Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



United 93
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég ætla að byrja á því að segja að United 93 er rosalegasta mynd ársins. Sjaldan hefur ein kvikmynd haft jafn mikil áhrif á mitt litla. Greengrass tekur hér á viðkvæmu málefni með þvílíkri snilldarleikstjórn. Það er enginn Steven Seagal eða Jackie Chan um borð í þessari flugvél, þetta eru ósköp venjulegir Bandaríkjamenn sem urðu fyrir þessu mikla óláni að lenda í þessu. Persónurnar um borð eru þar að auki ekki flokkaðar í hina ólíklegustu flokka eins og gerist ósjaldan í flugvélamyndum sbr. hina nýútkomnu Snakes on a Plane. Þar er reynt að hafa farþegana eins áhugaverða eins og hægt er með því að breyta þeim í hálfgerðar teiknimyndafígúrur. Hryðjuverkamennirnir eru þá skiljanlega ekki fúlskeggaðir arabar í kufli heldur eru þeir snyrtilega klæddir og kurteisir allt þar til þeir láta skríða. Andrúmsloftið sem skapast í myndinni er vægast sagt yfirþyrmandi. Fyrri hluti myndarinnar tekur á því hvernig flugmálastjórn og hinar og þessar flugstöðvar reyna eftir bestu getu að komast til botns í því hvað sé að gerast þegar nokkrar flugvélar hætta að svara kalli. Síðari hluti myndarinnar gerist meira um borð í vélinni og þar fáum við viðbrögð farþega beint í æð. Engin einstaklingsframtök eru meðal farþega þar sem þetta eru allt almennir borgarar en ekki sérþjálfaðir leyniþjónustumenn. Síðasti hálftími myndarinnar er gríðarlega taugatrekkjandi og það tekur virkilega á að horfa upp á þau atriði sem fara þar fram. Útlit myndarinnar er í anda Greengrass, hrátt og raunverulekt og er það eitt lykilatriði myndarinnar. Þegar myndinni lauk heyrðist ekki múkk í salnum, allir steinþögðu og þurftu að jafna sig eftir þessa upplifun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Clockwork Orange
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

1968 kom út myndin 2001: A Space Odyssey eftir Stanley Kubrick og vakti sú mynd töluverða athygli því önnur eins mynd hafði ekki sést. Mörgum þótti myndin vera fáránleg en núna er myndin talin vera með bestu kvikmyndum allra tíma sem er bara sanngjarnt. Það er því ótrúlegt að aðeins þrem árum eftir 2001: A Space Odyssey að þá kom út önnur mynd eftir Kubrick sem er jafnvel talin vera betri.


Being the adventures of a young man whose principal interests are rape, ultra-violence and Beethoven.


Árið 1971 kom út mynd eftir Stanley Kubrick sem nefndist A Clockwork Orange sem var gerð eftir samnefndri skáldsögu manns að nafni Anthony Burgess. Sjálfur þoldi Burgess ekki bókina og vildi að hann hefði aldrei skrifað hana, enda umdeild fyrir mikið ofbeldi og kynlíf. Miðað við fyrri yfirlýsingar um bókina þá kom það ekkert á óvart að honum leist ekkert á myndina, beinlínis hataði hana. Rétt eins og með bókina þá varð myndin vægast sagt umdeild. Í Bretlandi komu upp atvik eftir frumsýningu myndarinnar sem voru rakin beint til hennar s.s. nauðganir og þess háttar. Það var því fljótlega hætt að sýna hana í Bretlandi en hún var aftur tekin til sýninga eftir að Kubrick lést.


Byrjum á byrjuninni. Hvað þýðir “ A Clockwork Orange?” Sumir eru bara ekki að skilja hvað er svona rosalega merkilegt við mynd sem heitir “klukkugengin appelsína” Það er vissulega bein þýðing en merkingin er rakin til þess að Anthony Burgess, ef einhver gleymdi þá samdi hann bókina, bjó um tíma í Malasíu og þar í landi merkir orðið “orang” (dregið af orangutan) maður. Það er erfitt að færa þennan titil yfir á íslensku en það er hægt að segja að þetta merki eins konar “vélmaður”. Það má gjarnan koma með einhverja flotta þýðingu á þessu.


Eitt það fyrsta sem maður tekur eftir þegar maður horfir á myndina er hvernig talsmátinn er hafður. Það er ekki skrýtið þótt að maður hafi ekki skilið öll orðin en orð eins og “gulliver”, “droogie”, “rassoodocks”, “synthemesc” koma fram ásamt mörgum fleiri. Maður getur dregið ályktanir þegar maður horfir á myndina t.d. með orð eins og “gulliver” en það merkir höfuð og “droogie” en það merkir félagi eða vinur. Önnur orð er mjög erfitt að vita hvað merkja. Þessi orð koma frá Anthony Burgess. Hann samdi tungumál sem var blanda af ensku og rússnesku, kallaði það Nadsat. Í myndinni eru það bara Alex og félagar sem tala málið enda er tungumálið talað af yngri kynslóðinni. Aðrir í myndinni tala sín eigin mál eftir stöðum í samfélaginu.


Hvað fjallar A Clockwork Orange um? Í stuttu máli fjallar hún um ungan mann að nafni Alex de Large sem leikinn er af Malcolm McDowell. Myndin á að gerast í náinni framtíð en það er ekki tekið fram hvaða ár þetta gerist. Hann og félagar hans, “his droogs”, nauðga, berja og lenda í alls kyns vandræðum kvöld eftir kvöld eða eins og þetta er orðað svo snilldarlega, ultra violence. Kvöld eitt fer mikið úrskeiðis og Alex er handsamaður af lögreglunni og dæmdur til 14 ára fangelsisvistar. Í fangelsinu fréttir Alex um svokallaða “Ludovico”aðferð sem er í raun heilaþvottur sem á að gera hann óvirkan gagnvart ofbeldi eða óhreinum aðgerðum eða hugsunum.


Til að byrja með er myndin alveg frábærlega leikin. Malcolm McDowell er svo fullkominn í þetta hlutverk. Hann vinnur leiksigur og það er synd að hann hafi ekki fengið Óskarinn fyrir þetta hlutverk. Túlkunin er svo mögnuð hjá honum. Það er leiðinlegt hvað hann hefur sést lítið eftir A Clockwork Orange því hann er það magnaður. Aðrir í myndinni standa sig auðvitað frábærlega og þá ber helst að nefna Georgie sem er einn af the droogies. Hann hefur sömuleiðis ekkert sést enda ekki verið að leika mikið síðan.


Alex hefur valið sér leið ofbeldis og nauðgana eins og kom fram áðan og hann er stoltur af því. Takið eftir því þegar fangelsisvörðurinn spyr hann um glæpinn þá er Alex einkar stoltur þegar mann segir “Murder, sir”. Hann velur það því það er í rauninni einungis illgirni. Einnig kemur það fram í myndinni að það virðist ekki vera mikil stjórn á svæðinu þar sem Alex á heima því t.d. róninn sem hann og félagar hans berja segir að það sé “no law and order anymore”. Svo þegar hann gengur heim þá er allt í rústi á leiðinni til hans og í blokkinni þar sem hann á heima. Við fáum að sjá Alex skemmta sér eins og honum einum er lagið og þá er ég að tala um barsmíðar og nauðganir. Myndin hlaut titilinn X hjá kvikmyndaskoðun í upphafi.





Tilvitnun:


The question is, whether or not this technique really makes a man good. Goodness comes from within, goodness is chosen. When a man cannot choose, he ceases to be a man.




Hér er fangelsispresturinn að tala við Alex um Ludovico-aðferðina.


Okkur er sýnd myrk hlið á mannlegu eðli sem er og verður nema til komi eitthvað mikið komi til þess að breyta því. Til þess að losna við þetta mannlega eðli þarf eitthvað það mikið að það gerir okkur ómannleg. Ludovico-aðferðin eyðir þessu frelsi Alexs til að velja ofbeldi. Ef maður hefur ekki frelsið til þess að velja, þá verðum við í raun ómannleg. Þetta sést alveg einstaklega vel í atriðinu þegar Georgie og Dim fara með Alex til að berja hann þegar Alex er búinn að fara að heiman. Þegar þeir eru að berja hann heyrast vægast sagt einkennileg hljóð sem mjög erfitt er að útskýra. Eins konar bergmál. Eins og það sé búið að berja í einhvern málmhlut. Þar er gefið í skyn að Alex sé í raun orðinn ómannlegur. Hann er í eðli sínu ofbeldishneigður og þegar það er búið að svipta hann því þá er hann orðinn “A Clockwork Orange”. Hann hefur ekkert val og ríkisstjórnin er tilbúin til þess að fórna frelsi fyrir verndun samfélagsins.


Það er ekki hægt að skrifa um A Clockwork Orange án þess að minnast á tónlistina í myndinni. Stanley Kubrick var meistari í því að nota tónlist og það bregst svo sannarlega ekki hér. Aðalstefið er eitt það almagnaðasta sem ég hef nokkurn tímann heyrt og ég fæ ekki leið á því að hlusta það, og trúið mér það er búið að fá að hljóma oft. Tónlistin í ofbeldisatriðunum gerir þau enn áhugaverðari þá sérstaklega í einu atriðinu sem Alex er sýnt þegar hann er í heilaþvættinum. Þetta er einhvers konar tölvuleikjatónlist, erfitt að útskýra hana. Alex notar líka tónlist til þess að fá meira út úr sínum athöfnum t.d. syngur hann “Singing in the Rain” þegar hann er að berja mann að nafni Frank Alexander. Hann notar tónlist sem hvatningu við ofbeldi eða við kynlífi.


Talandi um kynlíf. Það eru ótal myndir og tákn og athafnir sem tengjast kynlífi í þessari mynd og langflestar virðast sýna drottnun á einni manneskju yfir annarri. Fyrir utan nauðganirnar, þá má nefna það þegar Deltiod (skilorðsfulltrúinn hans Alex) grípur í punginn á Alex, þegar Alex grípur í punginn á lögregluþjóninum og svona mætti áfram telja. Veggir eru skreyttir með kynferðislegum myndum sem sýna konur í ögrandi stöðum en þegar Alex er að gæla við sig hugsar hann ekki um þær. Hann hugsar um sprengingar, hengingar og meira ofbeldi sem er sterkasti hluti af persónuleika hans.


Þegar allt kemur til alls er A Clockwork Orange án efa einhver albesta kvikmynd sem gerð hefur verið, finnst mér. Ég er reyndar ekkert búinn að tala um sviðsmyndina eða litina, myndatökuna, leikstjórn eða fleiri hluti sem maður talar venjulega um en það er allt fullkomið enda var Kubrick margumtalaður fullkomnunarsinni. Það er hægt að fara að skrifa um hvert einasta atriði því öll atriðin í myndinni hafa einverja þýðingu en það tæki of langan tíma. Eftir að ég horfði á myndina fyrst hætti ég varla að hugsa um haha í viku, svo áhrifamikil var hún. Þessi mynd er ekki bara talin vera ein besta mynd Stanley Kubrick heldur ein besta mynd allra tíma.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Amadeus
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Amadeus kom út árið 1984 og hrifsaði til sín öllum helstu Óskarsverðlaunum t.d. besta mynd, besti leikstjóri- Milos Forman, besti aðalkarlleikari- F. Murray Abraham og besta tónlist enda er þessi mynd sannkallað meistaraverk. Þrátt fyrir öll þessi Óskarsveðlaun og tugi annarra viðuekenninga hefur þessi mynd svolítið gleymst í gegnum tíðina. Ég vil ekki meina að hún sé vanmetim, alls ekki, heldur er ekki oft minnst á hana þegar talið kemur að góðum kvikmyndum. Síðar kom út önnur útgáfa af þessari mynd þ.e. Director´s cut sem er um 20 mínútum lengri en upprunalega útgáfan. Þá mynd ætla eg að skrifa um.


Myndin segir frá kannski eins og nafnið bendir til frá ævi Wolfgang Amadeus Mozart, einu virtasta tónskáldi allra tíma. Söguna segir maður að nafni Antonio Salieri (F. Murray Abraham), en hann horfir til baka þegar hann var sjálfur tónskáld. Á þeim tíma þráði Antonio ekkert heitar en að semja undurfagra tónlist og biður hann til Guðs dag hvern um að veita honum hæfileikann til að verða gott tónskáld. Hann fær dag einn tækifæri til að sjá Mozart, sem hafði verið lofaður um allan heim, flytja eitt verka sinna og þar með byrjar myndin að rúlla.


Þá kemur Mozart til sögunnar. Við sjáum Mozart með augum Antonio’s þ.e. sem einstakling útvalinn af Guði til að semja tónlist og tala fyrir Guð í gegnum tónlistina. Antonio er mjög svekktur þegar hann sér Mozart í fyrsta sinn því honum finnst ömurlegt að Guð hafi valið svo óheflaðan einstakling sem var sífellt með læti og dónaskap til að vera sinn útvaldi tónsmiður. Til gamans má geta að nafnið Amadeus merkir elskaður af Guði.


Ég held að það þurfi ekkert að taka það fram en tónlistin í myndinni en alveg mögnuð enda leikur enginn vafi á því að maðurinn (Mozart) var snillingur. Tónlistin er notuð við hvert tækifæri og þessar mögnuðu sinfoníur, óperur og margt fleira er notað í gegnum alla myndina. Maður getur ekki annað en fyllst af hrifningu þegar maður heyrir tónlistina því hún er svo öflug og áhrifarík. Þar sem ég hef ekki hlustað mikið á klassíska tónlist þá get ég ekki annað sagt en að ég hafi fundið svona hámenntaðrar-menningartilfinningu þegar ég heyrði lögin, frekar skemmtilegt.


Myndin er frábærlega leikin og finnst mér þá standa upp úr Tom Hulce en hann leikur Mozart. Hann lifir sig inn í hlutverkið og þá finnst mér atriðin þegar hann er að stjórna óperunum alveg einstaklega vel útfærð hjá honum. Hreyfingarnar eru óaðfinnanlegar og það er engu líkara en að hann hafi sjálfur verið hljómsveitarstjóri. Tom æfði fjórar klukkustundir á dag á píanóið fyrir hlutverkið enda var það mikilvægur hlutur í lífi Mozarts. F. Murray Abraham sýnir líka frábæran leik. Þegar Mozart er að koma aftur og aftur með frábærar óperur verður Antonio afbrýðisamari með hverjum deginum sem líður og nær F. Murray honum fullkomnlega.


Það síðasta sem ég ætla að minnast á eru búningar og sviðsmynd. Myndin gerist seint á átjándu öld og fötin skrautleg á þessum tíma. Búningarnir eru alveg magnaðir og manni finnst að hvert einasta smáatriði sé útpælt og mjög líklega sérsaumað. Fötin ásamt sviðsmyndinni eru alveg einstaklega metnaðarfull og það eru engir viðvaningar á ferð enda fengu búningarnir Óskar.


Þessi mynd er meistaraverk, allt þetta sem ég nefndi fyrir ofan er svo óaðfinnanlegt að maður getur ekki annað en hrifist af þessari mynd og auðvitað ætlar maður að fara að skella einum Mozart disk í tækið og láta menninguna flæða í gegnum sig.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Munich
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Deilur Palestínumanna og Ísraelsmanna hafa staðið yfir í háa herrans tíð og hafa kostað ófá mannslífin hjá báðum aðilum. Þessi eilífa barátta Palestínumanna fyrir eigin landi hefur verið í brennidepli alla tíð og nær daglega berast fréttir af þessum landshluta og sem oftast snúast um sjálfsmorðssprengingar eða morð á óbreyttum borgurum. Svo að það að Steven Spielberg fari að gera mynd um atburði sem eru enn í minnum hafðir og umdeildir hjá báðum fylkingum er aðdáunarvert. Ekki allir færu að leggja í það að framleiða mynd sem gæti olli þvílíku fjaðrafoki eins og myndin gæti hafa gert en raunveruleikinn er sá myndin hefur ekki þótt jafn umdeild og ætla mátti í fyrstu sem er auðvitað viss sigur fyrir Spielberg. Palestínumenn voru auðvitað dauðhræddir um að þeir myndu koma út sem einhverjir miskunnarlausir morðingjar, sem og þeir gera reyndar í örfáum atriðum, en fyrst mótmælin eru þetta lítil hlytur myndin að greina nokkuð rétt frá þvi sem gerðist.


Fyrir þá sem ekki vita gerðust hræðilegir atburðir á Ólympíuleikunum 1972 í Munchen þegar palestínsk hryðjuverkasamtök, Svarti september, hélt 11 ísraelskum íþróttamönnum í gíslingu inni á íbúð þeirra í Ólympíuþorpinu. Var þeim haldið þar í dágóða stund áður en hryðjuverkamennirnir heimtuðu bíl til að komast á flugvöllinn þar sem þeir ætluðu að komast undan á þyrlu. Þegar út á flugvöllinn var komið hófst gríðarlegur skotbardagi milli þýsku lögreglunnar og meðlima Svarta september sem stóð í rúmlega 2 klukkutíma. Niðurstaðan af kúluregninu lét ekki á sér standa... en rétt eins þegar eitthvað af þessari stærð gerist í heimi þessara tveggja óvinveittu þjóða þarf að gera eitthvað á móti. Það þarf að, já, hefna! Þetta er það sem maður myndi kalla “prinsipp” mál. Ef þú drepur 5 vini mína, þá drep ég 10 vini þína. Svona gengur þetta og hefur gengið fyrir sig öll þessi ár. Svo þegar forsætisráðherra Ísraels, Golda Meir, frétti af þessum atburði þá gerði hún það “nauðsynlega”, hún vildi hefnd. Hún fór af stað með aðgerð þar sem myrða átti háttsetta Palestínumenn og reyna að valda upplausn í samfélagi þeirra.


Avner (Eric Bana) fer fyrir 5 manna sveit sem myrða á 11 palestínumenn en í sveit hans er Daniel Craig sem er kannski betur þekktur þessa dagana sem “nýi Bond”. Meðal þeirra sem hann á að drepa er Ali Hassan Salameh en hann var einn af þeim sem skipulagði gíslatökuna eða eins og þessi atburður kallast á ensku Munich Massacre.


Steven Spielberg fer þá leið, rétt og Oliver Stone í JFK, að velja þá í hlutverk sem svipa til persónanna sem þeir leika. Hann velur ekki fólk bara af því að þau leika vel, hann velur fólk sem lekur vel og líkist þeim sem það er að leika. Þótt ég hafi ekkert vitað áður en ég sá myndina hvernig Ali Hassan Salameh leit út þá fletti ég honum upp og viti menn, þeir eru þónokkuð líkir leikarinn og Salameh. Maður fer ekkert að velja William H. Macy í svona hlutverk bara af því að manni finnst hann vera góður leikari, hann er reyndar ekki arabi en það er annað mál. Leikarinn sem leikur Salameh er stór og stæðilegur og reyndar er hann eitursvalur gaur í myndinni. Nýi Bond kom mér þónokkuð á óvart, kauði getur virkilega leikið og hann er góður í myndinni ásamt öllum hinum reyndar. Maður er kominn með fiðring í magann fyrir næstu Bond-mynd.


Leigumorðingarnir eru flestir ósköp venjulegir menn sem hafa fengið litla þjálfun í því að vera hryðjuverkamenn. Þeir virðast voðalega lítið kunna á græjurnar og sum morðin eru hreinlega vandræðaleg. Þeir sem hafa séð myndina vita að eitt morðið er hreinlega óþægilegt að horfa á og þá lá við að maður glotti, svo vandræðalegt var það. En það er einmitt um það sem málið snýst, þetta eru ekki menn eins og Léon sem ganga með svört sólgleraugu eða haga sér eins og Antonio Banderas í Assassins. Það eru ýktar persónur, Avner er kokkur (reyndar í Mossad sem voru eins konar Secret Service þeirra Ísraelsmanna) og hinir sinna mun “áhugaverðari” störfum heldur en það að vera hryðjuverkamenn en þeir sameinast allir fyrir föðurlandið í baráttunni við Palestínumenn. Sýnir kannski hversu sterk þessi átök eru, það eru allir tilbúinr til þess að fórna lífinu til þess eins að reyna að klekkja á Palestínumönnum. En það eru ekki bara Avner og félagar sem eru venjulegir menn. Skotmörkin þeirra eru það nefnilega líka, þeir eru líka menn með konur og börn og í vinnu. Þannig reynir Spielberg af bestu getu að sýna þetta frá réttum sjónarhóli, það er ekki bara vont og gott í þessum heimi.


Þar sem Ísraelsmennirnir tala ensku í myndinni en Palestínumennirnir tala arabísku tengist maður óneitanlega Ísraelsmönnunum betur. Í endurlitunum aftur til Ólympíuleikanna skilur maður það sem Ísraelsmenn segja en væntanlega ekki hvað Palestínsku hryðjuverkamennirnir segja. Það er auðvitað ekki hægt að láta suma Ísraelsmenn tala ensku og suma móðurmálið en þetta kemur samt alls ekki niður á myndinni.


Munich gerist í öllum heimshornum og sögusviðið er einstakega flott. Tímablilð skín vel í ljós (hárgreiðslan á Daniel Craig er eðal :) enda metnaður lagður í þetta. Alltaf finnst mér líka vera jafn áhrifaríkt þegar eitthvað slettist á myndavélina, t.a.m. þegar blóð skýst framan í “mann”. Þá er maður með í myndinni og tekur þátt í atburðarásinni.


Myndin er sú besta sem Steven Spielberg gerir í langan tíma. Ég hef samt haft mjög gaman að myndunum hans seinustu ár, Catch me if you Can er snilld. Ég hef trú á því að myndin segi satt og rétt frá atburðum í heimi grimmilegra hefnda á báða bóga sem engann endi virðist ætla að taka. Á tímabilum er Munich hörkuspennandi og það kom mér reyndar á óvart hversu spennandi myndin í raun og veru er. En það sem kom mér reyndar mikið á óvart, og hefur gert síðustu mánuði, er hversu CIA er rosalega stórt batterí en það ætla ég ekki að tala um í þessari grein. Munich... stórkostleg mynd um tryggð, vináttu, hefnd, baráttu og skuldbindingu.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Se7en
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hefur þú aldrei pælt í því hvað það væri frábært að fá að sjá myndir eins og þú værir að sjá þær í fyrsta sinn? Að upplifa snilldina sem uppáhaldsmyndirnar manns innihalda aftur en ekki eins og maður upplifði hana þegar maður var rétt skriðinn á táningsaldurinn. Ég myndi gefa margt til að fá að sjá Seven aftur í “fyrsta sinn”. Rétt eins og með The Usual Suspects. Ég sá hana tiltölulega ungur og frá því hef ég alltaf munað hvernig hún endaði, endirinn var svo eftirminnilegur. Ég man samt ekkert eftir því þegar ég sá hana fyrst. Svo sá ég hana í fyrsta sinn aftur nýlega og það er hræðilegt að vita ekkert um mynd nema endinn. Það er eins með Seven. Endirinn er örugglega það eftirminnilegasta úr myndinni og maður man alltaf eftir honum enda er þetta án efa einn sá besti sem sést hefur á hvíta tjaldinu ásamt endinum í fyrrnefndri mynd. Einn af fáum hroll-endum.


Myndin kom út árið 1995 og er af mörgum talin besta mynd leikstjórans David Fincher en ég er nokkuð viss um að það eru fleiri sem myndu greiða Fight Club atkvæði sitt enda frábær mynd þar á ferð en Seven finnst mér vera hans besta mynd. Í stuttu máli segir Seven frá tveimur lögreglumönnum, William Somerset og David Mills, sem þurfa í sameiningu að leysa hrottaleg morðmál sem byggð eru á Dauðasyndunum sjö; Ofáti, græðgi, leti, girnd, stolti, öfund og reiði. Morðin eru öll einstaklega ógnvekjandi og frumleg í leiðinni. Það eru Morgan Freeman og Brad Pitt sem leika þá félaga og eru góðir karakterar þótt það sé auðvitað einn maður sem stelur senunni og ég hugsa að þótt þeir sem ekki hafi séð Seven viti samt hver maðurinn er. Það er auðvitað ein snilldin við Seven. Uppbyggingin að þessum karakter, þessum ótrúlega kaldrifjaða morðingja, í gegnum morðin og vísbendingarnar sem Somerset og Mills fá. Maður getur ekki annað en hugsað: “Hvers konar sjúki einstaklingur gerir svona hluti?” Við viljum vita það og fræðast um hann því svona verknaðir eru ofar skilningi venjulegs fólks. Forvitnin í sambandi við morðingja hefur alltaf verið sterk, við hugsum um hvað það sé sem drífur svona menn áfram. Menn eins og Ted Bundy, Jeffrey Dahmer eða jafnvel Adolf Hitler. Geðveiki, hrein illska eða æðra máttarvald? Liðir 2 og 3 falla víst sjálfrátt undir geðveiki þannig þá er bara einn valmöguleiki eftir. Seven tekur á þessu málefni; geðveiki. Somerset og Mills ræða þónokkrum sinnum um geðveiki þegar kemur að morðingjanum eða bara daglegu lífi. Samtalið þeirra á barnum er mjög áhugavert en þar koma skoðanir þeirra á þessu bersýnilega í ljós. Jæja, ég er kominn langt frá myndinni sjálfri en þessi bið eftir morðingjanum í Seven er þess virði. Þetta er einn af mínum uppáhaldskarakterum en upphaflega stóð til að láta R. Lee Ermey (kannski þekkja hann fleiri sem Drill Sergeant-inn í Full Metal Jacket) fara með hlutverkið en hann leikur lögreglustjórann í myndinni. Það var góð ákvörðun.


Útlit myndarinnar er frekar dökkt og það er rigning meirihlutann af myndinni sem gefur henni svona “þungt” andrúmsloft. Það myndast alltaf skrýtin tilfinning í rigningu. Annars er myndin mjög útlitslega flott og ætli maður geti ekki notað orðið falleg. Myndatakan er mögnuð og sviðsmyndin er flott. Eitt flottasta skotið í myndinni er án efa fyrsta skotið sem sýnir húsið þar sem Sloth-fórnarlambið er. Snilldarskot og um leið kemur sterk nóta sem gefur manni vísbendingu um það sem á eftir að gerast þarna inni. Það er ótrúlegt atriði, ákaflega disturbing. (Spoiler framundan) Ég var að lesa þráð um myndina á imdb um daginn og þá sá ég að það voru einhverjir að halda því fram að hóran sem myrt var svo eftirminnilega í Lust-atriðinu, að hún hefði verið syndgarinn. Það er líklega útaf þessu sem John Doe segir í bílnum nærri enda myndarinnar: “And let’s not forget the disease-spreading whore” Þarna er John Doe einungis að réttlæta morðið á henni en syndgarinn sjálfur er auðvitað vesalings maðurinn enda hafði hann syndina girnd. Þessi hóra og Tracy voru bara til að fullkomna ætlunarverkið, þær höfðu í raun enga synd. Ég veit auðvitað ekkert um hvað þeir sem lesa þetta halda en vildi bara benda á þetta. (Spoiler endar)


Seven hefur frá því að hún kom út verið áhrifavaldur margra spennumynda en þar ber helst að nefna Saw sem varð mjög vinsæl. Augljósa vísun í Seven má fyrst og fremst ráða af morðunum sem hafa verið svolítið ýkt enda Saw ætluð yngri áhorfendum. Eins var eitt atriði þar sem minnst var á hnetusmjör en það er nánast tekið beint úr Seven, en Brad Pitt segir einmitt eitthvað í þessa áttina: “He´s probably walking around in his grandma’s underpants covering himself in peanut butter.” Já, karakterinn hans Brad Pitt á nokkra spretti í myndinni, skemmtilegur gaur. Brad Pitt er líka frábær í þessu hlutverki, rétt eins og allir í myndinni.


Í The Shining eftir Stanley Kubrick sést Wendy yfirfara hundruði blaðsíðna sem allar innihéldu sama frasann “All work and no play makes Jack a dull boy”, sem Jack skrifaði. Þessar 300 blaðsíður voru allar handskrifaðar, ekki prentaðar. Í Seven, þegar Somerset og Mills skoða dagbækur morðingjans var það sama gert. Menn sátu sveittir í 2 mánuði og skrifuðu og skrifuðu, tilgangurinn? Ég bara hreinlega veit það ekki því það sjást kannski 10-15 blaðsíður í allri myndinni. David Fincher er bara greinilega svona metnaðarfullur leikstjóri.


Seven er pottþétt ein besta mynd tíunda áratugarins, en ’94 og ’95 eru ótrúlega góð ár. Fullt af frábærum myndum á þessum árum, það vantar annað svona ár. Seven var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu klippingu en hlaut ekki. Skrýtið að það skuli hafa verið litið svona framhjá þessari mynd því hún hefur allt til brunns að bera en það verður bara að hafa það. Myndin er í mínum huga besta mynd ársins 1995 en einnig ein besta og frumlegasta spennumynd síðari ára og er orðin eins konar guide um hvernig gera eigi spennumyndir.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Natural Born Killers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

If ever a film deserved to be banned, this is it.


Svona voru viðbrögð dagblaðsins Daily Mail við Natural Born Killers, kvikmynd hins umdeilda leikstjóra Oliver Stone þegar hún kom út árið 1994 ásamt reyndar fleiri, fleiri stórmyndum þetta sama ár. Hún hlaut misjafna dóma, Roger Ebert gaf henni 4 stjörnur (100/100) þegar hún kom út en eins og tilvitnunin bendir til voru ekki allir á sama máli. Þrátt fyrir mikið magn stórmynda sem út komu þetta ár var langmest fjallað um eina mynd… Natural Born Killers. Myndin varð um leið og hún kom út alræmd fyrir hrottalegt ofbeldi og í kjölfar útgáfu myndarinnar hafa 8 morð verið “rakin” til hennar en hún hafði víst mikil áhrif á þá sem sakfelldir voru fyrir morðin. Oliver Stone var til að mynda kærður af ættingjum eins þessa 8 fórnarlamba vegna þess að þeir töldu myndina helstu ástæðu þess að skyldmenni þeirra var myrt. Þó, áður en myndin kom út vildi Oliver Stone að myndin fengi R stimpil (yngri en 17 mega fara í fylgd með fullorðnum) en ekki NC-17 (stranglega b.i. 17) og til þess að þetta gengi eftir þurfti hann að klippa 150 atriði úr myndinni! Þegar hún loks var samþykkt var hún stimpluð sem R vegna: Extreme violence and graphic carnage, for shocking images, and for strong language and sexuality.


Þegar kom að því að gefa myndina út á DVD vildi Stone sýna áhorfendum myndina eins og hún átti upprunalega að vera. Honum fannst að myndin sem sýnd var í bíó ekki vera hin rétta Natural Born Killers. Hann gaf þá út myndina eða eins og sagt er “The Full Uncensored Director’s Cut!”


Eftir að ég hafði séð Natural Born Killers í fyrsta sinn gat ég ekki annað en hugsað með mér: Djöfulsins snilld! Ég hafði aldrei séð mynd sem var jafn sjokkerandi og jafn einstök og einmitt þessi mynd, það gekk einfaldlega allt upp. Myndin var líka ein sú furðulegasta sem sem ég hafði séð, þó á góðan hátt. Hún var ekki innihaldslaus steypa sem maður botnaði hvorki upp niður í heldur einhvern veginn meikaði allt sens á ótrúlegan hátt.


Natural Born Killers segir frá pari að nafni Mickey (Vúddí Harrelson) og Mallory (Juliette Lewis), sem á ferð sinni um Bandaríkin valda miklum usla með hamslausu ofbeldi, morðum og nauðgunum svo eitthvað sé nefnt, í garð allra sem á vegi þeirra vera. Fjölmiðlar eru fljótir að taka upp þráðinn, fjalla um Mickey & Mallory daglega og verður það til þess að þau verða eins konar átrúnaðargoð margra, þau verða celebrity í Bandaríkjunum. Fremstur í fararbroddi er fréttamaðurinn Wayne Gale sem virðist varla hugsa um annað en parið fræga. Það er sjálfur Robert Downey Jr. sem leikur Wayne og það verður að segjast eins og er að hann er frábær í þessu hlutverki. En það er ekki bara Robert Downey sem fer á kostum, það eru í raun allir sem leika í myndinni. Litli, vitlausi “hill-billíinn” úr Cheers, Woody Harrelson, er magnaður. Hann er helmassaður í myndinni og er fullkomin andstaða við þann Woody sem hann lék í Cheers, enda kom það mjög á óvart hversu vel Woody fór með hlutverkið, hann er troðfullur sjálftrausts. Oliver Stone sagði, spurður um valið á Woody, að hann hefði séð ofbeldi í drengnum. Tommy Lee Jones er samt a mínu mati senuþjófurinn sem fangelsisstjórinn Dwaight McCulsky, þvílikur karakter!


Það var enginn annar en Hr. Quentin Tarantino sem skrifaði upphaflega handritið að NBK en áður en tökur hófust ákváðu Oliver Stone og handritshöfundar hans að laga handritið eftir sínu höfði og gera myndina þannig. Þegar QT sá loks myndina varð hann verulega ósáttur við útkomuna og hefur hann nánast afneitað handritinu sem Stone gerði úr hans. Áhersla Stone á hlutverk fjölmiðla í myndinni fór víst mest fyrir brjóstið á Quentin en þrátt fyrir að hann hafi ekki verið sáttur við útkomuna á handritinu held ég að hann geti ekki neitað þvi að Natural Born Killers er útlitslega mögnuð. Þar er helst að þakka klippingunni, tökur stóðu aðeins yfir í 56 daga en það tók tæpt ár að klippa hana til. Til samanburðar er þorri mynda með um 700 skot, NBK er með um 3000! Það er stanslaust klippt yfir í… ja hvað sem er í rauninni, andlit, teiknimyndir og ótal fleira. Reyndar er ekki öll sagan sögð enn því þótt það sé mikið klippt er einnig oft skipt um lýsingu, myndatöku eða gæði myndar.


Þetta allt sýnir í hversu sturluðum heimi Mickey & Mallory lifa. Þau áttu bæði hörmulega æsku og lá leið þeirra æ síðan á braut ofbeldis og glæpa en aðeins er pælt í þessu í myndinni. Er maður Natural Born Killer (fæddur morðingi) eða verður maður morðingi af áföllum og misþyrmingu í æsku? Mickey telur sig vera Natural Born Killer, þ.e. að það séu örlög hans að verða morðingi. Telur hann sig vegna þess vera á hærra plani en við sem ekki erum “Natural Born Killers” Hann er fullkomnaður, við (þ.e. ekki Natural Born Killers.. vonandi) erum frumstæð í hans augum því við einfaldlega skiljum ekki svona verk. Morð er, eins og Mickey orðaði það, hreint (pure).


Mickey: It's just murder. All God's creatures do it. You look in the forests and you see species killing other species, our species killing all species including the forests, and we just call it industry, not murder.


Þetta er smá brot af viðtali Mickey við Wayne Gail í myndinni sem var innblásið af viðtali fjölmiðlamannsins góðkunna Geraldo við fjöldamoringjann Charles Manson en hann stóð bakvið fjölda morðra, margra hrottalegra, á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Frægast er þó þegar Manson-fjölskyldan réðst inn á heimili leikstjórans Roman Polanski árið 1969 meðan hann var erlendis og myrtu ófríska konu Polanski, leikkonuna Saron Tate. Síðan á hátindi “ferilsins” hefur Manson hlotið gríðarlega umfjöllun fjölmiðla (orðið e.k. tákn hins illa) og hafa þónokkrar myndir litið dagsins ljós um manninn en þar ber helst að nefna Helter Skelter frá árinu 1976.


Mickey & Mallory feta í fótspor Manson. Fjölmiðlar beinlínis elska að fjalla um þau og verður það til þess að þau verða að lokum vinsæl! Fólk dáist að þeim og fagnar þeim þrátt fyrir að samkvæmt heilbrigðri skynsemi ættu þau að fyrirlíta þau. Það er auðvitað það sem Oliver Stone er að reyna að segja, fjölmiðlar hafa gífurleg áhrif á líf fólks með því að upphefja ofbeldi og lyfta fjöldamorðingjum á hærra plan en venjulegt fólk er. Svona geðsjúklingar fá alltaf mikla athygli því sumir dást að þeim fyrir að geta það sem venjulegt fólk getum ekki en þótt myndin sé mjög ofbeldisfullt er reynt að halda fegrun á ofbeldi í lágmarki. Engu er haldið aftur.


Natural Born Killers er á efa ein af bestu ádeilum allra tíma. Hvort sem þér finnst myndin vera góð eða léleg held ég að það sé varla hægt að neita því að boðskapurinn er góður, myndin fær mann virkilega til þess að hugsa. Oliver Stone gerir hér mynd sem er á allan hátt frábær. Þótt hann hafi gert hana í óþökk Tarantino þá er mér í raun sama, myndin er sannkallað listaverk. Ég skil eiginlega ekki af hverju hún er svona lág á imdb (6,7) en ætli maður verði ekki að virða skoðanir fólks, sem og hér er hún ekki að skora neitt sérstaklega hátt en þegar allt kemur til alls er Natural Born Killers ein hugrakkasta og besta mynd síðari ára.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei