Náðu í appið
Gagnrýni eftir:

Saikat



Crash
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í stuttu máli sagt er Crash meðal bestu mynda sem ég hef séð þar sem af er árinu og ef til vill sú besta. Myndin gerist í Los Angeles og fjallar í stórum dráttum um kynþáttafordóma en án þess þó að dæma fordómafulla einstaklinga eða predika. Handritshöfundurinn og leikstjórinn Paul Haggis gerir sér grein fyrir því að kynþáttafordómar eru ekki meðfæddir heldur myndast vegna uppeldis, viðhorfa nákominna og ef til vill slæmrar reynslu úr fortíðinni. Myndin gerir nokkuð mörgum persónum skil og mætti kalla ensemble mynd líkt og Magnolia. Margir þekktir leikarar koma við sögu og standa sig allir með prýði. Sérstaklega er ástæða til að pikka Söndru Bullock úr hópnum, því þó að persóna hennar fái ekki mjög mikinn skjátíma þá er hlutverk hennar hérna það besta og þroskaðasta sem ég tel að hún hafi nokkurn tíman gert. Hún er fyrir Crash það sem Tom Cruise var fyrir Magnolia. Það er því ljóst að Crash er skylduáhorf fyrir þá sem eru, eins og ég, þreyttir á þessum endalausa straum af innihaldslausu sorpi sem Hollywood sendir frá sér þessa dagana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Girl Next Door
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Við fyrstu sýn virðist hér vera á ferðinni ósköp ómerkileg unglingagamanmynd um skólanörd sem fær sinni tilveru umturnað þegar löguleg stúlka flytur inn í húsið við hliðina. Hlutirnir verða síðan fyrst áhugaverðir þegar í ljós kemur að stúlkan reynist vera klámmyndastjarna. Þetta gæti verið forskrift af klisjukenndri og ómerkilegri mynd en í ljós kemur að hér er á ferðinni frábær gamanmynd og jafnvel hjartnæm ástarsaga upp að vissu marki. Í gæðum myndi ég segja að Girl Next Door sé ekki langt frá American Pie, báðar myndirnar eru meinfyndnar en eru jafnframt með aðalpersónum sem eitthvað er varið í og eru báðar frumlegar hvor á sinn hátt. Það kom mér töluvert á óvart hversu gaman ég hafði af þessari mynd og ég efast mjög stórlega um að 2004 muni sjá betri mynd af þessari tegund.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Twisted
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Verulega slappur spennutryllir sem fjallar um lausláta rannsóknarlögreglukonu, en einn daginn byrja fyrrverandi skyndikynni hennar að skjóta upp kollin sem lík. Þessi mynd hefur nokkuð tilkomumikið lið af leikurum: Samuel L. Jackson, Andy Garcia, Ashley Judd meðal annarra. Hér eru samt engin stórvirki í leiklist framkvæmd og langt frá því. Andy Garcia kemst næst því að sýna tilþrif, en söguþráðurinn hér er svo misheppnaður að hann fær engu bjargað. Lítið annað að segja um þessa mynd, nema hvað ég man ekki eftir verri Ashley Judd mynd. Tímasóun og glæpsamleg misnotkun á góðum leikurum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harold and Kumar Go To White Castle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Prýðileg gamanmynd um hasshausana Harold og Kumar sem halda í leiðangur eftir hinu fullkomna munchies á föstudagskvöldi eftir að hafa verið duglegir við jónureykingar. Þessi leiðangur, sem er jafnframt nánast öll atburðarrás myndarinnar, verður fljótt dálítið súrrealískur og má með sanni segja að þessu kvöldi muni þeir seint gleyma. John Cho muna margir eflaust eftir úr American Pie myndunum (annar MILF gaurinn) og tengsl þessarar myndar við þá seríu er meiri, því að Eddie Kay Thomas sem lék hinn ógleymanleg Finch er hér líka í aukahlutverki. Ef horft er á myndina sjálfa minnir hún í raun og veru meira á Wanyes World en American Pie sökum þess hversu súrrealískur söguþráðurinn verður oft á tíðum. Harold og Kumar komast því miður ekki í sama klassa og þær tvær myndir en þeir bæta það að stóru leiti upp með vera nokkuð ferskar klisjulausar persónur. Það hafa verið gerð framhöld af mun verri myndum en þetta og persónulega hefði ég ekkert á móti því að sjá meira af ævintýrum þeirra félaga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Saved!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Saved er mjög vel heppnuð svört kómedía um unglinga sem búa í mjög trúuðu samfélagi. Ein stúlka lendir í aðstæðum sem fá hana til að draga trú sína í efa og sendir þetta höggbylgjur í gegnum vinahópinn með kostlegum afleiðingum. Nærvera Mandy Moore getur skapað nokkrar ranghugmyndir um hvernig mynd Saved er, en hún hefur hingað til mestmegnis verið í formúlukenndum unglingamyndum. Handritið hér er snjallt og myndin vel leikin. Þar má nefna Maculay Culkin í sínu fyrsta hlutverki í langan tíma, hann stendur sig með prýðum en fær reyndar mjög bitastætt hlutverk. Frábær skemmtun sem mun ekki valda mörgum vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Super Size Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Svo mikið hefur verið fjallað um þessa mynd í fjölmiðlum að ég sé ekki ástæðu til þess að lýsa hugmyndinni sem liggur að baki henni hér. Þetta er mjög áhugaverð og þörf heimildarmynd sem sýnir ekki bara það að óhollt er fyrir fólk að neita oft skyndabita á borð við McDonalds, þetta er eitthvað sem allir vita, heldur nákvæmlega hvers konar skaða á heilsufari það getur valdið. Ástæðan fyrir því að McDonalds keðjan er tekin fyrir sérstaklega, fyrir utan það að þetta er líklega stærsta skyndibitakeðja heimsins, er að þeir einbeita sér sérstaklega að markaðssetningu fyrir börn. Aðrar keðjur fá einnig á baukinn

ásamt því sem offituvandamálið er skoðað í víðara samhengi. Þetta er mynd sem öllum er hollt að sjá sem hafa á annað borð einhvern áhuga á því að vita hvað þeir eru að láta ofan í sig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Village
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Village er nýjasta mynd M. Night Shyamalans sem leikstýrði meðal annars The Sixth Sense, Unbreakable og Signs. Það er farinn að myndast nokkurs konar hefð fyrir því að myndir hans innihaldi ótrúlegar fléttur undir lokin og The Village sker sig ekki úr hópnum að því leiti. Ég hélt ég væri búinn að giska á hver fléttan yrði eftir hálftíma af myndinni og reyndist sú ágiskun mín rétt þó ég hafi efast um hana nokkrum sinnum eftir það áður en hið sanna kom í ljós. Ég var hins vegar algerlega óundirbúinn undir raunverulegu fléttuna þegar hún kom í ljós í endann og er langt síðan að mynd hefur komið mér svona mikið á óvart. Burtséð frá öllu tali um fléttur og óvænta enda ráðlegg ég öllum að sjá myndina með opnum hug og eyða ekki of miklu púðri í að geta sér fyrir um endann, því allar líkur eru á því að hann verði ekki sá sem þú heldur. Hér er um að ræða gríðarlega vandaða mynd þar sem góðar leikframmistöður, frábær myndataka, tónlist og andrúmsloft skapa magnaða upplifun. Af leikframmistöðum hér ber sérstaklega að hrósa nýliðanum Bryce Dallas Howard sem er svo góð hér að hugsanlega eru gullnar styttur í nánustu framtíð hennar. Adrien Brody fer líka skemmtilega með hlutverk þorpsfíflsins. Rétt eins og Signs var í raun ekki ''geimverumynd'' ætti fólk heldur ekki að búast við að hér sé um einhvers konar hrollvekju að ræða. Myndir Shyamalans falla ekki vel undir flokkun af þessu tagi. Að mínu mati hefur hann hér sent frá sér þriðju bestu mynd sína (á eftir Sixth Sense og Signs) og hingað til hefur þessi frábæri leikstjóri aldrei slegið vindhögg. Mér finnst forvitnilegt að myndin sé almennt ekki að fá betri dóma en raun ber vitni og held ég að rangar væntingar ásamt því sem fólk leitast við að finna ótrúverðug atriði í tengslum við söguþráðinn spili þar inn í. Fyrir þá sem koma að The Village með opnum huga býður myndin upp á tvær klukkustundir af frábærri bíóupplifun. Þetta er mynd sem verður klárlega á topp 10 listanum mínum fyrir 2004.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Eternal Sunshine of the Spotless Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég minnist þess fyrir þó nokkrum árum síðan að hafa séð brot úr mynd í sjónvarpi þar sem Jim Carrey fór með hlutverk og var gerð áður en hann ''meikaði það'' með Ace Ventura. Ég kann engin deili á þessari mynd en það merkilega var að þetta var drama og Carrey var að ótrúlega góðan leik þarna. Allt frá þessu hef ég haft grun um að hann Jim hafi bara sýnt okkur toppinn á ísjakanum með gamanleik sínum og þessi grunur er að miklu leiti staðfestur af Eternal Sunshine. Það er flóknari spurning en maður skyldi ætla að spyrja um hvað þessi mynd fjallar. Söguþráðurinn gengur lauslega út á það að Carrey fer til fyrirtækis sem býður upp á þá þjónustu að þurrka algerlega út minningar af ákveðinni manneskju, en þjónusta þessi er vinsæl meðal þeirra sem eru nýbúnir að standa í sambandsslitum. Ferlið sjálft upplifir hann sem nokkuð súrrealískan og abstrakt draum þar sem hann upplifir minningar sínar aftur um leið og er verið að þurrka þær út, en á miðri leið kemst hann að því að sumar minningar eru of dýrmætar til að vera án og skiptir um skoðun. Handritshöfundurinn frumlegi Charlie Kaufman skrifaði sögunna og þrátt fyrir að hann hafi áður skrifað Being John Malkovich og Adaptation er þetta að mínu mati hans besta verk hingað til. Það er freistandi að segja líka að þetta sé besta mynd sem Jim Carrey hefur leikið í, en sumar gamanmynda hans eru reyndar alger snilld og líklega ekki mikið síðri - þó þar sé um að ræða mun léttvægari kvikmyndagerð sem hefur ekki eins djúp áhrif á mann og þessi. Eitt sem er kannski mikilvægast að koma á framfæri varðandi þessa mynd er að ÞETTA ER EKKI GAMANMYND. Þetta ætti að vera orðið ljóst af texta mínum hér að framan, í hlénu sást á sumum að þeir hefðu orðið fyrir sárum vonbrigðum og gert þau mistök að álíta þetta vera gamanmynd þar sem Carrey væri í aðalhlutverki. Hins vegar er kannski ekki síður mikilvægt að koma því á framfæri að þetta er einnig ein albesta mynd sem ég hef séð hingað til á þessu ári og mun verða ofarlega á topplista mínum fyrir 2004. Kate Winslet er frábær í hlutverki sínu en Jim Carrey er jafnvel enn betri og sýnir á sér alveg nýja hlið. Ég er tilbúinn að leggja peninga undir það að hann verði búinn að vinna sér inn Óskarsverðlaun innan 5 ára og jafnframt er ekki útilokað að hann verði tilnefndur fyrir þessa á næstu hátíð. Fyrir fólk sem kann að meta áhugaverðar og umhugsunarvekjandi myndir er þetta alger gimsteinn. Þetta er ein frumlegasta og snjallasta ástarsaga sem ég hef nokkurn tíman séð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Secret Window
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Secret Window er spennutryllir um rithöfund (Johnny Depp) sem lendir í því að verða ásóttur af manni sem heldur því fram að hann hafi stolið frá honum smásögu, þ.e. gefið hana út undir sínu nafni. Krefst þessi dularfulli maður að þetta verði leiðrétt, þ.e. rithöfundurinn fái söguna gefna út aftur undir nafni rétts höfundar, en um þennan meinta ritstuld eru þeir ekki sammála. Atburðarásin stigmagnast jafnt og þétt og verður myndin nokkuð spennandi á köflum. Það er erfitt fyrir mig að fara út í það sem ég tel vera langsamlega stærsta galla þessarar myndar án þess að eyðileggja endinn fyrir þeim sem ekki hafa séð hana. Ég læt nægja að nefna myndir eins og Sixth Sense, Fight Club og A Beautiful Mind. Þetta hefur verið gert áður og það er kominn tíma á að gefa þessum ''plot-twist'' góða hvíld. Það er synd og skömm að handritið skuli ekki vera frumlegra því hér er allt annað fyrir hendi til þess að skapa eftirminnilega mynd. Johnny Depp er frábær í hlutverki sínu og John Turturro litlu síðri. Áðurnefndur galli er samt nógu stór til þess að draga myndina verulega niður í mínum huga og er þetta því meðal stjörnugjöf fyrir meðal mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
EuroTrip
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eurotrip er unglingagamanmynd í svipuðum anda og American Pie, en hún fjallar um fjóra vini sem fara saman í ''bakpokaferðalag'' um Evrópu beint eftir útskrift úr menntaskóla. Hver hefur sínar ástæður fyrir því að vilja fara, einn heldur að Evrópa sé kynlífsparadís, aðrir vilja skoða sögufræga staði og aðalpersónan vill fara til Berlínar til að hitta Internet pennavin sinn sem vill svo til að er ljóshærð skutla á hans aldri. Það þarf engan snilling til að sjá að hormónar spila hér mikið inn í. Margar skondnar uppákomur verða á ferðum þeirra, en því miður nær húmorinn aldrei neinum hæðum sem nálgast hápunkta American Pie myndanna. Eins og áður sagði er Eurotrip samt lík þeim í anda, það kemur fljótt í ljós að áhorfendur geta átt von á töluverðri nekt og öðrum ljósbláum uppákomum. Leikararnir standa sig ágætlega, reyndar eru flestir þeirra nokkuð óþekktir (Michelle Trachtenberg þekkti ég reyndar úr Buffy sjónvarpsþáttunum) en nokkrar þekktar persónur eiga lítil aukahlutverk svo sem Matt Damon og Vinnie Jones. Í hnotskurn er hér um ágæta skemmtun að ræða en enga snilld samt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Day After Tomorrow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég ætla ekki að neita því að The Day After Tomorrow sé (að mestu leiti) nokkuð góð afþreying, en eftir að ég labbaði út af henni hvarflaði áhugaverð spurning að mér: Ef allar tæknibrellurnar væru teknar burtu, hvað sæti maður þá eftir með? Sögu af hópi persóna, sem eru flestar frekar flatar og manni er þar af leiðandi sama um, sem reyna að lifa af náttúruhamfarir. Rétt eins og Independance Day og Godzilla hefðu ekki verið neitt án tæknibrellna gildir það sama um þessa mynd. Það er ekki þar með sagt að þetta sé slæm mynd yfir heildina, en fólk þarf að gera sér grein fyrir því fyrirfram að góðu hlutirnir við þessa mynd eru nánast allir á sjónrænu og hljóðrænu plani - frekar en á vitsmunalegu. Myndin vinnur sér inn prik fyrir að varpa ljósi á mikilvægt málefni sem flestar þjóðir eru ekki að taka nærri því nógu alvarlega í dag: gróðurhúsaáhrif og mengun. Ég hef samt einhvern vegin á tilfinningunni að það muni ekki takast að prenta þann boðskap djúpt í huga áhorfenda með þessari mynd. Fyrir flesta eru tæknibrellurnar virði miðaverðsins, en ég hefði samt sem áður viljað hafa séð betri sögu og trúverðugri atburðarás.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shrek 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Við hittum aftur gengið úr Shrek rétt eftir að brúðkaupsferð Shreks og Fionu er að ljúka. Ekki líður langur tími þar til ný ævintýri fara að gerast, skötuhjúunum er boðið til foreldra Fionu (sem eru konungsfólk) og þau er ekki alveg nógu sátt við nýja tengdasoninn. Asninn góðkunni er þeim innan handar og er uppspretta besta húmorsins sem er hér að finna, rétt eins og fyrri myndinni. Ein ný persóna sem er einnig vert að nefna er köttur nokkur sem er ljáð rödd Antonio Banderas - þetta er skemmtilegur karakter sem stelur nokkrum senum. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hvernig þessi mynd stendur sig í samanburði við fyrri myndina, og svarið er að hún hefur svipaðan tón og yfirbragð en kemur þó með nógu mikið af nýjum hlutum til borðsins til að forðast endurtekningar og vera fersk. Shrek 2 er ekki síðri en forveri sinn og sennilega jafnvel aðeins betri. Það er lítill vafi á því að við munum fá að sjá Shrek 3 á næstu árum og vona ég að gæði þessara tveggja mynda haldi sér áfram, jafnvel þó að það hafi ekki verið tilfellið í neinum framhaldsmyndum sem Mike Myers hefur komið nálægt áður. Aðstandendur Shrek 2 eru greinilega þeir bestu í bransanum í að skapa húmor sem er fyndinn fyrir börn jafn sem fullorðna, það er erfitt að ímynda sér skemmtilegri fjölskyldumynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mean Girls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Á sextánda aldursári sínu byrjar stúlka nokkur (Lindsay Lohan) sem hefur hingað til eingöngu fengið heimakennslu í menntaskóla. Hingað til hafði hún búið með foreldrum sínum í Afríku þar sem þeir voru að sinna rannsóknarstörfum. Í skólanum uppgötvar hún annars konar frumskóg og tekst að lokum að vingast við bæði vinsælustu og óvinsælustu krakkana í skólanum. Þetta leiðir til alls konar vandamála þar sem hún er ekki eins illkvittin og grimm og vinsælu stelpurnar en verður þó háð þeirra lífstíl. Hún lendir í miðjunni á stríði milli vinsælustu stelpnanna og nördanna og lendir báðum megin víglínunnar. Þema sögunnar er meira eða minna að uppgötva sjálfan sig og þroskast. Inn í þetta er hent ágætis húmor á köflum og útkoman er þokkalegasta unglingamynd. Sjálfur hefði ég ekki valið þessa mynd til að sjá og það var ljóst frá upphafi að hún hafði takmarkaða möguleika á að vinna sér inn mörg prik frá mér. Markhópurinn hérna eru stúlkur innan við tvítugt og ég held að þessum hóp valdi Mean Girls engum vonbrigðum. Fyrir mig var þetta hins vegar þolanleg afþreying - ekkert meira.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gigli
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það þarf greinilega merkari mann en mig til þess að skilja hvers vegna í ósköpunum þessi mynd var tekin svona illilega í görnina af flestum gagnrýnendum, en þetta olli því að myndin fékk nánast enga aðsókn í bíó og telst nú sem eitt mesta flopp kvikmyndasögunnar. Ég hef lesið endalausa hrúgu af virkilega úldinni gagnrýni um Gigli og freistaðist því til að kynna mér sjálfur hvað málið væri, og var undirbúinn fyrir næstu Battlefield Earth. Þegar fimm mínútur voru búnar af myndinni fór ég að gera mér grein fyrir því að hérna væri maðkur í mysunni. Hvort sem ástæðan fyrir þessum ótrúlega neikvæðu viðbrögðum sem myndin fékk er vegna þess að fólk er búið að fá nóg af Ben-Lo parinu í fjölmiðlum eða einhverju öðru veit ég ekki en eitt get ég fullyrt: þessi viðbrögð er ekki í NEINU samræmi við gæði myndarinnar. Ég held því ekki fram að þessi mynd eigi skilið Óskarsverðlaun, ég held því ekki einu sinni fram að hún sé mikið fyrir ofan meðallag, en ég held því hinsvegar óhikandi fram að Gigli sé ekki minna en meðalmynd og ágætis leið til þess að verja rólegri kvöldstund. Það eru nokkur vandamál sem hrjá myndina, fyrst og fremst það að Ben og J-Lo eru langt frá því að vera trúverðug sem harðskeittir leigumorðingjar. Það eru vissulega augnablik hérna sem hitta ekki alveg til marks, en það sem klúðrast er í flestum tilfellum nokkuð metnaðarfullt og öðruvísi, og ég kýs það fremur en venjulegar generískar Hollywood myndir hvenær sem er. Ef þið ætlið að hlusta á einhverja gagnrýnendur í tengslum við þessa mynd, hlustið þá á Rogert Ebert eða James Berardinelli, því umfjallanir þeirra eru þær einu sem ég hef rekist á sem dæma myndina eftir verðleikum. Ekki falla fyrir því rugli að þetta sé eitthvað sem beri að forðast eins og skæða matareitrun, það er alls ekki tilfellið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Matchstick Men
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Matchstick Men er nokkuð óvenjuleg fyrir mynd sem er leikstýrð af Ridley Scott, en veldur samt alls ekki vonbrigðum. Nicholas Cage fer hér með hlutverk Roys, svikahrapps (eða ''con artist'' eins og hann kallar sig) sem þjáist af áráttu/þráhyggju röskun. Hann býr einn og hefur nánast engin raunveruleg samskipti við aðra en félaga sinn (Sam Rockwell), en saman framkvæma þeir alls kyns svindl með því að blekkja saklaust fólk. Dag einn kemur í ljós að Roy á dóttur sem hann vissi ekki af frá fyrra hjónabandi. Þegar þessi 14 ára stúlka kemur inn í líf hans veldur það ýmsum flækjum og allir vanar Roys sem hann vill ríghalda í víkja fyrir þeirri óreiðu sem fylgir unglingum. Á sama tíma vaknar eitthvað mannlegt innra með honum og líf hans tekur jákvæðum breytingum. Þar sem atvinna Roys er frekar skuggaleg setur það ákveðinn lit á samband þeirra, jákvæðan í fyrstu en í þessu umhverfi er engum hægt að treysta og ekkert er sem sýnist. Það verður að segjast eins og er að hér eru allar leikframmistöður fyrsta flokks. Nicholas Cage er ótrúlega góður í hlutverki sýni og nær að gera geðsjúkdóm persónu sinnar trúverðug skil ásamt því að spila akkúrat passlegum húmor inn í frammistöðu sína. Sam Rockwell er litlu síðri sem félagi hans. Eins og áður sagði er Matchstick Men nokkuð óvenjuleg mynd sem er í senn glæpamynd, gamanmynd og drama. Þeir sem nálgast hana með opnum huga munu komast að því að hér er um alveg hreint prýðilega kvikmynd að ræða.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þær sjóræningjamyndir sem gerðar hafa verið hingað til hafa mistekst oftar en ekki, en sem betur fer er þetta ekki tilfellið með Pirates of the Caribbean. Hér er um að ræða frábæra ævintýramynd með góðum söguþræði, fyndnum húmor og óborganlegri frammistöðu Johnny Depp sem skrautlegs sjóræningja. Myndir sem Jerry Bruckheimer hefur áður framleidd hafa margar verið frekar þunnur þrettándi, góðar fyrir augun en algerlega innihaldslausar. Þökk sé góðri leikstjórn og góðu handriti þá á þetta við hér og vonandi markar þetta kaflaskil hjá Bruckheimer (einhvern vegin grunar mig þó að ég sé að vonast eftir of miklu). Það er orðið ljóst að leikstjórinn Gore Verbinski, sem síðast leikstýrði The Ring, er náungi sem vert er að fylgjast með. Eins og í örðum Bruckheimer myndum eru sjónrænar brellur og öll tæknileg atriði fyrsta flokks, en það eru samt alltaf persónunar sem er í fókus hér og brellurnar þjóna sögunni frekar en að draga athygli frá henni. Eins og áður sagði er Johnny Depp stórkostlegur í hlutverki sínu hér. Hann hefur sagt að Keith Richards hafi verið fyrirmynd hans að því hvernig hann nálgaðist hlutverkið, en með því að krydda hlutverk sitt á svona óvenjulegan hátt miðað við efnivið myndarinnar skapar hann afar sérstaka og bráðskemmtilega persónu. Nánast eina umkvörtunarefni mitt við myndina er lengd hennar, en það er reyndar ekki augljóst hvernig hefði verið hægt að stytta hana. Hér er semsagt um að ræða fyrsta flokks sumarmynd og frábæra skemmtun fyrir flesta aldurshópa.




Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Legally Blonde 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Legally Blonde 2 er því miður nokkuð slappari en fyrsta myndin og er helst því um að kenna að söguþráðurinn er nokkuð langsóttur (jafnvel fyrir þessa mynd) og aðalpersónan, Elle (Reese Witherspoon), er dálítið flatari karakter hér. Myndin er engan vegin handónýt, en því er samt ekki að leyna að hér um að ræða mynd sem nánast eingöngu stelpum getur þótt skemmtileg og saklausum mökum þeirra af gagnstæða kyninu sem kunna að vera dregnir með mun ekki finnast meira en þolanleg. Ég gæti ef til vill verið neikvæðari út í þessa mynd, en undirtónninn í báðum myndunum er að efla trú ungra kvenna á sjálfum sér þannig að fólkið sem gerði myndina er a.m.k. með hjartað á réttum stað. Ekki er ólíklegt að þriðja myndin muni líta dagsins ljós fyrr eða síðar og er hér einn nokkuð áhugaverður möguleiki gefin í skyn í tengslum við hvað sú mynd gæti fjallað um. Ég vona að sú mynd verði betri en þessi.



Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The In-Laws
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The In-Laws er stórskemmtileg gamanmynd um tvo tengdafeður sem hittast fyrst skömmu fyrir brúðkaup barna sinna. Faðir brúðarinnar (Albert Brooks) er skrifstofublók með ótal fóbíur og er til dæmis dauðhræddur við að ferðast með flugvél. Faðir brúðgumans (Michael Douglas) er aftur á móti njósnari fyrir CIA og má auðvitað ekki segja frá því, en ekki er langt þar til það setur veruleg áhrif á atburðarásina. Saman flækjast tengdapabbarnir tveir inn í alþjóðleg glæpamál og samspil þeirra Brooks og Douglas verður stórkostlega fyndið. Handritið er reyndar ekkert frábært og hér hefði úrkoman líklega orðið miðlungs gamanmynd ef ekki værir fyrir snillinginn Albert Brooks, sem leikur persónu sínu svo gjörsamlega án snefils af því að hann sé að leika í gamanmynd og tekst vel til. David Suchet (sem lék Hercule Poirot í sjónvarpinu) fer líka með stórfyndið hlutverk sem glæpaforingi sem er vægast sagt óviss um kynhneigð sína. The In-Laws er sannarlega góð skemmtun og mæli ég óhikað með henni fyrir þá sem eru í leit að gamanmynd sem stendur undir nafni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Terminator 3: Rise of the Machines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að gera aðra Terminator mynd án James Cameron virkaði á mig sem frekar slæm hugmynd og ég var frá upphafi afar skeptískur á þessa mynd. Svo virtist sem ráðist hefði verið í framleiðslu á henni vegna þess að menn sáu gróðatækifæri auk þess sem starfsferill Arnold Schwarzeneggers þurfti sterka vítamínsprautu. Burtséð frá þessu er raunin hins vegar sú að Terminator 3 stendur ekki aðeins undir því að verða ekki fyrri myndunum til skammar, heldur er hún að mínu mati betri en fyrsta myndin og stendur T2 alls ekki langt að baki. Þrátt fyrir það að Arnold sé nánast eini leikarinn sem snýr aftur úr fyrri myndunum tekst vel að taka upp þráðinn eftir að T2 endaði. Hætt var við að fá Edward Furlong til þess að fara áfram með hlutverk John Connors vegna fíkniefnavandamála hans, en mér fannst Furlong reyndar aldrei vera mikill leikari og Nick Stahl sem fer hér með hlutverkið gerir það a.m.k. ekki síður en Furlong hefði gert. Sumir kunna að kvarta yfir því að Linda Hamilton snúi ekki aftur, en staðreyndin er sú að John Connor er hér á þrítugsaldri og það býður varla upp á bitastætt hlutverk fyrir móður hans, þetta á eftir allt að vera frækinn herforingi en ekki mömmustrákur. Í þetta skiptið er vondi tortímandinn í gervi ljóshærðrar fegurðardísar og hefur sömu eiginleika T-1000 tortímandans úr T2 og marga nýja í viðbót. Í stuttu máli hefur þessi mynd allt fram að færa sem skiptir máli: gott handrit, frábæran hasar og flottar brellur. Leikstjóranum Jonathan Mostow hefur ekki aðeins tekist að fylla í skó Camerons, heldur er ekkert endilega gefið að Cameron hefði sjálfur getað gert framhald eins gott og þetta. Tel ekki líkur á því að við munum sjá betri hasarmynd á þessu ári.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Charlie's Angels: Full Throttle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Englarnir eru komnir aftur og í þetta skiptið eru hasarinn meiri, tæknibrellurnar betri og þekktir leikarar sem koma í fram í aukahlutverkum frægari. Þetta kann að hljóma lofandi, en ekkert af þessum hlutum einum og sér geta skapað skemmtilega kvikmynd. Til að byrja með væri ágætt að hafa söguþráð sem virkar ekki eins og hann hafi verið krotaður niður á kokteilservíettu á djamminu hjá stöllunum þremur. Velgengni fyrstu myndarinnar í miðasölunni hefur greinilega stigið þeim til höfuðs, það skín svo mikið í gegn hvað þeim finnst þær vera æðislegar að maður fær velgju. Leikstjórinn McG er á hraðri leið með að verða næsti Michael Bay, hver taka í myndinni endist aldrei lengur en í örfáar sekúndur, tónlist er algerlega ofnotuð og útkoman er einhvers konar ofunnin kemísk froða sem enginn myndi rugla við alvöru kvikmynd. Ef þér fannst eðlisfræðilögmálum vera ofboðið í fyrri myndinni þá hefurðu ekki séð neitt ennþá, ég get ekki ímyndað mér annað en fólk þurfi að vera vel skakkt til þess að sjá ekkert athugavert við það að persóna Demi Moore geti flogið um eins og Superman. Ég gengst fúslega við því að hafa gefið fyrstu myndinni þrjár stjörnur, hún fannst mér skemmtileg og fersk,

en þessi er að mínu mati töluvert slappari.




Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Phone Booth
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Miðað við kvikmynd sem gerist öll á einni breiðgötu og þar af að mestu til við einn símaklefa er Phone Booth mjög vel heppnuð. Myndin fjallar um náunga sem er svarar fyrir tilviljun (?) í almenningssíma og lendir þar á leyniskyttu sem skipar honum að hlýta skipunum sínum í einu og öllu eða verða skotinn. Fyrst þegar ég frétti um þessa mynd efaðist ég töluvert um að þetta væri hugmynd sem gæti haldið uppi rúmlega 90 mínútna mynd, en viti menn, leikstjóranum mistæka Joel Schumacher tekst taka rétt á efninu og gerir þetta að prýðis afþreyingu. Ég hef nú ekki talið mig í aðdáendahóp Colin Farrels hingað til (og geri það reyndar ekki enn), en áður en ég sá Phone Booth fannst mér lítið liggja fyrir sem sýndi að hann hefði mikla leikhæfileika. Það er gefið að þetta er ekki Óskarsverðlauna frammistaða, en kannski ekki eins langt frá því og maður myndi ætla. Veikasti hlekkurinn í söguþræðinum er hver tilgangur leyniskyttunnar reynist á endanum vera, en til að vera sanngjarn leyfir þetta myndinni að ná dramatískum hæðum sem annars hefðu ekki verið mögulegar. Hér er semsagt um prýðis spennutrylli að ræða sem ég er óhræddur að mæla með.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dumb and Dumberer: When Harry Met Lloyd
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eins og svo margir aðrir var ég töluverður aðdáandi Dumb & Dumber þegar var frumsýnd árið 1994, enda skemmtileg gamanmynd á ferðinni með fyndnum leikurum (þrátt fyrir að húmorinn væri ekki alltaf á menningarlegu plani). Níu árum seinna fáum við þetta framhald, Dumb & Dumberer, og það leikur enginn vafi á því að biðin var langt í frá þess virði. Myndin fjallar um þá félaga Harry og Lloyd á yngri árum, en þeir lenda saman í bekk fyrir hálfþroskahefta og komast á snoðir um samsæri skólastjórans til þess að féfletta skólann ásamt því auðvitað að taka upp á ýmsum uppátækjum. Félagarnir tveir eru hér vissulega heimskari en í fyrri myndinni, enda yngri, en mörgum mun þykja um of. Fyndnir brandarar í þessari rúmlega 80 mínútna mynd eru ca. 2-3 og eru þessi örfáu stykki langt í frá nóg til þess að réttlæta þessa bíóferð. Náunginn sem leikur Harry (sem Jim Carrey lék í fyrri myndinni) er það eina góða við þessa mynd, en hann nær töktum Carrey's ansi vel án þess að koma með beina eftirhermu. Í stuttu máli ráðlegg ég fólki frekar að horfa á fyrstu myndina aftur, þessi er hroðaleg mistök sem aldrei hefði átt að framleiða.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Old School
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyrstu viðbrögð mín við Old School voru að hér væri á ferðinni enn ein bull-gamanmyndin þar sem allur húmor gengi út líkamsvessa, greddu og hluti á svipuðu plani. Að einhverju leiti er þetta reyndar sanngjörn lýsing, en ólíkt mikið af svipuðum myndum sem hafa komið út undanfarið þá er þessi virkilega fyndin. Myndin fjallar um þrjá vini sem álpast út í það að stofna háskólabræðrafélag og þarf ekki að hafa mörg orð um uppákomurnar sem skapast við það. Aðalleikararnir þrír halda ágætlega uppi myndinni, Luke Wilson er þessi jarðbundna týpa, Vince Vaughn er nánast sama persóna og í Swingers og Will Ferrell, sem mér hefur aldrei þótt sérstaklega fyndinn, fer líka á kostum hér. Á tímum þar sem það er langt frá því sjálfgefið að gamanmyndir séu fyndnar er Old School velkomin viðbót við kvikmyndaflóruna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Identity er mynd sem kemur nokkuð á óvart. Í byrjun virðist hún vera vel gerður spennutryllir með ráðgátuívafi, en svo að gömul tugga sé notuð þá er ''ekki allt sem sýnist'' og hún endar með að koma nokkuð á óvart. Ég var reyndar búinn að fá góða hugmynd um hvert stefndi rétt fyrir hlé, en útfærslan á hugmyndinni er svo góð að það spillti ekki fyrir. Leikararnir standa sig allir frábærlega með John Cusack og Ray Liotta í farabroddi, en leikstjórn James Mangold er sennilega eitt það besta við myndina. Það er gaman að sjá kvikmynd sem er eins frumleg, spennandi og á köflum hrollvekjandi og Identity. Miðað við hversu vandmeðfarin hugmynd það er sem handritið byggir á heppnast þetta allt ótrúlega vel og öll atburðarásin þolir nánari skoðun eftirá án þess að detta í sundur, sem er orðið ansi sjaldgæft þegar um myndir af þessari gerð er að ræða. Það besta sem ég get sagt um þessa er sennilega að ég hef sjaldan séð myndir sem eru jafn spennandi og hrollvekjandi en láta mann á sama tíma virkilega hugsa út í atburðarásina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Matrix Reloaded
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að fylgja fyrstu Matrix myndinni eftir er ekki lítið mál, bæði vegna

þess að fyrsta myndin var frábærlega vel gerð í alla staði og einnig

vegna þess að væntingar fyrir framhaldið eru gríðarlega háar. Það er

ánægjulegt að sjá að þetta verkefni er ekki ofvaxið Wachowski bræðrunum.

Í Matrix Reloaded heldur saga Neo og félaga áfram, vélarnar eru að grafa

sig niður í einu mennsku borgina (Zion) og munu ná áfangastað sínum innan

nokkurra klukkustunda og útrýma þar með öllum frjálsum mönnum sem til eru.

Það sem fylgir er rúmlega tveggja klukkustunda orgía af hasar og tæknibrellum en

aftur á móti býr þessi mynd ekki yfir minni heimspekilegri dýpt (ef svo má að orði komast) en sú fyrri, eins

og margir gagnrýnendur hafa viljað halda fram.

Margar nýjar persónur eru kynntar til sögunnar og einna minnistæðastar eru tvíburarnir, en þeir hafa vægast sagt sérstakan

hæfileika. Það þarf vart að taka fram að yfir heildina eru tæknibrellurnar ótrúlega flottar,

en það er ein athyglisverð utantekning á því. Í atriði þar sem Neo berst við

hundruðir eintaka af Agent Smith (flestir hafa séð brot úr þessu í trailernum) eru

tölvugerðar senur sem virka álíka sannfærandi og tölvuleikur. Ég hef líka pínulítið

út á slagsmálin að setja, þar sem mér fannst einhvern veginn vanta höggþunga. Á stöku

stað líta slagsmálin meira út eins og einhvers konar dans. Neikvæðar hliðar á Matrix Reloaded

er þó fáar og smáar. Hér er um að ræða framhald sem ætti alls ekki að valda vonbrigðum. Myndin er kannski

ekki alveg eins áhrifarík og forverinn, sökum þess að hann kynnti til sögunnar mikið af nýjum effektum sem

eru líka notaðir hér. Nú hefst 6 mánaða bið eftir Matrix Revolutions.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Darkness Falls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Darkness Falls er verulega slöpp hrollvekja um vofu sem hefur þann tilgang að hefna gamalla synda sem áttu sér stað í smábæ í Bandaríkjunum. Upphafsatriðið er spennandi og byggir upp nokkrar væntingar, en strax og vofan sjálf sést er þetta bara búið. Hún er líkari Tom Cruise í grímubúningnum úr Eyes Wide Shut heldur en illmenni í hryllingsmynd. Eins og þetta sé ekki nógu slæmt þá er myndin alveg hræðilega illa skrifuð, leikframmistöður eru ósannfærandi (Emma Caulfield úr Buffy er sú eina sem heldur velli) og atburðarásin órökrétt. Ég er vanur því að sjá sem flestar hrollvekjur sem koma út og geri mun lægri kröfur um áðurnefnda hluti til svona kvikmynda, en þetta er svo sannarlega ein sem ég vildi að ég hefði sleppt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
How to Lose a Guy in 10 Days
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þetta er ágætlega skemmtileg og frekar vel heppnuð rómantísk gamanmynd. Dálkahöfundur fyrir tískutímarit gerir tilraun vegna greinar sem hún er að skrifa og felst tilraunin í því að kynnast náunga og hrekja hann síðan í burtu á 10 dögum með því að gera allt sem karlmönnum finnst óþolandi. Náunginn sem hún lendir á er aftur á móti að reyna að vinna veðmál um hvort hann geti fengið hvaða konu sem er til að verða ástfangna af sér á álíka löngum tíma. Þetta hefði hæglega getað orðið frekar slöpp mynd, en Kate Hudson bjargar henni fyrir horn með skemmtilegri leikframmistöðu. Niðurstaðan er því frambærileg gamanmynd sem er tilvalin fyrir pör.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
X-Men 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var mjög hrifinn af X-Men á sínum tíma og fannst sérstaklega áberandi hvernig myndin var snjöll og vel skrifuð, ólíkt flestum öðrum ofurhetjumyndum. Byrjunaratriðið þar sem Magneto skilur við fjölskylduna sína í útrýmingarbúðunum setti tóninn fyrir öðruvísi ofurhetjumynd og myndin í heild sinni virkaði mannlegri og ekki eins fjarstæðukennd og flestar myndir úr þessum geira gera. Það verður seint hægt að kalla þetta framhald vonbrigði, en það er enga að síður staðreynd að nokkuð af þessum áðurnefndu kostum hafa hér vikið fyrir frekar heilalausum hasar. Menn hafa eflaust skiptar skoðanir á því hvort þetta er kostur eða galli, en ég hefði persónulega viljað hafa þetta á hinn veginn. Flestar persónurnar úr fyrri myndinni snúa hér aftur og við bætast nokkrar, þar ber helst að nefna Nightcrawler sem gjörsamlega stelur senunni í byrjun með einu rosalegasta atriði sem kemur fyrir í myndinni. Að sjálfsögðu eru allar tæknibrellur með besta móti en á köflum liggur við að þær séu ofnotaðar. Þrátt fyrir að X2 sé frábær afþreying veldur það dálitlum vonbrigðum að búið sé að fórna mikið af vitsmunalegri dýpt fyrir hasar, því að ólíkt fyrri myndinni skilur þessi ekkert eftir sig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dreamcatcher
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Dreamcatcher byggir á skáldsögu Stephen King um fjóra æskuvini sem lenda í ótrúlegum atburðum í einni af sínum árlegu veiðiferðum í skógum Maine fylkis að vetrarlagi. Án þess að rekja söguþráðinn má segja að hér komi við sögu yfirnáttúrleg skilningarvit, banvænar geimverur og bandaríski herinn - þetta ætti að gefa fólk smá hugmynd um hvað er hér á ferðinni. Handritið fylgir bókinni nokkuð þétt eftir, en sleppir þó ýmsum hlutum sem gætu gert myndina torskildari fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina. Stærsti gallinn við myndina er sá sami og í bókinni, atburðarásin nær í upphafi góðum skriðþunga en í seinni hálfleik missir sagan töluverðan damp. Þetta, ásamt vafasamri leikframmistöðu frá Donnie Wahlberg (sem var í New Kids on the Block ef mér skjátlast ekki) í lykilhlutverki, dregur Dreamcatcher töluvert niður sem kvikmynd. Það hefur gengið misvel að kvikmynda sögur Stephen King, stundum verður útkoman að meistaraverki eins og Shawshank Redemption og stundum að þriðja flokks hrollvekju. Dreamcatcher liggur þarna einhvers staðar mitt á milli.



Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Nói albínói
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það leikur enginn vafi á því að Nói Albínói er virkilega vel gerð og skemmtileg mynd. Hún hefði mögulega getað orðið besta íslenska kvikmyndin hingað til að mínu mati ef örfáir vankantar væru ekki til staðar í henni. En fyrst að því jákvæða. Hvað varðar leikframmistöður, útlit og hljóð myndarinnar fær þessi mynd fullt hús. Allir leikarar virðast smellpassa persónum sínum og er afrek leikhópsins ekki síðra ef haft er í huga að hér er um að ræða nokkra leikara með frekar takmarkaða reynslu af kvikmyndaleik, að ég hygg. Myndin er virkilega vel skrifuð og ég verð að gefa handritshöfundi sérstakt klapp á bakið fyrir hæfileika sína við að skrifa alveg hreint frábær samtöl og að skapa sérvitrar persónur. Þrátt fyrir að hér sé ekki um gamanmynd að ræða er nóg af húmor að finna og yfir heildina tel ég þetta vera með fyndnustu íslensku myndum sem ég hef séð. En þrátt fyrir að handritið eigi hrós skilið liggur þar líka stærsti galli myndarinnar. Það vantar að mínu mati að aðalpersónan Nói breytist eitthvað eða þróist (þ.e.a.s. hann hefur ekkert character arc, eða ''persónuboga'' ef menn vilja halda trú við móðurmálið). Flestar ef ekki allar breytingar sem persónan verður fyrir út skeið myndarinnar koma til vegna utanaðkomandi áhrifa og þá sérstaklega vegna þess sem gerist í endann, sem umdeilanlega mætti kalla ''deux ex machina''. Kannski að ég noti þetta tækifæri til að skora á alla sem koma nálægt því að skrifa íslenskar kvikmyndir eða sjónvarpsþætti að lesa bókina Story eftir Robert McKee (já, þetta er samí náunginn og kemur fyrir í myndinni Adaptation, þar sem hann er reyndar sýndur í verra ljósi en hann á skilið). Mér fannst líka bláendinn, þ.e. allra síðasta atriðið, jaðra við því að vera yfirlætislegt sem er virkileg synd því fram að því hafði myndin verið skemmtilega látlaus og jarðbundin. Ég tek samt fram að þrátt fyrir að ég sé að nota hlutfallslega meira af þessari umfjöllun í að útlista galla myndarinnar en kosti, þá vega kostirnir upp á móti ókostunum og vel það. Ég fann greinilega fyrir því að allur bíósalurinn að mér meðtöldum var hugfanginn af myndinni. Nói Albínói er frábær íslensk kvikmynd sem er þess sannarlega virði að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Chicago
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Chicago er mjög vönduð og flott kvikmynd, um það er engin spurning. Mikið hefur verið lagt í kvikmyndaútgáfuna af þessu gamaldags söngleik og er myndin vel heppnuð á alla kanta. Richard Gere, Rene Zellweger og Catherine Zeta-Jones ásamt fleiri aukaleikurum syngja og dansa af miklum krafti og er greinilegt að mikil æfing liggur að baki frammistöðum þeirra. Að þurfa að gefa þessari mynd einkunn er dálítið snúið fyrir mig því þó að ég þekki gæðamynd þegar ég sé hana þýðir það ekki að mér finnist hún skemmtileg. Ég er ekki mikið fyrir söngleiki nema þeir séu í rokkaðri kantinum (The Wall kemur til hugar) og það verður því aldrei sagt að Chigaco höfði sérstaklega til mín. Ef litið er til allra Óskarstilnefninganna sem hún hefur fengið mætti halda að hér væri um eina af bestu myndum allra tíma að ræða, en það er langt frá því. Tilnefningar fyrir búninga og hljóð eru skiljanlegar, en ég er frekar undrandi á öllum hinum. Þeir sem hafa gaman af söngleikjum af þessari gerð munu hafa elska Chicago en ég myndi ekki kalla þetta neitt skylduáhorf fyrir aðra.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
About Schmidt
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

About Schmidt segir frá manni sem er að fara á eftirlaun og lendir í tilvistarkreppu þar sem honum finnst ekki að hann hafi gert neitt merkilegt við líf sitt. Um þessar mundir er dóttir hans sem býr hinum megin á meginlandinu um það bil að fara að giftast hálf vafasömum náunga og Schmidt leggur í ferðalag, í raun eins konar ''road-trip'', meðal annars til að fá hana til að hætta við brúðkaupið. Áfgangastaðir á leið hans eru nokkrir og rekst hann á skondnar persónur á leiðinni. Gamli refurinn Jack Nicholson heldur myndinni á floti sem titlpersónan og er mjög traustur. Þetta er ekki besta leikframmistaða hans hingað til, en á heima ofarlega á þeim lista. Myndin er vönduð og skemmtileg í alla staði og er byggð á vel skrifuðu og raunsæu handriti. Gott tækifæri til að sjá auðmjúkari hlið af Nicholson en við höfum áður séð og bara ansi traust mynd á flesta kanta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
One Hour Photo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

One Hour Photo er mynd sem fjallar um líf aðalpersónunnar frekar en nokkuð annað, en hann er einmanna náungi að nafni Sy sem vinnur við að framkalla myndir. Robin Williams fer listarlega vel með hlutverk hans og sýnir skuggalegu hliðar sínar sem leikara betur en til dæmis í Insomnia. Það er hvorki rétt að segja að hann leiki hér illmenni eða geðsjúkling, en persóna hans fellur stundum nálægt því. Það er ekki hægt að gefa neina greinargóða lýsingu á sögurþræðinum í umfjöllun af þessari lengd, en það er skemmst frá því að segja að hér er um að ræða vandaða og öðruvísi mynd þrátt fyrir að hún muni eflaust ekki falla vel í kramið hjá öllum. Leikframmistaða Williams er samt nóg ein og sér til að gera þessa mynd þess virði að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Ring er virkilega vel heppnuð hrollvekja og jafnframt ein sú besta sem hefur komið út um nokkurt skeið. Hún þjáist ekki af helstu göllum sem einkenna venjulega hrollvekjur, svo sem fáránlegri hegðun persóna og skorti á rökréttri framvindu atburða. Reyndar er margt hérna sem er aldrei fyllilega útskýrt, en það er gaman að sjá hryllingsmynd sem gerir of miklar kröfur til vitsmuna áhorfenda frekar en of litlar eins og er venjulega tilfellið. Söguþráðurinn fjallar í stuttu máli um blaðamann sem fréttir af dularfullri myndbandsspólu, en allir sem horfa á þessa meintu spólu deyja á dularfullan hátt nákvæmlega 7 dögum síðar. Myndin byggir frekar sparlega á öllum hrollvekjuklisjunum sem við höfum séð svo oft áður og leitast frekar við að halda uppi drungafullu andrúmslofti meiri hlutann af tímanum frekar en að vera með þessa dæmigerðu kattar-og-músar eltingaleiki og bregðuatriði. Atriði sem valda virkilegri skelfingu eru ekki mjög mörg, en þau svínvirka þegar þau koma fyrir. Þeir vankantar sem eru í handritinu duga ekki til þess að draga myndina ekki niður og það mætti jafnvel færa rök fyrir því að hrollvekju gildi hennar sé meira fyrir það að aldrei er nákvæmlega útskýrt allt á bakvið alla atburði. Hrollvekjufíklar geta gert sér mjög glaðan dag með þessari, en viðkvæmir ættu að leita annað.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Trek: Nemesis
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Nýjasta Star Trek kvikmyndin er þá komin og verður þetta jafnframt sú síðasta þar sem áhöfnin úr Next Generation verður í aðalhlutverki. Ég er ekki Trek aðdáandi þannig að ég get ekki sagt um hversu trú þessi mynd er anda Star Trek, en það virðast vera skiptar skoðanir um það og margir segja að þetta sé bara hasarmynd frekar en Star Trek mynd. Burtséð frá því er yfirleitt alltaf gaman af þessum myndum (frekar en þáttunum...) og Nemesis er engin undantekning. Hún kemst reyndar ekki nálægt First Contact, sem er eftirlætis myndin mín í þessari seríu, en er engu að síður nokkuð traust. Illmennið er vel heppnað, nokkuð dularfullt og það sem heldur manni mikið til við efnið er að komast að því hver hann er og hvað hann vill. Líkt og Phantom Menace er aðeins dottið í þá gryfju að láta stjórnmál spila töluvert inn í atburðarásina, en hver sá sem heldur að fólk sem fer í bíó að sjá sci-fi mynd hafi áhuga á að sjá stjórnmálaþref ætti að hugsa sig betur um. Þess má geta að tæknibrellurnar eru mjög góðar, enda erum við farin að búast við því frá þessum myndum. Það er ekki mikið meira um þessa mynd að segja, þetta er ekki besta Star Trek myndin hingað til en heldur ekki sú versta. Hefði getað verið betri ef lengdin hefði verið stytt um ca. 20 mínútur og söguþráðurinn gerður markvissari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
8 Mile
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í 8 Mile fer Eminem með sitt fyrsta kvikmyndahlutverk, en myndin byggir einmitt lauslega á atburðum í lífi hans áður en hann varð frægur. Atburðarásin á sér stað í fátækrahverfum Detroit borgar, sem eru vægast sagt drungaleg. Eminem leikur ungan náunga sem vinnur erfiðisvinnu í verksmiðju og býr í hjólhýsi ásamt móður sinni og systur. Hann dreymir um að nota söng- og rapphæfileika sína til þess að skapa sér betra líf, en það vefst fyrir honum hvernig hann getur látið af þessu verða. Ef myndin á sér eitthvað miðlægt þema þá er það hvernig maður þarf að losna úr því fari sem maður er fastur í til að láta drauma sína rætast. Ég tek það fram að ég er ekki aðdáandi Eminem og er lítið gefinn fyrir hip-hop eða rapp tónlist. Því hafði ég takmarkaðar væntingar til 8 Mile, en myndin stóðst þær og meira til. Góð frammistaða hjá Eminem í aðalhlutverkinu og traust leikstjórn Curtis Hansons gera þessa að traustri þriggja stjörnu mynd. Nú er bara að bíða og sjá hvort Eminem getur leikið eitthvað meira en sjálfan sig...

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Stella í framboði
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Harðir aðdáendur sígildu gamanmyndarinnar Stella í Orlofi munu væntanlega hafa gaman af

þessu framhaldi en óvíst er með aðra. Persónurnar úr fyrri myndinni snúa hér flestar aftur,

þar sem þær höfðu unnið sig inn í hug og hjörtu landans í fyrri myndinni þykir greinilega

óþarfi að þær reyni neitt slíkt hér. Þetta gerir fyrri myndina að nauðsynlegum undanfara því

þeim sem ekki hafa séð hana mun þykja þetta mjög þunnur þrettándi. Söguþráðurinn er í hnotskurn

sá að Stella lendir fyrir mistök í framboði fyrir stjórnmálaflokk en satt að segja fær áfengisbrölt

Salómons (sem er leikinn af Ladda) í Hvalfirði mest af skjátíma. Að blanda stjórnmálum inn í heim

Stellu Löwe er að mínu mati frekar afleit hugmynd, mörg atriðin sem tengjast

framboði hennar minna á Spaugstofuþátt nema hvað hér er allt miklu meira absúrd.

Edda Björgvins stendur sig vel í hlutverki Stellu og leikur hana hérna sem alvarlegri karakter er í fyrri myndinni.

Aðrir sem gera hér góða hluti eru Helga Braga og Gísli Rúnar, Laddi er líka ágætur en hann er ekki beinlínis að gera

neitt nýtt. Ólafía Hrönn heldur greinilega að hún sé að leika í áramótaskaupi og er frammistaða hennar eftir

því. Björn Jörundur sem hefur oft áður sýnd góð tilþrif gerir nákvæmlega ekkert við sitt hlutverk.

Það er langt frá því að hér sé um alslæma mynd að ræða, en þegar allt er tekið með í reikninginn vega gallarnir

þyngra en kostnirnir. Stefnulaust og ójafnt handrit er helsti veikleiki myndarinnar en reynist

áhrifaríkur. Það liggja engin sannfærandi sönnunargögn fyrir því til stuðnings að Guðný Halldórsdóttir eigi að vera látin koma

nálægt gerð gamanefnis og þessi mynd breytir þar engu. Maður verður að efast um kímnigáfu manneskju

sem heldur að það sé ennþá fyndið að gera grín af ''punktur-is æðinu''.

Það tók meira en 15 ár fyrir framhald af Stellu í Orlofi að líta dagsins ljós, ef það var svona sniðugt

að gera framhaldsmynd, hvers vegna gerði enginn hana fyrr? Nú vitum við svarið...


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ghost Ship
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ghost Ship er ein af hrollvekjunum sem voru frumsýndar vestra í kringum Hrekkjavöku í ár. Áhöfn á björgunarskipi fréttir af stóru dularfullu skipi út á hafi og með dollaramerkin í augunum er haldið á móts við skipið. Það kemur í ljós að þetta er skemmtiferðaskip sem hvarf sporlaust ásamt farþegum sínum í kringum 1960. Þegar þau fara að rannsaka innviði skipsins fara undarlegir atburðir að gerast (surprise!) og fljótt kemur í ljós að þau eru ekki einsömul í skipinu. Mikið er lagt í sviðsmyndir og tæknibrellur ásamt og er útlit myndarinnar því alveg hreint ágætt. Það hjálpar einnig til að hafa tvo ''alvöru'' leikara með, þ.e. Gabriel Byrne og Julianna Margulies (úr E.R. þáttunum), en þau gera sitt besta úr flötum hlutverkum. Tölvuverður skortur er á hrollvekjandi andrúmslofti út myndina, það er erfitt að sýna engin viðbrögð þegar fólk er afhausað eða skorið í sundur en það þýðir ekki að það sé ''scary''. Í hnotskurn er Ghost Ship því mjög dæmigerð hrollvekja; óvitrænn söguþráður, slatti af bregðuatriðum og blóði. Ég hef farið á flestar hrollvekjur sem hafa komið í bíó síðustu ár og setið í gegnum margar hroðalegar slæmar, það besta sem ég get sagt um Ghost Ship er að miðað við aðrar nýlegar hrollvekjur er þessi rétt fyrir ofan meðallagið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Two Towers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sendiför Frodo og félaga heldur hér áfram í miðkafla sögu Tollkiens sem er engu síðri en sá fyrsti, Fellowship of the Ring. Þráðurinn er tekinn upp þar sem FOTR endar og maður skynjar mjög vel að þetta er beint framhald, enda myndirnar allar þrjár teknar upp í sömu lotu. Þar sem fyrsta myndin kynnti til sögunnar helstu persónurnar og heim Miðjarðar er hér hægt að vinda sér samstundis í atburðarásina. Hér er töluvert mikið meira um bardagaatriði en í FOTR og endar myndin í einum rosalegasta hópbardaga sem festur hefur verið á filmu. Útlit myndarinnar er allt stórkostlegt, allt frá stórfenglegu landslagi Nýja-Sjálands til búninga og tæknibrellna. Það er engin spurning að hér er á ferðinni ein best útlítandi kvikmynd sem ég hef nokkurn tíman séð. Tæknibrellunum verður að hrósa sérstaklega því gæði þeirra eru einstök. Veran Gollum er til dæmis stafræn persóna sem er í töluvert stóru hlutverki en blandast saumlaust við allt umhverfið. Þetta er ekki fyrstu tölvugerði leikarinn til að birtast á hvíta tjaldinu, en það að Gollum skilar raunverulegri leikframmistöðu í hlutverki sínu ásamt því hversu ótrúlega eðlilegt allt samspil hans við umhverfið er gerir þetta að stórafreki. Tónlist Howard Shore smellpassar myndinni líka og Emilíana Torrini á hér eitt lag fyrir þá sem ekki vissu, þó það komi reyndar bara yfir kreditlistanum. Hvort sem þetta er besta kvikmynd ársins eða ekki er eitt víst: hér er um að ræða meistaraverk. Það er að verða mér alveg ljóst að FOTR var ekki glópalán hjá Peter Jackson, við getum vænst sömu gæða út allar myndirnar þrjár. Nú er bara að bíða í ár til að sjá hvernig orystunni um Miðjörð lýkur...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Die Another Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mér blöskrar hversu margir eru að gefa Die Another Day jákvæða dóma. Hér er hvorki um að ræða góða Bond-mynd né góða kvikmynd. Í þetta sinn er Bond á hælum hryðjuverkamanns sem kallast Zao og inn í atburðarásina flækist ævintýrasamur auðkylfingur sem varð ríkur með því að finna demantsnámu á Íslandi (ég hefði gaman af því að heyrða hvað jarðfræðingar hafa að segja um þetta). Um það bil þriðjungur myndarinnar á að gerast hér á Íslandi, en fyrir utan nokkur skot eru þessi atriði tekin upp í kvikmyndaveri eða gerð í tölvu. Ekki hefur miklu verið kostað til þess að draga upp raunverulega mynd af Íslandi. Samkvæmt því sem við sjáum er dæmigert landslag á Íslandi líkt og Jökulsárlón að vetri til og hvarvetna má sjá ísjaka ef litið er til sjávar. Einnig er gefið í skyn að hér búi mörgæsir og öryggisvörður sem á að vera íslenskur bullar einhverja óskiljanlega blöndu af dönsku og þýsku. Ég verð semsagt að setja stórt spurningarmerki við það hversu góð landkynning þetta er fyrir okkur. Hví þeir fóru ekki frekar til Grænlands veit ég ekki. Nóg er að finna af hasaratriðum og eru sum þeirra vel af hendi leyst, en í rólegri köflunum missir myndin oft allt niðrum sig. Samtöl Bond og Jinx eru til að mynda skammarlega illa skrifuð og fáránleg. Einnig eru sum tæknibrelluatriðin hér alveg fáránlega óraunveruleg, maður skyldi halda að með öllum auglýsingjastyrkjunum sem einkenna Bond myndirnar væri hægt að eyða smá pening í góðar brellur en svo er greinilega ekki. Að minnsta kosti tvö tæknibrelluatriði eru svo illa gerð að þau væru hallærisleg í sjónvarpsþætti hvað þá kvikmynd. Meira að segja einföldustu tæknibrellum eins ''blue-screen'' er algerlega klúðrað. Svo má nefna nokkur atriði í söguþræðinum, eins og til dæmis þennan ''laser''-geisla út í geimnum.. hljómar þetta ekki eitthvað kunnuglega? Man einhver eftir Austin Powers? Ég varð semsagt fyrir miklum vonbrigðum með þessa mynd. Ef næsta Bond mynd lítur út fyrir að verða eitthvað svipuð mun ég láta ógert að sjá hana.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Scooby-Doo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það var á mörkunum að mig langaði að sjá Scooby Doo þar sem hún leit ekki út fyrir að vera áhugaverð, en þar sem ég á góðar minningar af því að horfa á teiknimyndirnar sem krakki ásamt því að ég er Buffy aðdáandi ákvað ég að slá til. Myndin er í alla staði mjög trú teiknimyndaþáttunum og tekst vel að yfirfæra heim Scooby Doo yfir í leikna mynd. Tæknibrellurnar eru langt frá því að vera raunverulegar, Scooby Doo sjálfur lítur til dæmis frekar út eins og eitthvað úr Toy Story en alvöru hundi, en allt smellpassar þetta einhvernveginn samt. Það er líka hálf skondið að hugsa til þess hvernig myndin hefði komið út ef alvöru hundur hefði verið látinn leika Scooby.. Hjónakornin Sarah ''Buffy'' Gellar og Freddie Prinze Jr. eru annars í aðalhlutverkum ásamt Matthew Lillard sem passar frábærlega í hlutverk Shaggy. Þessi mynd mun aldrei teljast neitt meistaraverk, en hún var betri en ég átti von á. Hinn tölvugerði Scooby Doo á líka heiðurinn af því að vera fyndnasti tölvugerði leikari sem ég hef séð í leikinni mynd (ekki að hann hafi mikla samkeppni frá karakterum á borð við Jar Jar Binks).
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Queen of the Damned
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þrátt fyrir neikvæða gagnrýni fann ég fyrir löngun til að sjá þessa mynd þar sem Interview With The Vampire er ein af mínum uppáhalds myndum. Eins og gerist oft þegar maður fer gegn innsæi sínu varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Aðalpersónan er vampíran Lestat, sem Tom Cruise lék ógleymanlega í Interview, en hér er hann leikinn af Stuart Townsend sem er vægast sagt ömurlegur í hlutverkinu. Fyrir utan að hafa oddhvassar tennur og sama nafn fann ég ekki fyrir neinu sameiginlegu í þessum Lestat og þeim sem Cruise lék í Interview. Stór hluti af vandamálum myndarinnar er að sagan virðist ekki vera neitt sérstaklega góð, eða a.m.k. ekki handritið. Engu að síður hefði hefði verið að hægt að gera betri mynd úr efniviðnum. Í stuttu máli fannst mér þetta því vera alveg vonlaus mynd sem hefur upp á mjög lítið að bjóða, hvort sem það er fyrir hryllingsmyndafíkla eða aðra. Ef fleiri sögur Ann Rice verða kvikmyndaðar vona ég að meiri metnaður verði lagður í það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
UHF
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Að sjá UHF aftur eftir 10 ár var skemmtilegt, en þessi mynd sló heldur betur í gegn hjá mér og mínum vinahóp á gagnfræðiskólaárunum. Hún fjallar um náunga með ofvirkt ímyndunarafl sem fær óvænt tækifæri til að stjórna lítilli sjónvarpsstöð sem er á barmi gjaldþrots. Með vægast sagt óhefðbundnum dagskrárliðum á borð við ''Conan the Librarian'' og ''Wheel of Fish'' tekst honum að koma stöðinni á réttan kjöl en það eru stærri fiskar í sjónvarpsgeiranum en hann og líst þeim illa á þróun mála. Þess má geta að hér er snillingurinn Michael Richards, betur þekktur sem Kramer úr Seinfeld, að koma fram í einu af sínum fyrstu hlutverkum og skilar hann óborganlegri frammistöðu sem húsvörðurinn Stanley Spadowski. Myndin hefur ekki alveg sömu töfra í dag og hún hafði fyrir 10 árum en engu að síður er þetta frábær skemmtun fyrir alla sem kunna að meta léttgeggjaðar gamanmyndir. Ég lýk þessari umfjöllun með lífsseigustu línunni úr þessari mynd: ''In our next episode: Lesbian Nazi hookers abducted by UFO's and forced into weight-loss program''.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Chamber of Secrets
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Líkt og ég gerði í umfjöllun minni um fyrstu Potter myndina vil ég taka fram að ég hef ekki lesið bókina. Ég skemmti mér vel yfir Sorcerer's Stone í fyrra og gerða það líka yfir þessari. Ég verð reyndar að vera ósammála almenningsáliti gagnrýnenda um að þessi mynd sé betri en sú fyrri, líklega vegna þess að fyrri myndin var að sýna manni nýjan heim á meðan þessi er einungis að sýna manni nýja atburði í sama heimi án þess að stækka hann mikið. Myndin fjallar í stuttu máli um það þegar Harry Potter snýr aftur til Hogwarts skólans eftir sumarfríið, en dularfullir atburðir taka að gerast þar og fljótt er ljóst að einhver eða eitthvað vill nemendum skólans illt. Harry rannsakar málið ásamt vinum sínum Ron og Hermione og dragast þau inn í hættulega atburðarás. Leikstjórn Chris Columbus er traust en hann er ekki beint að gera frumlega hluti hérna. Sjálfstraust ungu aðalleikaranna þriggja hefur greinilega vaxið frá síðastu mynd, en mér fannst reyndar aldrei neitt athugavert við frammistöður þeirra til að byrja með. Tæknibrellur eru einnig fyrsta flokks og þessari mynd gengur í raun betur en síðustu Star Wars myndunum tveimur að nota tölvugerðan leikara. Í stuttu máli er hér um að ræða trausta fjölskyldu afþreyingu, en þó varla fyrir yngri börn en 8 ára að mínu mati.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Changing Lanes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er um að ræða óhefðbundna kvikmynd sem erfitt er að flokka, en hlýtur þó helst að teljast drama frekar en nokkuð annað. Tveir ólíkir New York búar, Gavin (Ben Affleck) sem er ríkur ungur lögfræðingur og Doyle (Samuel Jackson) sem er óvirkur áfengissjúklingur að reyna að bjarga fjölskyldu sinni, lenda í árekstri á hraðbraut. Báðir eru á mikilli hraðferð og hefur hvorugur efni á því að vera seinn á áfangastað sinn, en Gavin kýs að rjúka af stað án þess að ganga rétt frá málunum og skilur Doyle eftir með bilaðan bíl sem veldur því að hann kemst ekki í réttarsalinn þegar ákvörðun er tekin um forræða sona hans tveggja. Þessi tilviljunarkenndi árekstur hrindir af stað atburðarás sem reynist örlagarík fyrir báða aðila. Hvorugur þeirra er góður eða vondur, þetta eru bara tveir menn sem að eru reknir á ystu nöf. Hér er að mestu leiti farið fínt í að velta upp spurningum um hvernig einstaklingur þarf að haga sér sem hluti af samfélagi ásamt fleiri spurningum sem varða réttlæti og heiður. Affleck og Jackson standa sig vel í aðalhlutverkunum og einnig má finna sterkar frammistöður aukaleikara á borð við Tony Colette og William Hurt. Að öllu jöfnu væri hér um að ræða meðalmynd, en það er eitthvað við ferskleikann í atburðarásinni ásamt því hversu óútreiknanleg og óskilgreinanleg hún er sem lyfir myndinni upp á hærra plan. Hollywood sendir ekki oft frá sér myndir sem þessa. Mitt mat er því að Changing Lanes er áhugaverð kvikmynd sem hefur gott afþreyingargildi og fær mann jafnvel til að hugsa um hlutina í víðara samhengi. Ég skelli því á hana þremur stjörnum og vona að við sjáum meira af þessum ferskleika í næstu myndum leikstjórans Roger Michells.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Í skóm drekans
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég viðurkenni fúslega að væntingar mínar fyrir þessa mynd voru ekki miklar þar sem ''heimildarmynd um fegurðarsamkeppni'' er ekki eitthvað sem hljómar spennandi í mínum eyrum, en hún endaði með því að koma mér nokkuð á óvart. Hrönn Sveinsdóttir er hér í aðalhlutverki og tilurð myndarinnar má rekja til þess að henni langaði að gera mynd um það hversu fáránlegt fyrirbæri fegurðarsamkeppnir eru. Hún skráði sig því í keppnina Ungfrú Ísland.is og lét myndavél fylgja sér hvert sem hún fór meðan á öllu ferlinu stóð. Sem heimildarmynd hefur Í Skóm Drekans ekki mikið gildi, ég veit að minnsta kosti ekkert um fegurðarsamkeppnir núna sem ég vissi ekki fyrir. Hrönn hefur líka sjálf mikil áhrif á umhverfið og aðstæðurnar sem koma upp í myndinni svo að það er ekki hægt að halda því fram að þarna sé verið að lýsa einhverjum raunveruleika sem hefði orðið hvort sem myndin hefði verið gerð eða ekki. Aftur á móti hefur myndin mikið afþreyingargildi og ég kýs að líta á hana frekar sem einhvers konar 90 mínútna langan raunveruleika-sjónvarpsþátt, því sú lýsing er mun nærri því hvað hér er um að ræða. Mikið umtal hefur verið í kringum myndina síðastliðna mánuði vegna lögbanns sem fengið var á hana, þar sem margir sem koma fram í myndinni vissu ekki að verið væri að mynda þá í þessum tilgangi. Eftir að hafa séð myndina get ég ekki séð neina ástæðu fyrir þessu lögbanni nema það að fólki hafi einfaldlega sárnað að vera sagt ósatt um tilgang myndavélarinnar, sem ég get svosem skilið. Maður þarf nú samt að vera pínulítið tregur til þess að trúa því að myndavél sem lítur út fyrir að kosta hálfa milljón og fylgir manneskjunni hvert einasta fótmál sé á staðnum til að taka upp fyrir fjölskyldusafnið. Burtséð frá öllu þessu er hér um að ræða mjög skemmtilega mynd. Sérstök ástæða er til að hrósa klippingu og hljóðvinnslu. Það fór reyndar í taugarnar á mér þegar ég sá myndina í Háskólabíói að hún þakti aðeins um helming tjaldins, en ég ætla ekki að sakast um það við myndina sjálfa. Í stuttu máli er Í Skóm Drekans frábært framtak og sýnir að hér er hæfileikaríkt fólk á ferðinni. Ég hlakka til að sjá hvað þau gera næst...

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
S1m0ne
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Simone fjallar um kvikmyndaleikstjórann Viktor (Al Pacino), mann sem hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu en þegar við sögu kemur er ferill hans nálægt því að renna út í sandinn. Honum finnst stjörnurnar vera of kröfuharðar og að bransinn snúist of mikið um þær. Þess vegna kann hann að meta það tækifæri sem hann fær þegar ný tækni kemst óvænt í hendur hans sem gerir kleyft að skapa tölvugerða leikara sem ekki er hægt að greina frá raunverulegum. Úr þessu tækifæri skapar hann leikkonuna Simone og beitir hinum ýmsu brögðum til að hylja þá staðreynd að hún er ekki raunveruleg manneskja. Hlutirnir flækjast enn frekar þegar vinsældir hennar verða með ólíkindum. Tæknileg nákvæmni verður aldrei talin sem sterkari hlið þessarar myndar, hún gæti verið verri en það sem við sjáum af því hvernig Simone er vakin til lífsins er ekki hægt að kalla annað en stórkostlega einföldun. Að hluta til ber reyndar að fyrirgefa þennan galla þar sem myndin yrði ekki skemmtileg afþreying fyrir aðra en tölvuáhugamenn ef dýpra hefði verið kafað. Andrew Niccol sem leikstýrir og skrifaði handritið er helst þekktur fyrir að hafa skrifað handrit af Truman Show og Gattaca (sem hann leikstýrði líka), en báðar eru óneitanlega ádeilumyndir hvor á sinn hátt. Simone lítur út fyrir að vera ádeilumynd en það er erfiðara að skilja nákvæmlega hvað er verið að deila á. Það er alls ekki þar með sagt að þetta sé slæm mynd, atburðarásin á sér mörg skemmtileg augnablik og Pacino er skemmtilegur og líflegri en hann hefur verið nýverið. Ágæt mynd fyrir þá sem hafa áhuga á viðfangsefninu, stjörnugjöf mín sýnir að ég er í þeim hóp.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Road to Perdition
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Road to Perdition er merkileg fyrir þær sakir að hér er um að ræða fyrstu mynd leikstjórans Sam Mendes eftir American Beauty ásamt því sem Tom Hanks er hér að leika mun drungalegra hlutverk en hann hefur gert áður. Hanks leikur hér hálfgerðan leigumorðingja að nafni Michael Sullivan sem vinnur fyrir mafíuna, en þegar sonur hans kemst að því hvað faðir hans vinnur við með því að verða vitni af ákveðnu atviki umturnast heimur þeirra beggja. Paul Newman fer með hlutverk vinnuveitanda og föðurímyndar Michaels og stendur sig hörku vel í því. Tom Hanks sannar hér að leikhæfileikar hans ná út fyrir þessi ''nice-guy'' hlutverk sem hann hefur langoftast farið með áður. Hanks er reyndar aðalpersónan í myndinni og því er hann ekki sýndur fremja nein mikil ódæðisverk, en persóna hans er skuggaleg engu að síður. Engin umfjöllun um þessa mynd væri fullkomin án þess að minnast á sjónrænu hlið hennar, en hún hefur gríðarlega flottan stíl sem skapar skemmtilegt andrúmsloft. Þegar kemur að því að fara út í ókosti myndarinnar vandast málið, því allt sem Mendes og félagar reyna að gera hér tekst. Það er því greinilega spurning um eitthvað sem vantar. Þetta er miklu frekar drama heldur en spennumynd (a.m.k. eru hasaratriði fá og langt á milli þeirra), en sem drama vantar hér eitthvað kjöt á beinin. Það má finna nokkur áhrifarík atriði en ekki nóg af þeim. Þeir sem eru að leita að eins áhrifaríkri mynd og American Beauty munu semsagt verða fyrir vonbrigðum. Þrátt fyrir þetta er Road to Perdition góð og vönduð mynd, manni finnst bara einhvern veginn að hún hefði getað orðið eitthvað meira.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Red Dragon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hannibal Lecter varð einn af eftirminnilegustu ómennum kvikmyndasögunnar þegar Silence of the Lambs var frumsýnd árið 1991 þökk sé ógleymanlegri frammistöðu Anthony Hopkins. Eins og flestir vita eru myndirnar um Hannibal gerðar eftir bókum Thomas Harris, en Red Dragon var sú fyrsta af þeim þar sem Lecter kom við sögu. Sagan fjallar í stuttu máli um rannsóknarlögreglumanninn Will Graham (leikinn af Ed Norton) og tilraunir hans til að hafa upp á lævísum raðmorðingja með hjálp Lecters, en Graham og Lecter eiga blóðuga fortíð saman. Edward Norton er hér í góðu formi en persóna hans geldur fyrir það að vera skrifuð á frekar flatan hátt. Anthony Hopkins sekkur sér aftur í gervi Hannibals og kemst langleiðina með að vera eins ógnvekjandi og í Silence of the Lambs. Ralph Fiennes er samt senuþjófurinn hér og fer snilldarlega með hlutverk geðsjúka raðmorðingjans. Saman eiga hann og Emily Watson eftirminnilegustu augnablik myndarinnar. Leikstjórinn hefði aftur á móti mátt vera reyndar maður en Brett Ratner, en hann hefur litla reynslu af öðru en gamanmyndum á borð við Rush Hour og finnst mér því vafasamt að hann eigi erindi í þennan leikstjórastól. Hann klúðrar í sjálfum sér ekki miklu, en betri leikstjóri hefði fundið leiðir til þess að gera mörg atriði í myndinni áhrifameiri. Aftur á móti má ekki gleyma að minnast á tónlist Danny Elfman sem hjálpar mikið til við að skapa rétt andrúmsloft. Það er óhjákvæmilegt að bera Red Dragon saman við hinar myndirnar um Hannibal (aðeins ein af þessum þremur myndum er raunverulega um Hannibal, hann er bara eins konar samnefnari fyrir þær allar), Silence of the Lambs og Hannibal. Af þessum þremur er Silence of the Lambs sú besta án nokkurs vafa, og Red Dragon kemur þar næst á eftir með Hannibal stuttu á eftir sér. Með öflugri leikstjórn hefðu hugsanlega einhver Óskarsverðlaun beðið þessari mynd á næsta ári, en hér er engu að síður um að ræða vel heppnaðan spennutrylli sem ætti að þóknast flestum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Bourne Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bourne Identity er hörkutraust njósnamynd sem fjallar um Jason Bourne (Matt Damon), sem finnst fljótandi meðvitundarlaus í Miðjarðarhafinu. Þegar hann vaknar aftur þjáist hann af algeru minnisleysi varðandi fortíð sína en virðist búa yfir mörgum óvenjulegum hæfileikum sem koma hægt og rólega í ljós. Það er ekkert stórkostlega frumlegt á ferðinni hérna, en kvikmynd þarf heldur ekki að vera byltingarkennd til að vera skemmtileg. Þetta er einfaldlega vel gerð njósnamynd með mörgum góðum hasaratriðum, ekkert meira og ekkert minna. Stíll myndarinnar er líka nokkuð ferskur og það að hún gerist að mestu leiti í Evrópu skapar henni dálítið skemmtilega áferð. Matt Damon eignar sér hlutverkið algerlega og er ekki síðri í bardagaatriðunum. Vert er að nefna að hljóðrásin er líka þrumandi góð. Ég var frekar óákveðinn hvort ég ætlaði að ná þessari í bíó en ég verð að segja eftirá að ég er feginn að ég sló til. Nýja Bond myndin má kalla sig góða ef hún slær þessari við.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Insomnia
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Insomnia er vel heppnaður spennutryllir úr smiðju Christopher Nolans, leikstjóra Memento. Al Pacino fer með hlutverk goðsagnarkennds rannsóknarlögreglumanns sem er sendur til smábæjar í Alaska þar sem sólin sest aldrei yfir sumarið. Þar á hann að reyna að leysa úr óvenjulegu morðmáli en örlögin haga því þannig að fljótt verður meira í húfi en framgangur réttlætisins. Robin Williams er öflugur í hlutverki ómennis og morðingja og er þetta væntanlega í fyrsta skipti sem hann leikur slíkan karakter. Leikstjórnin hérna er gífurlega hæf og með þessum leikhóp er erfitt að klikka. Myndin er líka yfir heildina vel skrifuð og trúverðug, engin langsótt flétta hér í síðasta leikþættinum. Hrós verður líka að veita fyrir stíl myndarinnar, sem er á köflum áhrifaríkur og lýsir vel hvernig líðan hjá manneskju sem hefur ekki sofið í marga daga er. Insomnia er ekki eins góð mynd og Memento, þar sem sú síðarnefnda byggði á ótrúlega frumlegri frásagnaraðferð sem smellpassaði sögunni. Insomnia er meira ''straight-forward'' (no pun intended) en gerir engu að síður öllu góð skil. Semsagt, traustur spennutryllir sem ætti að halda athygli vel flestra út í gegn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sum of All Fears
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gífurlega traustur spennutryllir gerður eftir sögu Tom Clancy. Ben Affleck fer hér með hlutverk CIA-mannsins Jack Ryan, en Harrison Ford hefur tvisvar sinnum áður farið með sama hlutverk (Patriot Games, Clear and Present Danger). Þrátt fyrir að maður skynji litla tenginu milli fyrri myndanna um Jack Ryan (Affleck enda mun yngri en Ford) stendur Sum of All Fears fyllilega fyrir sínu. Söguþráður myndinarinnar er í örstuttu máli að kjarnorkuvopn kemst í rangar hendur og brátt lendir heimurinn á barmi kjarnorkustyrjaldar. Myndin er vel leikin ásamt því sem myndataka og tæknibrellur eru með besta móti. Eins og margir vita var frumsýningunni myndarinnar frestað um nokkra mánuði eftir atburði 11. septembers í fyrra. Á þeim tíma fannst mér þetta vera óþarfa tilfinningasemi en eftir að hafa séð myndina skil ég ástæðurnar betur. Atriði þar sem kjarnorkusprengja leggur bandaríska stórborg í rúst er töluvert óhugnalegra núna en það hefði verið fyrir ári síðan.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Signs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Signs er hágæða spennutryllir úr smiðju M. Night Shymalans (leikstjóra Sixth Sense og Unbreakable) sem fjallar um undarlega atburði sem hefjast þegar dularfull tákn birtast í kornökrum við sveitabæ nokkrum. Tákn þessi eru í fyrstu afskrifuð sem gabb, en fljótlega kemur í ljós að hlutirnir eru kannski ekki svo einfaldir. Eftir Sixth Sense hefur ekki leikið mikill vafi á því að Shymalan sé topp leikstjóri, Unbreakable var að mínu mati litlu síðri og það sama gildir um Signs. Myndin rígheldur athygli manns út í gegn og spennan verður næstum því óbærileg á köflum. Tónlistin í myndinni passar líka fullkomlega við atburðarásina og bætir miklu við andrúmsloftið. Það sem dregur Signs niður í þrjár og hálfa stjörnu eru fyrst og fremst nokkur atriði í söguþræðinum sem ganga ekki alveg upp þegar þau eru hugsuð til enda. Engu að síður leikur enginn vafi á því að þegar upp er staðið á Signs eftir að verða talin ein besta mynd ársins 2002. Ég bíð spenntur eftir því að sjá hvað Shymalan gerir næst.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Austin Powers in Goldmember
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þriðja myndin í seríunni um tannljóta njósnarann Austin Powers veldur nokkrum vonbrigðum og heldur áfram þeirri hnignun í frumleika sem finna mátti fyrir í The Spy Who Shagged Me. Eftir byrjunaratriði sem gefur von um að þessi kafli ætli sér eitthvað nýtt hefst sama gamla atburðarásin þar sem Austin þarf að stöðva heimsendaáætlun Dr. Evil og finna mann að nafni Goldmember sem er gjörsamlega misheppnaður og ófyndinn karakter. Það helsta sem blæs fersku lífi í þennan kafli er Beyonce Knowles, en seventies taktarnir hjá henni eru oft á tíðum skondnir. Michael Caine er líka nýr í seríunni og fer með hlutverk föður Austins, en þar sem hann er nánast sama persóna og Austin sjálfur gerir þetta lítið fyrir myndina. Myndin á auðvitað sín augnablik, en þau eru bara ekki nærri því nógu mörg. Nema Mike Myers fari að gera eitthvað nýtt í næstu framhaldsmyndum (það koma pottþétt fleiri) spái ég því að vinsældir Austin Powers fari hratt minnkandi. Í stuttu máli ættu harðir aðdáendur Austins að finna nóg hér til þess að réttlæta bíóferð, en aðrir ættu að hugsa sig vel um.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Minority Report
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frábær framtíðarspennutryllir sem gerist 50 árum inn í framtíðinni, en þá hafa menn fundið leið til þess að vita af morðum áður en þau eru framkvæmd og það er orðið fastur liður að handtaka fólk sem vitað (?) er að muni framkvæma morð. Rannsóknarlögreglumaður nokkur sem vinnur við þessa deild (''pre-crime'') lendir einn daginn hinum megin við borðið þegar því er varpað fram að hann muni sjálfur framkvæma morð innan nokkurra klukkustunda og upp úr því hefst æsilegur eltingaleikur þar sem ekki er allt sem sýnist. Hugmyndin er frekar nýstárleg og sem betur fer er útfærslan skotheld. Hér er virkilega um að ræða spennutrylli með þykku ráðgátu-plotti fyrir hugsandi fólk. Það þarf vart að taka fram að tæknibrellurnar eru fyrsta flokks (þetta er nú Spielberg mynd) og leikur allur til fyrirmyndar, sérstaklega hjá Tom Cruise og Colinn Farrell. Eins og aðrar myndir Spielbergs þá dettur þessi út í of mikla væmni á einum eða tveimur stöðum ásamt því sem að keyrslan verður pínulítið ójöfn í seinni hálfleik - myndin endar einhvern veginn ekki þar sem manni finnst hún ætti að enda. Þetta eru frekar lítil atriði, en verða samt til þess að ég gef ekki fullt hús. Það breytir því samt ekki að Minority Report er án efa ein af bestu myndum ársins.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Maður eins og ég
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Prýðileg gamanmynd frá sömu aðilum og gerðu Íslenska Drauminn. Jón Gnarr fer með hlutverk Júlla, seinheppins og óframfærins náunga sem verður ástfanginn af kínverskri konu. Það samband gengur brösulega fyrir sig, meðal annars þar sem hann er ekki sá sleipasti í mannlegum samskiptum. Myndin er full af skemmtilegum karakterum, til dæmis pabba Júlla og besta vin hans. Austurlenska leikkonan Stephanie Che kemur líka vel út og nær meiri dýpt en aðrir erlendir leikrar hafa áður náð í íslenskri mynd. Eitt tæknilegt atriði sem mig langar að minnast á er að hljóðið er á sumum stöðum ekki eins gott og það ætti að vera, sérstaklega í atriðum sem eru frekar þögul. Í þeim heyrir maður oft lágt suð úr myndavélinni sem ætti að vera auðvelt að forðast með því að nota hljóðnema sem er ekki áfastur myndavélinni. Þetta er ekki stórt atriði en þegar menn er að gera að öðru leiti góða hluti í kvikmyndagerð hlýtur að vera frekar neyðarlegt að láta negla sig fyrir svona tæknileg mál. Það er óhjákvæmilegt að bera þessa mynd við Íslenska drauminn, en niðurstaða þess samanburðar er reyndar að Draumurinn er nokkuð betri mynd - enda var hún einstaklega vel heppnuð. Maður eins og ég er engu að síður skemmtileg afþreying með góðum húmor og skemmtilegum persónum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Reign of Fire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar námugraftarmenn í London rekast á dularfullt hólf í iðrum jarðar

leysa þeir úr læðingi fornar skepnur sem hafa legið í dvala milljónir

ára. Þessar skepnur eru eldspúandi drekar, rétt eins og í ævintýrum,

og á nokkrum áratugum taka þeir yfir jörðin. Reign of Fire byggir á

þessari grunnhugmynd og fjallar um það hvernig þær fáu

eftirlifandi mannverur sem eftir eru reyna að halda lífi og berjast við

skepnurnar. Mér fannst þessi hugmynd áhugaverð þegar ég heyrði fyrst

um hana, en bjóst eins við því að þetta yrði annað post-apocalyptic

klúðrið á borð við The Postman og Waterworld. Það kom mér því skemmtilega

á óvart að þetta er alls ekki tilfellið. Fyrir utan nokkur

lógísk atriði og frekar grunna persónusköpun er hér um að ræða

hörku ævintýra- og hasarmynd sem vinnur skemmtilega úr efniviðnum.

Í baráttunni við drekana nota mennirnir alls kyns nútíma græjur

eins og herþyrlur, mótorhjól, fallhlífar, skriðdreka, vélbyssur,

sprengjur o.s.frv. Ef allt þetta hljómar vel í þínum eyrum eru

góðar líkur á því að myndin muni ekki valda þér vonbrigðum. Hér

er aftur á móti ekki um að ræða stóreyðileggingarmynd þar sem við sjáum frægusu mannvirki

heims jöfnuð við jörðu (a la Independence Day) þar sem atburðarásin er frekar

staðbundin. Engin umfjöllun um þessa mynd væri fullkomin án þess að minnast

á tæknibrellurnar, en drekarnir eru í flestum atriðum mjög vel gerðir og

alveg einstaklega vel í lokaatriðinu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ghosts of Mars
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skelfilega leiðinleg geimhrollvekja sem gerist í framtíðinni á Mars eftir að menn eru farnir að búa þar í töluverðum mæli. Þrátt fyrir að hafa lesið fjölmarga hörmulega dóma um myndina ákvað ég að leigja hana eitt kvöldið þar sem mér fannst grunnhugmyndin frekar svöl. Það voru stór mistök. Mér er óskiljanlegt hvernig myndin gat komið svona illa út, John Carpenter hefur verið mistækur í gegnum tíðina en ekkert í líkingu við þetta samt. Ég fann engan jákvæðan flöt á þessari hörmung og því er stjörnugjöfin í samræmi við það. Forðist þessa eins og skæða salmonellusýkingu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Men in Black II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það kemur stöku sinnum fyrir að framhaldsmyndir ná að slá undanförum sínum við, en því miður er það alls ekki tilfellið hér. Men in Black var hressileg og fersk á sínum tíma, engin snilld í mínum huga en vissulega traust skemmtun. Þetta framhald kemst aftur á móti ekki með tærnar það sem upprunalega MIB hafði hælana og mér sýnist á öllu að eina ástæðan fyrir því að farið var út í að gera hana sé peningagræðgi. Handritið er þunnt og ófrumlegt og flestar persónur eru verulega undirskrifaðar. Metnaðarleysi einkennir myndina að miklu leiti nema kannski tónlist og tæknibrellur.

Helsti jákvæði punkturinn er að tæknibrellurnar líta vel út, en þegar söguþráðurinn nær ekki að halda áhuga manns þá hefur það lítið að segja. Það er því lítið hérna sem hægt er að mæla með fyrir aðra en krakka og aðra kvikmyndagesti sem gera litlar kröfur. Ég skelli því tveimur stjörnum á MIB 2 og finnst það jafnvel heldur rausnarlegt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Mothman Prophecies er yfirnáttúrulegur spennutryllir sem er sagður vera byggður á sannsögulegum atburðum sem gerðust í Bandaríkjunum á 8. áratugnum. Eftir að hafa séð trailerinn á sínum tíma vaknaði töluverður áhugi hjá mér því myndin virtist vera mjög ''creepy'' og skartar góðum leikurum á borð við Richard Gere og Lauru Linney (sem síðast deildu hvíta tjaldinu í Primal Fear). Ekki varð ég fyrir vonbrigðum þegar ég sá loks myndina. Í stuttu máli er hér um að ræða rafmagnaða upplifun sem minnir helst á góða hrollvekju, nema hvað að myndin hefur virkilega traustan söguþráð sem er ekki minna grípandi fyrir það að vera byggður (að hluta til a.m.k.) á sannsögulegum atburðum. Öflug beiting á hljóði, myndatöku og klippingu gera líka mikið til þess að skapa rétta andrúmsloftið. Niðurstaðan er því þrjár og hálf stjarna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
About a Boy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það hefur oft verið sagt að About a Boy sé eins konar karlkyns útgáfa af Bridget Jones Diary þar sem hún fjallar um líf piparsveins sem líkar ágætlega að vera einhleypur þrátt fyrir þrýsting frá fólki í kringum hann. Þetta er heldur ekki það eina sem þessar tvær myndir eiga sameiginlegt, en Hugh Grant leikur í þeim báðum og hér er persóna hans ekki ólík þeirri sem hann lék í BJD. Samanburður milli þessara tveggja mynda er semsagt óhjákvæmilegur, og að mínu mati eru þær báðar álíka góðar - persónulega kýs ég þessa frekar og liggur skýringin á því væntanlega í því að hún hittir frekar í mark hjá karlkyns áhorfendum en BJD. Myndin er byggð á skáldsögu Nick Hornby, en síðasta bók hans sem var kvikmynduð var High Fidelity. Allir leikarar standa sig hér með prýði eins og vænta má af breskri mynd, húmorinn er sjaldnast langt undan og samtöl eru yfir heildina vel skrifuð. Söguþráðurinn er einnig klisjufrír og nokkuð frumlegur (þrátt fyrir að grunnhugmyndin sé það ekki endilega). Í hnotskurn er About a Boy skemmtileg og fyndin mynd sem ég get hiklaust mælt með fyrir nánast alla.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sorority Boys
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sorority Boys er frekar dæmigerð gamanmynd um bræðra- og systrafélög í

bandarískum háskólum og allt sukkið sem fylgir þeim. Þrír félagar vakna upp

við vondan draum einn daginn þegar þeir eru reknir úr bræðrafélagi sínu og

verða að finna sér annan samastað. Atburðarásin þróast út í það að þeir

gerast klæðskiptingar og ganga í systrafélag, en stelpurnar þar halda auðvitað

að þeir séu kynsystur sínar. Um leið og þeir reyna öll ráð til að komast

aftur inn í bræðrafélagið sitt fá þeir að kynnast áður óþekktum hliðum

veikara kynsins og komast í snertingu við kvennlegu hliðar sínar sem aldrei fyrr.

Lítið er um þekkta leikara hér, en flestir komast þó þokkalega frá sínu. Sérstaklega

fer Harland Williams (sem hefur komið fram í flestum myndum Farelli bræðranna) á kostum

eftir að hann er kominn í kvenn-haminn sinn. Sorority Boys náði vel að uppfylla þær

takmörkuðu væntingar sem ég hafði til hennar og rétt rúmlega það. Þrátt fyrir að hér gangi

flest út á neðanbeltis húmor og að myndin skilji ekki mikið eftir sig getur verið

gaman af svona myndum einstöku sinnum. Því skelli ég tveimur og hálfri stjörnu á Sorority Boys.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Soul Survivors
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Soul Survivor er frekar óvenjuleg hrollvekja um stúlku

sem lendir í bílslysi með þremur vinum sínum. Eftir slysið fara

mjög svo undarlegir hlutir að gerast, skrýtnir náungar eru á hælum

hennar og kærastanum hennar (sem dó í slysinu) fer að bregða fyrir.

Í megindráttum er plottið mjög útreiknanlegt, ég læt nægja að segja að

því svipar að ákveðnu leiti til 6th Sense og The Others. Þrátt fyrir þetta

nær myndin að vekja upp góðan hroll á köflum og sum atriði eru mjög ''intense''.

Klippingin hérna er reyndar með því versta sem ég hef séð nýlega, en maður

tekur ekki mikið eftir því nema á stöku stöðum. Leikframmistöður eru líka á

frekar lélegu plani, þrátt fyrir að nokkur þekkt andlit sé að finna hér svo sem

Casy Affleck, Elizu Dushku (''Faith'' úr Buffy þáttunum) og Luke Wilson.

Það er frekar súrrealískt yfirbragð yfir atburðarásinni og það á eflaust eftir að fara í taugarnar á mörgum.

Fyrir þá sem láta ekki slíkt fara fyrir brjóstið á sér er hér um að ræða ágæta hrollvekju

sem nær að standa undir nafni. Með það í huga er tvær og hálf stjarna nokkuð sanngjarn dómur.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ali G Indahouse
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eins og flestir vita er Ali G eins konar bresk útgáfa af Johnny National, reyndar er sagt að Ali G sé fyrirmynd persónu Johhny National svo að fyrri fullyrðing er réttari ef henni er snúið við. Þættirnir um Ali G hafa notið gríðarlegra vinsælda og því ætti það ekki að koma neinum á óvart að nú hefur kvikmynd um hann litið dagsins ljós. Söguþráðurinn gengur út á það að Ali, sem er kjaftfor týpa og hugsar um fátt annað en kvennfólk og hass, þarf að bjarga ''klíkunni'' sinni með því að hindra að félagsmiðstöðin sem er höfuðstöð þeirra verði rifin. Í kjölfar þess flækist hann inn í atburðarás sem leiðir hann inn á breska þingið - og þar er Ali sannarlega fiskur á þurru landi. Það er rétt að geta þess að ég er nokkuð hlutlaus í garð Ali, ég hef séð örfáa þætti og fannst sumir punktar góðir, en ég myndi ekki kalla mig aðdáanda. Eins og mig grunaði eru 90 mínútur af honum heldur mikið og myndin þjáist töluvert fyrir það. Vissulega eru nokkrir fyndnir brandarar í myndinni sem eiga eflaust eftir að ganga fram af flestum, en

fyrir hvern slíkan eru 5 misheppnaðir, það þarf varla að taka fram að hér er húmorinn á mjög lágu plani - ekki að öllum finnist það endilega vera ókostur. Aðdáaendur Ali eiga eflaust eftir að hafa mjög gaman af, en aðrir ættu sennilega að leita annað.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: Attack of the Clones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég kom að Attack of the Clones með jarðbundinni bartsýni eftir að hafa orðið fyrir dálitlum vonbrigðum með Phantom Menace á sínum tíma, enda voru væntingar þá orðnar hálf óraunhæfar eftir mjög langa bið. Það er ánægujegt að sjá að helstu vandamál Phatom Menace eru ekki til staðar hér. Söguþráðurinn er mun

traustari og persónurnar njóta sín betur. Hasar- og bardagaatriðin eru líka fleiri og flottari en í Phantom Menace, það er reyndar ekkert skylmingaratriði á borð við Darth Maul slaginn í endann á PM en það er ekki mikið síðra að sjá Yoda í fullu fjöri með geislasverð, sem kemur frábærlega

út miðað við hvað það hljómar langsótt. Helstu nýju karakterarnir, Jango Fett og Count Dooku heppnast líka mjög vel. Eftir að hafa séð trailerana hafði ég takmarkaða trú á Hayden Christiansen í hlutverki Anakin en hann kom mér á óvart og náði sérstaklega vel að koma innri átökum og dimmri hliðum Anakins til skila. Það sem Attack of the Clones tekst tvímælanlaust að gera, sem Phantom Menace tókst ekki, er að endurvekja alveg þá tilfinningu sem maður hafði þegar maður sá fyrstu trílógíunni, þ.e. þennan sannkallaða Star Wars

''fíling''. Lucas hefur hérna skilað af sér frábærum kafla í Star Wars sögunni sem ég tel vera þann næstbesta á eftir Empire Strikes Back.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Resident Evil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Resident Evil er ekki bara gerð eftir tölvuleik heldur finnst manni eins og hún sé sjálf tölvuleikur. Það eina sem vakti áhuga minn fyrir myndinni er Paul Anderson, en hann leikstýrði á sínum tíma Event Horizon (umdeilanlega mest ógnvekjandi hrollvekju síðasta áratugar) og var ég því að vonast eftir einhverju svipuðu hér. Þess má samt geta að hann leikstýrði líka hörmunginni Soldier með Kurt Russel og er því varla um neinn snilling hér að ræða. Því er ekki hægt að neita að myndin er óhugnaleg á köflum og inniheldur meira en sinn skerf af ''bregðuatriðum'' en þegar persónurnar eru eins flatar og hér hefur það ekki mikið að segja. Jafnframt á hljóðrásin mikinn þátt í því að halda manni á nálum, það var ekki langt í suð fyrir eyrum þegar ég kom út af myndinni. Það er ekki spurning í mínum huga um að mikið betri mynd hefði verið hægt að gera úr þessari hugmynd og því til stuðnings bendi ég á kvikmynd frá 1985 sem heitir Warning Sign sem gerist í svipuðu umhverfi. Það má segja að metnaðarleysi einkenni Resident Evil að vissu leiti, hér hefur greinilega enginn haft áhuga á því að gera neitt meira en í tölvuleikjunum. Ég hefði haldið að meira yrði lagt í söguþráð fyrir kvikmyndina heldur en leikina sjálfa, en svo var ekki. Resident Evil er alls ekki alslæm mynd en mér finnst hún fórna of miklu til þess að koma til móts við aðdáendur tölvuleikjanna og of lítið til að koma til móts við þá sem eru að leita sér að spennandi kvikmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spider-Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það var bara tímaspursmál hvenær stórmynd yrði gerð um Spiderman og núna eftir opnunarhelgina er bara tímaspursmál hvenær framhald lítur dagsins ljós. Margar tilraunir hafa verið gerðar á síðustu árum til þess að vekja teiknimyndapersónur til lífsins á hvíta tjaldinu og hefur árangurinn verið misjafn. Það er ánægjulegt að sjá að í þessu tilfelli hefur tekist vel upp, þökk sé góðum leikurum og traustum leikstjóra. Það að fá Tobey Maguire í hlutverk titilpersónunnar hljómar kannski sem skrýtinn valkostur, en það var líklega besta ákvörðun sem tekin var í tengslum við þessa mynd. Þrátt fyrir að mynd sem þessi bjóði ekki upp á nein stórkostleg leiktilþrif tekst honum að veita Kóngulóarmanninum marga mannlega eiginleika sem gera mikið fyrir söguþráðinn. Willem Dafoe er einnig góður í hlutverki illmennisins, en meiri vinnu hefði mátt leggja í búninginn hans. Einnig má minnast á Kirsten Dunst, sem leikur Mary Jane, en henni tókst hér að fara merkilega lítið í taugarnar á mér í þetta skiptið miðan við venjulega. Handrit David Koepps sýnir líka tilþrif á köflum og býður upp á eitthvað fyrir alla, hvort sem það er spenna, hasar eða rómantík. Spiderman er í stuttu máli mjög skemmtileg og vel heppnuð ofurhetjumynd sem gæti hæglega endað sem stærsta mynd ársins 2002.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
You Can Count on Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er um að ræða lítið en afskaplega vandað drama þar sem meðal annars Laura Linney og Matthew Broderick fara með aðalhluverk. Myndin er sérstök að því leiti að söguþráðurinn tekur enga beina augljósa stefnu heldur er meira lagt upp úr því að skapa tilfinningalega upplifun sem varpar fram ýmsum spurningum, til dæmis um hvers virði fjölskyldutengsl eru, án þess að varpa fram neinum augljósum svörum. Helstu leikarar standa sig með prýði og gera áhorfendum erfitt fyrir með að mynda ekki einhverja samkennd með persónum þeirra. Auk þess er myndin vel skrifuð, handritið víxlar á áhrifaríkan hátt milli drama og húmors og tekst vel til. Það er í sjálfum sér ekki mikið meira að segja um þessa mynd, en ég mæli hiklaust með henni fyrir þá sem hafa gaman af góðu drama.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Frailty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frailty er mjög traustur spennutryllir og jafnframt frumraun leikarans Bill Paxtons í leikstjórastólnum, en hann fer einnig með stórt hlutverk í myndinni. Myndin fjallar í stuttu máli um einstæðan föður sem fær einn daginn ''köllun'' frá Guði um að byrja að drepa fólk og hvernig synir hans tveir taka þeim ósköpum. Það er greinilegt að Bill Paxton er nokkuð fjölhæfur náungi, hann verður reyndar seint kallaður einn af bestu leikurum samtímans en honum hefur hér tekist að skila af sér mjög vel gerðri kvikmynd sem er bæði óhugnaleg og spennandi. Handritið er einnig nokkuð traust þó að fléttan í endann mætti hafa verið útfærð á fíngerðari hátt ásamt því sem einni hugmynd er stolið beint úr myndinni Unbreakable. Myndin er líka sérstaklega vel leikin og tónlistin skapar rétta stemmingu. Miðað við þessa frumraun vona ég að Paxton fari að horfa í auknum mæli til leikstjórnar. Ég smelli þremur stjörnum á Frailty og mæli sterklega með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Panic Room
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Panic Room er mjög vel heppnaður spennutryllir úr smiðju snilldarleikstjórans David Fincher, sem síðast sendi frá sér Fight Club. Söguþráðurinn gengur út á það að nýskilin kona og dóttir hennar flytja í mjög stóra íbúð í New York, en svo óheppilega vill til að fyrri eigandinn skyldi svolítið eftir þar sem nokkrir óprúttnir náungar svífast einkis til að komast yfir. Ég kann sérstaklega vel að meta hversu fljót myndin er að byrja og hvernig hún sóar ekki tíma í að stilla upp atburðarásinni, maður fær bara að kynnast persónunum eins mikið og þörf er á en hefur samt aldrei á tilfinningunni að þær séu flatar eða grunnar. Jodie Foster er hér í aðalhlutverki, en Nicole Kidman átti að fara með þetta hlutverk og voru tökur á myndinni búnar að standa í 10 daga með henni í aðalhlutverki þegar hún meiddist og varð frá að hverfa. Leikstjórinn sagði þá yfirmönnunum hjá Columbia-TriStar að gleyma þessari mynd og innheimta tryggingarnar þar sem þetta myndi leiða til þess allt færi langt fram yfir kostnaðaráætlun, en stúdíóinu dauðlangaði í þessa mynd hvað sem það kostaði. Eftir að hafa séð myndina finnst mér ekki að Nicole Kidman hefði nokkurn tíman geta passað í þetta hlutverk, hún er bara of fíngerð og kvennleg fyrir þessa mynd. Jodie Foster smellpassar aftur á móti í hlutverkið og skilar því frábærlega af sér, þrátt fyrir að hafa einungis haft 1-2 viku undirbúning fyrir það. Aðrir leikarar standa sig líka vel, sérstaklega dóttirin. Tæknilega séð er myndin líka mjög flott, hljóðvinnsla er fyrsta flokks og myndataka er ótrúlega flott (eitt af aðalsmerkjum Fincher). Þó að Panic Room falli ekki í sama gæðaflokk og Seven og Fight Club veldur þessi mynd alls ekki vonbrigðum sem sköpunarverk Finchers. Í stuttu máli er Panic Room pottþéttur spennutryllir sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hulk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fyrirfram hefði maður ætlað að kvikmynd byggð á teiknimyndapersónu sem er grænn ofursterkur risi yrði vægast sagt ekki sérlega áhugaverð (eitthvað í líkingu við Godzilla kemur til hugar). Sjálfur hafði ég ekki snefil af áhuga fyrir þessari mynd fyrr en ég komst að því að Ang Lee væri leikstjórinn, en hann er þekktur fyrir virkilega vandaðar myndir sem eru af annari stærðargráðu af gæðum en nokkur ofurhetjumynd sem gerð hefur verið hingað til. Svona ólíkleg pörun er mikið hættuspil (sérstaklega þegar um er að ræða ca. 150 milljón dollara mynd) og í svona tilfellum verður útkoman oftast annað hvort algert klúður eða eitthvað virkilega sérstakt. Það er gaman að sjá að það eru enn einhverjir í Hollywood sem eru til í að taka svona áhættur, því að í þessu tilfelli hefur þetta virkilega borgað sig. The Hulk er ekki lík neinni ofurhetjumynd sem áður hefur verið gerð, hér eru persónurnar ekki steríótýpur heldur hafa töluverða dýpt og eru samkvæmar sjálfum sér. Samtölin eru vel skrifuð og ekki ein einasta setning hljómar eins og klisja. Handritið er jafnframt traust og umfram allt vitsmunalegt, hlutnirnir eru ekki ofútskýrðir og maður þarf að hugsa vel um nánast allt sem persónurnar segja til þess að skilja atburðarásina fyllilega. Hulk er settur fram á áhrifaríkan hátt sem eins konar myndlíking á þeim hluta af okkur sjálfum sem við þekkjum ekki og hjálpar þetta einnig til að gefa myndinni dýpt og merkingu. Myndin er líka sjónrænt konfekt, bæði vegna þess hve myndataka og klipping er oft frumleg og líka vegna þess að tæknibrellurnar (sem hafa reyndar verið dálítið gagnrýndar, mér óskiljanlega) eru fyrsta flokks og líta oftast ekki út eins og tæknibrellur. Í einu atriði misstígur myndin sig reyndar frekar illilega með teiknimyndasögu effekta (þegar ein persóna er gleypt af sprengingu, þeir sem hafa séð myndina munu vita hvað ég er að tala um), en restin er svo mikilfengleg að þetta er auðveldlega fyrirgefið. Atriðið þegar Bruce Banner breytist í Hulk í fyrsta skipti mun sennilega skipta áhorfendum dálítið upp í fylkingar, upp að þessum punkti er myndin búin að vera frekar jarðbundin og þegar tæknibrellurnar fara í fullan gír er það í fyrstu dálítið mikil breyting á yfirbragði myndarinnar. Flestir munu líklega jafna sig á þessu fljótt en viðbúið er að fyrir einhverja fari myndin versnandi eftir þetta. Burtséð frá því er mitt mat hins vegar að hér sé um að ræða afar trausta mynd sem er ekki bara afþreying heldur líka eitthvað meira. Þeir sem eiga von á dæmigerðri ofurhetjumynd eru að koma myndinni með röngu hugarfari og skaðar það sennilega upplifun þeirra af myndinni. Ég á aftur á móti von á því að þetta eigi eftir að verða mynd sem muni hafna frekar ofarlega á topp 10 listanum mínum yfir bestu myndir ársins 2003.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blade II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er um að ræða hreinræktaða hasarmynd þar sem vampírubaninn Blade lendir í átökum við enn ógnvænlegri óvin en blóðsugurnar úr fyrri myndinni. Vissulega er rétt að Wesley Snipes hefur enga dramatíska dýpt sem leikari og að söguþráðurinn býður oft almennri rökhugsun í byrginn, en þegar um svona mynd er að ræða skiptir það sára litlu máli. Skemmtunin hér liggur í því að sjá Blade lenda í tvísýnum aðstæðum og slátra heilu herunum af skrýmslum þess á milli. Sem framhald er Blade 2 sérlega vel heppnuð og útvíkkar þær hugmyndir sem komu fram í fyrri myndinni á sniðugan hátt. Hún er líka hraðari, flottari og blóðugri. Það virðist vera almenningsálitið að Blade 2 sé betri en forveri sinn og ég verð að taka undir það. Vissulega ekki mynd fyrir alla, en pottþétt skemmtun fyrir þá sem eru að leita sér að yfirnáttúrulegri hasar-afþreyingu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Royal Tenenbaums
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Royal Tenenbaums er nýjasta mynd leikstjórans stórskemmtilega Wes Anderson, en síðasta mynd hans var Rushmore. Líkt og Rushmore er þetta eins konar blendingur af gamanmynd og drama. Söguþráðurinn gengur út á að fjölskyldufaðir sem yfirgaf fjölskyldu sína fyrir löngu síðan snýr aftur til þess að sættast við börnin sín þrjú og fyrrverandi konu sína, en þó með vafasamar ástæður fyrir hendi. Margir þekktir leikarar koma hér fyrir og ber þar helst að nefna Gene Hackman, sem stendur sig óaðfinnanlega í hlutverki Royal Tenenbaum. Ben Stiller ásamt Owen bræðrunum standa sig líka vel en Gwyneth Paltrow kemur sérstaklega á óvart sem þunglyndislegri týpa en hún hefur áður leikið og sýnir að hún er allavega ekki algerlega einhæf. Það er engin spurning að þetta er ekki mynd sem allir hafa gaman af, myndir Wes Anderson eru of sérvitrar til þess að höfða til allra. Þeir sem höfðu ekki gaman af Rushmore eiga líklega ekki eftir að hafa gaman af þessari heldur. Fyrir mitt leyti mæli ég samt fyllilega með þessari mynd og smelli á hana þremur og hálfum stjörnum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monster's Ball
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Monster's Ball er stórvandað drama sem fjallar í stuttu máli um tvær manneskjur sem hafa báðar orðið fyrir miklum missi og hvernig þjáningar þeirra mynda tengsl milli þeirra sem yfirstíga kynþátt (sem er stór gjá í því umhverfi sem myndin gerist í) og ólíkar aðstæður. Eins og flestir vita hlaut Halle Berry óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína hér og það er ekki að furða. Fólk hefur gengið svo langt að segja að þetta sé besta leikframmistaða síðan Marlon Brando í Last Tango in Paris - hvort sem þetta er rétt eða ekki gefur það hugmynd um gæði leiksins. Billy Bob Thornton er einnig litlu síðri í sínu hlutverki ásamt því sem súkkulaðidrengurinn Heath Ledger sýnir hér að hann getur leikið. Þetta er ein af þessum myndum þar sem áhorfendur hafa ákveðið frelsi til túlkunar og þeir sem vænta þess að vera mataðir af hverju smáatriði ættu að leita annað. Þó að keyrslan sé hæg á köflum fannst mér Monster's Ball áhrifarík og vönduð kvikmynd og mæli með henni fyrir alla sem eru fyrir slíkt gefnir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ice Age
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ice Age er einstaklega skemmtileg tölvuteiknimynd sem fjallar um vægast sagt sundurleitan hóp af dýrum sem finnur mannsbarn yfirgefið og reynir að skila því til foreldra sinna. Útlit myndarinnar er svosem ekki það flottasta sem maður hefur séð í þessum efnum, myndir eins og Shrek, Monsters Inc. svo ekki sé minnst á Final Fantasy líta betur út (ekki að Ice Age líti neitt illa út), en stílinn sem hér er notaður smellpassar engu að síður myndina. Húmorinn er í góðu lagi, atriðin með seinheppna íkornanum eru ansi skondin og húmorinn nær sem betur fer vel út fyrir þau. En söguþráðurinn á sér líka hjartnæmari hliðar sem skjóta upp kollinum undir lokin og eru áhrifaríkari en maður hefði haldið mögulegt í mynd með svona léttum tón. Í mínum huga eru bestu tölvuteiknimyndirnar hingað til Shrek og Toy Story 2 og nú slæst Ice Age slæst í þeirra hóp. Frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Time Machine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Time Machine er þokkalegasta ævintýramynd sem fjallar um prófessor sem finnur upp tímavél í þeim tilgangi að bjarga ástkonu sinni sem lést nokkrum árum áður. Þegar hann reynir þetta kemur aftur á móti í ljós að örlögunum verður ekki auðveldlega breytt og hann bregður þá á það ráð að ferðast fram í tímann í leit að svari við því hvernig hann geti breytt fortíðinni, en ferðalag þetta hefur óvæntar afleiðingar. Fyrri helmingur myndarinnar er virkilega góður og leikur sér með margar spennandi hugmyndir ásamt því sem tæknibrellurnar í tímaflakkinu sjálfu eru ótrúlega flottar. Seinni helmingurinn er samt töluvert mikið síðri þar sem myndin tekur allt aðra stefnu sem er hálfpartinn á skjön við það sem áður fór og hér lækkar greindarvísitalan í handritinu um ansi mörg stig. Guy Pearce er hér í aðalhlutverki og stendur sig óaðfinnalega að venju, það má segja að sterkur leikur hjá honum bæti upp slappt handrit á stöku stað. Yfir heildina litið er þetta alls ekki slæm ævintýramynd, en hún hefði getað orðið mikið betri ef haldið hefði verið betur á spilunum í seinni hálfleik.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Long Time Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Long Time Dead er bresk hrollvekja sem fjallar um nokkra háskólakrakka sem taka eitt kvöldið upp á því stórsniðuga uppátæki að fara í ''andaglas''. Þetta heppnast ekki betur en það að þau ná að leysa úr læðingi djöful sem kallast Djinn, og þarf sá að drepa þau öll til þess að komast aftur til andaheima. Það kemur svolítið á óvart að Bretar skuli senda frá sér svona mynd, en þeir sem tengja Bretland við gæða kvikmyndir geta alveg verið rólegir - það kemur í ljós að Long Time Dead er ekkert betri eða frumlegri en mest af þeim hryllingsmyndum sem hafa komið út undanfarið. Afhverju gef ég henni þá tvær og hálfa stjörnu? Nú, það er einfalt - hún er frekar óhugnaleg út í gegn, stundum þorir maður varla að horfa á tjaldið og hún hefur meira en sinn skerf af ''bregðuatriðum''. Ef þetta hljómar ekki eins og þokkaleg hryllingsmynd er ég illa svikinn. Söguþráðurinn er aftur á móti frekar undarlegur og er raunar leit að heilli brú í honum. Þegar allt kemur til alls held ég að hrollvekjufíklar eigi eftir að ganga þokkalega sáttir út af þessari þó hún muni kannski ekki lifa lengi í minni þeirra.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Thir13en Ghosts
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Thirteen Ghosts er frekar misheppnuð hrollvekja sem fjallar um hóp af fólki sem lokast inni í mjög svo óvenjulegu húsi ásamt þó nokkrum draugum. Eitt það besta hér er sviðsmyndin, en glerhýsið sem megnið af myndinni gerist í lítur mjög vel út. Það eru líka nokkrir áhugaverðir hlutir á ferðinni hér (sem eru þó ekki nauðsynlega frumlegir) eins og það að draugarnir eru einungis sýnilegir í gegnum sérstök gleraugu. Þetta er notað á áhrifaríkan hátt í einu eða tveimur atriðum en nær samt litlu að bjarga. Leikararnir standa sig frekar illa og finnst mér óskiljanlegt hvernig Tony Shaloub og F. Murray Abraham létu fá sig út í þessa vitleysu. Ég geri ekki mikið meiri kröfur til hrollvekjumynd ena að þær standi undir nafni -það er að þær nái að vekja upp hroll. Ef þær geta ekki staðið undir þessum kröfum, sem er tilfellið með Thirteen Ghosts, er ósköp lítil ástæða til að mæla með þeim við nokkurn mann.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Behind Enemy Lines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Behind Enemy Lines er einföld hasarmynd sem fjallar um bandarískan flugmann sem brotlendir á óvinveittu svæði og þarf að halda sér á lífi uns félagar hans í hernum ná að bjarga honum. Myndin á sína spretti en lítur þó á köflum út eins og tölvuleikur ásamt því sem það gerist ekki mikið annað í henni en að Owen er á harðahlaupum undan hinum ýmsu ógnum. Gene Hackman er góður í hlutverki yfirmannsins en mér fannst persóna hans vera hluti af því að myndin tekur sig dálítið of alvarlega. Líkt og Black Hawk Dawn nýtur þessi mynd góðs af því að koma út tiltölulega stuttu eftir 11. september og því eru vinsældir hennar vestanhafs skiljanlegar. Ef þessari heppilegu tímasetningu er gleymt er hér einungis um að ræða hasarmynd sem slefar yfir meðallagið. Ágætis afþreying, en ekki búast við neinu á borð við Crimson Tide eða Top Gun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
In the Bedroom
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

In the Bedroom er sérstaklega vandað drama sem fjallar um fjölskyldu sem býr í bandarískum smábæ. Fjölskylda þessi verður fyrir miklum missi sem varpar ljósi á ýmsar skuggahliðar meðlima hennar og mannlegs eðlis yfir höfuð. Þessi lýsing er viljandi óljós hjá mér, enda finnst mér trailerinn sýna eitt lykilatriði í söguþræðinum sem ég hefði frekar vilja komast að sjálfur. Allir leikarar standa sig með stökustu prýði og Sissy Spacek og Tom Wilkinson skila leikframmistöðum sem eru af Óskarsverðlauna kalíber. Jafnframt er handritið vel skrifað og það skilur myndina hæfilega mikið eftir opna til túlkunar af áhorfendum. Fyrir þá sem kunna að meta vandað drama er hér komin ómissandi kvikmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gosford Park
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gosford Park er hálfgerð morðgátumynd frá leikstjóranum þekkta Robert Altman. Hér hefur hann fengið stóran hóp af þungavigtarleikurum á borð við Emily Watson, Helen Mirren, Kristin Scott Thomas að ógleymdum Ryan Phillipe (hóst..) til þess að leika í mynd sem fjallar um veislu hjá bresku aðalsfólki þar sem atburðir taka óvænta stefnu. Söguþráðurinn er ekkert sérstaklega flókinn og tiltölulega auðvelt er að leysa morðgátuna á undan persónunum í myndinni, en það sagði heldur enginn að Gosford Park væri dæmigerð morðgátumynd. Það ánægjulegasta við myndina er að kynnast öllum þeim fjölmörgu persónum sem fyrir koma og samböndum þeirra á milli. Eina raunverulega umkvörtunarefnið sem ég hef er hið sama og við stóran hluta af myndum sem hefur verið að koma út síðustu ár: myndin er lengri en hún þyrfti að vera. En þrátt fyrir þetta býður Gosford Park upp á skemmtilega og vel leikna afþreyingu.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Black Hawk Down
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég verð eiginlega að vera ósammála flestum þeim sem hafa skrifað um Black Hawk Down hingað til. Eftir að hafa lesið yfirgnæfandi góða dóma um myndina og frétt af Óskarsverðlaunatilnefningunum fjórum sem hún fékk voru væntingar mínar í hærra lagi þegar ég sá myndina í gær. Því sem ég get verið sammála er að Black Hawk Down er mjög raunveruleg stríðsmynd sem er frábærlega vel útlítandi og með tæknilega vel gerðri hljóðrás. Fleira jákvætt get ég aftur á móti ekki sagt um þessa mynd. Tvö stærstu vandamálin sem hrjá hana eru í fyrsta lagi að persónusköpun er í algeru lágmarki og þar af leiðandi vekur það upp lítil viðbrögð þegar hinar ýmsu persónur eru dritaðar niður á stríðsvellinum. Í öðru lagi þá er myndin alltof einhæf. Tæplega klukkustund frá því að myndin hefst byrja stríðsátökin og standa síðan í einn og hálfan tíma. Þetta er einn og hálfur tími af vélbyssugelti, sprengingum og hermönnum að hlaupa frá einum stað til annars með það eina markmið að reyna að koma sér og félögum sínum lifandi frá stríðsvellinum. Hávaðinn og blóðsúthellingarnar halda manni auðvitað vakandi þennan tíma, en það líður ekki á löngu þar til atburðarásin er orðin verulega þreytandi, einhæf og endurtekningagjörn. Ég get skilið að BHD hafi notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum þar sem allt sem tengist bandaríska hernum og bandarískri þjóðerniskennd er orðið heilagt eftir 11. september, sem er í sjálfum sér ekkert skrítið. Aftur á móti sé ég ekki hvernig myndin getur höfðað til annarra utan bandaríkjanna en harðra stríðsmyndaaðdáenda. Söguþráður myndarinnar er byggður á sönnum atburðum sem gerðust í heraðgerð hjá bandaríska hernum í Sómalíu þegar margt fór úrskeiðis á sama tíma með hræðilegum afleiðingum. Ég efast ekki um að myndin dragi upp nokkuð rétta mynd af þeirri þolraun sem þessir hermenn gengu í gegnum en ég held samt að það hefði hægt að gera þetta að betri mynd með því að kafa lengra ofan í ástæður stríðsins eða byggja betur upp aðalpersónurnar frekar en að eyða svona miklu púðri í það sem gerðist á stríðsvellinum (no pun intended). Ég ætla ekki að segja að mér hafi þótt BHD vera leiðinleg eða slæm mynd, en fyrir mér er ágætis mælikvarði á kvikmyndir hversu oft ég lít á úrið mitt meðan á sýningunni stendur. Í þessu tilfelli var það bara of oft.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Wars: Revenge of the Sith
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er tregablendið að vita að maður eigi aldrei eftir að sjá aðra Star Wars mynd en á sama tíma ánægulegt að sjá seríuna klárast með frábærri mynd sem er að mínu mati næst besta í seríunni (á eftir Emipre). Þegar Attack of the Clones endaði var enn gríðarlega breitt bil sem átti eftir að brúa milli nýju myndanna og þeirra gömlu en þessi mynd gerir það tvímælanlaust og býður í leiðinni upp á óstöðvandi hasar og góðan söguþráð út í gegn. Það má segja að þessi hafi meira af öllu en nokkur önnur Star Wars mynd. Ég held svei mér þá að við getum fyrirgefið George Lucas fyrir Phantom Menace eftir þetta, það er ljóst fáir Star Wars aðdáendur munu fara ósáttir út af þessari..
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Beautiful Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

A Beautiful Mind er sannsöguleg kvikmynd (í stórum dráttum a.m.k.) sem fjallar um stærðfræðisnillinginn John Nash, en hann setti snemma á ferli sínum fram nýjar og merkilegar kenningar sem höfðu síðar víðtækar afleiðingar. Í myndinni Nash settur fram sem furðulegur sérvitringur sem hefur mikla snilligáfu og óendanlegan metnað þegar kemur að stærðfræði, en það kemur í ljós að snilligáfa hans hefur sínar skuggahliðar. Russell Crowe fer frábærlega með hlutverk Nash og sýnir enn aðra hlið á sér hér. Jennifer Connelly skilar einnig vel af sér hlutverki ástkonu hans og mun í kjölfarið vonandi fá meiri viðurkenningu fyrir að vera sú frábæra leikkona sem hún er eftir að hafa leikið í minna áberandi myndum síðustu ár. Myndin hefur verið gagnrýnd fyrir að sýna ranga mynd af því hvernig maður John Nash var í raun og veru en mér finnst engu að síður að öllum ætti að vera ljóst að hér er einungis um að ræða lauslega túlkun af ævi mannsins, ýmsir þættir í fari myndarinnar eru alltof persónulegir til þess að hægt sé að vonast eftir nákvæmri sannsögulegri frásögn. Það hefur varla farið framhjá mörgum að myndin hefur sópað að sér 8 tilnefningum til óskarsverðlauna og flestar þeirra finnst mér vera vel verðskuldaðar. Tónlist James Horner bætir líka miklu við myndina (þeir sem hafa séð hana geta bara prufað að ímynda sér hvernig myndin hefði komið út án tónlistarinnar). Í stuttu máli er hér um einstaklega góða kvikmynd að ræða ef fólk er tilbúið að taka henni sem hugsanlegri túlkun af lífi snillings frekar en heilögum sannleik.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Made
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Skemmtileg gamanmynd eftir John Favreau sem er einna þekktastur fyrir að hafa sent frá sér Swingers fyrir þó nokkrum árum. Made fjallar um tvo seinheppna vini sem vinna fyrir mafíuna við ýmis ómerkileg störf. Dag einn fá þeir tækifæri til þess að klífa metorðastigann með því að sinna mikilvægu en einföldu verkefni. Líkt og í Swingers fara Favreau og Vince Vaughn með aðalhlutverkin og eiga hér aftur mjög skemmtilegt samspil. Favreau leikur stórkostlega seinheppinn náunga og Vaugn er óþolandi vinurinn, en þó óþolandi á bráðfyndinn hátt. Einnig er gaman að sjá stóran hluta af leikarahópnum úr Sopranos þáttunum fara með aukahlutverk hér, en Favreau kom einmitt í gestahlutverki í Sopranos um svipað leiti og þessi mynd var í bígerð ef ég man rétt. Fyrir utan skemmtilega leikara gerir góður húmor og nokkur ótrúlega pínleg atriði (Favreau er sérstaklega góður í að skrifa pínleg atriði - man einhver eftir atriðinu með símsvarann úr Swingers?) myndina vel þess virði að sjá. Það er óhætt að mæla með Made sem traustri gamanmynd, alveg sérstaklega fyrir þá sem fíluðu Swingers.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spy Game
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Traustur spennumynd úr smiðju Tony Scotts, sem hefur áður leikstýrt myndum á borð við Crimson Tide og Top Gun. Myndin fjallar í stuttu máli um gamlan njósnara á vegum CIA sem er í þann mund að setjast í helgan stein, en þannig vill til að á síðasta starfsdegi hans kemst fyrrverandi samstarfsfélagi og lærlingur hans í hættulega stöðu sem mun leiða hann til dauða innan sólarhrings nema eitthvað sé að gert. Sýnishornin fyrir myndina gefa töluvert öðruvísi hugmynd um hvernig mynd þetta er en raun ber vitni. Sagan er í raun og veru sögð út frá augum eldri njósnarans, leikinn af gamla brýninu Robert Redford, og samband hans við lærlinginn (Brad Pitt) er skýrt með flashback atriðum. Spy Game er mjög góð afþreying í flesta staði, en stundum fannst mér hún gera ráð fyrir að áhorfendur væru heiladauðir - til dæmis er margoft minnt á það að söguhetjan sé undir tímapressu og það er gert á ótrúlega klunnalegan hátt. Fyrir utan þetta hef ég ekki mikið á myndina að setja og mæli með henni fyrir þá sem þyrstir í traustan njósnatrylli.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Duets
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Duets er kvikmynd sem lítið fór fyrir vestan hafs og hefur nú ratað í kvikmyndahús hérlendis. Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum var talað um að Gwyneth Paltrow og faðir hennar Bruce Paltrow ætluðu að gera saman mynd um karaoke söngvara og fá þáveranda unnusta Gwyneth, Brad Pitt, til að leika einnig í myndinni. Um þetta leyti slitnaði upp úr sambandinu hjá Paltrow og Pitt og síðan heyrði ég ekkert meira um þessa mynd fyrr en fyrir nokkrum mánuðum. Eins og kom fram fjallar Duets um nokkra karaoke söngvara og hvernig líf þeirra fléttast saman á óvæntan hátt í tengslum við karaoke keppni sem þau ætla sér öll að taka þátt í. Aðalpersónurnar eru sex talsins og eru allar leiknar af þekktum andlitum, nema kannski söngvarinn Huey Lewis sem fer með eitt aðalhlutverkið. Eins og við er að búast taka þessir ágætu leikarar nokkur valin lög í myndinni og eru sum af þeim eftirminnilegustu atriði myndarinnar. Gagnrýnendur vestan hafs voru ekki hrifnir af Duets þegar hún var sýnd þar, en ég verð eiginlega að vera ósammála þeim. Þetta er ekkert meistaraverk, en engu að síður betra en stór hluti af því sem maður hefur verið að sjá nýlega. Hér tekst vel að blanda húmor, drama og tónlist saman í skemmtilega heild sem nær að halda athygli manns út í gegn. Leikararnir standa sig vel og góð kemistría er í gangi á milli flestra þeirra. Að lokum verð ég að þakka þeim sem sá um að texta myndina á íslensku fyrir að senda mig og frúna í nokkurra mínútna hláturskast. Hvers vegna? Tiltölulega saklaus lína úr vel þekktu lagi sem hljóðar svo ''Her name was Lola - she was a showgirl'' var þýtt sem ''Hún hét Þóra - hún var hóra''.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hearts in Atlantis
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hearts in Atlantis er gerð eftir sögu Stephen King og fjallar um fullorðinn mann sem fer einn daginn að rifja upp sumar í æsku sinni sem reyndist vera vendipunktur í lífi hans. Með stórleikara eins og Anthony Hopkins um borð var full ástæða til að vænta hérna frábærrar myndar en því miður stenst Hearts in Atlantis ekki alveg væntingar. Hún er alls ekki slæm mynd, en hún þjáist fyrir það að sagan (a.m.k. handritið - ég hef ekki enn lesið bókina) er ekkert sérstök. Stephen King er mikið fyrir að nota þennan frásagnarhátt þar sem söguhetjan er komin til ára sinna og fer að rifja upp merkilega atburði, gott dæmi um þetta er The Green Mile. Þetta heppnast ekkert rosalega vel hérna og ef maður spáir í því eru þessir minnistæðu atburðir ekkert það sérstakir til að byrja með, a.m.k. ekki nógu spennandi til að halda heilli kvikmynd á floti. Anthony Hopkins er góður í sínu hlutverki en maður fær aldrei að kynnast persónu hans nægilega vel. Aðal barnaleikarinn er aftur á móti ekki alveg að standa sig hérna, einhver eins og Elijah Wood (þegar hann var yngri) hefði verið betri í þessu hlutverki. Hearts in Atlantis er alveg ágætis afþreying sem slík, en með það í huga að stór nöfn á borð við Anthony Hopkins og Stephen King eru að baki henni skilur hún ótrúlega lítið eftir sig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Heist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stórfín glæpamynd sem fjallar um hóp þjófa. Höfuðpaurinn í genginu er kominn til ára sinna og vill fara að leggjast í helgan stein, en þannig vill til að hann er þvingaður til þess að taka þátt í einu loka ráni. Upp úr þessu hefst spennandi atburðarás þar sem ekki er allt sem sýnist og engum er óhætt að treysta. Gene Hackman fer með aðalhlutverkið hér og stendur sig virkilega vel. Danny DeVito leikur ''viðskiptafélaga'' hans og er gaman að sjá hann í harðgerðara hlutverki en hann hefur áður verið í. Rebecca Pidgeon (sem var líka í síðustu mynd Mamet's, State and Main) er hálfgerður senuþjófur hér og fer frábærlega með hlutverk eiginkonunnar sem á alltaf hnyttin tilsvör. Það er frekar sjaldgæft í dag að ég fari á myndir sem mér finnst skemmtilegar allan tímann, oftast koma kaflar inn á milli þar sem manni leiðist og ef maður er óheppinn með getur þetta átt við um alla myndina. Aftur á móti var bíóferð mín á Heist eitt af þessum sjaldgæfu skiptum þar sem myndin hélt athygli minni allan tímann, svo hér er alveg greinilega verið að gera eitthvað rétt. Handrit Mamet's er vel skrifað og samtölin sérstaklega skemmtileg. Í stuttu máli er Heist því virkilega traust afþreying sem fær mín meðmæl.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shallow Hal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Shallow Hal er nýjasta sköpunarverk Farelly bræðranna, en þeir bræður hafa áður sent frá sér grínsmelli eins og Dumb & Dumber, Kingpin og Me Myself & Irene og nú síðasta Osmosis Jones. Myndin segir frá náunga nokkrum að nafni Hal (Jack Black) sem er í leit að konu, en slíka hefur hann ekki fundið þar sem hann einblínir á útlit allra kvenna sem hann kynnist og lætur sig persónuleika ekkert varða. Einn dag verður óvænt atburðarás til þess að Hal er dáleiddur til þess að sjá eingöngu innri fegurð fólks frekar en þá ytri, sem þýðir að ófrítt fólk birtist honum sem fallegt fólk ef það er með góða sál. Augljóslega setur þetta á stað skonda atburðarás sem felur í sér að Hal verður ástfanginn af konu, gallinn er bara sá að hún vegur á hálft tonn en þar sem hún hefur innri fegurð sér Hal hana sem fegurðardís. Jack Black bregst hér ekki frekar en í öðrum myndum sem hann hefur verið í og Jason Alexander (George úr Seinfeld) er líka stórgóður í hlutverki félaga hans og ber ábyrgð á nokkrum af fyndustu augnablikum myndarinnar. Að lokum fer Gwyneth Paltrow með hlutverk fílvöxnu kærustu Hal's og kemst ágætlega frá því, sérstaklega er skondið að sjá hana í ''fitubúningnum''. Yfir heildina er hér um ágæta skemmtun að ræða en í seinni hálfleik fannst mér þó óþarflega mikið um væmni og þó að boðskapurinn í myndinni sé góður verður ekki beint sagt að endirinn sé sannfærandi. Shallow Hal hefði getað verið dálítið betri mynd ef hún hefði haft raunhæfari endi eða ef meira púður hefði verið lagt í húmorinn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
From Hell
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

From Hell er dimmur spennutryllir gerist við lok 19. aldar í Bretlandi og fjallar um lögreglumann nokkurn sem er að leita af morðingjanum sem kallaður var Kobbi Kviðristir (eða Jack the Ripper) en eins og flestir vita myrti hann þó nokkrar gleðikonur á ógeðfelldan hátt. Helsti galli myndarinnar er að persónusköpun er mjög takmörkuð og afleiðing þess er að manni er nokkurn veginn sama um allar persónurnar. Það sem heldur áhuga manns er fyrst og fremst ráðgatan um hver morðinginn er ásamt því sem að aldrei er langt á milli blóðugra atriða. Helstu leikararnir sýna lítil tilþrif, Johnny Depp og Heather Graham hafa bæði gert mikið betri hluti en þetta. Hluti af ástæðunni fyrir því að ekki tókst betur til með þessa mynd er sennilega tengdur því að henni er leikstýrt af Hughes bræðrunum svokölluðu, en þeir hafa áður gert myndir á borð við Menace II Society og Dead Presidents sem eru af allt öðrum toga en þessi mynd. Persónulega hefði ég viljað sjá einhvern eins og David Fincher eða Tim Burton í leikstjórastólnum hér, þá hefði útkoman vafalaust verið betri. Í stuttu máli er From Hell því miðlungs spennutryllir sem keyrir meira áfram á blóði og andrúmslofti heldur en persónum og söguþræði. Tvær og hálf stjarna eru nokkuð nærri lagi.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
K-PAX
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndin fjallar í stuttu máli um geðlækni sem fær til meðferðar náunga sem kallar sig Prot og segist vera frá plánetu sem heitir K-PAX. Í fyrstu líta læknirinn og annað fólk á geðspítalanum á Prot sem hvern annan geðsjúkling en áður en langt um líður kemur í ljós að það er eitthvað sérstakt við hann. Jeff Bridges leikir geðlækninn og skilar hreint ágætri frammistöðu en senuþjófurinn er hinn frábæri leikari Kevin Spacey sem Prot. Ég hef dálítið blendnar tilfinningar gagnvart þessari mynd, hún er vissulega góð afþreying og inniheldur marga góða punkta en jafnframt því hefur hún holur í söguþræðinum sem er erfitt er að líta framhjá þegar til baka er horft. Það má deila um hversu stórar þessar holur eru, en þær fóru ekki mikið í taugarnar á mér fyrr en ég fór að hugsa út í þær eftir að hafa séð myndina og eyðilögðu því upplifunina ekki. Þegar öllu er á botninn hvolf vega kostir K-PAX upp galla hennar og er hún því vel þess virði að sjá. Hún er vel leikin, myndataka og tónlist eru fyrsta flokks ásamt því sem söguþráðurinn er ansi góður þegar hann nær sér á flug.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mulholland Drive
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mulholland Drive er nýjasta mynd leikstjórans sérvitra David Lynch, sem hefur fært okkur myndir á borð við Lost Highway og Straight Story ásamt sjónvarpsþáttaseríunni Twin Peaks. Mikið af því sem Lynch sendir frá sér hefur súrrealískt yfirbragð en í þetta skiptið fara hlutirnir langt fram úr hófi, eftir að hafa setið um tvo tíma yfir myndinni varð mér ljóst að ekki var neinn raunverulegur söguþráður til staðar. Tæknilega séð er myndin vel gerð og einnig vel leikin, en það breytir því ekki að hér er í raun um að ræða runu af atriðum sem mörg hver tengjast ekki hvor öðru á neinn vitrænann hátt. Ég ætla ekki að eyða mikið fleiri orðum í þessa svokölluðu kvikmynd, en ég vara fólk sterklega við þessari mynd. Ekki sjá hana nema þið séuð fyrir mjög súrrealískar myndir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ocean's Eleven
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er nýjasta mynd undraleikstjórans Steven Sonderbergh komin, en eins og flestir vita hlaut hann hvorki meira né minna en tvær Óskarsverðlaunatilnefningar síðast fyrir myndirnar Erin Brockovich og Traffic og vann fyrir þá síðarnefndu. Það sem er sérstakt við Sonderbergh er að engar tvær myndir eftir hann eru líkar að neinu leyti (fyrir utan sömu leikara stöku sinnum) og hefur hann því verið kallaður ''kvikmyndalegt kamelljón''. Ocean's Eleven sýnir vel að þetta er satt því hér tekur hann nýja stefnu með því að gera létta glæpamynd með fjölmennu úrvalsliði leikara. Þessi mynd kemur ekki mjög vel út í samanburði við síðustu tvær myndir Sonderberghs, en þær voru töluvert dýpri og alvörukenndari. Hér er aftur á móti um að ræða létta afþreyingu, í raun hálfgerða poppkornsmynd en með verulega sterku afþreyingargildi og ekki kom fyrir að mér leiddist á þessum tveimur tímum. Nokkur dæmi eru til um að kvikmyndir sem hafa mikið af stórleikurum innanborðs klúðrist á einn eða annan hátt, sem dæmi um þetta má nefna nokkrar myndir eftir Robert Altman. Sonderbergh hefur líklega verið meðvitaður um þessa hættu og því ekki sett markið of hátt, sem virðist hafa virkað því allir leikararnir skila sínu vel hér og myndin gengur vel upp sem samsteypt heild. Það er ekki alltaf sem maður vill sjá myndir eins og Traffic eða Erin Brockovich þegar maður fer í bíó. Stundum vill maður sjá léttmeti en það þýðir ekki að maður geri engar kröfur. Ocean's Eleven stóðst mínar kröfur vel og get ég hæglega mælt með henni fyrir þá sem eru að leyta sér að góðri skemmtun nú um hátíðarnar. Þrjár stjörnur, hiklaust.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Amelie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það sem slær mann helst við þessa mynd er hversu óaðfinnanlega flott útlit hennar er. Myndatakan er á heimsmælikvarða og þær tæknibrellur sem hér er að finna eru fyrsta flokks. Hér gæti verið á ferðinni meistaraverk ef söguþráðurinn væri af sama gæðaflokki, en svo er því miður ekki. Vissulega er hér að finna skemmtilegar persónur sem gera skondna hluti (garðálfurinn var til að mynda óborganlegur) en fyrir minn smekk snýst of mikið af myndinni um það að söguhetjan þorir ekki að hitta náunga sem hún er hrifin af og það eru takmörk fyrir því hversu lengi það er hægt að sýna þessu máli áhuga, sérstaklega ef manni var nokkuð sama til að byrja með. Fyrir okkur sem skiljum ekki frönsku vinnur hið flotta útlit myndarinnar dálítið gegn henni því að myndin sjálf er sífellt að keppa við textann um athygli. Það er greinilegt að aðrir eru að sjá eitthvað við þessa mynd sem ég sé ekki því að hún hefur hlotið mjög góða dóma yfir heildina. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta samt sem áður langdregin mynd sem notar augnakonfekt til þess að hylja þá staðreynd að lítið er spunnið í söguþráðinn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er líklega rétt að byrja þessa umfjöllun á að taka fram að ég hef ekki komið því í verk að lesa Hringadrottinssögu Tolkiens, enda er ég lítið fyrir ''fantasy'' bókmenntir. Lengst af get ég ekki sagt að ég hafi beðið þessarar myndar með mikilli eftirvæntingu, en það fór að breytast eftir að mikið af gífurlega jákvæðu umtali um myndina fór að berast til mín. Óhjákvæmilegt var að væntingar væru miklar, enda myndin búin að fá fjórar stjörnur frá öllum helstu gagnrýnendum út í heimi (nema Roger Ebert, sem gaf henni þrjár stjörnur eftir að hafa gefið Harry Potter fjórar). Þegar öllu er á botninn hvolft er það besta sem hægt er að segja um FOTR líklega það að hún stóð vel undir væntingum. Þetta er afskaplega vel gerð ævintýramynd með heilum helling af spennandi bardagaatriðum, ævintýralegum persónum og framandi umhverfi. Tæknibrellur eru notaðar í miklum mæli og eru þær allar fyrsta flokks. Ekki er hljóðrásin heldur síðri. Myndin er gífurlega löng (um þrjá tíma) en notar þann tíma vel og lætur áhorfendum aldrei leiðast. Ég vissi alltaf að þetta væri fyrsta myndin í trílógíu, en það kom mér dálítið á óvart að hún hefur engan raunverulegan endi - það vantar bara að það standi ''To be continued..'' þegar myndin endar - og svipar að því leyti dálítið til The Empire Strikes Back. Þetta dregur myndina samt ekki langt niður og gerir mann auðvitað spenntann fyrir framhaldinu sem verður vonandi af sama gæðaflokki. Ég efast stórlega um að ég myndi nokkurntíman gefa ævintýramynd fjórar stjörnur en FOTR er engu að síður eins góð og nokkur ævintýramynd getur vonast til að verða. Jákvæða umtalið sem fylgir myndinni á að mestu leyti fullkomlega rétt á sér og það er sannarlega rétt að hér ein best mynd ársins komin fram.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Pledge
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Pledge er óvenjuleg mynd sem er leikstýrð af Sean Penn, en hann hefur oft lýst yfir fyrirlitningu á þeim kvikmyndum sem koma frá Hollywood. Það kemur því ekki á óvart að hér er ekki um dæmigerðan spennutrylli að ræða. Myndin segir frá lögreglumanninum Jerry (Jack Nicholson) sem er um það bil að fara á eftirlaun, en á síðasta starfsdegi hans finnst lík 9 ára stúlku. Móðir stúlkunnar fær hann til að lofa sér að hann muni finna morðingjann og það vill þannig til að Jerry er maður sem tekur loforð alvarlega. Allur leikur í myndinni er til fyrirmyndar og þá sérstaklega hjá Nicholson. Tónlistin og myndatakan hjálpa einnig til við að skapa rétta stemmningu. Sean Penn hefur hér tekist að gera kvikmynd sem er áhugaverð, spennandi og umfram allt frumleg. Söguþráðurinn er mjög óútreiknanlegur og fær mann til þess að sjá hversu formúlukenndar flestar svipaðar Hollywood myndir eru í raun og veru. Veikasti hlekkurinn er líklega endirinn, en sumir áhorfendur eiga ef til vill eftir að verða ósáttir við hann. Engu að síður er The Pledge traust mynd með góðum leikurum.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Zoolander
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Zoolander er kolrugluð gamanmynd sem fjallar um karlfyrirsætuna vitgrönnu, Derek Zoolander, og hvernig hann flækist inn í ráðagerð hjá öflugustu mönnum í tískubransanum til þess að ráða forsætisráðherra Malasíu af dögum. Það er grínsnillingurinn Ben Stiller sem fer með titilhlutverkið og leikstýrir, en hann er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt í There's Something About Mary. Með einhverjum öðrum leikara í aðalhlutverki hefði Zoolander orðið að annarri Corky Romano, en Stiller er rétti maðurinn í hlutverkið og gerir vitleysuna fyndna. Það er ekki þar með sagt að Zoolander sé frábær mynd, það er oft töluvert langt milli góðra brandara en þegar þeir koma eru þeir líka góðir. Heil hersing af frægum leikurum og stjörnum fara einnig með smáhlutverk í myndinni, til dæmis David Duchovny, Cuba Gooding Jr., David Bowie, Natalie Portman o.fl. Zoolander á eflaust eftir að skemmta öllum þeim sem líkur við húmorinn hjá Stiller en ekki er eins víst að öðrum verði skemmt.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Glass House
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Glass House er spennutryllir sem fjallar um 16 ára stúlku sem þarf að búa hjá vinafólki fjölskyldu sinnar eftir að foreldrar hennar látast í bílslysi. Á yfirborðinu virðist vinafólk þetta, sem eru barnlaus hjón og búa í stórglæsilegu húsi, vera hinar bestu manneskjur en fljótlega kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist. Það er Leelee Soblieski, sem síðast mátti sjá í Joyride, sem leikur ólánsömu dótturina en stjúpforeldrana leika Stellan Skårdsgaard og Diane Lane. Leikframmistöðurnar eru þokkalegar en það verður varla sagt að leikararnir fá mjög mikið að vinna úr. Í sannleika sagt þá er þessi mynd hvorki fugl né fiskur, hún á sér spennandi augnablik en söguþráðurinn er heldur ófrumlegur ásamt því sem að atburðarásin er frekar útreiknanleg. Þokkaleg afþreying en ekkert meira.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Boondock Saints
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fínasta glæpamynd um tvo írska bræður sem eru búsettir í Boston og fá einn daginn köllun frá almættinu til þess að losa samfélagið við óæskilega einstaklinga á borð við mafíósa og aðra glæpamenn. Fljótlega kemst lögreglan á hæla þeirra með snarvitlausan en mjög skarpan rannsóknarlögreglumann (leikin af Willem Dafoe) í fararbroddi. Ég hef heyrt marga furða sig á því hvers vegna þessi mynd fór beint á myndband og verð eiginlega að taka undir það. Þetta er kannski ekkert ógleymanlegt meistaraverk þannig séð en samt sem áður betra en 90% af því sem maður hefur verið að fara á í bíó undanfarið. Myndin hefur ferskan stíl sem gengur að vísu ekki alltaf nógu vel upp en er athyglisverður engu að síður. Leikararnir eru allir góðir þó að það mætti reyndar saka Dafoe fyrir ofleik, ég vill reyndar frekar meina að persónan hans hafi verið svona ''over the top''. Auk þess að vera besta afþreying eru áhugaverðar pælingar í gangi í myndinni um það hvort sé rangt fyrir nokkra menn að taka lögin í sínar eigin hendur, jafnvel þótt þeir geri það til þess að bæta samfélagið. Traust skemmtun sem á fyllilega skilið megnið af umtalinu sem hefur skapast í kringum hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei