. Við höfum séð þetta allt áður.

Leikstjórinn Brett Ratner hefur átt ágæta daga eins og t.d. myndin Red Dragon sýnir. Með Rush Hour 3 hefur hann náð botninum og það er vonandi að hann rís heill upp aftur. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á þessa mynd. Hún er skelfilega léleg.

Hún fær hálfa stjörnu fyrir að sína nokkur skondin mistök við framleiðslu myndarinnar í blálokin.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Fountain
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru 6 ár síðan Darren Aronofsky sendi frá sér hina frábæru Requiem for a Dream. Það áður gerði hann kvikmyndina Pi sem var einnig mjög góð. Þessar myndir eiga það sameiginlegt að feta ekki hina hefðbundnu slóð Hollywood mynda. Aðdáendur leikstjórans voru því búnir að bíða lengi eftir næstu mynd og spennan magnaðist með hverju árinu, hvaða meistaraverk skyldi hann koma með næst. The Fountain leit svo loksins dagsins ljós og því miður verður að segjast að með henni fór leiksjórinn langt fram úr sér varðandi frumleika og kvikmyndatöku. Myndin er alls ekki nógu góð. Það er erfitt að segja til um söguþráðinn því hann er nokkuð margslunginn. Í stuttu máli fléttast saman þrjár sögur sem eiga það allar sameiginlegt að fjalla um baráttu mannsins við að halda lífi í sjálfum sér og þeim sem hann elskar. Hugh Jackman leikur Tomas, Tommy og dr. Tom Creo í þessum sögum. Í öllum sögunum er hann að reyna að bjarga lífi konunnar sem hann elskar en hún er leikin af Rachel Weisz.

Sögurnar gerast á mismunandi tímum, í fortíðinni, í nútíðinni og í framtíðinni. Kannski er ekki rétt að segja í framtíðinni þar sem sú saga gerist í öðrum andlegum heimi.

Sterkasta hlið myndarinnar er sagan sem gerist í nútíðinni. Hún nær ágætlega til áhorfarndans en hinar tvær missa marks. Leikararnir standa sig líka mjög vel og skila sínu.

Leikstjórinn fór fram úr sér varðndi listræna stjórnun því myndin er meira og minna eins og málverk. Það er meira lagt upp með listrænni kvikmyndatöku og tæknibrellum heldur en söguþræði og myndin líður mikið fyrir það.

Það er erfitt að horfa á myndina og alls ekki fyrir hvern sem er. Mig grunar að margir eigi eftir að gefast upp á að horfa á myndina. Það er því mikilvægt að þeir sem ætla sér að fara að horfa á þessa mynd viti hvers ber að vænta.

Því miður get ég ekki gefið þessari mynd fleiri stjörnur. Mig langar að gera það þar sem Darren Aronofsky er mjög góður leikstjóri. Það er vonandi að næsta mynd kappans, The Black Swan, verði betri en þessi.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Notes on a Scandal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Notes on a Scandal byggir á samnefndri bók eftir Zoe Heller. Bókin er mjög góð og var vinsæl og því var ráðist í gerð þessarar myndar.

Myndin fjallar mestmegnis um tvær konur sem báðar kenna við grunnskóla í London. Barbara Covett (Judi Dench) er að nálgast eftirlaunaaldurinn og er búinn að kenna mannkynssögu í mörg ár. Hennar aðferðir byggjast upp á því að halda járnaga í bekknum. Hún býr ein ásamt kettinum sínum og er oft mjög einmana. Sheba Hart (Cate Blanchett) er nýr kennari við skólann. Hún hefur ekki kennt áður og kennir myndlist. Hún er gift Richard Hart (Bill Nighy) og saman eiga þau tvö börn. Barbara og Sheba eru nánast einst og svart og hvítt en ná samt saman og verða trúnaðarvinkonur. Barbara kemst samt að því að Sheba er ekki öll þar sem hún er séð. Upphefst þá ákveðin togstreita á milli vinkvennanna sem á eftir að hafa skelfilegar afleiðingar.

Notes on a Scandal er virkilega vönduð kvikmynd. Leikstjórinn Richard Eyre (Iris) heldur vel utan um handritið og nær fram því besta úr leikurunum því allir standa sig frábærlega, sérstaklega Judi Dench og Cate Blanchett. Það er frekar óþægilegt að horfa á myndina því hún snertir á mjög svo viðkvæmum málefnum.

Helsti galli myndarinnar liggur í lausum endum í lokin. Síðustu 10 mínúturnar eru ekki alveg í takt við framvinduna. Það dregur myndina niður um eina stjörnu.

Samt sem áður er þetta mynd sem unnendur alvöru kvikmynda verða að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Man of the Year
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar saman fer góður leikstjóri, góðir leikarar og góð hugmynd að söguþræði þá býst maður við góðri mynd. Því miður er það ekki raunin með þessa mynd því hún er afar slæm. Í stuttu máli fjallar myndin um þáttastjórnandann Tom Dobbs (Robin Williams) sem hefur sérhæft sig í að gera grín að málefnum líðandi stundar, þ.á.m. stjórnmálum. Einn daginn hvetur gestur í sjónvarpssal hann til að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hann tekur áskorunni og býður sig fram en hann býst í sjálfu sér aldrei við því að vinna. Búið er að taka upp nýtt kosningakerfi og söguþráðurinn fer út í það hvort úrslit kosninganna hafi verið gild eður ei. Leiksjórinn Barry Levinson hefur átt sína góðu daga eins og myndirnar Rainman og Good Morning Vietnam sýna fram á. Aftur á móti er þetta ein alversta mynd sem leikstjórinn hefur sent frá sér. Húmorinn er eingöngu byggðu uppá ákveðnum uppistandsatriðum frá Robin Williams. Brandararnir hitta vissulega annað slagið í mark en það er langt frá því að það geti haldið uppi heilli mynd. Um miðbik myndarinnar breytist hún úr lélegri gamanmynd yfir í skelfilega lélega spennumynd þar sem verið er að reyna að kanna hvort það hafi verið galli í kosningakerfinu. Frábærir leikarar eins og Jeff Goldblum, Laura Linney og sjálfur Christopher Walken vita vart í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

Myndin fær hálfa stjörnu hjá mér og það er fyrir nokkra brandara hjá Robin Williams sem hittu ágætlega í mark.

Forðist þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Transformers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Transformers byggir á hasarhetjum sem voru hvað vinsælastar á 9. áratug síðustu aldar. Í ljósi vinsælda kvikmynda sem byggðar eru á hasarhetjum var ráðist í gerð kvikmyndar um Transformers. Margir höfðu ákveðnar efasemdir um að það gæti virkað þar sem þessar hasarhetjur eru komnar ofan í skúffu, þ.e.a.s. þær eru ekki eins vinsælar í dag og þær voru fyrir nokkrum árum. Steven Spielberg og hans fyrirtæki vildu gera þessa kvikmynd og fengu blockbuster leiksjórann Michael Bay(Armageddon, The Island, Pearl Harbour) til að leikstýra þessu verkefni. Útkoman er vægast sagt frábær. Þessi kvikmynd er veisla fyrir augað. Hún hefur allt sem prýða má góða afþreyingu. Hún er fyndin, spennandi, inniheldur stórfenglegar tæknibrellur og nóg af hasar.

Í stuttu máli fjallar myndin um baráttu góðs og ills. Geimvélmenni eru komin til jarðarinnar, ýmist til að tortíma öllu lífi á jörðinni eða til að verja það. Hinir góðu Autobots með hinn vitra Optimus Prime verja okkur frá hinum illu Decepticons með hinum illa Megatron fremstan í flokki. Fjölmargir jarðabúar flækjast inn í þennan bardaga milli góðs og ills og þar fer fremstur í flokki Sam Witwicky (Shia LaBeouf) en hann hefur að geyma lykil að hlut sem bæði Autobots og Decepticons vilja. Shia LaBeouf stendur sig frábærlega í þessari mynd. Það gera einnig fleiri leikarar eins og nýstirnið Megan Fox, Anthony Anderson, Jon Voigt og John Turturro en þau standa sig öll mjög vel.

Leikstjórn Michaels Bay er traust og hann nýtur sín hvað best í hasaratriðunum.

Transformers er fyrsta flokks afþreying með góðum húmor, flottum brellum og frábærum hasaratriðum.

Skellið ykkur í bíó.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pirates of the Caribbean: At Worlds End
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 2003 tók kvikmyndafyrirtækið Walt Disney og kvikmyndaframleiðandinn Jerry Bruckheimer mikla áhættu þegar Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl var frumsýnd enda mjög langt síðan sjóræningjamynd sló í gegn. En viti menn, þeir veðjuðu á réttan hest því myndin sló í gegn hjá áhorfendum og gagnrýnendum. Árið 2006 kom svo framhaldið og sú mynd var mun síðri en fyrri myndin. Í ár er svo komið að þriðju myndinni í þessari seríu sem sér varla fyrir endann á. Til að gera langa sögu stutta þá er þetta sísta myndin. Formúlan er sú sama, það eru sömu leikararnir nema hvað nú er búið að teygja það mikið á söguþræðinum að þetta verður allt saman mjög ruglingslegt og langdregið. Johnny Depp á ágætan dag en aðrir leikarar standa sig oft á tíðum illa. Orlando Bloom er bara að reyna að vera sætur og það er vandræðanlegt að horfa á Keiru Knighly. Geoffrey Rush kemst reyndar ágætlega frá sínu.

Ég ætla ekki einu sinni að ræða um söguþráðinn enda er hann mjög þvældur og langdreginn. Hasaratriðin eru ágæt.

Æi, það er voða leiðinlegt að þessu verkefni hafi verið klúðrað svona. Það er vonandi að næsta mynd verði betri en þessi mynd sýndi okkur fram á að við getum búist við enn einni framhaldsmyndinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
1408
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bækur og smásögur eftir Stephen King hafa oft ratað á hvíta tjaldið með þó mjög misjöfnum árangri. Kvikmyndin 1408 er einmitt byggð á smásögu eftir meistara Stephen King. Hér hefur tekist vel til því myndin er afar spennandi og vel gerð. Leiksjórinn Mikael Hafström (Derailed) er trúr sögunni og því svífur andi Stephens Kings yfir. Í stuttu máli fjallar myndin um rithöfundinn Mike Enslin (John Cusack) sem hefur sérhæft sig í því að skrifa um drauga. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu ekki til. Dag einn fær hann dularfullt póstkort frá Dolphin hótelinu í New York þar sem hann er varaður við að gista í herbergi 1408. Enslin fer á hótelið og pantar þetta herbergi en hann veit ekki hvað hann er þá að kalla yfir sig.

Það mæðir mikið á John Cusack í aðalhlutverkinu enda er hann í mynd nánast allann tímann. Hann sýnir óaðfinnanlegan leik og það er frábært að fylgjast með honum. Samuel L. Jackson leikur hótelstjórann Gerald Olin og hann á líka góðan dag þó hann sé í raun og veru í aukahlutverki.

Helsti galli myndarinnar er sá að það er kannski helst til of mikið af endurtekningum.

1408 er hrollvekjandi spennumynd af gamla skólanum. Það er lítið um tæknibrellur enda ekki þörf á þeim. Blóðsúthellingar eru í lágmarki enda er myndin uppfull af óhugnanlegum atriðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Little Children
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Innan um stóru myndirnar frá Hollywood leynast oft kvikmyndaperlur. Little Children er sannarlega ein slík perla. Þetta er mynd sem skilur eitthvað eftir sig og situr í áhorfandanum lengi á eftir. Myndin fjallar um Söruh Pierce (Kate Winslet) og Brad Adamson (Patrick Wilson) en þau kynnast fyrir tilviljun þegar þau eru með börnin sín á leikvelli í hverfinu sem þau búa í. Þau falla fyrir hvort öðru en það á eftir að reynast þeim dýrkeypt. Ég tel ekki heppilegt að fara nánar út í söguþráðinn þar sem hann er í raun flóknari en þetta. Leikstjórinn Todd Field (In the Bedroom) hefur bætt enn einni rós í hnappagatið því Little Children er framúrskarandi mynd fyrir vandláta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fantastic Four: Rise of the Silver Surfer
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 2005 var kvikmyndin Fantastic Four frumsýnd. Sú mynd vakti ekki mikla lukku meðal gagnrýnanda og almennings. Samt var ákveðið að prófa formúluna einu sinni enn og gera framhaldsmynd. Fantastic Four:The rise of the Silver Surfer er mun betri mynd en fyrri myndin. Fjórmenningarnir þurfa nú að berjast við hinn silfraða brimbrettamann og bjarga það með heiminum. Hinn illi Victor Von Doom setur óvænt strik í reikninginn og því verður þetta erfiðara fyrir fjórmenningana en ella. Það sem er gott við þessa mynd er að hún gefur sig út fyrir að vera mynd um ofurhetjur. Hún tekur sig ekki of alvarlega. Hasarinn er vel útfærður og brellurnar eru góðar. Það er ákveðinn léttleiki yfir myndinni og brandararnir hitta vel í mark.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Die Hard 4.0
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1988 var fyrsta Die Hard myndin frumsýnd og markaði hún tímamót. Hetjan, John McClane, var breysk og hrædd við dauðann. Hann meiddi sig og sýndi tilfinningar en það var annað en James Bond eða Indiana Jones höfðu gert. Die Hard hefur verið valin besta hasarmynd allra tíma og er hún vel að þeim titli komin. Síðan komu tvær framhaldsmyndir með nokkurra ára millibili og nú er komið að Die Hard 4.0. Bruce Willis hefur lengi barist fyrir því að þessi mynd yrði að veruleika en eftir árásrinar 11. september 2001 var hún sett í biðstöðu. En nú er hún loksins komin og það með þvílíkri spreningu. Það er varla dauður punktur í myndinni, hún er laus við alla rómantík og hún tekur sig aldrei of alvarlega. Hún er fyrst og fremst skemmtun frá upphafi til enda. Söguþráðurinn er einfaldur. John McClane þarf að berjast við hryðjuverkamenn sem áætla að lama bandarískt samfélag með því að skapa ákveðinn glundroða með því að yfirtaka öll tölvukerfi. McClane nýtur fulltingis töluhakkarans Matts Farrels (Justin Long). Leikararnir standa sig mjög vel. Bruce Willis klikka ekki sem McClane og eins er Justin Long góður sem og Timothy Olyphant sem aðalvondikallinn. Leikstjórinn Les Wiseman (Underworld) stígur vart feilspot.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shrek the Third
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 2001 tók fyrirtækið hans Stevens Spielbergs, Dremaworks, ákveðna áhættu þegar þeir frumsýndu Shrek. Myndin var ekki beint hefðbundin en sló umsvifalaust í gegn þannig að það var öruggt að það kæmi framhald. Árið 2004 kom svo Shrek 2 og nú er komið að Shrek 3. Shrek myndirnar eiga það allar sameiginlegt að flétta saman ákveðnum minnum úr hinum og þessum ævintýrum eins og Stígvélaða kettinum, Þyrnirós, Mjallhvít o.fl. Söguþráður þriðju Shrek myndarinnar er einfaldur, Shrek er ætlað að taka við konungsveldinu en hann vill það ekki og heldur í leiðangur að leita að fjarskyldum ættingja sem gæti tekið við sem konungur. Á meðan þarf Fiona að verja konungsveldið fyrir Prins Charming og hans hyski. Shrek 3 er ágætis afþreying. Hún bætir engu við fyrri myndirnar og brandararnir eru ekki eins margir. Hinsvegar hafa flestir gaman af þessu ævintýri og nokkrir brandarar hitta svo sannarlega í mark. En þessi formúla er orðin pínu þreytt og það er vonandi að handritshöfunar Shrek 4 sem áætað er að sýna árið 2010 spýti aðeins í lófana og lyfti þessari serí yfir meðalmennskuna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei