Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Tommy Boy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar ég fór á Tommy Boy á sínum tíma í bíó vissi ég ekkert um þessa mynd og þekkti heldur ekkert til Chris Farley. Það er skemmst frá því að segja að þessi bíóferð varð ein af þeim ánægjulegri sem ég hef á ævinni upplifað. Mig verkjaði sárlega í magann eftir að hafa hlegið linnulítið alla myndina og það eina sem komst að í huga mínum þegar myndinni lauk var að þessa mynd yrði ég að sjá aftur og það fljótt. Myndin er uppfull af atriðum og setningum sem í mínum huga eru orðnar klassískar. Chris Farley heitinn var snillingur sem því miður féll frá langt um aldur fram.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
UHF
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég dýrkaði þessa mynd á unglingsárunum og gat þulið upp heilu setningarnar úr henni án mikillar fyrirhafnar. Hún hefur ekki elst alveg jafnvel og ég hafði vonað en engu að síður er hún kómísk snilld. Vísanir í aðrar kvikmyndir, Indiana Jones, Rambo, Gandhi, Conan, Close Encounters of the Third Kind o.fl., eru grátbroslegar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dirty Rotten Scoundrels
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er mannbætandi að horfa á þessa snilld með svona ca 2 ára millibili. Caine og Martin eru óborganlegir og smellpassa í hlutverk svikahrappanna. Ég hlæ alltaf jafnmikið að atriðunum með Martin í hjólastólnum og við matarborðið sem hinn kostulegi Ruprecht. Með betri gamanmyndum sem þú munt sjá um ævina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Jerk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Jerk svipar svolítið til Billy Madison að því leyti að hún er um fávita sem langar til að verða eitthvað meira í lífinu heldur en bara fáviti. Einnig tengjast þær að því leyti að aðalleikararnir þreyta frumraun sína á hvíta tjaldinu í þeim eftir að hafa verið meðlimir í Saturday Night Live genginu til nokkurra ára. Steve Martin er grátbroslegur í hlutverki fávitans og hefur vart náð að toppa þessa frammistöðu á ferlinum. Takið eftir atriðinu með Thermos hitabrúsanum, algjör klassík.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Event Horizon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Event Horizon er einfaldlega besta geimhrollvekja sem gerð hefur verið. Mér fannst hún það góð að ég fór á hana tvisvar í bíó og í bæði skiptin náði hún að framkalla hjá mér gæsahúð. Tónlistin ein og sér er meira að segja verulega creepy.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Billy Madison
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er kennslubókardæmi um það hvernig á að gera dellugrínmynd. Einfaldlega sprenghlægileg frá upphafi til enda. Mikið vildi ég að Adam Sandler myndi snúa sér aftur að því að gera myndir eins og þessa, þar sem fáranleg hugmyndaauðgi og gnótt af kæruleysi er allsráðandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Deliverance
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi frábæra mynd er einfaldlega skylduáhorf fyrir alla unnendur góðra kvikmynda. Myndataka, leikur og handrit skapa spennuþrungið andrúmsloft sem seint verður leikið eftir. Burt Reynolds og Jon Voight í sínum langbestu hlutverkum. Banjóatriðið er eitt af þeim minnisstæðari í kvikmyndasögunni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Thing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

John Carpenter má muna fífil sinn fegurri. Ég ætla að vona að hann hafi náð botninum með hinni mannskemmandi Ghosts of Mars og fari að rífa sig upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið í undanfarin ár. The Thing er án nokkurs vafa hans besta mynd, hryllingsmynd eins og þær gerast bestar. Leikstjórn, leikur og tæknileg úrvinnsla eins og best verður á kosið og tónlistin er einnig ákaflega minnisstæð. Þetta er ein af þessum myndum sem hefur elst mjög vel og mun koma til með að gera það um ókomna tíð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Wrong Turn
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ja hérna, ekki bjóst ég við þessu. Miðað við umtalið og gagnrýnina sem myndin hefur fengið átti ég von á miklum leiðindum þegar ég álpaðist inn á hana fullur efasemda. En þessi bíóferð mín varð ein af þessum fágætu þar sem blessuð ræman reis langt fyrir ofan væntingar. Myndin er þrælspennandi út í gegn, hillbillíarnir vekja hjá manni tilætlaðan óhug og myndin er hreint út sagt ágætis afþreying. Þetta er ein af þessum myndum þar sem menn mega ekki einblína um of á smáatriði í söguþræði eða búast við Óskarsverðlaunaleik.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei