Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Domino
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einu sinni gat Tony Scott búið til svakalega fínt bíó. Nú býr hann bara til tveggja tíma MTV-vídeó sem hljóma eins og bylgjuauglýsing.

Domino Harvey átti um tíma mjög athyglisverðan feril sem mannaveiðari. Því er mér gersamlega óskiljanlegt af hverju þeir bjuggu til svona frámunalega asnalega sögu, algerlega úr lausu lofti gripna, í stað þess að nota bara raunverulega sögu hennar. Félagar hennar voru víst líka mun athyglisverðari og gáfulegri en viðriðnin sem eru félagar hennar í myndinni.

Myndin er bévítans krapp, en stöku viðunandi atriði bjarga myndinni frá því að vera hauskúpa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Layer Cake
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg hreint drullugóð ræma með honum Daniel Craig í aðalhlutverki, þeim hinum sama og lék ógeðslega son Paul Newman í Road to Perdition. Sultufínn leikari.

Fjallar um kókaínsala sem kemst aldeilis í hann krappann og þarf að taka á honum stóra sínum til að komast gegnum eilítið vandamál, þegar allt sem hann langar að gera er að negla fröken Miller. Ein af skemmtilegustu myndum sem ég hef séð á þessu ári,og hef ég séð helling.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Collateral
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ansi hress ræma. Michael Mann kann alveg að gera bíó og Tom Cruise er ákaflega sannfærandi sem vondi kallinn.

Ansi skemmtilegt að því var haldið fram statt og stöðugt að hér væri Tom Cruise í fyrsta sinn í hlutverki illmennis - eins og hann hefði verið eitthvað sérstaklega indæll í Interview with a Vampire.

Annars, mjög skemmtileg og trúverðug í flesta staði, synd að Jason Statham var ekki meira til svæðis í ræmunni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bound
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg drullufín mynd um tvær kerlur sem fara að plana rán á mafíufé eftir að hafa farið hvor á aðra, en slíkt er nú oft mjög vinalegt í bíó. Aðalleikkonurnar tvær eru jú þrælfínar en minn maður Joe Pan...cake stelur senunni sem svo oft áður.

Sjáið og njótið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Punisher
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nú, jæja. Skil ómögulega hvað gagnrýnendur voru að agnúast út í þessa ræmu. Sá hana í bíó og fannst hún fín, m.a.s. rétt yfir meðallagi. Það sem mér fannst einna helst skorta var meira ofbeldi og blóð, líkt og er í blöðunum nú til dags (en blöðin má einmitt fá í Nexus á Hverfisgötu). Þykir þó líklegt að þetta hafi bara verið upphitun og planið sé jú að gera fleiri myndir um okkar mann. Var einmitt að fjárfesta í myndinni á dvd rétt áðan og hlakka mikið til að komast heim úr vinnunni að góna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
They
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Svona alltíkei hryllingswannabe, en ég er bara svo kátur í dag að fólk sé þó allavega að reyna að gera hroll að ég gef henni eina og hálfa. Næstum því meðallagsmynd. Sjáið á DVD og kíkið á aukaendann, hann er skemmtilegur og miklu betri en venjulegi endirinn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Night at the Roxbury
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sorp, af verstu gerð, þ.e.a.s. ófyndið sorp. Eins og sketsarnir í SNL með þeim félögum eru oft ágætir er það sorglegt hvað þessi mynd hefur ekkert fram að færa og fær mann aldrei til að brosa, hvað þá skella uppúr.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dude, Where's My Car?
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bráðskemmtilegt sorp. Hreinlega ekkert í myndina varið, nema hvað að það má aldeilis skella uppúr annað veifið. Meðalmennskusorp, en skemmtanagildið ótvírætt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dreamcatcher
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skólabókardæmi um mynd sem missir sig eftir hlé. Alveg einstaklega vel heppnaðar fyrstu 45 mínúturnar, en svo eftir því sem sagan fer að skírast áttar maður sig á því hvað þetta er mikið heilhveitis kjaftæði. Þó hef ég sjaldan límst svona við mynd eins og í fyrri parti myndarinnar og sjaldan orðið fyrir jafnmiklum vonbrigðum með framvinduna. Verð þó að gefa tvær stjörnur vegna þess hve allt er ótrúlega vel gert, leikur, leikstjórn, myndataka og allt annað - sagan er bara hörmung.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Thir13en Ghosts
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bráðskemmtileg B-mynd. Léleg, en skemmtanagildið ótvírætt og það er jú það sem gildir, því það er ekki eins og maður hafi búist við nýrri Shining þegar hún fór í spilarann. Söguþráðurinn er einnig of vitlaus til að tíunda hér og leikarar í fæstum tilfellum starfi sínu vaxnir, en fyrir þá sem líkar við B-hrylling er þetta alveg ljómandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Death to Smoochy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bráðskemmtileg mynd í alla staði, skemmtilega skrifuð, leikin og leikstýrt. Þegar spillingin meðal barnastjarnanna keyrir um þverbak er tækifærið fyrir Smoochie - einu heiðarlegu barnastjörnuna. Hann þiggur ekki mútur, notar heróín eða lemur konuna sína eins og hinar barnastjörnurnar.

Aldeilis ljómandi ræma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Tears of the Sun
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis stríðsræma, sem fer þó aðeins yfir sig í væmninni á köflum. Willissinn er sérsveitarmaður sendur til Nígeríu ásamt sveit sinni að bjarga læknum, prestum og nunnum frá kexbrjáluðum múslimum. Að sjálfsögðu verður hann að reyna að bjarga fullt af óbreyttum borgurum í leiðinni með byssuhólk í hvorri hönd. Fínir byssubardagar og dálítið skemmtilg bara yfir heildina. Takið eftir Chad Smith, trommara Red Hot Chili Peppers, í hlutverki sérsveitarmanns.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Hole
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ansi skemmtileg mynd um nokkur ungmenni sem felast í gömlu neðanjarðarbyrgi. Meira má eiginlega ekki segja án þess að skemma fyrir, en myndin er ansi skemmtileg og hinir ungu leikarar standa sig undantekningarlítið stórvel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Trapped
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi ágætisræma fer aldeilis stórvel af stað, en eins og oft gerist í henni Hollywood fer hún fullmikið framúr sér í endann. Ágætis saga og stórgóður leikur Beikonsins lyfta myndinni yfir meðallag.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
We Were Soldiers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þó svo myndin væri talsvert öðruvísi en undirritaður bjóst við var hún vel þess virði að eyða í tíma og fé.

Ræman gefur okkur góðan tíma í byrjun til að kynnast nokkrum hermannanna og þeirra familíum, þó aðallega Hal Moore ofursta, konu hans og börnum.

Svo kemur að bardaganum sjálfum og er það síður en svo illa útfært. Margt er þar betur gert og meira sannfærandi en venjan er og nokkriir leikaranna fara hreint á kostum, þó vil ég sérlega nefna Barry Pepper og Sam Elliot, en báðir sýna snilldartakta. Orustan í heild er hrein snilld, þótt væmnin keyri á tíðum um þverbak.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Scotland, Pa.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ljómandi skemmtileg nútímaútfærsla af MacBeth, hvar sögusviðið er smábær í Pennsylvaníu á áttunda áratugnum. Nornirnar eru hasshausar í tívolíi, kóngurinn er eigandi hamborgarasjoppu og fleiri breytingar í þeim dúrnum. Einkar skemmtilegt allt saman og Christopher Walken snilld, hrein og tær, í hlutverki lögregluþjóns.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blood Work
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis spennuræma af gamla skólanum. Clint er hér í rólegheitunum, enda í hlutverki FBI-manns sem er að ná sér eftir hjartaáfall og ígræðslu. Hann ákveður, þvert ofan í ráðleggingar læknis síns, að leita uppi morðingja fyrrum eiganda nýja hjartans síns.

Ræman er fremur hæg, en bráðskemmtileg fyrir þá sem kunna gott að meta.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hostile Hostages
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis grínmynd með hinum bráðskemmtilega Denis Leary í aðalhlutverki. Hann er hér í hlutverki innbrotsþjófs, sem eftir innbrot sem fór úr skorðum, leitar skjóls á heimili hjóna sem eru ekki eins og fólk er flest. Neyðist bófinn til að taka alla familíuna í gíslingu og er það ögn meira en að segja það.

Bráðskemmtileg ræma og Leary fer á kostum að vanda.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Johnny Dangerously
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hreint ljómandi fyndin ræma um Johnny, sem er stálheiðarlegur ungur maður. Hann neyðist til að fara út í glæpi til að borga fyrir sífelldar mjaðmaliðs- og brjósklosaðgerðir stórskrýtinnar mömmu sinnar, sem hann elskar meira en lífið sjálft.

Hann, sökum snilli sinnar, verður fljótt einn aðalglæpón Chicago og þarf að verjast sífelldum árásum keppinautarins, Roman Morone og undirtyllu sinnar, Danny Vermin. Þess utan er bróðir hans kominn í vinnu hjá saksóknara svæðisins og vill koma honum í fangelsi - án þess að hafa hugmynd um hver hann er.

Bráðfyndin ræma og eldist vel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Outland
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vel þolanleg endurgerð Peter Hayms af hinum sígilda vestra High Noon. Nú er það ekki villta vestrið heldur eitt af tunglum Júpíters sem er sögusviðið og Connery er lögreglustjóri staðarins. Hann þarf að hafa hendur í hári eiturlyfjasala sem sendir á eftir honum tvo leigumorðingja.

Heldur hæg, en skilar sínu þó Connery hafi sjálfur elst mun betur en myndin.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Under Siege 2: Dark Territory
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það fór að sjálfsögðu svo að þegar Seagal hafði loks farið með aðalhlutverk í almennilegri mynd, Under Siege, varð hann að eyðileggja allt með því að gera vond framhald. Að þessu sinni stígur hann upp í lest og allt verður vitlaust.

Sjáið frekar fyrri myndina aftur, hún er mun betri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Count of Monte Cristo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Verð að taka undir með henni Dagbjörtu hér fyrir ofan, að sagan er verulega þynnt. Eiginlega stendur varla nokkuð eftir. Fyrr þá sem ekki hafa lesið bókina er myndin kannski ljómandi fín, en snilldin í bókinni er engan veginn að skila sér, enda ekki hægt að gera 700 síðna bók góð skil á tveim tímum.

Leikarar eru þó margir stórgóðir, ber þar helst að nefna Guy Pearce sem Mondego og Richard Harris sem samfanga Dantes.

Dante sjálfur er hinsvegar óttalega máttlaus hjá Jim Caviezel og hefur sá sést í betra formi.

Vil og ítreka orð Dagbjartar að ef menn nenna ekki að lesa bókina er franska sjónvarpsútgáfan með Gerard Depard...Dep... einhverjum frakka mun betri og fæst t.d. á DVD í versluninni 2001.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Murder by Numbers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Allskemmtileg ræma um tvo menntaskólapilta með of mikið af peningum og of litla siðferðiskennd. Þeir, til þess að gera nú eitthvað uppbyggilegt, drepa blásaklausa konu og klína drápinu á dópsala einn ágætan.

Sandra Bullock er svo löggukonan sem ætlar sér að koma upp um þá.

Það sem greip mig fyrst og fremst var stórgóður leikur ungu mannanna tveggja sem leika morðingjana. Greinilegur eðalefniviður hér á ferð. Sagan er einnig ágæt, en myndin er mjög lauslega byggð á raunverulegum atburðum sem gerðust að sjálfsögðu í Bandaríkjunum.

Ben Chaplin, sem leikur aðstoðarlögguna, er skemmtilega sviplaus að vanda og má með fullri vissu segja að hann mun seint ofleika. Chris Penn er jú snilldarleikari en sést fulllítið og hefði mátt að ósekju gera hans persónu betri skil.

Semsagt, þegar allt kemur til alls, spennumynd yfir meðallagi og skemmtileg á að horfa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Corky Romano
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Algert sorp og Peter gamla Falk er vorkunn af því að hafa tekið þátt í þessu drasli. Fær hálfa stjörnu fyrir eina góða brandarann í myndinni, sem er reyndar einn fyndnasti dópbrandari sem ég hef séð, þó ekki nógu góður til að rífa myndina meira upp úr skítnum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Muppets from Space
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bráðskemmtileg ræma, þar sem ekki minni menn en F. Murray Abraham, Ray Liotta o.fl. láta ljós sitt skína.

Gunnsi á hér í tilvistarkreppu þar sem hann veit ekki hverrar tegundar hann er. Hann leitar uppruna síns og á sama tíma gerast stórfurðulegir hlutir.

Ber að nefna sérstaklega að í einni af fyrstu senum myndarinnar er óborganlegt atriði með Dýra, hvar hann ætlar að þvo sér um höfuðið.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Novocaine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis ræma sem sækir talsvert í film-noir stílinn. Minnir á stöku stað á Hitchcock eða jafnvel Billy Wilder.

Fjallar um tannlækninn Frank Sangster, sem lifir, að því honum finnst, alveg ljómandi góðu og umfram allt vel skipulögðu lífi.

Einn daginn kemur inn á stofu hans ung kona sem narrar hann til að skrifa upp á demoról fyrir sig. Það næsta sem hann veit er að hún hefur breytt lyfseðlinum til hins vera og að öllum líkindum stolið heilmiklu magni af kókaínupplausn úr lyfjaskápnum hans, einmitt þegar lyfjaeftirlitið er að gera tékk.

Svo verður það bara verra og verra og verra...

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bait
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis grín og spennuræma frá hinum ljómandi leikstjóra Antoine Fuqua, þeim hinum sama og færði oss Replacement Killers og Training Day.

Fjallar í stuttu máli um óheppinn og hálfvitlausan smákrimma sem lendir í grjótinu eftir misheppnað rækjurán. Klefafélagi hans segir honum leyndó og dettur svo niður dauður og eftir það eru allir á eftir honum. Pínu klént, en sleppur alveg í þessu tilviki.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Speed 2: Cruise Control
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Speed varð jú svo feykivinsæl að ekki var annað hægt en að gera framhald. Þó svo aðalleikari, og þar með aðalpersóna, fyrri myndarinnar væri ekki með var jú samt slegið til og útkoman engan veginn og ekki á nokkurn hátt nándarnærri í líkingu við forverann.

Það er svotil bara hinn bráðskemmtilegi ofleikur Willem Dafoe sem færir myndinni þessa einu og hálfa stjörnu, restin er ekki til að tala um.

Við getum verið viss um að Speed 3 verður aldrei gerð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Osterman Weekend
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi síðasta mynd snillingsins Peckinpah er ákaflega langt frá því að vera hans besta og er ekki margt sem líkt með þessari og snilldarverkum hans eins og Wild Bunch, Bring me the Head of Alfredo Garcia og Getaway.

Þó er þetta eigi alslæm ræma, enda byggð á ágætissögu Robert Ludlum, þess hins sama og reit hér um árið The Bourne Identity.

Fléttan nokkuð langsótt, eins og oft í sögum Ludlum, en ekki illa unnið úr. Hálfgerð vonbrigði þó að svanasöngur Peckinpah skyldi ekki vera nema rétt um meðallagsmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Die Another Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einkar ósammála þeim sem segja þetta bestu Brosnanmyndina í flokknum. Myndin byrjar þó feykivel og er fyrsti hálftíminn sá besti að mínu mati síðan fyrir 1970. Myndin fer síðan þónokkuð fram úr sjálfri sér og á köflum minnir viteysisgangurinn mann á hið ógurlega hnignunartímabil þegar Moore fór með hlutverkið.

Hinsvegar er margt feykigott, t.d. skylmingasenan bráðskemmtilega og svo er Halle Berry flott í hlutverki Jinx.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sum of All Fears
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Langversta Jack Ryan-myndin. Bæði það að Ben Affleck er ákaflega langt fyrir neðan Harrison Ford og Alec Baldwin í gæðaskalanum og þess utan er sagan svo gersamlega út í hött að það hálfa væri fullmikið fyrir minn smekk. Árið 2002 eiga nasistar að reyna að etja Rússum og Bandaríkjamönnum saman í kjarnorkustríð til þess eins að hafa góðan jarðveg fyrir þjóðernisjafnaðarstefnuna að dafna í... kommon, þetta er svo vitlaust að mann vekjar.

Nokkrar þokkalegar senur redda myndinni uppúr algerum skít og ber að nefna að Liev Schrieber og Morgan Freeman eru góðir að vanda. Lesið þó frekar bókina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
What's the Worst That Could Happen?
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi kom skemmtilega á óvart, sérstaklega vegna þess að treilerinn er alveg hörmung og ég bjóst hreinlega ekki við neinu nema sorpi. Þar sem ég hló allnokkru sinnum og hafði gaman af tel ég ræmu þessa eilítið yfir meðallagi og gef tvær og hálfa. Takk og bless.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Never Say Never Again
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Endurgerð Thunderball og stendur frumgerðinni langt að baki, þó um ágætisafþreygingu sé að ræða. Það tók enda gríðarháar fjárhæðir til að fá Connery aftur í hlutverkið, fimm milljónir dala og hafði ´83 ekki nokkur maður fengið svoleiðis upphæð fyrir bíóleik.

Þó svo myndin sé á köflum sem skopstæling af Thunderball er valinn leikari í hverju rúmi og reddar það miklu, þó svo Rowan Atkinson sé eins og álfur út úr hól á kantinum. Svo er Kim Basinger til svæðis og hún er jú alltaf voða sæt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Curdled
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skemmtileg mynd um unga konu sem veit fátt skemmtilegra en fréttir af fjöldamorðingjum. Hún ræður sig því í vinnu hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í að hreinsa híbýli fólks eftir subbuleg morð og limlestingar, einmitt þegar þessi líka skemmtilegi afhöfðari er upp á sitt besta.

Takið eftir hressandi tilvitnun í Gecko-bræðurna ú From Dusk till Dawn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Bourne Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þó svo myndin fari vægast sagt frjálslega með söguna er hér um prýðisafþreygingu að ræða. Leikarar mjög svo í skárri kantinum, Damon, Chris Cooper og upphaflegi Hannibalinn, Brian Cox, og svo umgjörð öll skemmtileg og vel uppsett.

Bendi hinsvegar áhugasömum á gamla útgáfu myndarinnar, sem hægt er að fá á betri leigum landsins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Brotherhood Of The Wolf
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jú, Frakkar hafa gert heilan haug af stórgóðum myndum og þessi er örugglega EKKI ein af þeim. Sögð byggð á sannsögulegum atburðum, sem er álíka líklegt og ef hið sama hefði verið sagt um Mars Attacks.

Fer ágætlega af stað, þ.e.a.s. ef maður slekkur á heilanum og hugsar ekki út í hvar indíáninn hefur lært Kung Fu, en fellur í sorpkategoríuna um hálfleik.

Stjörnuna fær Monica Belluci, því hún er svo sæt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jason X
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ekki það að undirritaður hafi séð allar úr seríunni, en þessi hlýtur að vera verst. Serían fór ágætlega af stað, fór að dala strax í annari myndinni, en þetta kjaftæði keyrir um þverbak. Svefnpokaatriðið títtnefnda fær hálfa stjörnu, en dísús kræst, restin er rusl.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Tailor of Panama
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þó svo bókin hafi verið betri, eins og bent er á hér að ofan, er hér um að ræða stórgóða mynd hvar Brosnan, og þó sérstaklega Geoffrey Rush, fara á kostum.

Þó á sagan lítið sem ekkert sameiginlegt með Bond, sem Brosnan er þekktastur fyrir, en er stórgóð njósnasaga engu að síður.

Mæli hiklaust með þessari fyrir alvöru njósnasöguunnendur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
xXx
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eins og sagt var í skaupinu hér fyrir rúmum 20 árum - ekki þykja mér þetta nú góðar tvíbökur. Þrefalda exið slær flestar aðrar myndir út hvað varðar hraða, en fyrst og fremst hvað varðar arfavitlausan söguþráð og atriði sem illa gefin fermingarbörn ein geta haft gaman að sökum vitleysu. Ef einhver vill halda því fram að Xið slái Bond út hlýtur sá hinn sami að hafa séð Moonraker eingöngu.

Stjörnuna hlýtur ræman eingöngu vegna nærveru Jackson, sem er alltaf frábær.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shaft
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Grunn og illa skrifuð mynd í alla staði. Shaft er svo grunnhygginn, bjánalegur og illa skrifaður að eitt það ótrúlegasta í kvikmyndasögunni er að hann skyldi nokkursstaðar fá vinnu, hvað þá í lögregluliði New York-borgar.

Ágætisleikur Jackson og Christian Bale, ásamt nærveru Richard Roundtree, lyfta myndinni þó eilítið upp úr ruslahaugnum og án þeirra væri þetta sorp.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Game
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis spennuræma eftir einn skemmtilegasta leikstjóra samtímans.

Douglas er hér í hlutverki auðkýfings, sem fær að gjöf frá litla bróður sínum þáttöku í leik, sem virðist sakleysi í fyrstu, en þegar líða tekur á er sem einhver maðkur sé í mysunni.

Ekki gallalaus, en skemmtileg og talsvert yfir meðallagi að gæðum.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Finding Forrester
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórskemmtileg leikaramynd, hvar Connery er stórgóður í hlutverki gamals, þunglynds rithöfundar sem fyrir tilviljun vingast við svartan unglingspenna.

Ekki mikið meira um ræmuna að segja, nema þá helst að F. Murray Abraham stelur smáparti af senunni í hlutverki afar lítið heillandi bókmenntakennara.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
American Outlaws
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ömurleg afbökun á einni athyglisverðustu útlagasögu vestursins, og jaðrar við að vera söguleg nauðgun.

Það sem bjargar þessari mynd frá því að enda sem kalkúnn eru leikararnir, sem sumir hverjir standa sig ágætlega og fer þar Timothy Dalton fremstur í flokki.

Bendi áhugasömum frekar á myndina Frank & Jesse, mun betri mynd um sama efni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Just Cause
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætisræma um blökkumann bakvið lás og slá og mann sem reynir af veikum mætti að ná honum þaðan út.

Ágætisfléttur og athyglisverðir karakterar, en nær aldrei að lyfta sér að neinu leyti upp úr meðalhjakkinu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
One Night at McCool's
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein af þessum sem koma á óvart. Leigði hana kvöld eitt, þegar ég hafði ekkert annað að gera og hef síðan nagað mig í handarbökin yfir að hafa ekki séð hana fyrr.

Leikarahersingin stendur sig ljómandi vel, enda vart annað hægt með svona ljómandi vel skrifaða sögu, og standa Paul Reiser og Michael Douglas uppúr, að öðrum ólöstuðum.

Fjallar í stuttu máli um vonda konu, sem vefur körlum um fingur sér í leit að góðu lífi, og hikar ekki við að draga menn til bælis - eða skjóta þá, ef í það fer.

Menn verða margir óhressir með þetta, sem eðlilegt er, og ekki orð um það meir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Time Bandits
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Snilldarræma, hvar eftirlifandi Monty Python-meðlimir líta verulega gagnrýnum augum á Skaparann.

Ungur piltur fer á tímaflakk með nokkrum dvergum sem hafa stolið ek. tímakorti, hvar dyr gegnum tíma og rúm eru merktar inn. Skaparinn hinsvegar vill kortið sitt aftur og eltir hersinguna gegnum tímann, þar sem þeir hitta Napóleon, Hróa Hött og fleiri merka menn, sigla með Titanic og fleira í þeim dúr.

Stórgóður endir límir svo snilldina saman.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ace Ventura: When Nature Calls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Snilldarræma, hvar Carrey fer á kostum. Nashyrningsafturendasenan og hugleiðsluatriðið (aaaaaaaaaaaaaaaaaaaaallrightythennnnnn) bestu senurnar að mínu mati, en ljómandi skemmtileg heild engu að síður.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Beverly Hills Cop III
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mikið svakalega hefur dómgreind Murphy brugðist honum hérna.

Þessi endurkoma hefði alveg mátt missa sín og getur engan veginn talist annað en algert sorp, en þó má hafa gaman af þessu í ömurleik sínum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Beautiful Creatures
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætisræma um tvær konur sem eiga vonda kærasta. Þær kynnast fyrir tilviljun þegar önnur bjargar hinni frá bráðum bana og áður en langt um líður eru þær farnar að ráðgera stærri hluti en þær ráða við, og það í félagi við tvílitan hund með eitt eyra.

Ansi skemmtileg, en fullstutt í annan endann.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Orange County
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ákaflega óvænt ánægja, leikstýrt af Jake Kasdan, syni Lawrence Kasdan, handritshöfundar t.d. Empire strikes back og Raiders of the lost Ark. Aðalhlutverkið er hinsvegar í höndum Colin Hanks, sem er sonur Tom Hanks.

Fjallar í stuttu máli um afburðanemanda í framhaldsskóla Orange County sem á þann draum heitastan að verða rithöfundur og komast inn í Stanford háskóla. Hinsvegar sendir treggáfuð starfskona framhaldsskólans rangar einkunnir í hans nafni til Stanford, kærastan hans verður vitlaus yfir að hann vilji fara þangað, mamma hans er full, pabbi hans er of upptekinn til að nenna að tala við hann, stóri bróðir hans er á dópi og annað lítið skárra. Svo er enskukennarinn hans alveg dásemd, heldur því t.d. fram að Gladiator og The Talented Mr. Ripley séu byggðar á verkum Shakespeare og eyðir meiri tíma í að tala um Friends-þættina en kenna ensku.

Allnokkrir skemmtilegir aukaleikarar koma við sögu, t.d. Kevin Klein, Chevy Chase, John Lithgow og Jack Black, sem er í aulabrandaradeildinni.

Ef þið sjáið DVD-útgáfuna, skoðið endilega aukaefnið, það er stórskemmtilegt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kuffs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hin hressasta skemmtun, hvar Christian Slater leikur auðnuleysingja mikinn hvers bróðir er myrtur svo hann erfir lögregluumdæmi hans. Svo hefst hann handa við að hefna bróðurins og þarf einnig að halda kerlingunni góðri, sem reynist ekki síður erfitt.

Ekki svo merkileg ræma, en þó nokkuð skemmtileg.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Striking Distance
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þunnur þrettándi, hvar Brús er í hlutverki bátalöggu. Einhver kolgeðveikur ruddi tekur til við að myrða allar hans fyrrverandi, sem eflaust margir yrðu ánægðir með, en hann fer í málið gallharður.

Einungis fyrir hörðustu aðdáendur kappans.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jerry Maguire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ágætis afþreyging, varð hinsvegar fyrir töluverðum vonbrigðum því hún var á sínum tíma hlaðin óverðskulduðu lofi bæði gagnrýnenda og almennings. T.d. eru ófáir sem verðskulda Óskarinn fremur en Cuba Gooding jr. fyrir þetta hlutverk. Myndin er þó yfir meðallagi skemmtun þrátt fyrir allt og Krúsarinn ágætur í aðalhlutverkinu, sem og strákpjakkurinn með gleraugun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Daylight
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Meðallagagsmynd sem fjallar um fólk sem festist inni í göngum þegar bíll, fullur af eiturúrgangi, springur inni í göngum á leið til New Jersey - hvert annað?

Stallone leikur ofurhugann sem leggur mikið á sig til að komast niður í göngin þegar flestir heilvita menn vilja helst vera sem lengst frá þeim.

Ekkert sérlega gáfuleg alltaf, en ágætis skemmtun ef í það fer.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Barry Lyndon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórkostleg mynd um hinn lánlausa Raymond Barry, íra á ofanverðri 18. öld sem reynir að komast til metorða, oftar en ekki með því að skora menn á hólm. Byggð á bók William Makepeace Thackeray og leikstýrt af snillingnum Stanley Kubrick, sem vissi jú manna best hvernig átti að gera bíó.

Myndin er hæg og myndatakan óaðfinnanleg frá upphafi til enda og fylgir Barry frá Írlandi og gengnum mestalla vestur - Evrópu.

Lítið meira hægt að segja, en sjáið endilega.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Amelie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Snilldarmynd frá leikstjóra Delicatessen, fjallar um ákaflega furðulega stúlkukind með ótakmarkað ímyndunarafl. Sökum mjög svo óhefðbundins uppeldis er hún ekki alveg einsog fólk er flest, og gjörðir hennar margar allfurðulegar.

Ekki orð um það meir, bara farið og sjáið þessa snilld.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein af þessum sem koma á óvart. Í upphafi myndar sjáum við hvar kona á besta aldri fær höfuðhögg í heldur furðulegu umferðaróhappi og uppgötvar í læknisskoðun eftir það að hún er með bráðdrepandi heilaæxli. Eiginmaður hennar, leikinn af Rihard Gere, veit að eitthvað er rotið í Danaveldi, enda gerast í framhaldinu skrýtnir hlutir, sem ekki verða tíundaðir hér.

Myndin er þó sögð byggja á raunverulegum atburðum, en á ég með afbrygðum einstaklega erfitt með að trúa því.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Highlander III: The Sorcerer
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sorp af verstu sort og erfitt að ímynda sér að læsir og skrifandi einstaklingar geti haft gaman af svona viðbjóð.

Eina ástæðan fyrir þessari einu stjörnu er sú að hún er þó ekki alveg jafnviðurstyggileg og þessar númer 2 og 4 í seríunni sem ég gef hálfa á kjaft.

McCleod á hér í höggi við seiðkarl nokkurn, leikinn af hinum alvonda Mario van Peebles, sem hefur verið fastur undir grjóti í aldaraðir og hyggst gera stóra hluti þegar hann loksins losnar, enda orðinn heldur óþreyjufullur, sem von er. Hefst þá frámunalega heimskulegur söguþráður sem ekki verður tíundaður hér.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Company Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg útúrsúr mynd, hvar handrit, leikstjórn og aðalhlutverk er í höndum Douglas McGrath, sem er einna þekktastur fyrir að hafa samið handritið að Bullets over Broadway ásamt Woody Allen, auk þess sem hann hefur leikið í nokkrum mynda hans. Allen er einmitt í þessari mynd sem gamall útlifaður dóphaus í bandarísku leyniþjónustunni á Kúbu.

McGrath þessi er ekkert að fela Woody Allen aðdáun sína og er það í góðu lagi.

Má einnig taka það fram að myndin er talsvert mikið betri en umslagið sem liggur frammi á leigum landsins, enda er það hörmungin ein.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hoodlum
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skemmtileg blökkumannamafíumynd og skemmtilega uppsett. Ekki meira um það að segja nema hvað að unnendur byssumynda ættu að láta sér vel líka.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hart's War
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ansi hreint vel skrifuð mynd og skemmtileg, þótt hetjuskapurinn fari á tíðum alltof, alltof langt yfir strikið.

Fjallar um hóp stríðsfanga í Þýskalandi um áramótin ´44-´45 og segir aðallega frá fyrrum laganemanum Hart, sem aldrei hefur í bardaga komið og var eiginlega handsamaður fyrir slysni af dulbúnum þjóðverjum í Belgíu. Myndin minnir á margt á hina stórgóðu Stalag 17 en kemst þó engan veginn með tærnar þar sem sú hefur hælana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Final Fantasy: The Spirits Within
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þrátt fyrir úrvals tæknivinnslu á köflum líður myndin fyrir algjöran skort á söguþræði og er fyrir vikið varla nema rétt rúmlega sorp. Aðeins fyrir forfallna vísindaskáldsögusjúklinga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
D-Tox
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ekki svo slæm raðmorðingjamynd hvar snælduvitlaus og kvalalostasjúkur raðmorðingi fer mikinn og myrðir löggur og kvenmenn. Ágætis afþreying en langt frá því að vera eitthvert meistaraverk. Kris Kristoferson er þó á kantinum og er flottur sem endranær.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórgóð kaldastríðsræma um kolbilaðan amerískan hershöfðingja sem hleypir einn síns liðs þriðju heimsstyrjöldinni af stað og finnst það hið besta mál. Skrýtið er það að Peter Sellers er í þrem hlutverkum í myndinni, stórgóður sem Dr. Strangelove, þjóðverji sem breytt hafði nafninu úr Gemörkeliebe, allt í lagi sem forsetinn og frekar slakur sem hinn bæði og úrræðagóði Mandrake kafteinn. Skylduáhorfun fyrir unnendur kolsvartra gamanmynda.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
On Deadly Ground
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn eitt meistaraverkið frá Seagal... eða NEI! Hreint ótrúlegt að umhverfisverndarbull dynji á manni myndina í gegn, en eitthvað gríðarlegt magn af bensíni hlýtur að hafa farið í allar þessar oft á tíðum tilgangslausu sprengingar sem eiga sér stað á mínútu fresti alla ræmuna. Hreinn viðbjóður sem ekki er okkur norrænu fólki bjóðandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fire Down Below
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sorp, eins og við mátti búast. Hreint ótrúlegt hvað Kris gamli hefur verið blankur þegar hann samþykkti að leika í þessum viðbjóð. Varist.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Glass House
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Góður leikur dregur þessa mynd upp úr ruslahaugnum, hvar hún annars ætti heima. Stellan Skarsgard er þar fremstur í flokki og má segja að oft á tíðum eigi hann myndina svo til skuldlausa. Að öðru leyti er þetta ófrumlegt, fyrirsjáanlegt, og það sem verst er, leiðinlegt rusl.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
High Crimes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein af þessum alltílæmyndum, sem þó má hafa gaman af. Góður leikur ber myndina uppi að miklu leyti og dregur myndina eilítið upp fyrir meðallag.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Double Team
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hvað fær Rodman til að halda að hann geti leikið? Veit það ekki, en það er allavega misskilningur af alverstu sort. Myndin sem heild er sorp og einskinsnýt og ber að varast.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Brewster's Millions
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Létt fyrir alla familíuna gamanmynd um blökkumann einn sem þarf að eyða 30 milljónum dollara í vitleysu á 30 dögum til þess að fá 300 milljónir dollara í arf eftir heldur betur sérvitran frænda sinn. Skemmtileg og fyndin á stöku stað.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Verð nú að splæsa stjörnu því Pam Grier er þarna á svæðinu. Annars, þó blábyrjunin lofi góðu, er þetta einskynsnýtt sorp sem ber að varast.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Behind Enemy Lines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mynd sem hefur allt til að bera til að verða fjögurra stjörnu mynd, en klúðrar því allverulega. Yfirmáta væmnar hetjusenur í hægmynd undir yfirmáta væminni hetjumúsík skemma mjög og hefur maður það á tilfinningunni að ef myndin væri sýnd á réttum hraða væri hún ca. 36 mín. að lengd.

Hinsvegar er ætíð nóg að gerast og myndatakan oft á tíðum mjög skemmtileg, og það ásamt Gene Hackman, nær að gera myndina tveggja stjörnu virði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Rambo: First Blood Part II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg fáránlegt að fólk geti haft gaman af þessu sorpi. Rambo er boðin náðun fyrir allt sem hann gerði í fyrstu myndinni ef hann fer aftur til Víetnam til að rannsaka hvort þar séu enn stríðsfangar. Að sjálfsögðu fer hann þangað, hefur stríðið á nýjan leik og fer létt með að rassskella hundruðir Víetkong-manna auk þess sem fleiri tugir sovéskra sérsveitarmanna liggja í valnum. Þó hún sé slæm þessi verð ég þó að gefa henni stjörnu fyrir mjög viðunandi tölu særðra og fallinna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
First Blood
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg stórgóð mynd, lauslega byggð á bók David Morrel. Fjallar um fyrrverandi hermanninn John Rambo, sem er lagður í einelti af lögreglustjóra smábæjar, hvar hann á leið í gegn.

Hann bregst við á þann eina hátt sem hann kann, með því að verja sig með kjafti og klóm. Heldur hann til fjallaeftir smápústra við yfirvöld, en löggan eltir hann, sem þeir hefðu jú betur látið ógert.

Má geta þess að myndin líkist varla á nokkurn hátt framhaldsmyndunum tveim, sem illu heilli voru gerðar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fletch
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein fyndnasta mynd Chevy Chase, hvar hann fer með hlutverk rannsóknarblaðamannsins Fletch. Fletch þessi skrifar undir nafninu Jane Doe og þegar hann er að rannsaka mögulega þáttöku lögreglunnar í fíkniefnasölu á ströndinni vindur sér að honum ókunnugur maður og biður hann góðfúslega að drepa sig. Svo vindur sagan hressilega upp á sig og er hrein unun þegar gamli bregður sér í allra kvikinda líki. Sérstaklega er Blue Moon senan eftirminnileg enda eitthvað það alfyndnasta atriði sem undirritaður hefur séð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jeepers Creepers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Verð nú að splæsa tveim stjörnum á kvikindið, þótt ekki sé þetta svo merkileg mynd, heldur fyrir það helst hvað hún var miklu mun ógeðslegri en ég hafði þorað að vona.

Sjáið þó endilega DVD-útgáfuna, Special edition, hún er lengri - og ógeðslegri - en útgáfan sem kom hér í kvikmyndahús.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Nutty Professor 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þar sem mér fannst fyrri myndin svona næstum í lagi ákvað ég að kíkja á þessa, en það hefði ég betur látið ógert.

Væmin, leiðinleg og ófyndin eru nokkur af þeim orðum sem mér datt í hug við áhorfið og gef henni því fullkomna falleinkunn, sem og sjálfum mér fyrir að hafa ekki slökkt á þessu helvíti strax í byrjun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bird on a Wire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi verður seint talin til betri Gibson-mynda, en fyrir þá sem vilja hasar non-stop gæti þessi verið málið á góðum degi.

Goldie Hawn fer létt með að vera óþolandi eins og venjulega í hlutverki gamallar kærustu Gibsons, sem aðstoðar hann á flótta undan spilltum lögreglumönnum sem virðast ekki hitta neitt sem þeir miða á.

Lokaatriðið lyftir svo myndinni ögn upp, hvar menn berjast í dýragarði innan um allskyns skrið - og klaufdýr.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Pledge
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg kolsvört mynd um mann sem kann ekki að hætta. Nicholson stórgóður að vanda ,sem og flestir aðrir sem láta sjá sig, og sagan ljómandi fín, sérstaklega seinni partinn og lokaatriðið ekkert minna en stórkostlegt. Ekki orð um það meir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Escape from New York
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hreint óskiljanlegt að þessi mynd skildi verða svona líka gífurlega vinsæl á sínum tíma, því hún er hvorki fugl né fiskur.

Þrátt fyrir stöku flottar senur nær hún engan veginn meðallagi. Þó er hún margfalt betri en framhaldið, sem menn ættu að varast sem heitan eldinn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
My Cousin Vinny
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Verð að taka undir álit gagnrýnandans hér að ofan, að það er óskiljanlegt með öllu af hverju Tomei fékk Óskar fyrir hlutverk sitt í þessari mynd. Myndin er hinsvegar stórgóð og bráðfyndin og heldur dampi allan tímann og er það að minnstu leyti Frk. Tomei að þakka.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Proof of Life
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ansi skemmtileg mynd um hluti sem gerast svo til vikulega úti í hinum stóra heimi, þ.e.a.s. að starfsmönnum stórfyrirtækja er rænt og krafist einhvers fáránlegs lausnargjalds.

Myndin fer aldrei út í neina vitleysu og heldur sér einstaklega vel allan tímann, auk þess sem hinn stórgóði, en ávallt vel faldi, aukaleikari David Morse er í sínu besta hlutverki til þessa.

Ber þó að varast að líta á ræmuna sem einhverja últraspennumynd, hún er ekki í neinni samkeppni við Face Off.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Me, Myself and Irene
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sennilega fyndnasta mynd Carrey, grófur og ruddalegur húmor - eða með öðrum orðum húmor eins og hann á að vera.

Einnig verð ég að minnast á tónlistina, sem er frábær, nokkrir valinkunnir popparar endurgera vel valin Steely Dan- lög og er það vel til fundið.

Sjáið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: Attack of the Clones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þrátt fyrir að undirritaður, verandi gamall nöldurseggur, sé ósáttur við að Lucas hafi yfirleitt ráðist í framleiðslu nýrrar seríu á sínum tíma, er ég bara allsáttur við þetta nýja innlegg.

Ber fyrst að taka fram að fögnuður var gríðarlegur innra með mér yfir því að helvítið hann JarJar varla sést í ræmunni og er það vel. Hefði þó helst viljað sjá hann myrtan á hryllilegan hátt strax í byrjun.

Svo er hér kynntur til leiks Boba Fett, ásamt karli föður sínum, og er hér útskýrt hversu gríðarstóran part þeir eiga í seríunni í heild.

Þó finnst mér Christopher Lee í hlutverki Count Dooku - greinileg tilvísun í Count Dracula, hans þekktasta hlutverk - eiga myndina svo til skuldlausa og er unun að líta á hvað hann er flottur, standandi á áttræðu.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The One
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru takmörk fyrir því hvaða bévítans vitleysu maður lætur hella yfir sig meðan maður horfir á menn lumbra hver á öðrum.

Gef samt eina og hálfa vegna þess að Jet Li er lipur og skemmtilegur slagsmálakall og Jason Statham er flottur í sínu hlutverki sem endranær.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Nightmare on Elm Street
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það hryllilegasta við þessa mynd er hvað hún er hryllilega ofmetin. Freddy er jú einhver eftirminnilegasti óþokki bíósögunnar, en sagan er sorp og leikur allra annara en Robert Englund er í besta falli grátlegur.

Illt til þess að hugsa að þetta er þó langskásta myndin í seríunni, illa farið með flottan karakter.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Ninth Gate
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Allgreinilegt að sumir hér að ofan hafa herfilega misskilið, eða hreinlega alls ekki skilið, umrædda mynd.

Snilldarræma með glæsilegum endi, ljómandi vel leikin, skrifuð, tekin og leikstýrt.

Vil ekki eyða orðum í þráð myndarinnar, það er gert um of hér að ofan, en fyrir þá sem unna góðum og gamaldags myndum þá er þetta ein af þeim, gjörið svo vel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Conspiracy Theory
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ræma sem sýnir það og sannar sem Ishtar gerði nokkrum árum áður, að það skiptir engu máli þótt aðalleikararnir tveir séu voðalega frægir, það verður að vera handrit.

Þrátt fyrir að Gibson klóri í bakkann líður myndin fyrir algeran skort á sögu og rís aldrei upp úr ruslahaugnum.

Gef samt eina stjörnu, aðallega því Julia Roberts er svo sæt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Juror
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sumra leikara til að lyfta myndinni upp er þessi mynd sorp, og það sem verra er, leiðinlegt sorp.

Fær stjörnu fyrir einstaka góða spretti á stöku stað.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kelly's Heroes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skemmtileg stríðsmynd með góðum hópi leikara.

Fjallar í stuttu máli um nokkra bandaríska hermenn sem fá þá snilldarhugmynd að komast bak við víglínuna og ræna þar banka og komast frá öllu stikkfrí.

Þó svo hugmyndin virðist góð verður þetta þó nokkuð mál og verða þeir fyrir árásum bæði bandamanna og Þjóðverja.

Sumir karakterarnir eru skemmtilega skrifaðir, þó hippahugsjónir og útlit Donald Sutherland og hans manna séu a.m.k. 20 árum á undan sinni samtíð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Go
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hreint ágætismynd um unglinga á eiturlyfjum, unglinga í einkadansi, dópsala, samkynhneygða leikara, rosaskrýtna löggu og konuna hans og fullt af öðru fólki.

Söguþræðinum eru gerð skil frá sjónarhóli nokkurra persóna og er býsna skemmtilega unnið úr því, þó það virki á stundum sem Pulp Fiction- kópíering.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
3000 Miles to Graceland
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bráðskemmtileg mynd um spilavítisrán með tilheyrandi vélbyssubardögum, einvígum, svikum og prettum, kynlífi, eltingarleikjum o.s.frv., allt sett upp á mjög stílískan hátt.

Testesterónið flæðir og ætlar öllu að drekkja, því hér eru stórir bartar, stórir Kadillakkar og RISASTÓRAR vélbyssur.

Einhver mesta strákamynd sem Hollywood hefur sent frá sér í mörg herrans ár og Kevin Kostner er hreinlega bráðskemmtilegur í fyrsta skipti síðan ég veit ekki hvenær... eða kannski í fyrsta skipti ever.

Aðrir leikarar standa sig reyndar vel flestir með prýði, en hlutverk stórkrimmans Murphy er snilldarvel skrifað og hann verður að teljast einn skemmtilegasti Hollywoodkrimmi síðustu ára.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
For a Few Dollars More
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að mínum dómi besti vestri sem Sergio Leone gerði, reyndar einn besti vestri sögunnar.

Við fylgjumst með Eastwood og Lee Van Cleef í hlutverkum mannaveiðara hvar menn fara hver fram úr öðrum í byssuleikni og töffaraskap.

Snilld.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
State and Main
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg bráðskemmtileg mynd um kvikmyndatökupakk í smábæ í Virginíu og samskipti þess við heimamenn.

Leikarar flestir eða allir í góðum fíling, Alec Baldwin sérlega skemmtilegur i hlutverki Hollywoodleikara með yfirgengilega löngun til kvenna undir lögaldri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Donnie Brasco
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þrátt fyrir ótvíræða leikhæfileika Depp tekst Pacino að stela senunni. Stórgóður leikur í alla staði og sagan skemmtileg, þriggja stjörnu ræma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Planet of the Apes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórskemmtileg tímamótamynd og hefur elst allþokkalega.

Heston fer fyrir flokki geimfara sem... og allir vita söguna.

Talsvert skemmtilegri og gáfulegri en endurgerðin að mínu viti.

Alger nauðsyn á heimili hvers vísindaskáldsöguunnanda, en sjáið breiðtjaldsútgáfuna ef völ er á.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Backtrack
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skítsæmileg spennumynd, sem var markaðssett tveim árum eftir að hún var tilbúin til að gera út á vinsældir Jodie Foster eftir að Lömbin þagna varð svona líka feykivinsæl.

Dennis Hopper leikstýrir og var ekki ánægðari en það að hann skráði Alan Smithee fyrir verkinu, en eins og margir vita er það nafn sem leikstjórar nota gjarnan ef þeir eru ósáttir við útkomuna.

Hopper, ásamt því að leikstýra, leikur hér leigumorðingja á vegum mafíunnar. Hann fær það bráðskemmtilega verkefni að drepa konu eina sem hafði orðið vitni að morði og eltir hana um Bandaríkin þver og endilöng.

Myndin fær stóran plús fyrir það að Charlie Sheen er aðeins sárafáar sekúndur á skjánum áður en hann er drepinn, og er það vel.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Man Who Wasn't There
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Snilldarræma, þar sem Coen-bræðurnir votta film-noir-menningunni virðingu sína.

Sækir mikið í Postman always rings twice, þ.e.a.s. gömlu útgáfuna, Double Indemnity og fleiri úr þeim geira og er það vel.

Svarthvít Óskarsverðlaunamyndatakan er framúrskarandi smekkleg og fær maður á tilfinninguna að myndin hefði aldrei gengið upp í lit.

Sagan er feykiskemmtileg og Billy karlinn ansi góður í hlutverki stórreykingarakarans sem kemur af stað atburðarrás sem hvorki hann né aðrir ráða á nokkurn hátt við.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Heist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alveg feykigóð bófamynd af gamla skólanum, hvar æskudýrkunin er látin víkja fyrir vönduðum vinnubrögðum og góðri sögu.

Leikarar eru allir feykigóðir og Hackman stórgóður að vanda í aðalrullunni, bófa sem er að verða fullgamall í bransann.

Sagan er skemmtileg og ættu allir unnendur gamaldags ránsmynda að hafa gaman af.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
High Fidelity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hreint ótrúlegt að hægt sé að búa til stórgóða og bráðskemmtilega mynd um plötusala sem á sér EKKERT líf utan heddfónanna.

Brilljant persónur og leikendur, þó stendur Jack Black uppúr sem treggáfaður plötusali með poppstjörnudrauma.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei