Gagnrýni eftir:
Doomsday
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Útlit á kostnað innihalds... Ég hélt að ég væri að fara á mynd sem nálgaðist eitthvað stíl og gæði 28 days og weeks later en það var öðru nær. Þó fannst mér hún ekki jafn slæm og mörgum öðrum. Fyrsti hálftíminn af Doomsday lofaði nefnilega býsna góðu. Þá var fín uppbygging á spennu, og einhver heildstæð kynning og saga og ágætis persónusköpun. Síðan þegar dró á síðari hlutann var eins og annars handritshöfundur og/eða leikstjóri hefði tekið við völdum, hún breyttist næstum því í Uwe Boll mynd... Og því hefði ég aldrei búist við miðað við upphafið. En í stuttu máli þá er sagan um faraldur sem dregur fjölda manns til dauða og er bráðsmitandi en síðan kemur í ljós að enn eru eftirlifendur í Glasgow, sem hafði verið lokað frá umheiminum í tugi ára. Allt í góðu með það. En það er hins vegar lítið vit í því hvernig þessi lokaði hópur hefur tekist á við einangrunina, annar hluti þeirra sýnir af sér villimennsku líkt og hann hafi aldrei kynnst siðmenningu og hinn hlutinn sækir nýja lífshætti til tíma riddaranna... Myndin er þó þokkalega leikin og hefur að geyma mörg flott atriði, sem þó er of mikið af á kostnað dýptar í sögu og persónusköpun. Sem sagt töluverð vonbrigði en stjörnurnar eru 2/4.
30 Days of Night
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það tók sinn að jafna sig eftir
She's the Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mjög skemmtileg og lífleg fjölskyldumynd, nútímaútfærsla á einni sögu Shakespeare's (''Twelfth Night, or What You Will.''). Segir frá stúlkunni Violu (Amanda Bynes), sem dreymir um að spila og keppa í fótbolta og leggur allt í sölurnar til að uppfylla drauminn, með því að lifa í hálfan mánuð sem strákur, í gervi tvíburabróður síns, Sebastians (James Kirk). Inn í söguna blandast að sjálfsögðu fjöldinn allur af litríkum persónum, s.s. dyggir vinir Violu og Duke, sem er herbergisfélagi Sebastians, og Viola fellur fyrir (sem Sebastian).. Og Olivia, sem Duke er hrifinn af, en sem hrífst fremur af Sebastian (eða Violu sem Sebastian)! Áhugaverð og spennandi saga og góður leikur og fullt af ævintýralegum uppákomum, sérstaklega í tengslum við flókin ástarmál sögupersónanna. Skemmtilegur húmor, unglingaflækjur og rómantík allt í bland. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í þessari mynd. Góða skemmtun.
Half Light
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fín mynd sem kom skemmtilega á óvart. Ég hafði nú litlar hugmyndir um Half light út frá trailernum og vissi eiginlega ekkert um myndina. En hún segir frá rithöfundinum Rachel Carlson (Demi Moore), sem flytur í sjávarþorp í Skotlandi til að safna kröftum og reyna að finna aftur innblásturinn til skrifanna, eftir að ungur sonur hennar drukknar. Fólkið tekur vel á móti henni og hún telur sig vera á réttri leið. En það virðist sem sonur hennar hafi enn eitthvað ósagt við móður sína að handan. Og fljótlega eftir að hún kynnist myndarlegum vitaverði í þorpinu (Hans Matheson), fara að gerast undarlegir atburðir. Rachel á æ erfiðara með að átta sig á muninum á ímyndun og raunveruleika og það má eiginlega ekki segja meira um framvinduna án þess að spilla fyrir áhorfinu. Half light hefur upp á bjóða mjög heillandi umhverfi, spennandi og flókna ráðgátu-sögu og vel útfærðar og leiknar sögupersónur. Endirinn sjálfur er sannarlega ekki sjálfgefinn og maður stendur eftir svolítið gáttaður. Mæli með þessari!
BloodRayne
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ok. Ég var búin að sjá tvær aðrar myndir nýlega sem nutu leikstjórnar og framleiðslu hans Uwe, House of the dead og Alone in the dark. Þið vitið hvað mér fannst um House of the dead, fílukarl, enda ekkert að gerast þar. Alone in the dark skartaði Christian Slater og var örlítið skárri en House of the dead. Ekki get ég nú sagt að þær myndir hafi verið vonbrigði, ég bjóst við að vera með ekta B-myndir í höndunum og það gekk eftir. Hins vegar eru til góðar B-myndir, þ.e. sem eru með fínan söguþráð, leik og tæknibrellur (spurning með tónlistina), en taka sig bara mjög óalvarlega. Nú er komið að BloodRayne, og hún er ekki ein þessara 'góðu' B-mynda, svo það sé á hreinu. Man lítið eftir henni og jafnvel ekki viss um að ég hafi náð að klára hana. Hins vegar fannst mér fílukarlinn ekki viðeigandi, enda voru fínir kaflar í myndinni og hún skartar allmörgum þekktum andlitum sem gera sennilega allt fyrir hana sem hægt er að gera (t.d. voru fínir þeir Ben Kingsley, Michael Madsen og Billy Zane, Michelle Rodriguez var sæmileg, og svo kom sjálfur Meat Loaf fyrir og það kryddaði aðeins myndina). Auk þess er sagan um vampírur og þar af leiðandi fær hún sjálfkrafa plús frá mér... Myndin er gerð eftir vinsælum tölvuleik og gerist á 19. öld í Rúmeníu. Sagan segir frá (hálfu) vampírunni Rayne, sem fer í hefndarleiðangur til að hefna fyrir illa meðferð á móður sinni og fær aðstoð frá tveimur vampíru-veiðurum (Madsen og Matthew Davis). Nóg af bardögum og tilraunum til tilfinningaríkra atriða... Rayne er leikin af Kristönnu Loken (sem flestir þekkja sem vél-kvendið úr Terminator 3), en hún elsku Kristanna var þó ekki alveg að gera sig (og æi búningurinn... mikil skelfing það). Hann Uwe sem leikstjóri er líklega að gera nákvæmlega ekki neitt, því það eru bara góðir (eða reyndir) leikarar sem komast frá hlutverkunum, hinir síðri eru einfaldlega ekki að virka fyrir persónur sínar, sem eru einnig daufar. Og það er einmitt einkenni Uwe (köllum það Uwe-heilkennið), hreinn og klár daufleiki, spennan drepst og sagan drukknar, þrátt fyrir oft á tíðum flott umhverfi og tæknibrellur (og jafnvel ágætis búninga). Sem sagt er BloodRayne dauf, óeftirminnileg mynd sem nær ekki upp spennu eða tengslum við helstu persónur og skilur lítið sem ekkert eftir sig. Það er þó hægt að láta hana rúlla svona ef menn vilja hafa slagsmál og forna tíma í bakgrunninum án þess að þurfa að fylgjast með sögunni... Ég þakka fyrir mig.
Keeping Mum
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bráðskemmtileg mynd með hinum eina sanna breska húmor. Ég hló miklu meira en ég hélt ég myndi gera. Var nú eiginlega yngst í salnum en allir skemmtu sér mjög vel. Frábær persónusköpun er í myndinni og öll hlutverk í traustum höndum. Rowan Atkinson yndislegur sem alvörugefni presturinn og Maggie Smith fer á kostum sem morðóða amman sem er svo ung í anda. Báðir þessir leikarar eru að leika hlutverk frekar ósvipuð sínum fyrri og þessi mynd getur ekkert nema bætt ímynd þeirra. Og Patrick Swayze leikur bandaríska perrann svo vel að hann fær mann eiginlega til að hata karakterinn. Mynd um konu sem myrðir mann og annan til að halda 'heimilisfriðinn' hefði nú laglega getað farið úrskeiðis. En þetta er bresk skemmtun eins og hún gerist best og því engin formúlumynd, heldur kemur hvert atriði að einhverju leyti á óvart. Um leið og maður er frekar smeykur við gömlu kellu þá þykir manni svo vænt um hana. Það er þessi einlægni hjá Grace og í raun einlægnin í myndinni sem slíkri sem gerir hana svo áhugaverða og skemmtilega. Keeping mum heldur athygli manns allan tímann og er mjög eftirminnileg, enda sérstök og kaldhæðin með eindæmum. Myndin ætti að hrista skemmtilega uppi í tilverunni hjá hverjum þeim unglingi eða gamlingja sem langar að hlæja vel með fjölskyldunni. Góða skemmtun.
The Break-Up
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ok. Ég bjóst ekki við að þetta væri fyndin gamanmynd. Og þetta er ekki fyndin gamanmynd, eins og markaðssetningin gefur til kynna. Þetta er í raun dramatísk mynd með gamansömu ívafi, og mér fannst hún jafnvel langdregin. Hún er frekar alvörugefin og tekur traustu taki á samskiptum kynjanna í sínu dramatískasta formi, Brooke (Aniston) vill fá virðingu fyrir heimilisstörfin (og aðstoð við þau) en Gary (Vaughn) vill helst horfa á sjónvarpið og leika tölvuleiki eftir vinnu. Hann vinnur við að kynna borgina fyrir ferðamönnum og er oft þreyttur eftir daginn. Hún vinnur sem listamaður í galleríi hjá hinni sérstöku Marilyn (Davis). Svo bæði vilja þau í þokkabót fá aukna virðingu fyrir dagvinnu sína. Mörg þekkt andlit koma við sögu í myndinni, ber þar hæst að nefna bræður Garys, Lupus og Dennis, sem eru í góðum höndum Cole Hauser og Vincent D'Onofrio. Ljósu punktarnir í myndinni eru áreiðanlega hinn söngóði Richard (John Michael Higgins) og hinn kvenlegi Christopher (Justin Long). Ég myndi segja að The Break up væri alls ekki gamansöm mynd fyrir unglinga, og markaðssetningi því frekar undarleg og jafnvel kolröng. Auk þess gegnir íbúðin sjálf afskaplega litlu hlutverki miðað við það sem maður gæti haldið út frá auglýsingum um myndina. Sem sagt The Break up er svona dramatísk samskiptamynd fyrir fullorðna. Mér fannst hún ekki skemmtileg, en samt vel gerð og vel leikin og því fær hún þrjár góðar stjörnur.
X-Men: The Last Stand
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fín mynd. Góður lokasprettur á skemmtilegri sögu. Ég bjóst alveg eins við að hún yrði algjört flopp, en hér hefur greinilega verið vandað til verka. Kjarninn er ekki alveg eins öflugur og í fyrri myndunum, en margar nýjar persónur komu til sögunnar, þar af hvað eftirminnilegastir hinn 'blái' Beast og hinn 'formfasti' Juggernaut, sem lyftu myndinni heilmikið upp og gáfu henni meiri sjarma. Ég get ekki gefið The Last Stand minna en þrjár og hálfa þar sem hún hefur að geyma allt það sem ég sækist eftir í myndum; sterkar persónur, góðan húmor, fínan leik, þrusugóðar tæknibrellur, og síðast en ekki síst þann boðskap að ofbeldi leysi ekki vandamál... eða sýndi hún kannski ekki fram á það... jæja henni er samt ætlað að sannfæra fólk um að friður er betri en ósætti, og mér finnst það takast. Það var mjög kraftmikið hvernig það var sýnt hversu erfitt getur verið að stjórna gríðarlegum kröftum, eins og í tilfelli Jean/Phoenix. Mér finnst það svo vera ágætis áminning á raunveruleikann þegar aðalpersónur lenda í lífshættulegum hremmingum sem þær komast ekki endilega úr.
Ég er ánægð með lokauppgjör X-men og skil sátt við þessa áhugaverðu ævintýrasögu. Takk takk.
Slither
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mjög skemmtileg hryllingsmynd, þar sem hugmyndafluginu er gefinn laus taumurinn... Alltaf gaman að svona myndum sem vita hverjar þær eru en taka sig ekki of alvarlega. Mjög flottar tæknibrellur og bærinn og umhverfið passa vel við söguþráðinn. Mjög fínn leikur, Nathan Fillion að standa fyrir sínu og hinir líka. Sæmileg persónusköpun, fínn húmor og spenna, og slatti af splatters. Ekki eins margar klisjur og ég bjóst við, en sagan fer svolítið út og suður og flakkar of mikið milli persóna til að eftir standi einhver heildstæð saga. Myndin er of mikið kjaftæði til að teljast vera mjög ógeðsleg, sem mér finnst kostur, ég fékk ekki upp í kok af neinu atriði sko. Hristir bara svona hæfilega upp í manni til að maður njóti bara afþreyingarinnar, ég hló alveg helling og salurinn var greinilega sammála um hvaða atriði voru mest hrikaleg og/eða fyndnust. Myndin er því með öðrum orðum, ekki eftirminnileg en vel þess virði að kíkja á í bíó, svona til að upplifa öðruvísi skemmtun. Takk takk og góða skemmtun.
Underworld: Evolution
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábært framhald, framar öllum vonum hjá mér. Nokkuð ólík fyrri myndinni, sterkari söguþráður ef eitthvað er og gaman að heyra hvernig umhverfishljóð eru hér mögnuð upp sem staðgengill hinna kröftugu og viðeigandi rokklaga sem einkenndu fyrri myndina. Þó er á ferðinni sama liðið og í fyrri myndinni. Leikstjórinn enn Len Wiseman og hann skrifar handritið ásamt Danny McBride og Kevin Grevioux sem fyrr. Það er auðvitað nauðsynlegt að sjá fyrri myndina á undan þessari, mæli með því, annars er fólk svolítið týnt. En í þetta sinn snýst sagan um það að vampíruforinginn Marcus (Tony Curran) vaknar á undan áætlun upp með miklum krafti og hefst strax handa við að 'hreinsa til' í undirheimunum. Selene (Kate Beckinsale), Michael (Scott Speedman) og hinum verður fljótt ljóst að hann er illviðráðanlegur og nái hans vilji fram að ganga verður ekki mikið eftir af veröld þeirra. Þau þurfa því að berjast fyrir lífi sínu og hópsins með öllu sem þau eiga og fá hjálp frá hinum forna Corvinus (Derek Jacobi) og hans liði og hinum hressa Tanis (Steven Mackintosh). Í leiðinni fáum við að kynnast persónunni Selene betur og þeim upplifunum og hremmingum sem hún á að baki. Þar að auki fáum við aukna tilfinningu fyrir upplifun Michaels, þegar hann gerir sér grein fyrir að ekki verður aftur snúið. Þarna er nóg af hasarhetjum, flottum bardögum og allt umhverfið og tæknibrellurnar eins og best verður á kosið. Allir leikarar eru að standa sig vel, nú er ég búin að taka Kate Beckinsale í sátt sem aðalpersónuna. Henni hefur greinilega tekist að finna sig betur í hlutverkinu. Scott Speedman enn betri en í fyrri myndinni, og blendingsútlitið hans er ólíkt skemmtilegra en þar. Hinn nýi ógnvaldur Marcus kemur mjög sterkur inn og er öruggur í höndum Tony Curran. Derek Jacobi er alltaf góður og Steven Mackintosh er flottur í hlutverki hins áhugaverða Tanis. Sem sagt ef þú fílaðir Underworld er Underworld: Evolution áreiðanlega eitthvað fyrir þig. Ég skil mjög sátt við hana og ætla jafnframt að vona að maður fái frekara framhald úr Undirheimum. Takk fyrir mig.
The Family Stone
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ja hérna. Þessi kom mér sannarlega á óvart. Hélt þetta væri bara venjuleg gamanmynd með vægri dramatík og amerískum endi. En ég fékk mikla dramatík í bland við mikinn húmor og ekki svo amerískan endi. Ég er bara fullkomlega sátt og þetta er hörkugóð mynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Leikarar eru vel valdir og standa sig allir frábærlega og maður skilur af hverju stóru nöfnin eru að spóka sig þarna. Það er skemmtilegur leikhússvipur á myndinni, þar sem aðalsviðsmyndin er hin myndarlegu húsakynni stórfjölskyldunnar. Sagan segir í stuttu máli frá jólafögnuði Stone fjölskyldunnar þar sem saman er komið... ja, áhugavert en býsna venjulegt fólk með sína kosti og galla. Þar eru frú Sybil (Keaton) og herra Kelly Stone(Nelson) í fararbroddi. Hinn framagjarni Everett (Mulroney) á léttrugluðu systkinin Amy (McAdams) og Ben (Wilson), bæði meiriháttar persónur og svo er heyrnarlausi bróðir þeirra Thad (Tyrone Giordano) einstaklega heillandi og á í styrku sambandi við hinn viðkunnanlega Patrick (White). Systirin Susanne (Reaser) er þessi indæla kona sem á indæla stúlku og indælan mann og eitt á leiðinni. Svo það er ekki beint rúm fyrir hina stífu Meredith (Parker) og hún er enn ver liðin hjá liðinu þegar Everett kemur með hana um jólin og hyggur á bónorð... Hún fær því hina hressu systur sína, Julie (Daines), til að koma og veita henni aðstoð við samskiptin... Misfyndnar uppákomur og fullt af tilfinningum og það kemur í ljós að Stone fjölskyldan hefur sín vandamál og hinar margbreytilegu persónur eiga meiri samleið en áður virtist. Það sem vekur svo sérstaklega athygli í myndinni er að allt heila leikaraliðið sem túlkar Stone fjölskylduna hefur lært táknmál fyrir hlutverk sín og setur það enn skemmtilegri svip á jólaupplifunina. Lítið fer fyrir tónlistinni og þagnir eru óspart notaðar til að ná fram réttri stemmingu. Endirinn kemur ekki á óvart en er samt góður og maður skilur sáttur við viðkynnin af Stone fjölskyldunni. Þar sem myndin er mjög 'djúp' á köflum hentar hún kannski frekar fullorðnum en börnum eða unglingum (gelgjurnar í salnum áttu svolítið erfitt með áhorfið) en getur þó hæglega verið fínasta fjölskylduafþreying. Ekki óttast það að þetta sé væmin fjölskylduvella, jú það er smá grátur en einnig hellings hlátur:-) En hver er svo þessi hæfileikaríki höfundur, Thomas Bezucha? Ég þekki ekki til verka hans (eina myndin sem ég fann heitir Big Eden, frá 2000, sem ég kannast ekki við) en ég á sannarlega eftir að fylgjast með honum í framtíðinni. Handrit hans og leikstjórn í The Family Stone eru til mikillar fyrirmyndar og ég segi bara meira svona! Verði ykkur að góðu og gleðileg jól :-)
Just Like Heaven
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Varúð! Viðbjóðslega væmin mynd! En ég er stelpa og því umbar ég það:-) Efnið finnst mér áhugavert, að láta rómantík kvikna hjá tveimur manneskjum sem báðar hafa aðeins 'annan fótinn á jörðinn' (hann andlega og hún líkamlega), þið skiljið. En hún fjallar sem sagt um ungan niðurdreginn mann, David (Mark Ruffalo), sem flytur í fallega íbúð þar sem hann fær óvænta óboðna sambýliskonu, Elisabeth (Reese Witherspoon), eða 'ráfandi sál' skulum við kalla hana. Þrátt fyrir ágreining þeirra á milli er ljóst að þau eiga ýmislegt sameiginlegt. David blessaður fer á bókasafnið og hittir þar kolruglaðan afgreiðslugaur, Darryl, sem er næmari en margir aðrir og fer John Heder snilldarlega með þetta frábæra hlutverk. Hann verður mikilsmetin aðstoð við ‘drauga’vandamál Davids í myndinni og stelur gjarnan senunni. Mörg skemmtileg atriði koma í kjölfar þess að David reynir að losna við Elisabeth úr íbúðinni, alls konar lið kemur til sögunnar, prestar, ‘ghost busters’ o.s.frv. Aðrir aukaleikarar eru lítið áberandi en standa sig samt vel. Sniðug klisja að hafa besta vin Davids, Jack (Donal Logue), sem sálfræðing. Hugmyndin er svolítið áhættusöm verð ég að segja, en þar sem ég er mjög ‘spiritual’ manneskja þá fannst mér myndin mjög skemmtileg, auk þess sem hún tekur sig mátulega alvarlega. Mark Ruffalo er algjört gull en Reese Witherspoon var frekar dauf, hvort sem það var svoleiðis sem persóna hennar átti að vera eða leiknum um að kenna. En ég kann samt alltaf vel við leikkonuna þótt hún sé ekki að sýna nein tilþrif. Mér leið mun betur eftir að hafa séð þessa væmnu rómantísku gamanmynd, hún hefur sérstaka ró yfir sér og það eru engin meiriháttar átök í henni, hún svífur svona þægilega áfram. Það gerist mátulega mikið og mátulega hratt til að maður njóti bara stundarinnar. Endirinn var samt yfirdrifið amerískur og dregur myndina niður, en af því allt hitt var svo ‘sætt’ og John Heder er snilld þá fær hún þrjár stjörnur. Mæli samt ekki með þessari mynd nema fyrir væmna kvenmenn eins og mig:-)
Serenity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábær skemmtun! Ég gerði ekki miklar væntingar til Serenity, bjóst við spennandi, frumlegri og skemmtilegri framtíðarmynd... Og ég fékk meira en það. Ég hef ekki séð þættina, en mun pottþétt leita eftir því. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Joss Whedon, á að baki vinsæla þætti eins og Buffy the Vampire Slayer og Angel. Hann hefur greinilega verið á réttri leið með Firefly þættina og er að gera mjög flotta hluti hér. Í stuttu máli er hér um að ræða nokkuð fjarlæga framtíð (eftir 500+ ár) þar sem mannfólkið hefur fyllt jörðina og hefur hafið búsetu á fjarlægum hnöttum. Aga er haldið með ýmsum aðferðum en stúlkan River er einstök og uppreisnargjarnari en gengur og gerist og getur það jafnt verið henni í hag sem og óhag. Bróðir hennar bjargar henni frá misnotkun yfirvalda og felur hana um borð í geimskutlunni Serenity. Þar eru fyrir áhugaverðar persónur og öll eiga þau meiri samleið eftir því sem á myndina líður. Flótti þeirra undan hinum skelfilegu ráfætum og fulltrúm yfirvalda, með hinn ískalda ‘The Operative’ í fararbroddi, virðist engum takmörkum háð og þó er alltaf stutt í skruggugóðan húmor inn á milli. Hér eru frábærar tæknibrellur á ferðinni og myndin hefur áreiðanlega kostað sitt, líkt og þættirnir. Leikarana hefur maður flesta séð áður hér og þar. Nathan Fillion (Two guys, girl and a pizza place, Buffy..., Miss Match o.fl.) smellpassar inn í hlutverk kafteinsins Mal; Adam Baldwin (sást m.a. í X-files, The Visitor, Angel o.fl.) leikur Jayne, þennan klassíska bardagaglaða og kaldhæðna félaga; Gina Torres (Matrix, Alias, Angel, 24 o.fl.) er glæsileg í hlutverki hinnar þrautseigu Zoe; Alan Tudyk (I, Robot, Dodgeball o.fl.) leikur mann hennar, hinn ráðagóða flugmann Wash; og systkinin River og Simon Tam eru mjög vel túlkuð af ballerínunni Summer Glau (Angel, 4400 o.fl) og hinum myndarlega Sean Maher (Party of five, Brian’s Song o.fl.); hin skemmtilega Kaylee er leikin af Jewel Straite (Da Vinci’s Inquest o.fl.); og hin fríða Inara er í höndum Morena Baccarin. ‘The Operative’ er snilldarlega leikinn af Chiwete Ejiof (sást í Love Actually, Four Brothers o.fl.). Allir leikarar eru vel valdir og hafa að auki úr mjög áhugaverðum og sterkum karakterum að moða. Aukapersónur eru ekki síður eftirminnilegar, til dæmis tvíburarnir Mingo og Fanty, Mr. Universe og Shepherd Book úr þorpinu. Fátt er um klisjur og endurtekningar í þessari mynd. Söguþráðurinn er hörkuspennandi og heldur manni pikkföstum frá upphafi til enda. Tónlistin er meira að segja mjög frumleg, gítarómar o.fl. spes sem gerir hana enn sérstæðari. Sem sagt í alla staði er Serenity frábær og nokkuð óvæntur smellur að mínu mati sem ég vona að sem flestir kíki á í bíó. Ég mæli allavega með myndinni fyrir þá sem fíla þætti og myndir með ævintýralegu spennu- og bardagaívafi eins og Buffy og Angel… og ef til vill Star Trek. Ég tek ekki annað í mál en að framhaldsmynd verði gerð áður en langt um líður og bíð óþreyjufull og tilbúin með fullt hús stiga handa henni:-) Takk fyrir mig!
A History of Violence
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Flott mynd! En sérstök og á köflum mjög skrýtin og hefur varla vikið úr huga mínum frá því ég sá hana fyrir einhverjum vikum. Ég vissi að mér fannst hún góð en treysti mér ekki til að skrifa um hana strax. Svoleiðis myndum gef ég alltaf plús, því það þýðir að boðskapur eða áherslur þeirra ná í undirmeðvitundina og til þess þarf hæfileika handritshöfunda og leikstjóra. Enda finnst mér handritið mjög gott. En það get ég tekið undir með öðrum að sum atriði eru of löng og sum atriði eru kannski óþörf. En á heildina litið skapar handritið athyglisverða sögu um mann sem hefur flúið dimma fortíð sína í bókstaflegum skilningi. Söguþráðurinn byggir upp spennu þar sem það á við -og ruglar mann í ríminu inn á milli. Ég þori að fullyrða að það var mun meiri spenna og hasar í myndinni en ég bjóst við, ég bjóst við meiri hádramatík en hún blandaðist svo skemmtilega inn í hasarinn að gat ekki annað en verið hrifin. Eitt hefur þó truflað mig og það er sú staðreynd að Mariu Bello var fengið hlutverk the all american sweetheart happy housewife. Jú hún hefur útlitið, en hæfileikana hef ég aldrei fundið hjá henni og hún var ekki að afsanna þá skoðun fyrir mér hér. Sorglegt, því ég held að hún hafi verið það eina sem ekki gekk upp í myndinni. Því allir aðrir leikarar stóðu sig hreint frábærlega, sérstaklega Viggo Mortensen, Ed Harris og William Hurt, sem eru mér allavega eftirminnilegastir. Karakterarnir þeirra voru mjög sterkir og kaldhæðnin ekki langt undan. Mjög flottir og hraðir bardagar eru í myndinni. Kynlífssenurnar eru ágætis krydd og ein þeirra var þó mikilvægust -þessi í stiganum, þar sem eiginkona Toms ákveður endanlega í hvoru liðinu hún er. Það var svo mjög sniðug hugmynd að blanda skólavandræðum sonarins í söguna, hvernig hann breyttist úr ofursaklausum pilt í sjálfstæðan ungan mann (sem hafði greinilega erft ákveðna eiginleika frá föður sínum). Svo var það sem ég og bíóvinurinn ræddum um, það var stílbreytingin á myndinni. Takið eftir því að í upphafi er þetta svona einfalt all-american lið sem tekur veruleikanum mátulega létt og svo þegar blákaldur veruleikinn bankar upp á breytist allt andrúmsloftið -sumir standa saman en aðrir gera uppreisn. Þessi kaflaskil hækka einkunn myndarinnar frá mér í þrjár og hálfa stjörnu þó að það sé í raun þar sem Maria Bello tapar alveg þræðinum. Tónlistin, myndatakan, hasarinn, og allt annað er að virka mjög vel. Ég mæli með því að allir kíki á þessa mynd, annaðhvort fílarðu hana í botn eins og ég, eða skilur ekkert í þessu lofi mínu hér... Takk fyrir mig!
Sin City
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hrikalega flott mynd. Fullkomið listaverk frá upphafi til enda. Hreinræktuð perla fyrir augu sem eyru. Ég á bara varla til orð yfir hana, hún hitti algjörlega í mark hjá mér. Einfaldur söguþráður en samt svo vandaður og hélt mér gjörsamlega bæði skiptin sem ég sá hana (og áreiðanlega öll hin sem á eftir koma, -líka flott aukaefni á dvd). Inniheldur jafnt 'ógeðslegustu' (vísbending: síðasta atriðið með Elijah Wood) sem og 'fallegustu' atriði (vísbending: Goldie og hjartað, so pretty..) sem maður hefur lengi séð. Flott hvernig hin djúpa rödd karlpersónanna er látin njóta sín sem sögumannarödd og ekkert verið að skafa af klæðaleysinu hjá mörgum kvenpersónum... sem eru flestar hörkutól, en samt gaman að því hvernig þær vefja karlmönnunum um fingur sér. Frábær umgjörð, umhverfi, persónusköpun (þar með talið förðun og búningar), klipping og tónlist, og allir leikarar að skila sínu besta. Persónurnar eru mjög eftirminnilegar, ekki síst vegna þess hve myndasögulegar þær eru, enda finnst manni réttilega sem maður sé staddur í miðri myndasögu. Sin City er einfaldlega með bestu (og flottustu!) myndum sem ég hef séð. Ég þakka fyrir mig.
Red Eye
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ef þú hefur hugsað þér að sjá þessa mynd, spurðu þig þá eftirfarandi spurninga: Vil ég sjá dæmigerða hrollvekju sem byggist á hraða og blóði? Vil ég hafa sem minnst af samræðum og sálfræðilegum pælingum? Vil ég hafa rómantík innan um spennuna? Ef þú svarar þessum spurningum játandi er þetta einfaldlega ekki mynd fyrir þig. Spennan byggist ekki á miklum hraða, blóði, rómantík eða neinu slíku. Hún fjallar um viðbrögð venjulegrar manneskju við að þurfa að forða sjálfri sér og öðrum nákomnum úr lífshættu, í hörkuspennandi kapphlaupi við tímann. Aðstæðurnar í flugvélinni eru þrúgandi, þögnin og hið sálfræðilega taumhald 'vonda' mannsins á 'góðu' konunni. Athyglisvert -og góð tilbreyting- að lítil áhersla skyldi hafa verið lögð á eitthvað kynferðislegt í 'sambandi' þeirra. Og svo má deila um hvort gaurinn hafi nokkuð verið mjög vondur? -tók hann kannski starfið bara svona alvarlega... Svona myndir sér maður sjaldan og er ég mjög ánægð með að hafa skellt mér á hana í bíó. Ég held einnig mikið upp á aðalleikarana, Cillian Murphy og Rachel McAdams sem bæði stóðu sig prýðilega, auk annarra leikara. Cillian Murphy á áreiðanlega eftir að láta frekar að sér kveða í framtíðinni, hann getur í það minnsta verið jafn hrikalega indæll og hann getur verið svakalega scary. Endirinn var að nokkru leyti fyrirsjáanlegur, en samt mjög kröftugur. Frábær leikur, skruggugóður húmor (takið t.d. eftir 'pennanum' og 'motel'-umræðunni eftir wc-atriðið), góð samtöl, klipping og síðast en alls ekki síst; tónlist, gera Red Eye að topp-spennumynd að mínu mati.
House of the Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jæja þar kom að því. Fyrsti fílukarlinn minn... Hún byrjaði nú bara eins og hver önnur unglingahrollvekja, fylgst með nokkrum pörum og maður vissi hver myndi hverfa/deyja fyrst. En fljótt hvarf allt samhengi úr söguþræðinum, auk þess sem klippingin (og leikurinn jú) var eins og hjá metnaðarlausum byrjendum... Svo kom svooo laaaangt bardagaatriði (þar sem virtist vera reynt að ná upp einhverri tölvuleikjaspennu) að maður spólaði bara yfir það. Þar með var fílukarlinn gulltryggður, þrátt fyrir flott umhverfi á köflum. Svo ef þig langar að sjá hvernig á ekki að gera hrollvekju kíktu á House of the dead. Annars skaltu sleppa henni og nota tímann í eitthvað annað.
The Machinist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mjög áhugaverð mynd en á köflum full langdregin, svo spennan á það til að falla frekar en að byggjast upp. Að sjálfsögðu frábær frammistaða hjá Christian Bale (Trevor) og ótrúlegt að hann skuli yfirleitt geta gengið miðað við útlitið á honum þarna. Jennifer Jason Leigh (Stevie), Michael Ironside (Miller) og aðrir eru að standa sig mjög vel. Sérstaklega fór John Sharian (Ivan) vel með hlutverk dularfulla og skelfilega mannsins í myndinni sem maður vissi ekkert hver var, fyrr en í lokin. Það gerist einhvern veginn allt síðustu mínúturnar og þá allt í einu verður maður spenntur (og ruglaður) og fær auk þess almennileg svör sem maður var eiginlega búinn að missa trúna á að fá. Þrátt fyrir að hinar ólíkustu hugmyndir hafi kviknað hjá manni þá voru svörin ólík þeim sem maður hafði búist við. Það gefur myndinni því stóran plús, auk þess sem hún gefur manni raunsæja mynd af alvarlegu svefnleysi. Sem góð ráðgátumynd fær The Machinist þrjár stjörnur en tvö atriði eiga mestan þátt í að hækka hana í þrjár og hálfa; hin raunverulega lausn ráðgátunnar og einstök innlifun Christians Bale í hlutverkið.
Monster in Law
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mikil vonbrigði. Ég hef verið hrifin af myndum Jennifer Lopez og held mikið upp á Michael Vartan og taldi að Jane Fonda væri fín sem tengdamóðirin frá helvíti. Þess vegna hafði ég svolítið miklar væntingar til Monster in Law. En nei, myndin situr nánast engan veginn eftir nema þá bara vonbrigðin ein og sér. Mætti halda að leikstjórinn (Robert Luketic) hafi dregið sig í hlé og látið mishæfa leikarana sjá um sig sjálfa. Ekki veit ég heldur hvað varð um sjarmann hjá Jennifer Lopez eða hvað þá Michael Vartan sem var mjög heillandi í Never been kissed og Alias þáttunum en er bara eitthvað svo þreytulegur hér. Myndin er eiginlega hvorki spennandi né rómantísk en það er helst húmorinn og tveir bestu vinir Lopez, leiknir af Adam Scott (var æðislegur) og Annie Parisse, sem halda henni innan miðjumoðs markanna, því það eru góðir brandarar í henni. Wanda Sykes á einnig mjög góða kafla sem einlægur þjónn frúarinnar, þótt manni finnist oft pirrandi hvað persóna hennar er hlutlaus (þar til í lokin). Aðalpersónurnar eru svolítið eins og þær hafi ekki verið tilbúnar -allir hálf týndir eitthvað. Auk þess fannst mér mínus að leggja ekki aukna áherslu á hvernig parið kynntist, þegar þau vissu hvað hitt hét var bara klippt og svo bara komið að trúlofuninni. Endirinn var síðan svo hrikalega væminn og amerískur að það hálfa hefði verið nóg, en ég bjóst svo sem við því. Niðurstaðan varð sem sagt sú að þetta er gamanmynd sem er ekki mjög rómantísk eða eftirminnileg en á nógu marga fyndna kafla til að tolla í tveimur stjörnum.
Batman Begins
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábær mynd! Heillandi og spennandi söguþráður (og flottar myndir frá Íslandi!), áhugaverðar persónur og mjög góð persónusköpun, flott tónlist, flottar tæknibrellur (ekki verið að ofnota þær) og góð myndataka fyrir utan full mikla hreyfingu í sumum bardögum. Mjög skemmtilegt að sjá forsögu hetjunnar og hvernig ,,aðstaða'' hans varð til ásamt öllum tækniundrunum sem fylgja honum. Nú sér maður líka hversu klár og metnaðarfullur hr. Bruce er í raun og hvernig hann spilar með mannskapinn... þykist vera enn einn ríki glaumgosinn... -á meðan hann vill bara bjarga heiminum (eða borginni til að byrja með) í friði. Liam Neeson og Michael Caine pössuðu einstaklega vel í sín hlutverk og kom góð frammistaða þeirra ekki á óvart. Þessi blessaði þjónn masters Bruce er alltaf sami trausti vinurinn og húmoristinn. Gary Oldman og Morgan Freeman eru alltaf góðir og allir voru bara að standa sig prýðilega. Christian Bale er alveg sniðinn í hlutverk leðurblökumannsins og hreint ótrúlegt að sjá formið sem hann hefur komið sér í eftir skuggalega beinagrindarútlitið sem hann hafði í The Machinist. Helsta stjarnan fyrir utan Bale var svo 28 days later gaurinn Cillian Murphy sem fór vel með hlutverk hins klikkaða dr. Crane. Spurning hvort þar var á ferðinni hinn tilvonandi Jóker í hinum Batman myndunum, án þess þó að ég vilji fullyrða um það strax. Það er bara einn galli á myndinni og það er Katie Holmes... Maður vissi fyrirfram að hún hefði verið ranglega valin í hlutverkið -það er ekki nóg að vera sætur, maður verður að gefa af sér og hafa sjarma, sem Bale hefur til dæmis yfirdrifið nóg af. Svo var eins og verið væri að troða henni inn í myndina, eins og það væri eiginlega ekki pláss fyrir persónuna. Allt í lagi að hafa svona aukapersónu en hefði þá mátt skrifa hana aðeins betur og hafa betri leikkonu. En að öllu öðru leyti er Batman Begins mjög vönduð mynd og augljóslega gerð af virðingu fyrir leðurblökumanninum og fortíð hans og umhverfi. Ég gerði miklar væntingar til hennar þar sem handritshöfundurinn David S. Goyer stóð að Blade myndunum, sem ég held mjög uppá, auk þess sem mér þótti Memento og Insomnina, sem Christopher Nolan leikstýrði (og samdi líka handritið að Memento), mjög áhugaverðar. Það vantar bara herslumuninn upp á fullt hús stiga hjá mér, hlakka til að sjá framhaldið. Takk fyrir mig.
Constantine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Örugglega upphafið af lengri sögu. Constantine er þrælskemmtileg ævintýramynd sem allir léttruglaðir aðdáendur fjörugra og flottra ævintýramynda ættu að kunna að meta. Að sjálfsögðu sló hún í gegn hjá mér, þar sem ég tilheyri þeim hópi. Stílhrein mynd, flottar tæknibrellur og fínasta helvíti, góður húmor og bara vel gerð í alla staði, auk þess að vera með tveimur af mínum uppáhalds leikurum, Keanu Reeves og Rachel Weisz. Ekki var mikið um tónlist í myndinni, heldur var meira stuðst við umhverfishljóð, sem voru mögnuð upp til að skapa rétta stemningu. Mér finnst Constantine mjög spennandi karakter og ætla rétt að vona að maður fái að sjá meira af honum. Í stuttu máli fjallar myndin um unga lögreglukonu (Weisz) sem er mjög næm á hið illa í umhverfinu, sérstaklega staðsetningu glæpamanna, sem stuðlar að því að hún handtekur hvern óþokkann á fætur öðrum. Eftir að hún verður fyrir alvarlegu áfalli liggja leiðir hennar til særingameistarans Constantine (Reeves), sem er fremstur í sínum flokki og óttast að eitthvað sérstaklega illt sé í aðsiglingu. Hér er á ferðinni mjög spennandi saga um baráttu góðs og ills, sem er alveg þess virði að sjá í bíó. Góða skemmtun!
Million Dollar Baby
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábær mynd eins og víða hefur komið fram. Hillary Swank hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og auk frábærrar frammistöðu hennar eru Eastwood og Freeman snillingar í að leika þrjósk gamalmenni. Gamli karlinn veit sko alveg hvað hann er að gera. Það sem hreif mig hvað mest við þessa vel gerðu mynd, var hversu stórkostlegan húmor hún hafði að geyma, hann jók skemmtanagildi hennar svo um munaði. Persónusköpunin er einnig algjör snilld, allar persónur eru alveg úthugsaðar og sjálfri sér samkvæmar í gegnum myndina. Ég hef nú aldrei fylgst að ráði með hnefaleikum, en ef eitthvað gæti ýtt undir þann áhuga þá er það svona mynd, þrátt fyrir að hún sýni íþróttina líklega í réttu ljósi, með öllum þeim kostum og göllum sem fylgja. Million dollar baby á allt það hrós sem hún fær vel skilið, þótt hún sé ekki í hópi minna uppáhalds mynda. Þetta er mynd sem flestir gætu haft gaman að, auk þess sem hún færir manni góða lífsspeki, t.d. um mikilvægi þess að láta gott af sér leiða.
Ghosts of Mars
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bara skemmtileg mynd! Hefur fólk ekki húmor fyrir henni? Ég hélt að þetta væri glötuð mynd sem myndi svæfa mann eða koma manni í hláturskast vegna ömurlegs leiks og tæknibrellna. En svo var hún á skjánum um daginn og ég ákvað að kíkja á hana. Mér leist ekkert svaka vel á hana í byrjun en hún sótti í sig veðrið og mér fannst bara engin tímasóun að horfa á hana! Mér fannst hún bara skemmtileg. Þetta er ekki gáfulegur söguþráður og enginn toppleikur, en hef ég nú margoft séð það verra. Mars orðin fanganýlenda og nú sveima þar um brjálaðar draugaveirur og fólk breytist í algjöra villimenn við að smitast af þeim... Mér finnst hún bara ekkert síðri en Dawn of the Dead, hún er bara öðruvísi. Hún er svo greinilega ekki gerð af algerri alvöru, það er verið að gera grín að veiru- og uppvakningamyndum, eða þannig fílaði ég hana allavega. Hún er svo ýkt að mér finnst ekki hægt annað en að hafa gaman að henni. Og mér fannst hún bara hörkuspennandi líka. Fangar að vinna með löggunni gegn veiru sem er ofurefli af því það virðist ómögulegt að tortíma henni... Ég mæli með því að þeir sem fíla gamansamar framtíðarhrollvekjur en hafa ekki þorað að kíkja á Ghosts of Mars vegna gagnrýninnar, geri það og óska ég þeim bara góðrar skemmtunar. Mér finnst hún svona álíka og Idle Hands -ofurkaldhæðin og ógeðsleg, en hin mesta skemmtun.
Resident Evil: Apocalypse
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þrusugóð ævintýra/spennumynd -alveg eins og ég vil hafa þær! Flottur leikur, flottir bardagar, flott tónlist, flottir búningar, flott grafík og bara flott mynd. Ég fílaði fyrri myndina mjög vel og bjóst ekki við neinu af þessari en hún kom mér svona líka algjörlega á óvart. Þær fá báðar svo gott sem fullt hús hjá mér. Þessi er jafnvel enn betri en fyrri myndin. Endirinn er sérstaklega ánægjulegur hér. En nú er aðalpersónan enn komin á stjá og í enn verri heimi en áður og sýnir fljótt mátt sinn sem ofurmanneskja eins og hægt er að kalla hana. Hún þarf að kljást við gamla óvini sem nýja og virðist að sjálfsögðu ósigrandi, hvort sem hún berst við menn eða önnur fyrirbæri. Mikill hraði, hasar og spenna og heill söguþráður sem heldur athyglinni allt í gegn. Ég dýrka svona myndir... Mæli með þessari mynd fyrir alla aðdáendur góðra framtíðar- og spennumynda. Vona að það komi framhald áður en langt um líður. Takk fyrir mig.
Eternal Sunshine of the Spotless Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með þessa mynd, því ég hafði miklar væntingar til hennar. Ég held mikið upp á Jim Carrey og Kate Winslet og finnst þau frábærir listamenn og er engin undantekning á því hér. Allir leikarar gerðu gott í myndinni. Þetta er ofsalega flott, listræn og vel gerð mynd og að öllu jöfnu með áhugaverðan söguþráð. Ég er venjulega hrifin af skrýtnum, léttrugluðum og smádramatískum fortíðarflippsmyndum eins og maður gæti flokkað þessa! En þrátt fyrir snilldarlega klippingu Valdísar Óskarsdóttur og flotta litanotkun og grafík, hreif myndin mig ekki eins og ég hafði búist við. Hún var of ruglingsleg á köflum og hélt ekki nógu vel athygli minni af þeim sökum. Ég var eiginlega alltaf að bíða eftir einhverri niðurstöðu eða einhverjum endanlegum endi, en það kom ekki. Ég get ekki mælt með þessari mynd fyrir aðdáendur rómantískra drama/gamanmynda þótt hún eigi mjög góða spretti. En ég sé að margir fíla hana í botn og mér finnst bara gott mál að svona sérstök mynd skuli fá góða dóma. Aldrei þessu vant gef ég lægri einkunn -en meðaleinkunnin er hér- fyrir öðruvísi myndir... Ég vil meina að Eternal Sunshine of the Spotless Mind hefði getað orðið enn betri með aðeins heilsteyptari söguþræði. Engu að síður mjög heillandi mynd og vel yfir meðallagi :-)
The Butterfly Effect
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Vá!! Það er eiginlega allt og sumt sem hægt er að segja um þessa stórfurðulegu en áhugaverðu mynd sem pælir listavel í óreiðukenningunni. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um hana annað en að hún hélt athygli minni allan tímann og skildi mig eftir í heimspekilegu spurningaflóði í lokin. Flott mynd og vel heppnuð að mínu mati. Asthon Kutcher getur leikið, ég vissi það ekki fyrr en nú. Hann leikur óaðfinnanlega og án allra stæla svona líka grafalvarlegt og svo ég noti nú orðið aftur, stórfurðulegt hlutverk. Myndin segir sögu drengs sem átti mjög átakanlega ævi og þjáðist af sjaldgæfum heilatruflunum sem hann erfði frá föður sínum. Þær ollu því að hann fékk öðru hverju blackout (og meðfylgjandi minnistap) -aðallega þegar slæmir atburðir gerðust. Af þessum sökum skrifaði hann að læknisráði dagbók og punktaði helstu athafnir sínar niður svo hann myndi þær betur. Þegar hann er síðar kominn í heimavistarskóla eftir að hafa verið laus við blackoutin síðustu árin, kemst hann að því að dagbókin hans er hreint ekkert venjuleg og undarlegir atburðir fara að gerast þegar hann gluggar í hana... Miðað við það hve mikið fortíðarflipp (í öllum sínum skilningi) á sér stað gengur sagan ótrúlega vel upp. Allar persónur eru vel úthugsaðar -enda ekki annað leyfilegt í svona mynd sem fjallar í raun um það hvort einn maður geti mögulega umturnað örlögum sínum (og þar af leiðandi lífi allra sem á vegi hans verða). Hér gegna góð myndataka og leikur tvímælalaust lykilhlutverki. The butterfly effect er gott dæmi um mynd sem þú annaðhvort fílar í botn eða þolir ekki. Þótt ég tilheyri fyrri flokknum skil ég vel þá sem falla í þann seinni, því mynd sem inniheldur svona sálarflækjur og djúpar (eða öllu heldur grátbroslegar) vangaveltur um örlög og tilveru mannsins (í allri sinni mynd) er ekki fyrir alla. En það gleður mig að sjá hvað hún fær góða dóma hér, því hún á það sannarlega skilið að mínu mati.
Blade: Trinity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hörkumynd eins og hinar fyrri. Ég fíla þær allavega í botn... Þessi er óneitanlega öðruvísi en hinar og einblínir kannski meira á alvarleikann að baki tilvist vampíranna innan um blessað mannkynið, enda er FBI (og sálgreinarnir) og co komin í málið. Sagan í þessari mynd vekur athygli á því hvaða hlutverk Blade hefur í framtíðinni og þar af leiðandi hvernig honum tekst að vinna með unglingunum eins og hann kallaði hina tvo hluta vampírubanaþrenningarinnar. Nýju tvær aðalpersónurnar eru mjög athyglisverðar og ég vissi satt best að segja ekki að Ryan Reynolds gæti verið svona mikill töffari -og það flottur töffari... Hann kom með nýja og frábæra takta og stal oft senunni. Jessica Biel fór vel með sinn karakter, og gerði eiginlega eins mikið úr honum og hægt var, miðað við hve óáhugaverður hann var oft. Það hefði mátt gera hann aðeins kröftugri. Wesley Snipes er alltaf góður og hér koma fram nýjir taktar í Blade-kallinum... stoltið þar efst á baugi -hann getur ekki látið einhverja unglinga hjálpa sér að losna við vonda liðið... hann hljómaði stundum eins og reynsluríkt en þrjóskt gamalmenni... en það var bara gaman að því. Dracula eða Drake skil ég ekki af hverju var settur í hendur Dominic Purcell, þessi fíni og flotti leikari er alltof góðlegur til að geta náð fram grimmdinni og dýrseðlinu sem á að einkenna höfuðblóðsuguna (enda þekkir maður hann best sem hinn dularfulla öðlingsdreng John Doe úr samnefndum þáttum). Hefði verið sniðugra að fá einhvern eins og Goran Visnjic í hlutverkið, eins og einn vinur benti mér á. Það voru því kannski helstu mistökin. Og ég veit ekki alveg hvort maður getur sætt sig við hvernig skilið er við Drake í lokin. Kvenyfirmaður vampíranna (Parker Posey) var vægast sagt vélrænn karakter og hefði kannski mátt setja aðeins meiri tilfinningu í hana. En allt í allt fannst mér myndin vel heppnuð og nánast eins flott og mögulegt var. Ég fékk allavega sögu sem ég var sátt við. Endalaus hasar og passlegur hryllingur til að halda athyglinni. Tæknibrellurnar eru að sjálfsögðu til fyrirmyndar og tónlistin mjög góð (og hávær) og mikið leikið sér með myndavélina, hljóðið og litina, til að fá fram svona listrænt og allt að því ljóðrænt yfirbragð og tekst það mjög vel. Húmorinn toppaði þó algjörlega myndina -ef maður ætlaði að geta meðtekið allar ljóðrænu blótræðurnar í myndinni þyrfti maður að sjá hana oft og mörgum sinnum... Mér finnst því Blade: Trinity bæði flott mynd og fyrirtaks afþreying fyrir aðdáendur fjörugra vampírumynda og skil sátt við hana.
Gothika
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hörkugóður sálfræðitryllir sem snerti mig mjög sem sálfræðinema og hugsandi manneskju. Halle Berry var að sýna mjög góða frammistöðu og Robert Downey Jr. klikkar ekki. Penelopé Cruz hefur ekki verið í neinu uppáhaldi hjá mér en hér er hún að gera góða hluti. Leikstjórn og handrit eru hér augljóslega í góðum höndum hins franska Matthieu Kassovitz og Sebastian Gutierrez (hefur m.a. skrifað Karen Sisco þætti) þótt þessi mynd sé alls ekki fyrir alla. Ég mæli með henni fyrir aðdáendur góðra sálfræðitrylla eins og The Cell. Hvar eru mörkin milli raunveruleika og ímyndunar? Hvenær er rétt að gefast upp þegar allir álíta mann klikkaðan nema maður sjálfur? Mjög góðar pælingar eru hér á ferðinni þótt það séu vissir gallar á framsetningu þeirra sem draga myndina örlítið niður. Það ríkir svolítið mikil ringulreið út alla myndina, sem ef til vill er viljandi gert til að endurspegla geðshræringu aðalpersónunnar. En Gothika er frábær spennumynd að mínu mati fyrir þá sem vilja láta hrella sig hressilega og njóta þess að kafa í undirmeðvitundina.
The Village
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi maður er sannkallaður snillingur! Myndirnar hans eru nákvæmlega eins og ég vil hafa þær -ef þær fá ekki fullt hús vantar lítið upp á hjá mér. Auk þess sem hann er sérfræðingur í að velja réttu leikarana. Ég hef þurft að hugsa mig um mjög lengi áður en ég ákvað að gefa The Village fjórar stjörnur. Það eru einhverjir töfrar yfir þessari mynd og ég féll í hálfgerðan trans á meðan á áhorfinu stóð. Maður verður hiklaust að sjá hana oftar til að ná henni alveg. Hér er á ferðinni mjög frumleg mynd með frábærri persónusköpun og pottþéttum leikurum sem skilur mikið eftir sig, a.m.k. í mínu tilfelli. Um miðja myndina kemur mjög átakanlegt atriði þar sem ein aðalpersónan lendir í hremmingum sem enginn getur hafa búist við. Sama gildir um endinn -flestir eru búnir að reikna ýmislegt út úr þessari spennandi sögu en ég held ég eigi það sameiginlegt með öðrum áhorfendum að engan óraði fyrir bláendinum. Joaqin Phoenix er alltaf að sanna það hversu hæfileikaríkur hann er og engin undantekning er á því hér. Sigourney Weaver er ekki í eins stóru hlutverki og ætla mætti og verður svolítið ósýnileg -leikhæfileikar hennar og Johns Hurt falla í skuggann af þremur aðalpersónunum, leiknum af Phoenix, Adrien Brody (var ótrúlega góður) og Bryce Dallas Howard sem kom virkilega á óvart og verður gaman að fylgjast með í framtíðinni. Hún er aðeins 23 ára gömul og á sannarlega framtíðina fyrir sér. Margar spurningar vakna við áhorfið: -Hverjir eru þeir sem ekki má tala um og þola ekki rauðan lit? -Getur fólk lifað hamingjusömu lífi í einangruðu samfélagi í skugga ótta? -Er skynsamlegt að láta einskonar öldungaráð stjórna samfélagi? Og síðast en ekki síst: -endaði myndin vel eða illa? Ef þið pælið ekkert allt of mikið í hlutunum er þetta ekki mynd fyrir ykkur. Ef þið hafið gaman af djúpum vangaveltum og heimspekilegum umræðum sjáið þá The Village. Þessi mynd var að minnsta kosti einstök upplifun fyrir mig.
The Bourne Supremacy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þetta er frábær mynd og gefur fyrri myndinni lítið eftir. Damon er pottþéttur sem hin þrautseigi Bourne og allir aðrir leikarar eru að standa sig mjög vel. Ég er bara mjög sátt við myndina og get ekki beðið eftir lokamyndinni sem verður ábyggilega ennþá kraftmeiri. Hér er nóg af hasar, spennu og dramatík og þar að auki klikkar húmorinn ekki. Einir hröðustu bardagar sem ég hef séð -maður fékk næstum hausverk á því að fylgjast með. Svona eiga bardagar að vera. Áður en myndin var hálfnuð var skellt framan í okkur mjög átakanlegu atriði sem eflaust enginn hafði séð fyrir og var ég mjög ósátt með það, ásamt fleirum geri ég ráð fyrir (og þið sem hafið séð myndina vitið hvað ég á við). En góðar sögur gera manni reglulega grikk -þannig er nú það. Ég mæli hiklaust með The Bourne Supremacy.
Spider-Man 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábær skemmtun frá upphafi til enda. Góður leikur, fullkomnar tæknibrellur, flott tónlist og passleg dramatík og heimspeki í bland við allan hasarinn og spennuna. Góður húmor og bara langflest gengur algjörlega upp. Svona á að gera framhaldsmyndir. Flestir sem þekkja Spiderman söguna ættu að vera sáttir við útkomuna. Hér á Peter Parker í mikilli innri baráttu og er villtur í frumskógi glæpa og ástar sinnar gagnvart Mary Jane. Nýja illmennið setur allt á annan endann og Spiderman á ekki sjö dagana sæla. Niðurstaðan og endirinn komu mjög vel út og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ekki meira um Spiderman 2 að segja en: Megið ekki missa af þessari! Takk fyrir mig.
The Chronicles of Riddick
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hörkumynd með djúpum pælingum, full af hasar og áhugaverðum persónum -þá ekki síst Riddick sem er mjög heillandi karakter. Hann er á flótta út alla myndina og hefur endalausar leiðir til að koma sér úr vandræðum (eða í þau). Hann á ekki í djúpum samskiptum við annað fólk en verndar þá sem standa honum næst jafn vel og hann gengur örugglega frá óvinum sínum. Mun betri mynd en ég nokkurn tímann bjóst við. Ég var ein af þeim sem dýrkaði Pitch Black og var hrædd um að þessi yrði vonbrigði en það var öðru nær. Hún er lítið síðri en sú fyrri. Hér eru frábærar tæknibrellur og flottir búningar og umgjörð og góður leikur hjá flestum. Sterkur háspennu söguþráður sem heldur manni pikkföstum við skjáinn -það var ekki hlé á minni sýningu og var ég fegin því. Vin Diesel með eina bestu frammistöðu sína hingað til og hin gamla góða Judi Dench klikkar ekki. Tónlistin var þrusugóð eins og í fyrri myndinni. Það voru fáir í stóra salnum en mikil stemning samt sem áður. Ég var mjög hrifin og get ekki beðið eftir næstu mynd -sem ég er fullviss um að komi innan 5 ára. Aðdáendur Pitch Black og góðra spennu- hasar- framtíðar- og ævintýramynda mega ekki láta The Chronicles of Riddick fara fram hjá sér. Takk fyrir mig.
Mean Girls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fín gamanmynd með góðri heimspeki og bara mjög góðum húmor. Um táningsstúlkuna Cady sem fer í fyrsta sinn í almenningsskóla eftir að hafa búið í Afríku alla ævi og fengið þar heimakennslu. Söguþráðurinn er að mörgu leyti kunnuglegur og fyrirsjáanlegur: hún eignast bæði óvinsæla vini og vinsæla og myndast mikil togstreita hjá henni á meðan hún finnur sig. Verður hrifin af fyrrverandi kærasta vinsælustu stúlkunnar og þarf að ákveða hvort hún vill heilla hann og vera vinsæl eða vera með nördunum í stærðfræðikeppni. En það er bara unnið merkilega vel út úr þessum klisjum og myndin kom mér skemmtilega á óvart.
Tvær og hálfa stjörnu fær Mean Girls fyrir að vera vel skrifuð, skemmtileg og fyndin gamanmynd -og hálfa stjörnu auka fyrir góðan leik, þar sem allir skiluðu sínum hlutverkum vel og er það ekki gefið í svona unglingamyndum. Þetta er þó ekta stelpumynd og mæli ég ekki með henni fyrir stráka og þetta er ólíklega mynd sem öll fjölskyldan getur horft saman á. Hún er hins vegar ekki fyrir yngri en svona tólf ára, því hún er það djúp á köflum að yngri stúlkur skilja hana ekki nógu vel og skemmta sér þar af leiðandi ekki eins vel. Ég og vinkona mín vorum með þeim eldri í salnum, en skemmtum okkur -ef eitthvað var- betur en yngra liðið. Mæli hiklaust með að vinkonur á aldrinum 14-22 ára fjölmenni á Mean Girls :-)
The Wedding Planner
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Æðisleg mynd sem ég get horft á aftur og aftur. Ekta stelpumynd þó, væmin og ofurrómantísk. En stundum er gott að slaka á þessum spennu- og hryllingsmyndum og sjá eina svona upplífgandi, fallega og einlæga gamanmynd. Maður veit jú alltaf hvernig fer í svona myndum, en þegar þær eru vel leiknar með áhugaverðum og fjölbreyttum persónum -og með fínum húmor og nóg af skondnum uppákomum, þá eru þær bara algjört yndi -a.m.k. fyrir mér :-)
Van Helsing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Agaleg vonbrigði. Einn hrikalegasti leikur sem ég hef lengi séð og persónurnar út og suður. Hún skríður yfir meðallag hjá mér af því ég elska ævintýri. En skemmtanagildið fólst aðallega í svakalega góðum tæknibrellum og svo lélegum leik að maður skellti upp úr (yfirleitt á kolröngum augnablikum). Kannski var það planað að hafa þetta svona í gamla stílnum, þar sem sviðsmyndin vóg meira en leikurinn. Ein persónan var þó frábær og það var blessaður munkurinn, sem var enda snilldarlega leikinn af David Wenham (Faramir úr LOTR). Frankenstein var vel leikinn, en persónan var gerð jafn væmin og hún var mikið hörkutól sem gengur ekki upp. Hugh Jackman var frekar slappur og Drakúla gaurinn var nú bara ömurlegur, ekki fór nú mikið fyrir hinum sögufræga kynþokka yfirblóðsugunnar. Kate Beckinsale tjáði sína óskipulögðu persónu illa og bjóst ég nú enda ekki við meiru frá henni. Konurnar hans Drakúla voru svo illa leiknar að það leit út fyrir að leikstjórinn hefði viljandi stýrt leikkonunum í þennan hörmungarleik. Tónlistin í myndinni gekk þar að auki ekki nógu vel upp. Lítið er hægt að segja annað um Van Helsing en að hún var ein stór mistök. Kannski ætluðu menn sér of mikið og misstu sjónar á sögunni svo niðurstaðan var ein tæknibrellu-ringulreið. En það er synd að klúðra svona spennandi ævintýrasögu sem hefði verið kjörin til að gera næstu stórmynd úr. Ég er alls ekki sátt, maður bjóst við miklu meiru af hinu hæfileikaríka liði sem stóð að baki myndinni.
The Fighting Temptations
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Pottþétt skemmtun fyrir alla aldurshópa, flott tónlist, fínn leikur og persónusköpun og góður, áhugaverður söguþráður, þótt heildarsagan sé fyrirsjáanleg. Fullt af góðu fólki og frægum tónlistarmönnum koma við sögu, og húmorinn er frábær, svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Ekkert meira að segja, en að The Fighting Temptations er með langbestu gamanmyndum sem ég hef lengi séð -stanslaust fjör allt í gegn! Mæli hiklaust með henni fyrir alla, konur, karla, unga sem aldna. Takk fyrir mig.
Freddy vs. Jason
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hvernig væri nú að sleppa silikoni og hæfileikalausum leikurum og gera svona hryllingsmyndir af aðeins meiri ástríðu og fá fólk sem getur komið (áhugaverðum) hlutverkum frá sér? Ég bara spyr. Því þessi mynd hefði getað orðið mun betri með betri leik fórnarlambanna, en sumir hafa hæfileika og kannski var leikstjórnin bara ekki nógu öflug. Annars þótti mér þetta bara hin mesta skemmtun þrátt fyrir afskaplega óeðlilegt splatter-blóðið. Hugmyndin er náttúrulega sniðug, svo ekki sé minnst á að maður fær að upplifa orsök þess að Freddy er eins og hann er og Jason er eins og hann er. Nóg er af blóðslettum og öskrum og það í bland við góða frammistöðu Jason-leikarans (það má náttúrulega deila um hvort hann þarf að leika) og Freddy-leikarans (hann leikur snilldarlega) gefa manni heilmikið sem aðdáenda hrollvekja af betri gerðinni. Það er hægt að segja að söguþráðurinn sé frekar ófyrirsjáanlegur og það er kostur. Maður myndar hins vegar lítil tengsl við fórnarlömbin sem fyrr. Manni varð strax ljóst að Freddy og Jason eru jafn sterkir og það er bara fyrir heppni sem annar gæti sigrað hinn. Veikleiki Freddy er eldurinn og veikleiki Jasons vatnið. Mesti styrkur Freddy er auðvitað að myrða í gegnum drauma sína, en mesti styrkur Jasons er að hann óttast ekkert og er ódrepandi af því hann er ekki lengur með öllu mannlegur. Svo Freddy á meiri líkur á að sigra Jason í draumi, en Jason á meiri líkur á að sigra Freddy í vöku. En ég get ekki annað sagt en að Freddy vs. Jason er bara fín hrollvekja og hefði vart getað verið betri. Góða skemmtun.
Jason X
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Byrjunin lofaði góðu en síðan fór -við skulum bara segja- allt til andskotans. Tæknibrellurnar þarna út í geim voru svo tölvuleikjalegar að greinilega hefur ekki verið lögð allt of mikil áhersla á þær, frekar en á leikinn sjálfan, enda voru fáir leikarar að gera eitthvað af viti (hvort sem það var eingöngu leikstjórnin eða annað). Ég mæli ekki með þessari mynd, svo einfalt er það. En ef þú tekur hana, þá ertu væntanlega með helling af húmor og enga alvöru -og engar kröfur gagnvart myndinni, svo það sé á hreinu. Ég gef henni hálfa stjörnu fyrir vélmennið, sem var alveg rosalega skemmtilegt og lyfti myndinni mikið upp. Hina hálfu stjörnuna gef ég annars vegar fyrir þá leikara sem gátu leikið (þið sjáið strax hverjir það eru) -þá helst svörtu hetjuna sem gerði heilmikið fyrir myndina, og hins vegar fyrir atriðið þegar Jason var í sýndarveruleikanum... það var ljós punktur. En sem sagt í heildina hefur Jason X að geyma; lélegan leik, fyrirsjáanlegan söguþráð, slakar tilraunir til að láta mann hlæja, frekar slakar tæknibrellur og klisjukennda persónusköpun... maður veit hverjir deyja fyrst. En Jason X er sannkölluð (léleg) splatter-mynd.
The Recruit
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mikið svakalega bregður mér að sjá einkunnina sem þessi mynd fær hér á síðunni!! Hvað er í gangi??? Þessi mynd er með bestu hasar- og spennumyndum sem ég hef séð. Hugmyndin að henni er sprottin úr raunveruleikanum og er þar krufin til mergjar hin hættulega starfsemi sérfulltrúa og aðalmannsins, the recruit, með athyglisverðum sálfræðilegum pælingum. Og auðvitað toppleikur hjá Farrell og félögum. Al Pacino fer að vera svolítið einhæfur, er svo oft í þessu sama hlutverki og hér, en samt kemur hann sínu frábærlega frá sér eins og áður. The Recruit er hörkuspennandi og hélt athygli minni algerlega út í gegn og hef ég sjaldan skemmt mér eins vel -enda er hasar í bland við mannlegan breytileika mín toppformúla að góðri mynd. Colin Farrell er búinn að taka að sér mjög áhugaverð hlutverk og ég fíla langflestar myndirnar hans í botn. Mér fannst þó S.W.A.T vera leiðinlegt hliðarspor frá toppmyndum eins og Phone Booth og The Recruit. Söguþráðurinn hér í The Recruit er það flókinn og hvert atriði það mikilvægt að ég kýs að segja ekkert um hann. Endilega takið hana, þótt hún sé síðri í sjónvarpi en í bíó, á ég allavega eftir að sjá hana oft í framtíðinni. Ég mæli hiklaust með henni fyrir sanna aðdáendur góðra hasar- og spennumynda með áhugaverðri sögufléttu. Þótt heildarsöguþráðurinn sé ef til vill svolítið fyrirsjáanlegur er bara allt annað í toppstandi. Í The Recruit eru sterkar persónur, góður leikur og topp tónlist, myndataka og klipping.
S.W.A.T.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Miðað við einvala lið leikara er þetta afskaplega slök mynd. Hefði getað orðið mun betri, til dæmis ef þessi hrikalega B-mynda (eða ef til vill tölvuleikja) tónlist hefði verið látin víkja fyrir einhverri áhrifameiri og meira viðeigandi tónlist. Myndin hélt illa athygli minni og ég man voða lítið eftir henni. Þyrfti eflaust að sjá hana aftur en held ég nenni því ekki, svo góð eða áhugaverð var hún ekki. Eiginlega var skemmtilegra að horfa á gerð myndarinnar en hana sjálfa. En ég er kannski bara svona vonsvikin af því ég bjóst við svo miklu af henni, einhverra hluta vegna. S.W.A.T gefur samt sem áður nokkuð ásættanlega skemmtun og ættu flestir að geta horft á hana með sæmilegri athygli og verið sáttir við útkomuna. Söguþráðurinn er ekki mjög sterkur en það gefur náttúrulega plús að hafa toppleik og svo fær maður aldrei nóg af herra Farrell... Ætli ég hefði ekki skemmt mér mun betur ef ég hefði farið á hana í bíó, ég hugsa það, sumar myndir eru ekki spólumyndir á meðan aðrar eru það eingöngu. Ég mæli ekkert sérstaklega með S.W.A.T, en hún er án efa mun betri en margar myndir af þessum toga, þótt hún jafnist ekki á við toppmyndir eins og til dæmis The Recruit.
Dawn of the Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þótt Dawn of the Dead sé skilst mér byggð á eldri sögu/mynd, er þar í raun í megindráttum um að ræða Hollywood-útgáfu af hinni stórgóðu hrollvekju 28 Days Later. Þessi jafnast ekki á við hana, þótt góð sé. Svona myndir eru yfirleitt góðar, en ekki meira en það. Hér höfum við söguþráð sem byggist í stuttu máli á því að uppvakningafaraldur geisar á jörðinni (nánar tiltekið í Bandaríkjunum) og engin leið virðist að stöðva þá, eina leiðin að flýja... endalaust. Við höfum hóp af fólki, samansafn af ólíkum persónum sem bregðast mismunandi við erfiðum aðstæðum og við fylgjumst með gríðarlegum hremmingum þeirra og kaldhæðnum húmor í bland og reynum að finna út fyrir fram hver lifir öll ósköpin af og hver ekki. Þannig er þessi dæmigerða formúla að góðum (bandarískum) hryllingsmyndum. Það er gaman að því að hópurinn er látinn safnast saman í verslunarmiðstöð þar sem þau hafa ekki aðeins tíma til að efla varnir sínar, heldur einnig að kynnast. Hér er líka fín og fjölbreytt tónlist sem er vel notuð til að skapa rétta stemningu. Myndataka, klipping og leikur eru auk þess til fyrirmyndar. Sarah Polley (Sarah í The Road to Avonlea-þáttunum, ef einhver man eftir þeim) er mjög góð og hinir líka, en maður kannast (mismunandi mikið þó) við flest andlitin í leikarahópnum. Myndin er nokkuð eftirminnileg og mæli ég hiklaust með henni fyrir aðdáendur góðra hryllingsmynda, og þá verður helst að sjá hana í bíó. Það borgar sig að sitja aðeins eftir að kreditlistarnir byrja að rúlla, því þá koma athyglisverðar glefsur og myndin endar í raun ekki fyrr en þá. Maður myndar hins vegar ekki mjög sterk tengsl við persónurnar (eins og til dæmis í 28 Days Later) og það dregur hana svolítið niður, en að mestu leyti er Dawn of the Dead fyrirtaks skemmtun.
The Core
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Stundum velti ég fyrir mér hvort ég sé Íslendingur... Hvað er í gangi og ekki bara hér heldur víðar um heim? Af hverju er þessi mynd svo hrikalega slæm? Lélegar tæknibrellur? Nei alls ekki, bara fínar. Lélegur leikur? Nei síður en svo. Léleg persónusköpun? Nei, alls ekki hefði bara vart getað verið betri. Óáhugaverður söguþráður? Nei alls ekki. Ótrúverðug söguframvinda? Nei hreint ekki. Svo ég spyr aftur: Hvað er svona hrikalega slæmt við þessa mynd? Stundum er eins og það sé í tísku að láta tilteknar myndir fá falleinkunn og aðrar lélegri risaeinkunn. Öll erum við mismunandi og ég virði aðra gagnrýnendur. En ég vil meina að þessi mynd sé fyrirtaks skemmtun. Ég er leið yfir því að hafa ekki farið á hana í bíó, því þá hefði mér sjálfsagt þótt hún enn betri. Svo fór að ég, enn eina ferðina, tók mark á annarra gagnrýni. Og rétt þorði að taka hana á spólu um daginn. Ástæðan var reyndar ekki að mig langaði enn mikið að sjá hana, heldur af því að ég hafði lesið að vísindamenn væru að reyna að finna aðferðir til að ferðast inn að kjarna jarðar. Svo það þýddi að myndin var ekki svona mikið kjaftæði eins og gefið hafði verið í skyn. Og hvað gerðist þegar ég loks sá hana? Jú ég fílaði hana í botn. Ég er hrikalega veik fyrir vísindaskáldskap og þessi mynd er ekki bara með mikið hugmyndaflug innanborðs, heldur líka áhugaverðar persónur og spennandi söguþráð. Eftir að hafa hissa tilkynnt vini sem var enn meira efins en ég, að myndin hefði komið hressilega á óvart, varð vinurinn að prófa líka. Og hvað gerðist? Vinurinn varð jafn hrifinn og ég. Svo ef þið hafið ekki séð myndina ennþá sökum hinnar ósanngjörnu (að mínu mati) gagnrýni, endilega kíkið á hana. Kannski eruð þið á minni bylgjulengd, kannski ekki. En ég sá góða mynd með góðum (svo ekki sé minnst á, frægum) leikurum, sem ég á áreiðanlega eftir að sjá aftur. Peace, out.
Charlie's Angels: Full Throttle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Æi vitið þið það að það er bara svo mikil gæska og góðvild á bak við þessar myndir og leikkonurnar eru að skemmta sér svo vel og þær eru bara svo skemmtilegar þessar tvær myndir! Ég bara nýt þess að horfa á svona heilalausa skemmtun og svo bættist meira að segja við að ég varð voða sorgmædd þegar Drew Barrymore var að ná sambandi við hársjúka karlinn og missti það... Call me crazy. Mér finnst Charlie's Angels myndirnar eiga skilið lof fyrir að gera harðan veruleikann viðráðanlegri með því að taka leiðindin burtu í eina og hálfa klukkustund. Spennandi söguþráður, fín persónusköpun, sæmilegur leikur og hágæða tónlist og tæknibrellur. I want some more! Bara góð skemmtun!
Wrong Turn
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Já ég ætlaði að skella á hana tveimur stjörnum en svo rifjaði ég hana betur upp og sá að það var hálfri stjörnu ofaukið. Förðun og búningar voru þó til nokkurrar fyrirmyndar hjá skrímslunum í skóginum og ef leikurinn hefði verið betri fengi hún kannski hærri einkunn, en hann var svona lala. Persóna hinnar hörðu aðalgellu var upp og niður út og suður og svo er Eliza engin leikkona. Góður vinur benti mér á að söguþráðurinn í myndinni var mjög stolinn úr einum X-files þætti og ég held að það sé hárrétt ef maður hugsar aftur. Þannig að þetta er eiginlega bara léleg unglingahrollvekja, ég gef henni svipaða einkunn og mér finnst Scream- og I know what you did... myndirnar eiga skilið. Nema hvað að það var meiri skemmtun og húmor í þeim. Wrong Turn - Maður veit hverjir deyja og hverjir lifa -hefði mátt hafa hana aðeins ófyrirsjáanlegri en það var víst bara tilgangurinn að hrella mann í rúma klukkustund með skrímslum, blóði og óðagoti. Búið.
The Lord of the Rings: The Return of the King
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Einstök upplifun. Allar þrjár myndirnar eru óumdeilanlega meistaraverk og sérstaklega lokakaflinn. Það er nú ekki hægt að segja mikið um þessa mynd -eða fyrri tvær, það yrði þá bara upptalning á öllu sem HEFÐI getað farið úrskeiðis -sem var nú bara hreint ekkert að mínu mati. Kannski helst óþarfa væmni í Elijah, en það er bara stíll :) Ég vil bara þakka fyrir að hafa verið þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að upplifa þessar þrjár sannkölluðu galdramyndir. Bækurnar vakna bókstaflega til lífsins, enda var Peter Jackson -og allt hans fylgilið sem á sannarlega heiður skilinn líka- að gera þetta allt eins og það hefði í raun og veru átt sér stað. Það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni -næsta stórvirki hans verður víst King Kong... heilög mynd en hann fer áreiðanlega vel með hana. Ég hef ekki meira að segja um LOTR-þríleikinn en að hann er sögulegt meistaraverk, frábær leikmynd, búningar, persónusköpun, leikur, tónlist og hreint ótrúlegar tæknibrellur. Að sjálfsögðu hefði ekkert orðið eins undursamlegt og raun ber vitni ef ekki væri fyrir hinn sterka og hrífandi söguþráð meistara Tolkiens. Ég sé ekki ástæðu til að rekja söguna hér en tel fullvíst að myndirnar verða ógleymanlegar fyrir alla. Manni fannst sú fyrsta klikkuð, númer tvö enn betri og númer þrjú þvílíkur toppur (á tilverunni bara). Ég þakka kærlega fyrir mig.
The Matrix Revolutions
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábær mynd, einstök upplifun og algjört ævintýri. Hún kemst mjög nálægt fyrstu myndinni og er áreiðanlega betri en önnur myndin. Maður á bara ekki orð yfir tækninni sem er notuð til hins ýtrasta og gleymir alveg að maður sé bara að horfa á bíómynd. Flott tónlist og hljóð, klipping, sviðsmynd og allt í hæsta gæðaflokki. Fín persónusköpun hjá nýjum persónum og maður lifði sig mjög inn í bardagana og hinn sanna hernaðaranda -allt til dauða. Óneitanlega er trúarlegur blær yfir Matrix Revolutions en það þykir mér bara gera hana enn öflugri. Og maður hélt ekki að kraftar Neo mundu enn vaxa en það gerðist svo sannarlega. Það smellur einhvern veginn allt saman. Góður leikur hjá nýjum sem gömlum félögum og Laurence, Carrie-Ann, Keanu, Hugo og allir hinir bara enn betri en áður. Hvorki skorti kraft og frumleika í bardögum né samræðum. Þó var eflaust minna af heimspekilegum samræðum og í staðinn meiri hasar en í fyrri myndunum, en það sem var sagt var áhrifamikið og þýðingarmikið, -bara það sem þurfti til að búa til fullkomna heild. Allt sem á sér upphaf á sér endi er áreiðanlega setning myndarinnar og þótt eflaust væri hægt að gera framhald get ég hrósað Wachowski-bræðrum fyrir góðan endi sem skilur ekki eftir of margar spurningar en gerir mann hæfilega forvitinn um framtíðina. Ógleymanleg upplifun -ekki bara fyrir einlæga Matrix-aðdáendur heldur allar mannverur með ævintýraþrá (eldri en tólf ára). Fínt að vera búinn að sjá Animatrix áður. Ég skil mjög sátt við sögu Matrix og er óhrædd að fullyrða að fáar sögur hafi haft eins mikil áhrif á mig. Takk fyrir mig.
They
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Já já enginn sérstakur leikur. Engin sérstök persónusköpun. Enginn sérstakur söguþráður. En vá!! hugmyndin frábær og hefði verið hægt að gera miklu betur út frá henni. Tæknibrellur fínar og skelfinguna vantar ekki. Góð myndataka og notkun myrkursins og maður fær nýja mynd af myrkfælni (eða eins og þau kölluðu það í myndinni; night terror). En They á skilið meira lof en hún fær hér. Kannski hefur enginn séð hana sem er sálfræðimenntaður eða hefur áhuga á þeim efnum?? Greinilega ekki. Sem sálfræðinemi vekur hún mikinn áhuga hjá mér og fræðilega séð er ekki hægt að útiloka að annað eins geti gerst sem á sér stað í myndinni. Hverjir eru THEY eða þeir? Það er spurning sem er að nokkru leyti svarað í lokin og var mig farið að gruna sannleikann sem kom þá fram. Ég horfði á hana um bjartan dag og þurfti samt að flissa mig gegnum hana -vegna geðshræringarinnar og spennunnar. Sannarlega sálfræðitryllir af betri gerðinni. Ef þið viljið bara blóð og öskur og lélegar unglingahrollvekjur gjörið svo vel að sleppa þessari. Þú fílar hana ekki nema þú sért aðdáandi góðra hrollvekja þar sem eitthvað meira en einfaldur, geðveikur morðingi er á bak við mannshvörf eða morð. Ef horft er á They frá réttu sjónarhorni, er hún alls ekki fyrir viðkvæma. Hún er einn skelfilegasti sálfræðitryllir sem ég hef séð, enda lifði ég mig vel inn í hana.
Drumline
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi mynd er mun betri en kemur fram hér á síðunni. Allir þeir sem fíla taktmikla tónlist og eru aðdáendur góðrar tónlistar og ef til vill að læra á hljóðfæri, ættu ekki að láta Drumline fram hjá sér fara. Hér er ágætis afþreying á ferðinni, sem hefur margt gott að geyma umfram aðrar unglingamyndir. Hér gengur að sjálfsögðu allt út að hinn skapmikli snilldartrommari Devon lærir að hljómur sveitarinnar er mikilvægari en hans eigin hljómur og hann lærir ýmislegt um sjálfan sig og lífið í leiðinni. Hann lærir m.a. að þú græðir ekkert nema leiðindi á einhverju neikvæðu viðhorfi og þarft að hafa fyrir því að komast áfram. Og það eru fleiri persónur í myndinni sem læra að lifa og hugsa rétt. Fyrir þá sem eru ekki sannfærðir ennþá bæti ég við að mér þótti Drumline bæði frumleg og fersk, leikurinn fínn og ekki vantar líf og fjör í lúðrasveitina, trommurnar og dansinn. Ekki vera hrædd við Drumline -ég tel að hún geti komið mörgum skemmtilega á óvart.
Doctor Sleep
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég hef þurft að melta þessa mynd vel áður en ég treysti mér í stjörnugjöfina. Fyrir það fyrsta vek ég athygli á því að hennar annað nafn; HYPNOTIC hefði óneitanlega verið mun skárra og meira lýsandi fyrir myndina... Ég gef henni þrjár stjörnur fyrir að vera vel útfærð hrollvekja sem tekur á sálfræðinni og fyrir að vera mjög frumleg og hörkuspennandi. En það er ekki svo einfalt. Fyrir það að maður veit ekki undir eins hvað manni raunverulega finnst um hana, fær hún hálfa stjörnu í bónus -fyrir að leika sér að manni og smjúga inn í undirmeðvitundina. Það er gamaldags hrollvekjublær á henni, en gæðin eru mikil utan við ómögulega tónlist. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Nick Willing, hefur ekki verið mjög áberandi en ef til vill kannast einhverjir við hina hugljúfu og frumlegu Photographing Fairies (1997) frá honum. Hér eru allir fagmenn og einnig tónlistarhöfundurinn Simon Boswell, sem hefur greinilega bara verið sofandi í þessu tilfelli. Hann hefur samið fína tónlist við myndir eins og; Photographing Fairies (1997), Midsummers Night's Dream, A (1999), Mind Games (2000) og Alien Love Triangle (2002). Sjarmörinn Goran Visnjic (ER, Practical magic og rödd Soto í Ice age) og hina indælu Miranda Otto (úr LOTR: Two towers og What Lies Beneath) ættu flestir að kannast við og þau standa sig frábærlega eins og aðrir leikarar. Dr. Michael Strother er næmur sálfræðimenntaður læknir sem fær fólk til að hætta að reykja með einni nokkurra mínútna meðferð. Í eitt skiptið sér hann þó of mikið inn í sálarlíf lögreglukonu einnar (Shirley Henderson; Trainspotting (1996), Bridget Jones's Diary (2001)) og neyðir hún hann til að hjálpa sér við að leysa ógnvænlegt morðmál. Svo er bara ykkar að komast að framhaldinu... Það má segja að gömlu góðu hrollvekjurnar séu að snúa aftur -nema að nú er lögð enn meiri áhersla á gæðin og frumleikann. Eru ekki allir komnir með nóg af Scream-myndunum og nágrönnum þeirra? Splattermyndir eru til dæmis ekki góðar nema þær séu frumlegar, eins og þeir sem hafa séð MAY, vita vel. DOCTOR SLEEP er ein margra góðra hrollvekja sem eru að koma upp í dag. Ég vona að þessi jákvæða þróun (fyrir mig og aðra sanna hrollvekjuaðdáendur) haldi áfram. Fyrir lélega tónlist lækkar myndin um hálfa stjörnu. Fyrir stórgóðan leik hækkar hún hins vegar um hálfa stjörnu -svo hún fær þrjár og hálfa þegar allt kemur til alls. Hér er leikið sér með undirmeðvitundina og birtu, liti og síðast en ekki síst drungann sem einkennir úthugsaða glæpi. Að baki glæpunum í Doctor sleep liggur hins vegar eitthvað miklu meira og ég kýs að segja ekki meira en mæli eindregið með þessum listræna sálfræðitrylli fyrir alla aðdáendur slíkra mynda.
Signs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frábær mynd eins og hinar fyrri frá snillingnum M. Night Shyamalan. Hann er ótrúlegur listamaður og ég dýrka sköpunarverk hans... get ekki beðið eftir því næsta. Ég fór á Signs í bíó í sínum tíma og fékk alveg það sem ég bjóst við; hörkuspennu, hraða, miklar tilfinningar og góðan leik. Söguþráðurinn var fremur ófyrirsjáanlegur og mikil spenna frá upphafi svo maður datt bókstaflega inn í myndina. Ég þykist alltaf hafa vitað að geimverur eru til (þetta er nú dáltið stór heimur, þið verðið að viðurkenna það), þótt það sé þægilegra að ímynda sér að þær séu góðar :) En hér er spunnin upp magnþrungin saga um baráttu mannsins við fljúgandi furðuhluti og um leið er foríðin gerð upp hjá aðalpersónunum. Ég held ég geti ábyrgst það að ef þú hefur ekki séð þessa frábæru mynd þá ættirðu að drífa þig og ég lofa góðri skemmtun (þó kannski betra að hafa einhverja manneskju við hliðina). Frábært handrit, flott tónlist, góð leikstjórn, pottþéttar tæknibrellur, góður leikur. Æði ;)
One Hour Photo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég vissi frá því ég sá þessa mynd auglýsta fyrst að hér væri mynd mér að skapi. Einhverra hluta vegna sá ég hana ekki fyrr en nú og sá að ég hafði haft rétta tilfinningu fyrir henni. Ég hef mjög gaman að sálfræði og þú getur varla fundið betri mynd til sálgreiningar og sálfræðilegra, siðfræðilegra og félagsfræðilegra pælinga. Ég er ekki að tala einungis um Hr. ljósmyndaframkallara, sem er listilega leikinn af Robin Williams, heldur eru almennt vel skapaðar og mannlegar persónur í hverju horni. Þessi mynd er alls ekki skemmtileg eða upplífgandi, en hún er mjög vönduð og þótti mér leikstjórinn hafa unnið gott starf með pottþéttum leikurum. Tónlistin var fín og leikmynd og umhverfi vel úthugsað. Það vantar bara herslumuninn -ekkert VÁ! kemur hér við sögu. Myndin er að auki frekar svæfandi á köflum -og kannski pínu klisjukennd líka, og eru það einmitt þessir tveir meginþættir sem draga hana nokkuð niður. Ég er því ekki alsátt en One Hour Photo á vel skilið þrjár stjörnur. Persónusköpunin er mjög sterk og myndin situr í manni lengi og vekur mann til umhugsunar um lífið og tilveruna, -með látum.
Darkness Falls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bara eintómt miðjumoð en þó hef ég nú oft séð verri hryllingsmyndir. Það sem dregur þessa mynd helst niður er að skrímslið -eða tannálfurinn- er frekar illa gert og það má ekki gerast í svona mynd þar sem hryllingurinn liggur aðallega í slíkri ófreskju myrkursins. Nú annað er að það kemur aldrei fram neinn almennilegur rökstuðningur, t.d. á því af hverju það má ekki horfa framan í hana (tannálfinn) -hún tekur bara þann sem hún nær. Í deleted scenes þætti dvd-útgáfunnar er þess getið að hún vilji alla feiga sem hafa séð ásjónu hennar. Það hefði strax verið skárra ef það hefði verið látið gilda. Í raun og veru vek ég athygli ykkar á því að myndin hefði grætt a.m.k. hálfa stjörnu hjá mér ef öll deleted scenes atriðin hefðu verið með, -þá hefði hún orðið meiri heild og innihaldið bæði meiri tilfinningar og hrylling. Ef þið eruð aðdáendur góðra hryllingsmynda hafið þessa þá bara til vara. Leikurinn er þokkalegur og persónusköpunin allt í lagi. Á dvd er reyndar góð heimildarmynd um tannálfskellu og hún er eiginlega hryllilegri en myndin sjálf (svona innan gæsalappa). Hér er á ferðinni frekar mislukkuð hrollvekja -með meiri hugsun og betri tækni hefði mátt gera mun sterkari mynd, því ekki vantaði efni til að vinna úr.
Life or Something Like It
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afskaplega heillandi mynd og fínasta afþreying. Vildi að það kæmu fleiri svona frá Hollywood. Angelina Jolie er býsna öflug leikkona og aðrir leikarar í þessari mynd, -mörg kunnug andlit, ekki síðri. Söguþráðurinn er spennandi frá fyrstu mínútu. Oft verður maður pirraður og hneykslaður á framgangi mála, en yfirleitt alltaf spenntur að vita hvað gerist næst. Innst inni vita líklega flestir hvernig hún endar og ég er ekki viss um að endirinn hafi verið nógu góður, en misjafn er smekkurinn. Það er lítið út á myndina að setja, hún hefur góðan húmor, góðar heimspekilegar pælingar og fína persónusköpun -og þónokkurn skammt af sorg og ótta. Ég mæli hins vegar ekki með henni nema fyrir eldri en sextán og þá sem telja sig vera hugsuði af Guðs náð :) Life or something like it er frekar eftirminnileg mynd en hefði sjálfsagt orðið betri ef hún hefði ekki komið frá Hollywood, þótt ásættanlega sé farið með áhugaverða sögu. Það er líklega tónlistin -sem var frábær- sem gefur henni mjög heillandi svip og hækkar hana í einkunn hjá mér.
Underworld
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég hafði hlakkað til að sjá þessa mynd, en fór ekki í bíósalinn með miklar væntingar. Ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum, öðru nær -hún hefur sérstakan sjarma yfir sér og frábærar tæknibrellur. Hér er sagt frá sönnu ævintýri um ástir, örlög, blóðsúthellingar, hefndir og húmorinn þó ekki langt undan. Tónlistin var kröftug og átti yfirleitt vel við og leikurinn var að mestu leyti góður. Gaman að sjá svona vandaða og stóra mynd án gjörþekktra Hollywood-stjarna í hverju horni. Það vantaði samt nokkuð upp á hjá Kate Beckingsale (veit ekki hvort rétt var að velja hana í hlutverkið) og Shane Brolly (Kraven) en Scott Speedman (Michael) og Michael Sheen (Lucian) stóðu sig vel og smellpössuðu í hlutverk sín. Þetta er ekki mynd fyrir alla -en ég var mjög hrifin og mæli með henni fyrir aðdáendur Blade-myndanna og góðra spennu- og ævintýramynda. Kannski gef ég Underworld bara svona góða einkunn af því ég hef mikinn áhuga á efninu sem verið er að vinna úr -en það spillir ekki að söguþráðurinn er spennandi og ófyrirsjáanlegur og mér finnst eitthvað mjög heillandi við þessa mynd. Hún er mjög vönduð og jafnmikið lagt upp úr tæknibrellum og að leggja áherslu á myrkrið og svo voru allir búningar og förðun í hæsta gæðaflokki. Ég bíð spennt eftir framhaldinu. Ef þið ætlið að sjá hana -sjáið hana þá í bíó. Góða skemmtun!
Gossip
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ein af þessum sem kemur hressilega á óvart. Ófyrirsjáanleg að langmestu leyti og í höndum góðrar leikstjórnar og leikara og handrit vel úthugsað. Frábær afþreying frá sálfræðilegu, siðfræðilegu, heimspekilegu og félagsfræðilegu sjónarmiði. Hvort sem það var góður leikur eða annað, þá voru ótrúlega margar persónur sem ég kunni illa við í myndinni og því var ég frekar pirruð í bland við spenninginn. En það er bara hluti af upplifuninni. Frumleg mynd með góðri tónlist og athyglisverðum pælingum. Svo ef þið eruð hugsandi heimspekingar endilega kíkið á Gossip.
Phone Booth
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hræðilega góð spennumynd með toppleik. Colin Farrell er alltaf að vaxa í áliti hjá mér, hann sýnir algjöran stórleik í þessari athyglisverðu og um leið skelfilegu háspennumynd. Fáir hefðu svo getað staðið sig betur sem hringjandinn en sjálfur Kiefer Sutherland. Aðrir leikarar voru flestir að sýna góða frammistöðu, nema ef til vill Katie Holmes sem er alltaf mjög svipuð en hún kemst samt sæmilega frá sinni rullu. Samtölin -eða samtalið er frábærlega vel skipulagt og leikstjórn og handritsgerð í góðum höndum. Grimmdarlegasta sálfræðimeðferð sem hugsast getur... heldur manni í heljargreipum. Það helsta sem ég set út á myndina er endirinn -en misjafn er smekkurinn. Tónlistin mjög góð -og ég endurtek -Colin Farrell var frábær. Ég hef ekki fleira að segja um þessa mynd. -Sjáið hana.
FeardotCom
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég vildi gjarnan gefa þessari frumlegu hryllingsmynd hærri einkunn, en sökum lélegrar leikstjórnar, mjög ruglingslegs og samhengislauss söguþráðar og þeirrar sorglegu staðreyndar að myndinni tókst ekki að gera mig spennta eða gefa mér hroll (eins og væntanlega var markmiðið) get ég aðeins gefið eina og hálfa stjörnu. Hefði ég haft á tilfinningunni að myndin hafi verið mislukkuð frá fyrstu hugdettu gæfi ég henni lægri einkunn, en staðreyndin er í raun sú að illa er farið með mjög frumlega og áhugaverða hugmynd sem liggur að baki. -Annars vegar er eins og sagan hafi verið skrifuð jafnóðum og myndin var gerð í þvílíkum flýti, -hins vegar er eins og sá sem skrifaði hana hafi ekki getað hugsað neina hugsun eða atriði til enda. Ekki var endirinn til að bæta það. Því miður á þetta sér allt of oft stað í nútíma kvikmyndagerð og get ég ekki mælt með þessari mynd fyrir aðdáendur góðra hryllingsmynda.
Once Upon a Time in Mexico
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það munar sáralitlu að þetta góða framhald hinnar frábæru Desperado fái þrjár og hálfa. Ég datt alveg inn í þessa mynd sem er hörkuspennandi og jafnframt hádramatísk, en með hæfilegum skammti af húmor og svo auðvitað nóg af góðum bardagatriðum og tæknibrellum. Það sem helst dregur hana niður er að maður er að fylgjast með mjög mörgum persónum og samspili þeirra og á stundum erfitt með að vita hver stendur með hverjum (enda breytist það ört), svo söguþráðurinn er oft á tíðum ruglingslegur. Ef til vill hefði svo mátt slá aðeins af dramatíkinni sem var allsráðandi hjá persónu Banderas, sem var annars góður eins og alltaf. Mér leist ekkert á að sjá Enrique Iglesias í nokkuð stóru hlutverki en drengurinn komst bara furðu vel frá þessu -skemmtileg hugmynd að fá hann í hlutverkið. Johnny Depp tókst að stela senunni eins og oft áður -enda alveg einstaklega góður leikari og hér með ekki svo ósvipað hlutverk og Jack Sparrow í síðasta smellinum hans. Annars voru allir að sýna góðan leik nema Eva Mendes (með annarri leikkonu hefði myndin strax orðið enn betri) sem hefur enda aldrei getað leikið og mun aldrei geta það blessunin. -Persónusköpun og handrit gengu annars vel upp. Nokkur fremur ógeðsleg atriði undirstrikuðu grimma veröldina sem myndin gerist í og það er að sjálfsögðu svona nokkurs konar nútíma-vestrastíll á henni eins og fyrri myndinni. Gítarspilið átti vel við og tónlistin í heild sinni kom vel út. Óneitanlega er Once upon a time in Mexico ekki mynd fyrir alla en ég er sátt.
The Man Who Cried
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Yndisleg mynd um ástir og örlög á árum gyðingaofsóknanna. Sorgleg já, en líka fyndin, rómantísk og mjög vel leikin. Cate Blanchett fer í ótrúlegustu gervi sem leikkona og virðist geta leikið hvað sem er, -á því er engin undantekning hér. Christina Ricci er mjög sérstök -ég hef eiginlega alltaf kunnað vel við hana, en læt vera að lofa hana fyrir góðan leik þar sem hún leikur yfirleitt mjög svipuð hlutverk með sinn alvarlega og barnslega svip. Ég aftur á móti set Johnny Depp á topplistann minn yfir bestu leikarana og stefnir hann hratt í að verða minn uppáhalds leikari. Að sjá þessi mjög ólíku hlutverk, t.d. hér og í Pirates of the Caribbean og fylgjast með hvernig hann vinnur úr þeim. Hann er bara frábær leikari. Já þessi mynd er dramatísk en þó ekki eins og ég bjóst við og endirinn kom á óvart. Á einhverju af þessum rólegu og þægilegu kvöldum er margt verra að gera en að taka þessa mynd. Frumleg og falleg saga, hrífandi og minnisstæð mynd.
Cube
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hörkugóður sálfræðitryllir, laus við yfirborðskenndina og tæknibrelludýrkunina sem einkennir seinni myndina (hypercube) er kom út fyrir skömmu. Ég vildi gjarnan sjá hærri einkunn hjá þessari frumlegu og áhrifaríku spennumynd sem hefur vakið mig til umhugsunar um mannlegt eðli og margt fleira frá því ég sá hana fyrir nokkrum árum -skilur mjög mikið eftir sig ólíkt hinni ómögulegu mynd 2, sem var algjör mistök og vona ég sannarlega að ekki komi önnur slík. Af þessari mynd ætti ekki að gera framhald, hún stendur vel ein og sér -með bestu myndum sem ég hef séð. Tónlist og tæknibrellur voru kannski ekki áberandi en bara eins og átti að vera, því mest áherslan var auðvitað á hinar vönduðu persónur sem voru snilldarlega leiknar og úthugsaðan þroska þeirra í gegnum hinar ýmsu ógnvekjandi gildrur sem nóg var af. Ekki mynd fyrir Hollywood-háða (frekar en 28 days), en stórgóð afþreying fyrir flesta hugsandi menn(eldri en 16 ára).
Below
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi góða taugatrekkjandi mynd hélt manni spenntum allan tímann. Ég fagna ávallt svona ferskum og óvæntum, vönduðum spennumyndum og vona að þeim fjölgi frekar en hitt. Þessi gerist að mestu neðansjávar í kafbát og er um að ræða mjög óútreiknanlega sögu, sem gengur þó sæmilega upp. Draugagangur sem spinnst af slysi er varð nokkrum árum áður. Mörg ógnvekjandi atriði, þokkalegur leikur og persónusköpun og fínar tæknibrellur. Þó skilur myndin ekkert eftir sig, ef til vill af því sagan er fremur langsótt. En BELOW er samt vel yfir meðallagi og fín afþreying fyrir aðdáendur góðra spennumynda.
28 Days Later...
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sannkölluð spennuhrollvekja af bestu gerð. Frá hinni áhrifaríku og ógnvekjandi byrjun, -þar sem örvæntingarfullir dýraverndarsinnar hleypa óvart ógurlegum vírusnum út í samfélagið, -að hinum sérstaklega spennandi og óvænta endi, er aldrei dauður punktur. Mynd um vírus sem veldur því að fólk verður snarbilað og ræðst með kjafti og klóm á næsta ósmitaða mann, virkar kannski fráhrindandi fyrir einhverja. Og í sannleika sagt mæli ég ekki með því að þeir sem eru háðir Hollywood-myndum sjái hana. Í mínum huga er það hins vegar stór plús að myndin sé frá Bretlandseyjum en ekki Hollywood Bandaríkjanna. Því eins og við mátti búast fannst mér 28 DAYS LATER með betri hrollvekjum síðari ára, frábært handrit og söguþráður og persónusköpun með því besta og leikurinn pottþéttur. Það hefur verið lögð jafnmikil vinna í þessa þætti og tæknibrellurnar (sem voru með því besta sem gerist í dag), sem virðast vera að yfirtaka hið fyrrnefnda í henni Hollywood. Tónlistin var ótrúleg hjá hinum breska John Murphy (-Lock, Stock And Two Smoking Barrels, -Snatch, -City by the Sea -o.fl.) -minnti á köflum á Sigurrós -áhrifarík og bara mjög flott. Auk þess er heimasíða myndarinnar einstaklega flott (www.28dayslaterthemovie.com/) -mæli með því að þið kíkið á hana eftir að hafa séð þessa frábærlega vel gerðu og áhrifaríku mynd.
Star Trek: Nemesis
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sem Star Trek aðdáandi get ég lítið kvartað yfir þessari mynd. Hún er ekkert meistaraverk, heldur bara eins og rúmlega tvöfaldur þáttur star trek í sjónvarpinu. Það var líka það sem ég reiknaði með, svo ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Sem fyrr er um tiltölulega spennandi og vel skrifaða sögu að ræða, nú er aðalóvinur Picards hvorki meira né minna en klóni hans (en þó yngri), sem ætlar að setja allt á annan endann og fá meiri völd. Það er svo sitt lítið af hverju í myndinni, rómantík, húmor, spenna og drama -og auðvitað nógur hasar og góð tónlist. Klókindum Picards og félaga er sem fyrr engin takmörk sett, að því er virðist. Góður leikur og fín afþreying fyrir star trek aðdáendur og líklega flesta aðra.
Terminator 3: Rise of the Machines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ekki síður fyrir tæknibrellur en húmorsríkt og spennandi handrit sem ég gef Arnold og félögum þrjár og hálfa hér. Þetta er í raun einkunn mín fyrir allar Terminator myndirnar. Hver mynd hefur eitthvað sérstakt sem hinar hafa ekki og hefur þessi tvímælalaust að geyma meiri og flottari tæknibrellur en hinar fyrri, en mér fannst hins vegar persónusköpunin síðri hér en í fyrri myndunum. Það er líklega að einhverjum hluta afleiðing af því að Cameron var ekki við stjórnvölinn. Það var stundum eins og brandararnir væru kreistir fram og fannst mér þeir ekki alltaf vera í takt við fyrri persónueinkenni, þá á ég aðallega við John Connor og frökenina. Tortímandinn sjálfur var sjálfum sér líkur, en nýja tortímandadaman hafði ekki eins sterkan persónuleika og hann. Ég hef þó lítið yfir leiknum að kvarta og á heildina litið er Terminator 3 hreint ekki síðri skemmtun en forverarnir og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Í raun er verið að hefja nýja sögu hér, um hina endanlegu upprisu vélanna (eða hvað?) eins og nafnið gefur til kynna. Það er enda góður möguleiki á a.m.k. tveimur framhaldsmyndum í viðbót. Þá verður bara spurning hvort ekki sé hægt að gera enn betur. Ég þakka fyrir mig og vona að sem flestir kíki á Terminator 3 -í bíó.
Crouching Tiger Hidden Dragon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég bjóst við mun meiri skemmtun. Ég gæti sagt að bardagaatriðin hafi haldið henni uppi, en ég sleppi því þar sem fólkið tók upp á því að fljúga í miðjum slagsmálum -eins og þyngdarkrafturinn hafi gufað upp (eða við værum stödd í The Matrix)! Söguþráðurinn er svo gott sem enginn en leikarar komast vel frá hlutverkum sínum, sem þó eru ekki upp á marga fiska. Myndin batnar við áhorf númer tvö og fyrir það, góðar tæknibrellur og þónokkra spennu, fær hún tvær og hálfa.
There's Something About Mary
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég bjóst eiginlega við meiru af þessari mynd, en ég játa að hún er drepfyndin á köflum. Leikurinn er góður hjá flestum nema fröken Diaz, sem ég hef ekki enn fundið mikla hæfileika hjá. Karlarnir í lífi Mary voru allir mjög vel túlkaðir og myndin er góð skemmtun og hefur þokkalegan söguþráð, en skilur mjög lítið eftir sig. Hinir mörgu góðu brandarar sem erfitt er að toppa, þoka þó There's something about Mary í þrjár stjörnur.
Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Stórskemmtileg ævintýramynd og mjög vel heppnuð. Enda frá hinum sömu og sköpuðu The mask of Zorro og Shrek (þ.e. Ted Elliott). Þvílíkur húmor og spenna allt í gegn! Persónusköpun og handrit í alla staði frábært. Ég vil í það minnsta óskar fyrir pottþéttar tæknibrellur, búningahönnun og sviðsmynd -og þó allra helst Johnny Depp!! Hann var alveg ótrúlegur sem hinn klaufalegi en klári sjóræningi, Jack Sparrow. -He, ég hlæ bara við að heyra nafnið.. Allir leikarar koma sínum persónum vel frá sér nema ef til vill herra Bloom sem þónokkuð vantaði upp á hjá, þrátt fyrir marga góða kafla. Herra Rush og fröken Knightley voru stórgóð. Það var einnig mjög gaman að aukaleikurum, svo sem þeim er túlkuðu skipsmenn Svörtu Perlunnar ógurlegu -takið sérstaklega eftir þessum með augað. Tónlistin frábær hjá Klaus Badelt, enda var hann á bak við tónlistina í Gladiator, Hannibal, Time machine o.m.fl. og sérstaklega var ég hrifin af sköpun hans í Equilibrium. Pirates of the caribbean -curse of the plack pearl er algjört augnayndi og góð skemmtun frá upphafi, það er aldrei dauður punktur. Það verða eiginlega allir að kíkja á hana (helst í bíó), hún er með bestu myndum sem ég hef séð.
Hulk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ef ég ætti að lýsa myndinni með einu orði þá væri það... ADRENALÍN.. -jemm, hjartað var lengi að jafna slögin að lokinni sýningu. Ég hafði engan sérstakan áhuga á myndinni fyrirfram, mér leist hreint ekki á að fara í bíó til að horfa á þyngdarlausan grænan risa... en mikið er ég nú glöð að hafa gert það. Framúrskarandi leikur og ég held ég hafi bara hreint ekki séð svona mikið af flottum tæknibrellum sem gera mann agndofa, í einni mynd. Ég bjóst alls ekki við þessum adrenalínskammti ásamt mikilli mannúðarheimspeki ef hægt er að segja það. Á köflum minnir myndin mjög á hið þekkta ævintýri um Fríðu og dýrið, nema í þetta skiptið eru það vísindin, en ekki álfkonan sem leggja álög á prinsinn. Ég get bara kvartað yfir hinum stórtæku flugferðum Hulks vinar okkar, mér er sama hversu breyttur hann er, ég get ekki ímyndað mér að svo stór og mikil vera gæti tekist svona á loft (án vængja), þrátt fyrir alla sína vöðva og ofurstyrk. En ég mæli með þessari fyrir myndasöguaðdáendur og nánast alla -helst eldri en tólf ára, þó ekki sé nema til að dást að tæknibrellum og leik. Tónlistin var að auki alveg frábær hjá Danny Elfman (Batman, Spiderman, Men in Black, Chicago o.fl) eins og búast mátti við. Og ég verð að segja að endirinn var einstaklega hressandi og góður.
A.I. Artificial Intelligence
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Svona mynd hef ég beðið eftir lengi. Hún fær góðan sess við hlið The Matrix, sem ein af flottustu, áhrifamestu og í raun bestu myndum sem ég hef séð. Þrátt fyrir að vera í lengsta lagi, er aldrei dauður punktur, hvorki í söguþræði, persónusköpun, né tæknibrellum. Ég segi það sama um A.I. og Equilibrium, hreint listaverk frá upphafi til enda. Farið er með mann á ystu nöf hins trúlega í þessu meistaraverki Spielbergs, það sem tekur við eftir annars rólega en heillandi byrjun, skilur mann eftir agndofa. Hvað mundi það þýða ef það væri hægt að búa til barnavélmenni sem gæti elskað, grátið, saknað og jafnvel fundið til? David litli er, þegar uppi er staðið, ekki ofurleikfang eins og bangsinn góði sem fór algjörlega á kostum, heldur í raun lifandi drengur -eins lifandi og hægt er án þess að vera líffræðileg mannvera. Hann dreymir eins og raunverulegan dreng og saknar mömmu sinnar eftir að hún skilur nauðug við hann úti í skógi. David er svo mannlegur en takmörk hans verða þess valdandi að sambúð hans með syni fósturforeldra hans og fleira góðu fólki gekk ekki upp. Úr leit hans að mömmu sinni og uppruna sínum, verður ævintýraleg háskaför sem engan endi virðist ætla að taka. Aukaleikarar eru ekki allir að gera sérstaklega góða hluti, en Haley Joel bætir fyrir allan hugsanlegan skaða af þeirra völdum. Hann er sannarlega leikari af Guðs náð, hann fellur algjörlega í hlutverkið sitt, sem réttilega getur talist vera mjög erfitt -vélmenni sem er í raun mannvera (eða öfugt). Það er eitthvað sérstaklega heillandi við A.I. -öll hin djúpa speki og hinar hávísindalegu pælingar í bland við ótrúlegar tæknibrellur og ævintýralegan, ófyrirsjáanlegan söguþráð með alveg óvæntum endi. Ég mæli með henni fyrir allar tilfinningaverur eldri en tólf ára.
Osmosis Jones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Aðeins of mikið kjaftæði... en ekki skorti hugmyndaflugið! Bráðskemmtileg mynd, sem gerir þær kröfur einar að maður slökkvi á allri tilhneigingu til að klígja við hlutum og láti fara vel um sig -helst ekki með mat við hliðina samt. Raddirnar eru einstaklega skemmtilegar, Chris Rock alltaf sami ólátabelgurinn og Laurence Fishburne pottþéttur sem vírusinn ógurlegi... Bill Murray fer auk þess alltaf á kostum. Frábær hugmynd í sannleika sagt og mætti alveg vera meira að svona myndum, enda Farrelly-liðið óhrætt við að taka áhættur og þeir hafa ekki klikkað hingað til að mínu mati. Osmosis Jones býr ekki yfir neinni tímamóta teiknimyndalist, en teiknimyndahlutinn er bara býsna góður. Tækninni og hugmyndafluginu eru lítil takmörk sett hjá þessu liði. Allir geta skemmt sér við þessa mynd... með hæfilega opinn huga!
The Devil's Advocate
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Er allt hið illa í heiminum komið frá djöflinum í undirheimum... Eða erum við bara okkar eigin gæfu smiðir? Þetta er mynd sem hristi svo í mér fyrst að ég ákvað að horfa helst ekki á hana aftur... mundi heldur ekki nenna því af því hún var svo dramatísk... Var meira að segja haldin einhverjum ranghugmyndum um að hún væri leiðinleg! En svo er hreint ekki og ég hef ekki getað haldið mig frá henni ef hún birtist á sjónvarpsskjánum. Búin að sjá hana mjög oft og finnst hún bara betri og betri í hvert sinn. Það er ekki síður þess vegna sem ég gef henni svo góða einkunn. Mér finnst leikstjórinn hafa gert góða hluti og margir góðir leikarar komu enda við sögu og settu sinn svip á myndina. Handritið þykir mér síður en svo ruglingslegt eða myndin langdregin, mér finnst allt í toppstandi. Þvílíkar setningar sem spretta af vörum Pacino sem fer hreinlega á kostum í myndinni. Og endirinn er vel skrifaður og vandaður og síðast en ekki síst óvæntur. Keanu Reeves er býsna góður eins og maður er að verða vanur hjá honum. Góð tækni, hörkuspenna og heimspekilegar vangaveltur gera myndina að hörkumynd sem enginn spennu- og hrollvekja aðdáandi ætti að láta fram hjá sér fara.
Enigma
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mjög athyglisverð mynd, vel yfir meðallagi í leik og efnistökum. Kate Winslet eykst alltaf í áliti hjá mér, enda velur hún sér fjölbreytt hlutverk og kemst vel frá þeim. Dougray Scott þekki ég lítið en hér er hann bara hörkugóður í hlutverki hins týnda ofurgáfaða manns sem leitar að horfinni ástkonu sinni (Saffron Burrows)... Systir hennar (Kate Winslet) hjálpar honum og saman komast þau að ótrúlegum sannleika ráðgátunnar á bak við dulmálskóðun hersins og hvernig stúlkan hafði flækst í allt saman... Skemmtileg spennumynd fyrir hugsuði jafnt og aðra.
Blade II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jæja, þá er ég loksins búin að sjá hana og mikið skemmti ég mér vel! Tæknin er enn betri, hraðinn enn meiri og sagan enn magnaðri en í þeirri fyrri. Halló!! Hvað er svona slæmt við þessa mynd?? Ég skil ekki þá sem fíla hana ekki, ef einhver fílaði Blade I hlýtur hann að fíla þessa enn frekar. Ég er mjög ánægð með útkomuna ásamt þeim sem sáu hana með mér eitt vídeókvöldið. Ég er bara spæld að hafa ekki farið í bíó á hana, það er eiginlega skylda þegar kemur að svona myndum. Það vantar ekki blóðsúthellingar hér frekar en í fyrri myndinni og Wesley Snipes er enn betri. Tónlist og hljóð í hágæðaflokki. Nú er sá gamli (Kris Kristofferson) orðinn grunsamlegur og getur maður ekki annað en grunað hann um græsku í myndinni. Hvað sem því líður magnast myndin upp frá fyrstu mínútu, styrkur leikara er mikill og endirinn er mjög óvæntur en áhrifamikill. Bara algjör snilld -vonandi að Blade III fylgi þessari eftir. Hér er það annar leikstjóri og handritshöfundar en í þeirri fyrri, en jafnvel enn ókunnugri fyrir mér. Það er þó ljóst að hvorug myndin var gerð af viðvaningum. Vampíruáhugamenn! Látið ekki Blade-myndirnar vanta í safnið, þær eru ómissandi.
Blade
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sem mikill aðdáandi Buffy vampire slayer og alls konar vampírumynda af betri gerðinni, gat ég ekki annað en orðið yfir mig hrifin af þessari mynd, bara líklega besta vampírumyndin hingað til, ja kannski fyrir utan Blade II, sem var jafnvel enn öflugri. Það er mikið lagt í Blade, að skapa spennandi og ógnvænlega sögu þessara ófreskja, vampíranna, sem láta ekkert stöðva sig í sínu sóðalega hátterni -nema Blade. Wesley Snipes leikur af mikilli innlifun vampírubanann (sem sjálfur er ekki alveg óskyldur vampírunum) sem leggur sig í hættu til að útrýma vampírunum skelfilegu. Hann notar fullkomin vopn og nýtur leiðsagnar eldri manns sem leikinn er snilldarlega af Kris Kristofferson. Leikstjórn og handrit Blade eru í höndum tveggja manna sem ég kannast lítið við (Stephen Norrington og David S. Goyer) svo ég bjóst ekki við að myndin væri svona góð. Tæknin er stórkostleg, persónusköpunin frábær og blóðsúthellingar hæfilegar... Mikið er ég glöð að þriðja myndin er væntanleg og legg ég miklar vonir við hana. Ef einhver aðdáandi góðra vampíru- og spennumynda hefur ekki séð Blade myndirnar ætti hann að drífa sig því hann getur eiginlega ekki orðið fyrir vonbrigðum.
The Tuxedo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fyndin og skemmtileg og sem Jackie Chan aðdáandi varð ég ekki fyrir vonbrigðum með bardagaatriðin. Hann er þó hér í nokkuð öðruvísi hlutverki en áður, því hæfileikarnir eru ekki hans eigin, heldur frá hinum glæsilegu jakkafötum sem hann klæðist og koma honum skiljanlega í ýmis konar vandræði. Chan leikur bílstjóra sem er nýráðinn hjá auðkýfingi þegar yfirmaðurinn deyr. Hann lendir þá í því að ung og snjöll vísindakona (Hewitt) telur hann vera yfirmanninn látna og allt fer í steik, þar sem hann hefur ekki þá vitneskju sem þarf. Verkefni súlkunnar (og hans) er m.a. umsjá með tilraunum á einhvers konar ofurpöddum. Óvinir streyma úr öllum áttum og stundum virðist hjálp hinnar góðu aðstoðarkonu og jakkafatanna ógurlegu ekki nægja til... Auðvitað er söguþráðurinn eintómt kjaftæði, en bæði Jackie Chan og Jennifer Love Hewitt eru skemmtileg að vanda og myndin er fín afþreying, þótt hún skilji ekkert eftir sig enda líklega ekki gerð til þess. Hasar, góður húmor og tæknin yfir meðallagi. Ég mæli með þessari fyrir alla sem hafa gaman af Jackie Chan og spennandi gamanmyndum.
The Sixth Sense
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eftir að hafa séð Sixth Sense tvisvar veit ég að hún er með þeim allrabestu og á skilið fullt hús og allt það lof sem hún hefur fengið. Hún er frumleg og ógnvekjandi og hefur alveg óvæntan endi. Haley er frábær að venju og Bruce Willis stórgóður -hann hefur oft sýnt að hann getur tekist á við ólíkustu hlutverk. Aðrir leikarar standa sig vel, enda leikstjórnin í góðum höndum. Það hefur verið krefjandi fyrir alla aðstandendur myndarinnar að gera hana og útkoman er stórmynd. Mér er nú orðið vel ljóst að M. Night Shyamalan er einn af uppáhaldslistamönnum mínum í kvikmyndaheiminum í dag, enda kann ég mjög vel að meta þetta sköpunarverk hans, auk Unbreakable og Signs. Honum tekst með leikni að halda spennu út alla myndina og taka mann á sálfræðinni, auk þess sem hann fær ekki minni menn en Bruce Willis og Mel Gibson (í Signs) í lið með sér. Hvað við kemur Sixth Sense er rétt að spyrja sig hvort sé óhuggulegra að vita bara af tilvist drauga eða að sjá þá og jafnvel tala við þá. Kannski ekki góð mynd fyrir myrkfælna, en tæknin, heimspekin, spennan og skemmtunin í heild gera myndina að sannkölluðu meistaraverki. Ef einhver á eftir að sjá hana, þá er ekki seinna vænna en að drífa í því.
The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég sá Mothman Prophecies í bíó á sínum tíma og hafði litlar væntingar. Hún kom mér mjög á óvart. Þetta er hörkumynd í alla staði, frumleg, ógnvekjandi og spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Richard Gere stendur sig vel og Laura Linney klikkar ekki. Byrjunin er svo grípandi og endirinn óvæntur að ég get ekki annað en lofað hana. Ein besta hrollvekja sem ég hef séð og hún á sinn sess við hlið Sixth Sense og slíkra toppmynda. Það verða eiginlega allir að sjá hana, nema kannski mjög viðkvæmir. Hversu mikið hún er byggð á sannsögulegum atburðum veit ég ekki, en hún vekur mann allavega til umhugsunar um örlög og tilganginn með þessu lífi... Þeir sem vilja vita frekar um söguþráðinn verða bara endilega að taka hana á næstu leigu. Ég held ég geti ábyrgst að þeir verði ekki fyrir vonbrigðum.
Long Time Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bara hörkugóð hrollvekja sem lætur mann skjálfa passlega og fara pínu á taugum. Ég er aðdáandi góðra hryllingsmynda og þessi er ekki svo galin, enda fannst mér líka leikur, handrit og tækni yfir meðallagi. Hún jafnast ekki á við Mothman Prophesies eða Sixth Sense, enda er það til mikils mælst. Hún fjallar um nokkur ungmenni sem fara í andaglas (er ekki alltaf verið að vara mann við því??) og þurfa að taka hörmulegum afleiðingum þess. Þau ákalla djöful sem tekur sér bólfestu í líkama eins þeirra, en við vitum ekki hver það er fyrr en í lokin. Ég grunaði alla á tímabili. Endirinn var vægast sagt ófyrirsjáanlegur að mínu mati, en spennan hélst allan tímann. Ég vil ekki setja hana við hlið dæmigerðra unglingamynda eins og I know what you did last summer eða Scream, -þær áttu sína kafla en þessi er betri. Hún tekur mann þónokkuð á sálfræðinni og ég mæli hiklaust með henni fyrir aðdáendur þess konar hrollvekja.
Phenomenon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég fíla svona myndir í botn og þessi olli mér ekki vonbrigðum. Ég kann nokkuð vel við flest það sem þeir leikstjórinn Jon Turteltaub (While you were sleeping, Cool runnings) og handritshöfundurinn Gerald Di Pego (Message in a bottle) hafa verið að gera, þá sérstaklega fyrir virðingu þeirra fyrir mönnum og þeirri heimspeki sem fylgir myndum þeirra. Rómantíkin er heldur ekki langt undan eða húmorinn. Saman hafa þeir gert myndina Instinct, sem kom mér talsvert á óvart. Myndir þeirra eiga þó til að vera langdregnar, en það dregur Phenomenon engan veginn niður. Mér finnst hún í alla staði vel gerð og John Travolta er að sýna góðan leik, auk flestra hinna leikaranna. Hann leikur hér máttmikinn mann, vægast sagt, sem gerir kraftaverk en því fylgja eðlilega erfiðleikar sem ég ætla ekki að þylja hér. Ég mæli með þessari fyrir alla sem eru forvitnir og hafa opinn huga í þessari síbreytilegu veröld.
Simply Irresistible
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi mynd ætti skilið meira hrós enda um hreint frábæra sögu að ræða hér. Sarah Michelle Gellar leikur unga konu sem illa gengur að elda þótt það sé starf hennar, en það breytist fyrir tilstilli dularfulls krabbasala... Já byrjunin var vægast sagt stórfurðuleg svo ekki sé meira sagt. Ekki einungis gefur krabbi krabbasalans henni einstaka hæfileika í eldhúsinu heldur upplifir hún ást við fyrstu sýn þegar hún hittir myndarlegan viðskiptamann sem Sean Patrick Flanery leikur prýðilega. Sarah og Sean eru meðal minna uppáhalds leikara og ekki falla þau í áliti fyrir sannfærandi leik sinn í þessari fallegu mynd. Krabbinn gerir myndina eiginlega of furðulega og lækkar stjörnugjöfina örlítið, en það er auðvitað verið að vísa í töframátt hans með nafninu á henni. Allt annað í myndinni er annars snilld -ég hef ekki vitað aðra eins rómantík og maður varð bara heillaður af öllu saman. Þar spilar tónlistin einmitt sterkt inn í og eiginlega er maður svífandi á einhverju bleiku skýi eftir myndina... ef maður gætir sín ekki. Bara æðisleg mynd (fyrir utan krabbann), takk fyrir.
Ballistic: Ecks vs. Sever
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi mynd er í meðallagi ef litið er á þá staðreynd að hún er dæmigerð B-mynd. Mér líkaði satt að segja ekki svo illa við hana, fremur einfaldur (en langsóttur) söguþráður og hasar yfir meðallagi, auk þess sem tæknin brást ekki. Tölvutónlistin var alveg í takti við myndina, hún passaði vel við þessa dramatísku B-mynd með hasarívafi og Lucy Liu í svipuðu hlutverki og áður og Antonio Banderas í ágætis formi. Leikurinn var nefnilega alveg í meðallagi. Ecks (Banderas) missti konuna fyrir sjö árum, en fréttir að hún geti verið á lífi og að upplýsingar um hana sé að fá hjá helsta óvininum, henni hættulegu Sever (Liu), sem hann berst við af álíka snilld og hún býr yfir. Ég get alveg alveg mælt með þessari mynd fyrir aðdáendur hasarmynda í B-flokki. Hún er spennandi og inniheldur mörg góð bardaga- og hasaratriði, þótt það hefði kannski mátt slá aðeins af eyðileggingunni...
The Hole
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hvað veldur því að þrjú ungmenni deyja í gömlu neðanjarðarbyrgi og aðeins ein stúlka kemst af illa leikin? Ég bjóst ekki við miklu af þessari mynd, en hún kom mér verulega á óvart, ekki síður fyrir leik en söguþráð. Myndin er hreint mögnuð, tekur á sálfræðinni jafnt sem taugunum og endirinn er gjörsamlega ófyrirsjáanlegur. Ég kannaðist aðeins lítillega við leikarana, en Thora Birch þótti mér framúrskarandi sem hin dularfulla aðalpersóna, sem smátt og smátt púslaði saman minningum og sífellt ógnvæglegri saga kom fram er sálfræðingurinn hennar leitaði upplýsinga, m.a. annars hjá félaga stúlkunnar. Ég get engan veginn sett The Hole við hlið annarra unglingamynda hvað varðar gæði, hún er svo miklu úthugsaðri og vandaðri að mínu mati. Hún skilur kannski ekki mikið eftir sig og er alveg eins góð á spólu eins og í bíó, en ég held hún geti komið mörgum á óvart og mæli með henni fyrir aðdáendur góðra ráðgátu-spennumynda.
Matilda
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Matilda fær þrjár stjörnur fyrir að hafa hátt skemmtanagildi og góðan leik, auk þess sem ég hefði aldrei trúað DeVito til þess að gefa frá sér svona fallega ævintýramynd og hann óx mjög í áliti hjá mér. Hann fer prýðilega með hina góðu sögu Roald Dahls um indæla en vanrækta ofurbarnið Matildu, sem uppgötvar að hún getur notað hugarorku sína til að gera ótrúlegustu hluti og reynir með henni að gera skólann og veröldina alla að betri stað. Ég er búin að sjá myndina oft og mörgum sinnum og fæ ekki nóg. Matilda er yndisleg persóna og Mara Wilson ekki síður yndisleg ung og efnileg leikkona. DeVito er frábær í hlutverki geggjaða og glæpahneigða föðurins og Rhea Pearlman þykir mér yfirleitt leiðinleg (þættirnir hennar Pearl gerðu mig gráhærða), en þarna gerði hún góða hluti. Hin athyglisverða Embeth Davidtz (13 Ghosts, The Hole og Bicentennial man, allt góðar myndir að mínu mati) sómar sér svo vel í hlutverki hinnar ofurvinsamlegu Ms. Honey. Ég mæli hiklaust með þessari mynd, hún er fín skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
George of the Jungle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ein skemmtilegasta mynd sem ég hef séð, ein af uppáhalds -í góða skapið- myndin mín. Ég er búin að sjá hana að minnsta kosti 10 sinnum og hún kemur mér alltaf jafnmikið til að hlæja og vera jákvæð og hamingjusöm... Mynd fyrir alla? Já, ekki bara fyrir krakka ó nei. Ég fæ ekki nóg af henni og get ekki skilið þá sem hafa ekki skapið eða húmorinn í hana. Brendan Fraser er líka sérstaklega sniðinn í hlutverkið og kroppurinn spillir ekki fyrir... Ólíklegasta fólk hefur játað ást sína á þessari kolrugluðu grínmynd með rómantísku ívafi... Ef þú hefur ekki séð hana, láttu verða af því. Hvað er neikvætt við að horfa á gamanmynd um frumskógardrenginn George sem kemur til borgarinnar og lendir í ótrúlegustu ævintýrum?
Titanic
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er orðið nokkuð langt síðan ég sá þessa í mitt annað skipti. Ég fór fyrst á hana í bíó og auðvitað bjóst ég við þeirri stórmynd sem ég fékk. Hin sanna saga sem er túlkuð á vandaðan hátt virðist hafa sett framleiðendum lítil takmörk, sem sýnir styrk þeirra vel. Þennan styrk hefur Cameron aftur sýnt í seinni tíð, til dæmis með framleiðslu minna uppáhaldsþátta, Dark Angel, sem margir kannast eflaust við. Ástarsagan sem er tvinnuð í öll ósköpin í sögu Titanic, er hins vegar ekki mjög frumleg. Hún hefur eiginlega sígildan eða klisjukenndan söguþráð, er hlaðin rómantík en jafnt erfiðleikum, sem allir vita hvernig enduðu. Mér fannst DiCaprio ekkert síðri en Winslet, enda hafa þau bæði að mínu mati undirstrikað leikhæfileika sína síðan myndin kom út. Aðrir leikarar voru lítið síðri, enda um hóp fagmanna að ræða. Það má ekki gleyma tónlist James Horners, sem er að mínu mati með bestu höfundum kvikmyndatónlistar í dag (enda samið fyrir ekki minni myndir en Braveheart, Aliens og A Beautiful Mind), en framlag hans gaf myndinni mjög mikið. Titanic er stórmynd, full af ótrúlegum tæknibrellum, enda er ljóst að Cameron og félagar lögðu sig 200 prósent fram við gerð hennar. Hún er þó ekki með bestu myndum sem ég hef séð, en hefur mikinn sjarma og segir enda sorglega sögu um slys sem aldrei átti að eiga sér stað. Þeir sem hafa ekki enn séð myndina (einhverjir?) ættu endilega að gera það, því hún er ómissandi af mínum lista yfir áhrifamestu myndir síðari ára.
Final Fantasy: The Spirits Within
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ótrúleg tækni, tölvurnar virðast geta allt í dag. Söguþráðurinn er hins vegar bæði ruglingslegur og á köflum langdreginn, en þótt myndin falli í áliti fyrir vikið er hún samt tímamótaverk og fyrir það fær hún góðar þrjár stjörnur. Það er í raun meira lagt upp úr list og tækni en hugmyndin á bak við söguna sjálfa er ekki svo galin; dramatísk saga ungrar vísindakonu, Dr. Aki Ross, og leitar hennar að tilteknum vofum (spirits) sem er hugsað sérstakt hlutverk. Um leið og hún hittir margar athyglisverðar persónur, mæta henni ýmsar hættur og erfiðleikar í mun hættulegri heimi en við þekkjum í dag. Persónusköpunin er býsna góð og hreyfingar og tjáning með eðlilegasta móti. Framtíðarsýn Hironobu Sakaguchi og félaga hefur krafist mikils hugmyndaflugs, auk þess sem raddirnar koma frá fagmönnum (Alec Baldwin, Steve Buscemi, Donald Sutherland o.fl. og Ming Na fyrir aðalpersónuna) og gefa myndinni mikið. Ég mæli með myndinni fyrir alla þá sem hafa áhuga á tölvutækni og vísindaskáldskap, í bland við þónokkra spennu og hasar.
Evolution
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
SNILLD!!!!! Bara eiginlega besta gamanmynd sem ég hef séð. Ég hefði aldrei trúað því hve góð mynd þetta var, þegar ég sá kápuna og hafði lesið um hana. Meginþráðurinn er að loftsteinn hrapar og honum fylgir fremur ógeðslegt lífrænt slím sem að sjálfsögðu fer að myndast líf út frá og ekkert virðist fá stöðvað hina hröðu þróun þess... eða hvað? Þvílík tækni, yndislegur húmor, dásamleg persónusköpun og frábær leikur! Duchovny og Moore eru einstök og sama má segja um félaga þeirra, Akroyd og alla hina. Þessi mynd er vönduð í alla staði og þarna hafa fagmenn verið í öllum hlutverkum. Spenna, gaman, vísindaskáldskapur og þvílíkt hugmyndarflug í einu og sama handritinu. Hélt þetta væri bara kjánalegt kjaftæði en það vantar hreint ekki mikið upp á fullt hús. Það verða allir að sjá þessa mynd!
Nurse Betty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þegar ég byrjaði að horfa á þessa einhverja helgina á stöð 1, þá leist mér nú ekkert á blikuna. Byrjunin var vægast sagt fráhrindandi. Einhvern veginn vann myndin þó svo gríðarlega á og náði hámarki rétt fyrir endinn, að ég var alveg gáttuð af hrifningu. Hún var mjög listræn og Reneé Zellweger þótti mér standa sig hreint frábærlega í aðalhlutverkinu, sem ekki var af auðveldara taginu. Ég held að myndin, sem fjallar um stúlku sem missir vitið og lendir í ótrúlegustu aðstæðum út frá því þar sem hún telur sig lifa í uppáhalds sápuóperunni sinni, sé gott dæmi um mynd sem annaðhvort fólk elskar eða hatar. Þetta var einnig sagt um The Matrix á sínum tíma, þótt ekki ætli ég að líkja þessum tveimur saman. Ég er einfaldlega ein af þeim sem dýrka Nurse Betty og ég dáist einnig að Morgan Freeman að taka að sér hlutverk hálfbilaða glæpamannsins, þetta hlutverk hefði nú verið fráhrindandi fyrir ýmsan frægan leikarann. LaBute leikstjóri er augljóslega að gera góða hluti hér og það hefur þurft kjark fyrir menn að takast á við svona frumlega mynd. Niðurstaðan er eiginlega snilld að mínu mati og vildi ég gjarnan fá meira af svona myndum.
Bridget Jones's Diary
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Nei, hún var ekki alveg eins góð og flestir vildu af láta. Ég sá hana í fyrsta sinn á spólu fyrir nokkru og varð fyrir dulitlum vonbrigðum. Mér fannst hún eiginlega meira dramatísk en fyndin, en án efa voru aðalleikararnir þrír frábærir, Reneé, Firth og Grant, enda ekki við öðru að búast af þeim. Hún átti þó margar góðar hliðar, þótt ég hefði gjarnan viljað meiri áherslu á dagbókina sjálfa. Mér fannst myndin heldur ekki vera mikið um val Bridget milli mannanna tveggja, eins og ég bjóst við. Í raun er bara um úttekt á togstreitu hinnar klaufalegu Bridget að ræða, en í heildina er myndin fín afþreying. Það er óhætt að mæla með henni fyrir aðdáendur rómantískra gamanmynda, sérstaklega þar sem mynd 2 er væntanleg.
X-Men
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég varð mjög hrifin af þessari mynd, engin vonbrigði enda hafði ég litlar væntingar. Það var góður leikur og hasarinn og tæknin af hinu besta. Hugh Jackman og Anna Paquin þóttu mér frábær og aðrir stórleikarar sinna að sjálfsögðu sínum störfum, eins og Stewart, McKellen og Berry. Ótrúlegt en satt þá var X-men 2 ennþá öflugri, það vantar lítið upp á fullt hús. Það sem mér, sem aðdáenda myndasagna en þó vanvirks lesanda þeirra, fannst svo frábært við báðar myndirnar var persónusköpunin -hún skipti engu minna máli en hasarinn og spennan. Það hlýtur að vera erfitt að vera svona rosalega öðruvísi... stökkbreyttur og dæmdur til að lenda í vandræðum oftar en ekki! Án þess að rekja söguþráðinn þykir mér X-men frábær skemmtun sem enginn ætti að missa af (enda hafa líklega fáir gert það).
The Matrix
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eftir að ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá þessa stórmynd á sínum tíma, var ég orðlaus, gáttuð, hrædd, spennt og himinlifandi yfir að sjá bestu mynd sem ég hafði á ævinni séð. Engin mynd hefur toppað hana og ég á erfitt með að trúa að svo verði. Ég skil ekki þá sem fíla hana ekki, hef ekki hitt neinn slíkan ennþá en það eru alltaf einhverjir. Ég lifði mig svakalega inn í hana. Auk þess var mikið rætt um hana í sálfræðitímum á fjölbraut og það voru mjög skemmtilegar og áhugaverðar, heimspekilegar umræður! Hvað ef... ?! Ég sé ekki ástæðu til að rekja söguþráðinn, en deili því hér með lesendum að The Matrix er besta mynd sem ég hef séð. Seinni myndin gaf henni nokkuð eftir, en ef til vill var það einungis vegna þess hve öðruvísi og áhrifamikil þessi var. Ég get ekki beðið eftir þeirri þriðju.
Sweet Home Alabama
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þegar ég tók þessa á spólu, var ég nú ekki að búast við öðru en sætri rómantískri mynd. Það var líka það sem ég fékk. Hér er í stuttu máli um að ræða hina dæmigerðu ástarsögu um stúlkuna sem þarf að velja milli tveggja góðra manna, þess fyrrverandi í uppeldissveitinni og hins ríka borgarmanns. Reese Witherspoon er fín í hlutverki sínu og ekki er yfir hinum leikurunum að kvarta. Myndin er fín afþreying en skilur lítið eftir sig. Endirinn þótti mér full fyrirsjáanlegur, en það dregur hana ekki niður því hún er jafn hugljúf fyrir vikið.
The Bourne Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bourne Identity er með bestu spennumyndum sem ég hef séð. Hún er ekki uppfull af tækni, heldur kemur hraði, hasar og spenna í staðinn. Ég hef ekki lesið bókina, en sagan sem er sögð í myndinni þykir mér mjög góð. Matt Damon er í hörkuformi og leikur hans er góður eins og alltaf. Franka Potente er mjög skemmtileg leikkona enda þekkt fyrir metnað og fagmennsku. Samspil þeirra og þeirrar úthugsuðu njósnasögu sem um ræðir, gerir myndina að fínustu afþreyingu: Minnislaus maður finnst illa farinn í sjónum og svo fara að skella á honum ýmsar dularfullar minningar úr fortíðinni og hann púslar smám saman hver hann var og hlutverki hans innan njósnageirans. Hann verður þó um leið að berjast fyrir lífi sínu, enda á hann marga óvini... Ég fór á myndina á fyrstu sýningardögum og hafði engar væntingar en kom út hæstánægð, enda er um ekta, vandaða bíómynd að ræða. Ég mæli hiklaust með henni fyrir alla aðdáendur góðra spennumynda.
Enough
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi mynd er hörkuspennandi og Jennifer Lopez stendur sig með prýði í aðalhlutverkinu. Það er hins vegar ekki mjög frumlegur söguþráður og myndin verður á köflum langdregin, til dæmis fyrir þær sakir að aðdragandi lokauppgjörsins sem öll myndin gengur í raun út á, verður í lengra lagi. Ég get þó hiklaust mælt með henni og hún hefur margt gott að geyma, eins og áhersluna á fjölskylduböndin og umhyggju móður gagnvart barni sínu, auk þess sem hún sýnir órjúfanleg vinabönd Slim við vini sína og fyrrverandi kærasta.
Equilibrium
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég er á þeirri skoðun, ásamt svo fjölmörgum, að þessi mynd sé sannkölluð stórmynd. Ég hef ekkert út á hana að setja. Tæknin er ótrúleg, myndin er öll eitt listaverk og mjög vönduð. Christian Bale sýnir það enn hversu frábær leikari hann er og aðrir leikarar eru lítið síðri. Myndin er ádeila á stríðshneigð mannsins og gerist eftir þriðju heimsstyrjöldina, og eins og við segjum í dag, var mönnum ljóst að við mundum ekki lifa af þá fjórðu. Því er brugðið á það ráð að láta menn taka tilfinningabælandi lyf og leikur Bale yfirmann þeirrar sveitar sem útrýmir öllu því sem vekur tilfinningar; listaverkum, tónlist og svo framvegis, auk þess að losa samfélagið við tilfinningaafbrotamenn sem þessa hluti geyma og taka ekki lyfið sitt. Þegar hann lendir svo í því að félagi hans hættir inntöku lyfsins ágerast martraðir hans og hann hættir sjálfur. Hefst þá barátta hans við annarsvegar tilfinningar sínar og hins vegar tilfinningalausa eftirlitsmenn sem svífast einskis. Hér er því mikil dramatík á ferðinni, sem í bland við djúpa heimspeki og frumleika, hasar og spennu, skapar eina bestu mynd síðari ára.
The Sweetest Thing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Lélegasta rómantíska gamanmynd sem ég hef lengi séð. Handritið ömurlegt og rómantíkin var í raun engin, nema kannski rétt undir lokin. Ef markmiðið var að ganga fram af fólki gekk það eftir, en ef markmiðið var að vera fyndinn, hef ég allavega ekki húmorinn. Ég hef ekki annað að segja um þessa en að hún hefði aldrei átt að verða til, hvað þá að koma í bíóhúsin. Hún fær eina stjörnu fyrir viðleitni og þá staðreynd að einn og einn leikari kom sínu illaskrifaða hlutverki ásættanlega frá sér.
The Matrix Reloaded
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eftir svo langa bið, hefði myndin mátt vera betri að mörgu leyti og stendur forvera sínum nokkuð að baki. Það vantaði til dæmis sama ævintýrasjarmann í þessa. Hún fær hins vegar háa einkunn hjá mér, því mér þótti bardagaatriðin og tæknibrellurnar jafn góðar og í þeirri fyrri og skemmti mér mjög vel. Leikararnir stóðu fyrir sínu svo heildarútkoman var góð. Persónusköpunin hefði getað verið vandaðri en það er ekki hægt að neita að margar nýju persónanna komu sterkt inn og gerðu mikið fyrir myndina, s.s. ungi einlægi aðdáandi Neos. Skipstjóri aðalskipsins (skips Morpheusar og Neos) var einnig mjög skemmtilegur karakter. Keanu Reeves var jafnvel enn flottari en í fyrri myndinni, en Laurence Fishburne dálítið þreyttari. Carrie-Ann Moss veldur ekki vonbrigðum. Hlutverk fulltrúa Smiths var vel með farið og hann stal oft senunni, bókstaflega. Sum samtölin hefðu getað verið betri, þrátt fyrir sömu heimspekina og vangavelturnar og voru í fyrri myndinni. Mér þótti myndin alls ekki langdregin og húmorinn var góður. Það er óhætt að segja að söguþráður og áherslur hafi verið ólíkar hjá myndunum tveimur en Matrix Reloaded er stórgóð skemmtun sem enginn má missa af.
How to Lose a Guy in 10 Days
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ekki oft sem ég hlæ svo mikið að rómantískri gamanmynd, eins og ég gerði á sýningu þessarar. Hugmyndin að baki myndinni er frábær og handritið er bara hrein snilld. Ekki get ég kvartað undan leiknum heldur, allir skila sínum hlutverkum vel frá sér. Matthew alltaf sami sjarmörinn og Kate dásamleg í hlutverki ýktu kærustunnar. Félagar þeirra beggja eru ekki síður skemmtilegar týpur og þrátt fyrir að margar persónur komi fram, hafa þær allar sinn eigin karakter og leikararnir skila þeim vel frá sér. Brandararnir í þessari mynd eru svo margir að maður þyrfti helst að sjá hana nokkrum sinnum! En það er svo alvaran á bak við þá alla sem gerir það að verkum að myndin er með bestu rómantísku gamanmyndum sem ég hef séð. Takið til dæmis eftir lokaatriðinu í því sambandi. Myndin er kannski frekar hentug á vídeókvöldið en bíókvöldið, en engu að síður skilur hún talsvert eftir sig, -er ekki bara svona tímabundin skemmtun sem svo gleymist. Ég mæli hiklaust með því að allir kíki á þessa; litlir, stórir, konur og karlar... ! Það er heldur aldrei að vita nema maður græði eitthvað á henni... Góða skemmtun!
Maid in Manhattan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fyrir nokkru skellti ég mér ásamt vinkonunum á þessa indælu mynd. Ég held að allir þurfi á svona hugljúfri hressingu að halda endrum og eins. Þetta er mynd sem fær hjartað til að slá, þó ekki sé nema meðan á sýningunni stendur. Bæði Lopez og Fiennes eru stórfín í sínum hlutverkum, -og ekki má gleyma þeim sem lék son hennar því sá var dásamlegur og vonandi að maður eigi eftir að sjá hann oftar. Eins og komið hefur fram er Maid in Manhattan sannkölluð öskubuskusaga í nútímalegri útgáfu og gengur vel upp. Persónurnar eru skemmtilegar og þá sérstaklega samstarfskonur Lopez á hótelinu sem hún vinnur á. Þetta er svona formúlan að sannri ástarsögu; hún er einstæð móðir sem vinnur hörðum höndum til að þau mæðginin tóri í erfiðum heimi; hann er ríkur stjórnmálamaður. Sonurinn er undrabarn sem verður fyrir síendurteknum vonbrigðum vegna fjarveru föður síns, svo þegar hann hittir skemmtilega þingmanninn með hundinn í lyftu hótelsins, fara hjólin að snúast. Gaman, alvara, spenna og ævintýri; allt í einni mynd. Þessi er fín á vídeókvöldið -jafnvel fyrir strákana!
X-Men 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fór á X-Men 2 í kvöld og varð ekki fyrir vonbrigðum. Datt alveg inn í hana þrátt fyrir að vera í verstu sætunum (á fremsta bekk). Myndin er gott framhald af fyrri myndinni, tvímælalaust nokkuð betri. Það er sterkari söguþráður og persónurnar eru þroskaðri -og líklegra er bara enn meiri hasar í þessari. Það er gaman að sjá svona ævintýra- og hasarmynd þar sem bæði er lögð vinna í tæknibrellur og að viðhalda sterkum persónueinkennum og góðum húmor. -Það gerir myndina trúverðugri og að sjálfsögðu bara skemmtilegri. Nýja persónan, Nightcrawler, spilaði til dæmis mikilvægt hlutverk og kom manni oft til að hlæja -jafnvel á mestu spennustundunum. Þeirri persónu verður seint slegið við. Það má heldur ekki gleyma boðskapnum í myndinni -friður á jörð og allir jafnir! Ég efast ekki um að myndin er ein sú besta sem byggð er á myndasögum hingað til og vona bara að ekki verði langt að bíða næstu myndar um X-mennina. Takk fyrir mig!