Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Johnny English
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ætli það megi ekki skipta aðdáendum Rowans Atkinson í tvennt eftir því hvernig þeir munu kunna að meta Johnny English. Þeir sem telja að Atkinson hafi toppað sem Mr. Bean skemmta sér væntanlega mjög vel, við hin sem teljum hann hafa slegið öll met í þáttunum um Blackadder, sérstaklega síðustu seríunni, skemmtum okkur svo sem ágætlega en finnst vitleysan kannski full yfirgengileg á köflum.

Johnny English, sem leit víst fyrst dagsins ljós í stuttum sjónvarpsauglýsingum, er nokkurs konar Mr. Bean útgáfa af James Bond, telur sig færan í allt en endar á því að klúðra því flestu, án þess þó að viðurkenna það nokkurn tíma. Johnny English er kannski landi James Bond en Jaques Clouseou er þó augljóslega nánasti ættingi hans.

Áherslan er lögð á ærslaleikinn og aulaganginn. Það á eftir að falla í góðan jarðveg hjá mörgum. Það getur þó gengið of langt og gerir það í ýmsum tilfellum. Eftir stendur þokkaleg grínmynd þar sem maður veltir þó fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að nýta John Malkovich betur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Grill Point
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Lífsförunautar til skiptanna

Það mælir ekkert gegn því að skipt sé um lífsförunaut á eins og átta ára fresti segir ein persónan í þýsku dramamyndinni Halbe Treppe (sem af einhverjum furðulegum ástæðum er auglýst undir enska titlinum Grill Point). Á þeim tímapunkti í myndinni hefur komist upp um framhjáhald í vinahópnum og ramba tvö hjónabönd því á barmi skilnaðar meðan leikendur gera upp við sig hvernig þeir bregðast við atburðum, hvort það verði aftur snúið eður ei.

Það hefur verið látið mikið með þessa ágætu mynd, jafnvel of mikið. Sumu stendur hún undir, öðru ekki. Halbe Treppe er fínasta dramamynd þar sem skiptast á sorgleg atriði og sprenghlægileg og slatti þar á milli, á einstaka kafla verður hún jafnvel langdregin. Persónurnar eru brjóstumkennanlegar í dáðleysi sínu og útbrunnu samlífi sem virðist þó á tímabili geta ræst úr hjá tveimur þeirra. Myndin er hrá, köld og virkar löngum ágætlega á áhorfandann.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Austin Powers in Goldmember
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hverfult Mojo

Austin Powers - International Man of Mistery var þokkaleg skemmtun og The Spy who Shagged Me stórskemmtileg. Goldmember veldur vonbrigðum.

Brandararnir eru orðnir gamlir. Slíkt getur svo sem verið kostur en ekki í þetta skiptið. Spaugið útvatnast fljótt eins og sést best á því að Dr. Evil er orðinn jafn lapþunnur karakter og Fat Bastard verður samanskroppinn í lokin. Þar með er ekki sagt að ekki megi hafa einhverja ánægju af myndinni. Í henni er slatti af bröndurum sem virka, jafn vel fleiri en þeir sem eru andvana fæddir. Það var líka góð hugmynd að fá Michael Caine til að leika Powers eldri. Sigurvegari myndarinnar er Verne Troyer, Mini Me, brjóstumkennanlegur og skemmtilegur. Myers tapar, græðir mikið fé en heldur ekki dampi. Nóg komið. Tími til að snúa sér að einhverju öðru eða hressa verulega upp á ofurnjósnarann smáa.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Analyze That
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þokkaleg taka tvö

Það má sennilega hafa þessa umsögn stutta: Þeir sem höfðu gaman af Analyze this hafa væntanlega gaman af Analyze that.

Ef við ætlum að hafa þetta aðeins lengra má segja að þetta er meira og minna sama myndin og við sáum fyrir um það bil þremur árum, kannski helst að sviðsmyndum er breytt. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er það vel meint. Myndin er löngum fyndin blanda af sálfræðingabröndurum, mafíósabröndurum og sjónvarpsframleiðendabröndurum ásamt kannski einhverju til viðbótar svo sem leit mafíósaforingjans að heiðarlegri vinnu. Myndin er í það minnsta hin ágætasta skemmtun og hefur þann kost að vera gleymd um það leyti sem maður labbar út úr bíóinu.

Það þarf væntanlega ekki að taka fram að de Niro og Crystal standa sig með myndarbrag, meira að segja Lisa vinkona er skemmtileg á köflum. Hinn hlaupkenndi Joe Viterelli er þó sem fyrr allra manna skemmtilegastur.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Once Upon a Time in the Midlands
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Meinlausa greyið og glæponinn

Það er slatti af dásamlega skrýtnum karakterum í bresku myndinni með langa nafnið. Það dugar til þess að eitthvað fram yfir hlé hlær maður eins og fífl með litlum hléum, reyndar löngum stundum án þess að hafa almennilega hugmynd um það hvers vegna maður er að hlæja.

Eðlilegasti og ef til vill þroskaðasti karakterinn í myndinni er tólf ára stúlka. Segir kannski meira en flest annað um kærasta mömmu hennar, sem er óttalegt grey, og pabba hennar, glæpamanninn sem hvarf á braut en telur sig nú geta snúið aftur í faðm fjölskyldunnar. Verum ekkert að minnast á mann frænku hennar, kántrígaularann.

Sem undarleg grínmynd virkar myndin vel framan af. Snýst upp í drama upp úr miðri mynd og er ef til vill ekki jafn sterk þar. Samt sem áður ágætis mynd og hægt að gera vitlausari hluti en að líta á hana.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Catch Me If You Can
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alvöru athafnaskáld

Merkilegt hvað við föllum auðveldlega fyrir alls kyns svikahröppum, hvort sem er í bíóinu eða raunveruleikanum. Við föllum í það minnsta kylliflöt fyrir 16 ára guttanum sem strýkur að heiman og tekur að framfleyta sér á kostnað flugfélaga áður en hann tekur upp á því að leika lækni og lögmann. Sem sagt; alvöru athafnaskáld.

Catch me if you can er auðvitað léttmeti en afar skemmtilegt léttmeti. Tom Hanks er skemmtilegri en hann hefur verið í fjölda mörg ár í alvarlegri myndum, sýndi auðvitað að hann gæti þetta enn í sumum senunum í Cast Away. Leonardo diCaprio, sem er búinn að vera óþolandi í mörg ár, smellpassar svo í hlutverk glaumgosans og svikahrappsins sem skemmtilega leiðinlega löggan gerir sitt besta til að koma bak við lás og slá. Ég held þó samt að Martin Sheen sé skemmtilegastur í sínu hlutverki.

Sætar stelpur, skemmtilegir karlar, grín og annað það sem þarf til að rífa okkur upp úr leiðindunum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Star Trek: Nemesis
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Spurningin sem velt er upp í nýjustu Star Trek-myndinni er áhugaverð. Eiga fyrirmyndin og klónið eitthvað sameiginlegt annað en erfðafræðilega eiginleika? Er þetta sami maðurinn eða tvær ólíkar persónur? Því miður er það svo að þrátt fyrir að handritshöfundar telji sig hafa þetta á hreinu tekst þeim ekki að koma spurningunni og svarinu við henni frá sér á nægilega áhugaverðan máta. Því fer það svo að það sem ætti að vera þungamiðja sögunnar fellur um sjálft sig.

Biðin eftir tíundu myndinni um áhöfn Enterprise, þeirri fjórðu með því sem eitt sinn mátti kalla nýju kynslóðina, hefur verið nokkuð löng. Þegar myndin loksins berst okkur reynist hún með slakari innslögum í sagnabálkinn. Grínið í myndinni er nokkuð flatt. Bardagasenurnar ná í besta falli að vera miðlungssmíð. Í lokin er manni jafnvel sama um afdrif áhafnarmeðlima. Sem gamall áhugamaður um Star Trek varð ég fyrir vonbrigðum.

En það verður ekki hjá því komist að segja að þessum mikla sagnabálki er ekki alls varnað. Í það minnsta hlýtur það að segja eitthvað að maður getur alltaf treyst því að sjá einhverja í einkennisbúningum sambandsins á fyrstu sýningum myndarinnar. Vonum að þeir, og við hin, skemmti sér betur næst.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Solaris
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sálfræðistúdía í útgeimi

Í Solaris er að finna geimfara, geimflaug, geimstöð og ókunna plánetu. Það væri því auðvelt að álykta að um geimmynd eða vísindaskáldskap væri að ræða. Svo er ekki. Hér er á ferðinni sálfræðistúdía. Mynd um ást, missi og hversu langt við erum reiðubúin að ganga til að endurheimta hamingjuna. Hvort við séum reiðubúin að lifa lífinu í lygi til að fanga hamingjuna á ný, sleppa við sorgina.

Solaris gerir kröfur til áhorfenda um að velta fyrir sér nokkrum spurningum um líf sitt og langanir. Fari menn að sjá hana með það fyrir augum er hún gefandi og veldur vangaveltum löngu eftir að gengið er út úr bíósalnum. Solaris er engan veginn fyrir alla. Ég sá tvo menn labba út á sýningunni sem ég var á. Ég varð ekki var við að þeir kæmu aftur inn.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei