Gagnrýni eftir:
Kill Bill: Vol. 1
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er afskaplega erfitt að ætla sér að skrifa heildstæða gagnrýni fyrir aðeins helminginn af mynd. Þetta er nefnilega ekki eins og Lord of the Rings eða slíkt, þar sem hver mynd er alveg sjálfstæð eining í rauninni, heldur er hér um að ræða að þegar þessari mynd lýkur þá er meira eins og það sé komið hlé. Síðari hlutann fáum við síðan að sjá snemma á næsta ári. Hins vegar er þessi fyrri hluti alveg hreint út sagt framúrskarandi. Quentin Tarantino hefur aldeilis ekki setið auðum höndum undanfarin ár, og þegar hann loksins skellir fram mynd, þá er ekkert slor í gangi. Hann fær mikla snillinga til liðs við sig, sverðasnillinginn og goðið Sonny Chiba, wire-fu meistarann Yuen-Woo Ping (Matrix, Crouching Tiger, Iron Monkey), ásamt David Carradine (sem einhverjir muna kannski eftir úr Kung-Fu þáttunum sálugu), ásamt að sjálfsögðu Darryl Hannah, Lucy Liu og fleirum. Þegar maður umkringir sjálfan sig rétta fólkinu, skrifar áhugaverða karaktera og aðstæður, þá þarf maður lítið að gera nema kveikja á kvikmyndatökuvélinni. Þetta veit Tarantino og nýtir sér vel. Þar með er ég ekki að gefa í skyn að myndin sé ekki glæsileg útlits, því það er hún vissulega. Hún er reyndar alveg stórvel gerð, öll sett, kvikmyndataka og stílbrögð (svart/hvítt, anime, split-screen, o.s.frv.) heppnast alveg með afbrigðum vel. Þrátt fyrir að myndin hafi afskaplega basic söguþráð og einfaldar, sterkar persónur, þá er hún alls ekki innihaldslaus. Þetta er bara klassísk saga, vel sögð, og með tilvísun í um það bil milljón kvikmyndir sem Tarantino hefur séð í gegnum tíðina, þ.m.t. kung-fu myndir, samúræja myndir, anime og svo mætti mjög lengi áfram telja. Ég get alveg séð fyrir mér að verði seinni hlutinn jafn vel heppnaður muni ég geta hækkað dóm minn upp í 4 stjörnur. Þar til læt ég þrjár og hálfa nægja, þar sem ég er jú aðeins búinn að sjá helming myndarinnar. Kvikmyndaunnendur eru hvattir til að skella sér í bíó og sjá fyrri hluta kvikmyndarinnar Kill Bill.
Hulk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Með Hulk hefur Ang Lee tekist að gera bestu ofurhetjumyndina til þessa. Þetta er miklu meira en bara poppkornsmynd, heldur er þetta alvöru kvikmynd, og ein sem ég trúi að eigi eftir að öðlast mikið fylgi eftir því sem tíminn líður. Henni hefur verið tekið misjafnlega hingað til, og ég trúi því að það sé vegna þess að fólk hafi átt von á einhverju öðru en það fékk. Það vildi fá eyðileggingu á stórum skala (og fær það svosem), það vildi fá grunna, auðgleymanlega, einfalda mynd sem það gæti hlegið yfir, farið heim og gleymt. Í staðinn hefur Ang Lee látið okkur í té djúpa, úthugsaða mynd með skírskotun í allt frá Frankenstein, sögunni um Jekyll og Hyde, til þeirra genabætinga sem við erum farin að dútla við í dag. Hann bendir á hættuna við það að vilja sífellt bæta það sem náttúran lét okkur í té, og varar við því hvert vísindin geta farið með okkur ef ekkert taumhald er haft á. Þess utan hefur hann búið til frábæra sögu með ljóslifandi persónum og bestu tölvubrellu (á stalli með Gollum) sem gerð hefur verið hingað til. Mesta lof sem ég get ausið á Hulk er það að Hulk er ekki versti leikarinn í myndinni. Lee nær að láta hann lifna við, og gera hann að alvöru persónu í myndinni. Til þeirra sem vilja meina að hann sé gervilegur, væri ég til í að fá að sjá hvar þetta hefur verið gert betur. Hann er alveg á ystu mörkum þess sem hægt er að framkvæma í dag, og ekki bara lítur hann vel út, heldur hefur Lee náð að kreista alvöru leikframmistöðu úr honum í samvinnu við ILM brellufyrirtækið. Hann er klaufalegur, hann er hissa, hann er REIÐUR, og hann nær að sýna alls kyns svipbrigði og vekja samúð hjá manni. Hann eyðileggur líka allt sem hann kemur nálægt, enda er persónan eins og stórt barn sem finnst bara gaman að skemma. Ég fann nánast aldrei fyrir því að hann væri ekki til. Þeir sem vilja fá eitthvað einfalt og vitlaust er bent á að fara á Charlies Angels 2. Þeir sem vilja fá alvöru ofurhetjumynd með alvöru söguþræði og alvöru pælingum er bent á að fara á Hulk.
Femme Fatale
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þeir sem halda því fram að endir myndarinnar sé lélegur, og í engu samræmi við afganginn af myndinni, hafa alveg óskaplega rangt fyrir sér. Myndin gefur okkur ótal tækifæri til þess að geta upp á endinum, og ef maður veltir honum fyrir sér eftirá, þá er hann alveg pottþéttur, og alveg er búið að vinna fyrir honum. Brian De Palma gerir ekki myndir fyrir áhorfendur dagsins í dag. Áhorfendur í dag vilja fá auðveldar, auðmeltar og einfaldar myndir. Hann lætur þeim það ekki í té. Hann þorir að vera með langar tökur, fá samtöl, flókinn söguþráð, faldar vísbendingar og flóknar fléttur. Þessi mynd er gerð í anda noir mynda frá fjórða og fimmta áratugnum (Rebecca Romjin-Stamos sést til að mynda horfa á snilldina Double Indemnity í myndinni), og er að flestu leyti frábær. Romjin-Stamos er kannski ekki mikil leikkona, en þetta hlutverk var búið til fyrir hana, hávaxna glæsilega ljósku, sem er ekki hrædd við að nota kynþokkann til þess að ná sínu fram. Aðrir leikarar koma skemmtilegir inn, og myndin er í þokkabót alveg hreint glæsileg. Hún er einstaklega vel tekin, og allt útlit hennar er til fyrirmyndar. Þeir sem fatta ekki endann voru ekki að fylgjast nógu vel með, og þeir sem sjá ekki þessa mynd missa af miklu.
Shanghai Knights
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Shanghai Knights er líklega besta myndin sem Jackie Chan hefur gert í Bandaríkjunum. Það segir reyndar ekki mikið, þar sem þær hafa nánast undantekningalaust verið vondar. Eina undantekningin var Shanghai Noon, sem var bara prýðileg og fyndin, sem að mörgu leyti mátti þakka snilldartöktum Owen Wilson. Þeir tveir eru hér mættir aftur, og báðir í fínu formi. Chan fær að sprikla og ærslast meira en oft áður, og sýnir það og sannar að flest er fimmtugum fært. Eitt atriði stendur uppúr í myndinni, og það gerist á markaðnum. Í stóru og afskaplega vel heppnuðu bardagaatriði, sýnir Chan snilldinni Singin´In The Rain virðingu sína með frábærri tilvísun. Hann og Wilson eru með gott samspil sín á milli, og skemmtilegar frægar aukapersónur láta sjá sig (Sir Arthur Conan Doyle, Jack The Ripper ofl.). Þetta er fín skemmtun, og gaman að sjá Chan loksins gera fína mynd eftir mögur undanfarin ár.
The Pianist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The Pianist er hugsanlega besta kvikmynd sem gerð hefur verið um hrylling síðari heimsstyrjaldarinnar. Mér þykir hún taka myndum eins og Schindler´s List og öðrum sem ég hef séð um efnið langt fram. Hinn frábæri, en stundum mistæki, Roman Polanski hefur hér búið til mynd sem honum stendur nær, þar sem hann er pólskur gyðingur, og gert það af mikilli nærgætni og íhugun. Hann reynir aldrei að þvinga áhorfandann til þess að finna fyrir neinu, aldrei er reynt að stjórna manni með tónlist eða myndatöku, heldur eru atburðirnir einfaldlega sýndir, og manni er sjálfum gefinn kostur á því hvað maður tekur frá þeim. Hann reynir að sýna fram á það að ekki hafi allir þjóðverjar verið illir eins og svo oft er gert, heldur að hrottarnir og sadistarnir hafi verið sendir í þær deildir sem áttu að deila út morðum og pyntingum. Eitt áhrifaríkasta atriði myndarinnar er einmitt í endann, þegar Szpeilmann (einstaklega vel leikinn af Adrian Brody, sem átti sinn óskar svo innilega skilið) spilar á píanóið fyrir þýskan liðþjálfa. Myndavélin fylgist með þjóðverjanum, og maður sér að hann veit alveg af því hversu mikil hörmungarmistök Nasistastjórn Þýskalands var að gera. Þessi mynd fjallar um efni sem aldrei verður of oft kveðið, af slíku listfengi og snilld, að ég skora hérmeð alla til þess að fara í bíó og sjá þessa mynd, því þeir munu aldrei sjá eftir því.
Hero
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Kínverska stórmyndin Hero, sem tilnefnd er til óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin, er magnþrungið meistaraverk á mörgum sviðum. Hún er sjónræn veisla á hátt sem sjaldan hefur sést. Hún er tilfinningalegur rússibani sem fer með mann allan skalann ef maður leyfir henni það. Sagan er þétt og frábærlega skrifuð, með sérstaklega vel útfærðum persónum og sterkum leik. Síðast en ekki síst, þá er þetta mynd fyrir alla sanna aðdáendur góðra bardagamynda. Myndin fellur undir Wuxia geirann, líkt og Crouching Tiger, Hidden Dragon gerir, og er henni ekki síðri nema síður sé. Í því felst að persónur myndarinnar, bardagalistamenn af slíkri íþrótt, að þeir geta um stund afneitað þyngdaraflinu og nánast svifið. Þetta er gert af slíku listfengi og glæsileika að maður missir andann um stund. Myndinni er leikstýrt af Zhang Yimou, einum virtasta leikstjóra Kína, en hann hefur leikstýrt slíkum meistaraverkum sem Raise The Red Lantern og The Story of Qiu Ju, sem ættu að vera öllum sönnum kvikmyndaaðdáendum kunnugar. Kostir þess að hafa listrænan leikstjóra, sem setur söguþráð og persónur ofar öllu, í mynd sem er á yfirborðinu bardagamynd, eru ótvíræðir. Hann passar sig á því að myndin drukknar aldrei í bardagaatriðum án tilgangs. Þvert á móti notar hann bardagaatriðin til þess að sýna innri kjarna persónanna, því í gegnum listir sínar og mismunandi stíla, þá má sjá hvað það er sem aðgreinir hvern og einn, og hvar styrkur þeirra liggur. Með aðalhlutverk myndarinnar fara Tony Leung, Maggie Cheung, Jet Li, Donnie Yen og Zhang Ziyi, og eru þau hvert öðru betra. Tónlist myndarinnar er í höndum Dun Tan, en hann gerði einmitt tónlistina í Crouching Tiger, Hidden Dragon, og er hún glæsileg og passar vel inn í það stórmyndayfirbragð sem skapast í myndinni. Til þess að gera þetta einfalt, þá er öllum sönnum kvikmyndaaðdáendum hér með ráðlagt að fara niður í Laugarásvídeó og leigja sér Hero, en þar er hún til á region 1 DVD disk. Þeir verða ekki fyrir vonbrigðum.
Equilibrium
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Equilibrium er afskaplega nálægt því að vera meistaraverk. Ef leikstjórinn Kurt Wimmer hefði fengið fleiri tökudaga og meiri peninga, hefði hann skapað vísindaskáldsögumeistaraverk eins og sjaldan hafa sést. Eins og er, stendur myndin sem besta hasar/sci-fi verk sem ég hef séð síðan ég sá Matrix. Í myndinni er notað bardagakerfi sem nefnist Gun-Kata. Hvað í því felst er erfitt að koma í orð, en það gengur út á að reikna út líkurnar á því hvaðan byssukúlur eru líklegastar til þess að koma, og vera ekki staddur þar. Menn verða síðan bara að sjá þetta til þess að trúa því. Það er allavega með því svalara sem ég hef nokkurntíma séð útfært í kvikmynd. Fyrir utan stíl myndarinnar, sem er ótrúlega flottur, þá er einnig um að ræða góða, sterka sögu, kannski ekki mjög frumlega, en vel útfærða, um það hvernig menn taka lyf til þess að deyfa allar tilfinningar. Þessi ákvörðun var tekin eftir þriðju heimsstyrjöldina, og þá til þess að koma í veg fyrir að mannkynið myndi tortíma sjálfu sér. Þessu kerfi er haldið við af Grammaton prestunum sem þjálfaðir eru í Gun-Kata og mörgum öðrum bardagalistum, til þess að vera lifandi og banvæn vopn. Christian Bale er frábær leikari, og verulega vanmetinn. Hann er alveg meiriháttar í þessari mynd, og skapar eftirminnilega persónu. Taye Diggs er mjög skemmtilegur í sínu hlutverki, sem og aðrir leikarar. Myndin er í áttina að Gattaca, Matrix og Fahrenheit 451, en hefur þó sinn eigin stíl, og er hreint út sagt alveg frábær. Alls ekki láta þessa gæðamynd fara fram hjá ykkur.
About Schmidt
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jack Nicholson fer á kostum í þessari mynd. Það er enginn vafi á því að þetta er ein albesta frammistaða hans langa og gifturíka ferils. Warren Schmidt, persóna hans í myndinni, er mjög langt frá þeim persónum sem hann hefur leikið hingað til. Hann leyfir sjálfum sér að vera ekki gamli úlfurinn með glottið, heldur gamall og brotinn maður sem er fullur af eftirsjá eftir lífi sem hann telur sig hafa sóað. Maður getur ekki annað en fyllst samúð með þessum manni, sem uppgötvar í lok myndarinnar hvað það er sem í rauninni gefur lífinu gildi. Einhverjir hafa verið að kvarta yfir því að myndin reyni að stjórna manni tilfinningalega, og láta mann finna fyrir ákveðnum hlutum. Ég er alls ekki sammála því. Myndin er einmitt mjög lágstemmd og reiðir sig alls ekki á einföld brögð eins og tónlist til þess að kalla fram ákveðin tilfinningasvör. Hún gefur sér einmitt tíma til þess að leyfa manni að finna manneskjurnar fyrir neðan yfirborðið. Í staðinn fyrir að láta mann fá einhverjar stereótýpur, þá sýnir hún bara fólk eins og það er, bæði með alla sína galla sem og kosti. Kathy Bates er algjör snillingur, og enn og aftur fer hún á kostum. Það er ekki að ósekju að hún er talin með bestu leikkonum samtímans. Fleiri leikarar fara vel með sín hlutverk, og myndin er afbragðsvel leikin á alla kanta. Alexander Payne er afar hæfileikaríkur leikstjóri sem hefur vit á því að einblína á persónur og sögu. Hann hefur hér skapað áhrifaríka og ágenga kvikmynd sem virkilega stendur fyrir sínu.
Chicago
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Chicago er mynd sem ég hugsa að sé erfitt að vera hrifinn af nema þú sért hrifinn af dans og söngvamyndum yfirhöfuð. Ég er einn af þeim, og verð því að segja að þessi mynd er með þeim betri. Ég veit ekki alveg hvort hún á skilið allar þessar óskarstilnefningar, en vissulega er verið að ræða um afar vel gerða, leikna, dansaða og sungna stórmynd upp á gamla mátann. Myndin er í anda gömlu Busby Berkley söngleikjanna, og skartar þremur frábærum frammistöðum í aðalhlutverkum. Catherine Zeta-Jones fær loksins að sýna hvað í henni býr, og eignar sér hlutverkið. Hún var áður í söngleikjum, og það sést, því hún er öruggust af þeim þremur og í raun hreint út sagt frábær. Renee Zellweger er einnig frábær í sínu hlutverki, því þó hún sé ekki eins góð söngkona, þá gefur hún persónu sinni góða vikt og viðhorf. Sá sem kemur hins vegar mest á óvart er gamli refurinn Richard Gere. Ég hef aldrei verið hrifinn af þeim leikara, en hann er meiriháttar í þessari mynd. Hann er reyndar lélegasti söngvarinn, en bætir það upp með æðislegum ofleik og frábæru stepdans atriði sem er hrein unun að sjá. Ég hreinlega öðlaðist nýja virðingu fyrir manninum eftir þessa frammistöðu. Sá sem stelur hins vegar senunni í þessari mynd í mínum huga, eins og mér finnst hann gera í nánast hverri mynd sem hann er í, er John C. Reilly. Maður fær svo mikla samúð með honum í hlutverki eiginmanns Zellweger, að maður gleymir næstum því að taka eftir hversu frábær söngvari hann er. Hann er hreint út sagt frábær í myndinni. Tæknilega séð er myndin mjög vel gerð. Allir búningar, hönnun, kvikmyndataka og annað slíkt er mjög vel leyst, sem og tónlist myndarinnar sem er frábær. Þó að myndin hafi ekki hrifið mig með sér á sama hátt og Moulin Rouge gerði, þá get ég ekki annað en dáðst að því hversu mikið sjónarspil myndin er, og þó hún skilji lítið eftir sig, þá er hér um að ræða einhverja smekklegustu og best gerðu mynd ársins.
Gangs of New York
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég held að þeir sem vilja kalla Gangs Of New York meistaraverk, hljóti að vera blindaðir af fyrri ferli hins frábæra leikstjóra Martin Scorcese. Hann hefur gert mörg meistaraverk, og í mínum huga standa upp úr Taxi Driver og Last Temptation Of Christ. Það sem gerði þær svo stórkostlegar, var sú staðreynd að þær einblíndu báðar á sögu frekar en nokkuð annað. Þegar ég horfi á þessa mynd, þá sé ég að Scorcese hefur þurft að fórna ýmsu til þess að fá fjármagn fyrir svona stórri mynd. Hann þurfti að fórna frumlegum efnistökum, því engan séns má taka með 100 milljón dollara mynd, og því er sagan afar klisjukennd, með gömlum og þreyttum efnistökum og kjánalegri framvindu. Hann þurfti að fórna rúmum klukkutíma af myndinni heyrir maður, og það sést því miður. Myndin veður úr einu í annað, án þess að ná að klára neitt almennilega. Cameron Diaz var greinilega sett í myndina til þess að ná fleiri konum í bíó, ekki af því að hún hafi verið rétt í hlutverkið. Hún er ágætis leikkona oft á tíðum, en þetta hlutverk hentaði henni alveg hrikalega illa. DiCaprio er ágætur í sínu vanþakkláta hlutverki, en mér finnst hann ekki heldur hafa verið rétti maðurinn. Maður trúir því einhvernveginn aldrei að hann geti verið þetta hörkutól sem hann á að vera í myndinni. Einhvern með harðari kjarna hefði þurft til að þess að gefa hlutverkinu dramatískari vikt. Og ástarsambandið á milli þeirra var MJÖG slæmt. Algjörlega ótrúverðugt og leiðinlegt. Daniel Day-Lewis er búinn að fá mikið hrós fyrir sína frammistöðu í myndinni, og margt af því er réttlætanlegt. Hann er mjög kröftugur í myndinni, en kemst samt oft á tíðum afar nálægt því að ofleika. Hann nær þó að mestu að halda sig réttu megin við strikið, og það má hafa mjög gaman af honum í hlutverki Bill The Butcher. Mér finnst kannski að sumu leyti of mikið látið með hann, en hann er engu að síður góður. Aðrir leikarar gera góða hluti í minni hlutverkum. John C. Reilly heldur áfram að vera snillingur, Jim Broadbent er frábær leikari, og marga fleiri mætti telja upp. Myndin er afskaplega falleg á að líta, stórmynd upp á gamla mátann. Engar tölvubrellur, heldur stórar sviðsmyndir og fullt af aukaleikurum. Hins vegar verð ég að segja að tónlist myndarinnar er mjög slæm. Howard Shore hefur yfirleitt átt betri dag en þetta. Og lagið sem kemur undir í bardaganum í byrjun myndarinnar á svo innilega engann veginn við að það er með hreinum ólíkindum. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá held ég því fram að þessi mynd sé fyrir Scorcese það sem Bonfire of the Vanities hafi verið fyrir Brian De Palma. Stór og mikið klúður, en þannig klúður sem bara frábær leikstjóri gæti gert. Það er margt gott í myndinni, en hún er afar langt frá því að vera meistaraverk.
Daredevil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Í mínum huga er Marvel orðið að sama orði og gæði þegar kemur að kvikmyndum. Allar stóru myndirnar þeirra sem gerðar hafa verið undanfarin ár hafa undantekningalaust verið vandaðar, vel gerðar, og einblína á persónur og söguþráð frekar en innantómar tæknibrellur. Daredevil heldur uppi þessari hefð með mikilli prýði. Ben Affleck stendur sig afar vel í hlutverki blinda lögfræðingsins Matt Murdock, og hetjunnar Daredevil sem hann er á nóttunni. Ég hef aldrei skilið þetta furðulega hatur á Ben Affleck, því mér hefur alltaf fundist hann vera skemmtilegur leikari sem tekur sig ekki of alvarlega (þeim sem efast er bent á að hlusta á commentary track á öllum Kevin Smith myndunum sem hann leikur í). Fyrir utan hann var frábærlega vel valið í öll hlutverk myndarinnar. Jennifer Garner er ótrúleg gella, bæði falleg og trúverðug í öllum bardagaatriðum. Hún stendur sig alveg með eindæmum vel, og er komin í mikið uppáhald hjá mér. Colin Farrell er skemmtilegur í vel ofleiknu hlutverki, og Michael Clark Duncan er greinilega maður með metnað sem vill sanna að hann sé meira en bara stór skrokkur. Ekki má gleyma að minnast á Jon Favreau, en hann er einhver alfyndnasti maður sem sögur fara af, og hver einasta setning frá honum er gullmoli. Tæknibrellur myndarinnar eru að sumu leiti betri en í Spider-Man, en það gæti reyndar verið missýn vegna þess að öll brelluatriði í myndinni gerast að nóttu til, en rökkrið felur vel öll mistök. Það eina sem skemmir fyrir myndinni, og skemmir því miður allverulega, er tónlistin. Ef það hefði verið fallegt og tignarlegt skor í myndinni eftir einhvern góðan hefði ég eflaust gefið myndinni hálfri stjörnu hærra. En þessi hræðilegu Nickleback klónar sem dynja í myndinni eru hræðilegir. Ekki kannski nóg til að skemma hana, en nóg til að draga úr krafti myndarinnar. Ég vil einnig sérstaklega taka fram hljóðrásina, sem er einhver sú besta sem ég hef heyrt. Í einni gagnrýninni á þessari síðu sá ég að gagnrýnandinn skildi ekki notkunina á bergmáli í hljóðrás myndarinnar, og er því auðsvarað. Matt Murdock á að vera blindur í myndinni, en með ofurheyrn sem og önnur skilningarvit. Hljóð er sú aðferð sem hann notar til þess að sjá heiminn, og fannst mér það komast vel til skila í myndinni. Ég hvet alla þá sem hafa gaman af vel gerðum og skemmtilegum ofurhetjumyndum, nú eða bara góðum poppkornsmyndum, að skella sér í bíó og sjá þessa. Þrælgóð skemmtun.
Irreversible
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Irreversible er óþægileg og ógeðsleg mynd. Eftir að ég var búinn að sjá hana, leið mér illa, og var einhvernveginn hálfóglatt. Þegar ég hugsaði málið lengra, þá komst ég að því að þó myndin sé hreinn viðbjóður, þá á hún að vera það, og ég held að hún komi sínum boðskap til skila. Ef þessi mynd hvetur mann ekki til þess að endurskoða öll sín gildi í sambandi við kynferðisglæpi og ofbeldi, þá mun nákvæmlega ekkert gera það. Monica Bellucci fer einstaklega vel með hlutverk sitt, en hins vegar finnst mér Cassell ekki vera jafngóður. Leikstjórinn hefur einnig haldið að hann væri með öðruvísi mynd í höndunum en hann var með, því sumt af því sem hann kemur með í seinni hluta myndarinnar, sem er er í raun fyrri partur sögunnar því hún er sýnd afturábak líkt og Memento, er óviðeigandi og dregur úr krafti sögunnar. Kvikmyndataka myndarinnar er mjög flöktandi, öll tekin á handheldna kvikmyndatökuvél sem er mikið á hreyfingu. Þetta veldur óróa hjá manni, sem er greinilega með vilja gert. Tónlist myndarinnar er einnig notuð vel, og á sinn þátt í því að auka hjá manni óþægindin sem maður upplifir við að horfa á þessa mynd. Þetta er ein af þeim myndum sem ég get sagt í sannleika, að ég vilji ALDREI NOKKURNTÍMANN sjá aftur, en er samt ánægður með að hafa séð einu sinni. Djörf, ágeng og óþægileg, þá er þessi mynd alls ekki fyrir alla, enda gekk helmingurinn af salnum út úr bíóinu. þetta er mynd sem ég álít að hafi ekki einungis verið gerð til að sjokkera eins og Baise Moi, heldur hafi virkilega einhvern boðskap fram að færa. Á endanum held ég að það hafi tekist.
Adaptation.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Adaptation, önnur myndin sem handritshöfundurinn Charlie Kaufman og leikstjórinn Spike Jonze færa okkur, er meistaraverk. Fyrri myndin, Being John Malkovich, var ein af bestu myndum 1999, og í anda hennar fjallar þessi mynd um það hvernig handritshöfundinum Charlie Kaufman gengur illa að fylgja eftir velgengni Being John Malkovich. Eins og það sé ekki nógu furðulegt, þá skrifar hann tvíburabróður handa sjálfum sér, báðir leiknir snilldarlega af Nicholas Cage, sem hefur ALDREI verið betri. Ég vil ómögulega segja of mikið frá myndinni, því stór hluti af ánægjunni er að uppgötva hversu mörg lög Kaufman hefur skrifað ofan í handritið. Það er eins og laukur sem endalaust er hægt að fjarlægja nýtt lag af. Þeir sem fatta endann, og það verða því miður ekki allir, munu fá margfalda ánægju út úr myndinni. Henni er einkar vel leikstýrt af Jonze, sem hefur mjög sjónrænan stíl, og heldur þétt um taumana. Fullt af stórfínum leikurum brillera í hlutverkum sínum, Chris Cooper, Meryl Streep og fleiri, og allt gerir það að verkum að hér er um mun betri mynd að ræða en Being John Malkovich, og örugglega ein af albestu myndum ársins 2003. Það get ég fullyrt, þrátt fyrir að árið sé nýbyrjað. Þvílík snilld.
Spy Kids 2: Island of Lost Dreams
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Robert Rodriguez er að gera geysiskemmtilega hluti með þessum öðrum kafla af áætluðum þríleik um spæjarakrakkana Carmen og Juni. Honum voru boðnir miklu meiri peningar til að gera þessa mynd númer tvö, en hann afþakkaði pent og ákvað að gera hana fyrir nákvæmlega sömu upphæð og hann gerði fyrstu myndina fyrir. Þetta gerði það að verkum að hann gat gert myndina nákvæmlega eins og honum sýndist, án þess að stúdíóið skipti sér of mikið af því hvað hann væri að gera. Hann fékk því frið til að láta ímyndunaraflið, sköpunargleðina, og ánægjuna af kvikmyndagerð ráða, og útkoman er hreint út sagt frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Þetta er ekta svona mynd sem foreldrar geta farið með krakkana sína á og skemmt sér jafnvel betur en þau. Krakkarnir sem fara með aðalhlutverkin í myndinni standa sig mjög vel, sem og allir aðrir leikarar. Steve Buschemi er sérstaklega alltaf skemmtilegur, og allir virðast hafa skemmt sér konunglega við gerð þessarar myndar. Allar brellur eru stórskemmtilegar, ekki endilega góðar, en skemmtilegar, frumlegar, og greinilega í anda Ray Harryhausen. Um er að ræða alveg hreint frábæra skemmtun, og maður uppgötvar aftur barnið í sér við að horfa á þessa mynd. Ráðlagt fyrir alla þá sem vilja glotta út í annað og skemmta sér vel.
Catch Me If You Can
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Catch Me If You Can er verulega vel heppnuð mynd eftir Steven Spielberg. Í henni fáum við að sjá aðra hlið á leikstjóranum en hann hefur sýnt okkur lengi. Hann er búinn að taka sjálfan sig svo alvarlega sem kvikmyndargerðarmann svo lengi, að það er ákveðinn léttir að sjá hann gera létta, skemmtilega mynd sem hefur mest lítið að segja og skammast sín ekkert fyrir það. Leonardo DiCaprio er frábær kostur í aðalhlutverkið, Frank Abagnale Jnr, sem þarf í myndinni bæði að líta út fyrir að vera 16 ára og 28 ára gamall. DiCaprio er með þetta tímalausa andlit, og rétta sjarmann í hlutverkið og stendur sig betur en maður hefur séð hann lengi. Tom Hanks er einnig fínn í minna hlutverki, en hann fær reyndar ekki eins mikið að gera, en gerir vel með það sem hann hefur. Aðrir leikarar, svo sem Christopher Walken og Martin Sheen virðast skemmta sér vel í hlutverkum sínum og komast vel frá. Sérstaklega má síðan minnast á hlutverk þeirra Janusz Kaminski og John Williams, en þeir eiga stóran hluta í því hversu vel heppnuð myndin er. Kaminski er orðinn einn af bestu kvikmyndatökumönnum samtímans, og nær að finna rétta útlitið á hverja mynd sem hann vinnur að. Williams býr til alveg hreint frábært skor fyrir myndina, og tónlistin hans er sú besta sem hann hefur gert frá því í Schindler´s List. Allt öðruvísi en hann hefur hingað til gert, en sérlega vel heppnuð. Myndin er í sjálfu sér ekki merkilegt mál, en hún er stórskemmtileg og rennur vel í gegn án mikilla hiksta. Þetta er svona mynd sem mig langar mikið til að gefa þrjár og hálfa stjörnu, en þar sem hún heldur áfram helst til lengi í endann og veit ekki alveg hvert hún ætlar, þá læt ég þrjár stjörnu duga. Engu að síður er virkilega mælt með því að allir skelli sér í bíó og sjái Spielberg í essinu sínu.
Star Trek: Nemesis
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ef þú ert ekki trekkari, þá máttu draga eina stjörnu frá. Á Trek mælikvarðanum hinsvegar, þá er það mín einlæga skoðun að hér sé um að ræða afar frambærilega Star Trek mynd. Það hefur gengið eftir hingað til, að þær myndir í seríunni með jafnri tölu séu betri en hinar með oddatölu. Þessi er númer 10 í röðinni, og er stórt skref áfram eftir hina karakterslausu og leiðinlegu Star Trek: Insurrection. Sagan er mjög einföld og laus við allar flækjur. Hún keyrir bara áfram, hrein og bein, þar til hún kemst á leiðarenda. Í millitíðinni fáum við stóra geimbardaga, skemmtileg lítil persónuaugnablik, fínar brellur og ágætis skemmtun. Myndin er vissulega ekki í flokki allra bestu Trek myndanna, svo sem Wrath of Khan eða First Contact, en er engu að síður fín og þétt skemmtun. Allir leikarar þekkja orðið sínar persónur það vel, að þeir gætu leikið þær í svefni, og nýjir leikarar standa sig með prýði. Sérstaklega má taka það fram að Tom Hardy gerir virkilega fína hluti með hlutverk Shinzon. Það eina sem virkilega er hægt að setja út á er sú staðreynd að Jerry Goldsmith klúðraði alveg tónlistinni í þetta sinn. Hún er sérlega slöpp og ekki nálægt því að vera jafngóð og snilldartónlistin sem hann samdi fyrir First Contact. Gagnrýnendur og almenningur hafa haldið því stöðugt fram að þetta sé einhver alslakasta Trek myndin af þeim öllum, en ég fæ það ekki séð. Þvert á móti er hún mjög frambærileg og spennandi, og trekkarar ættu að skemmta sér mjög vel.
Punch-Drunk Love
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Punch Drunk Love er mynd sem á eftir að falla mjög fáum í geð, því miður. Þetta er einfaldlega mynd sem skiptir fólki upp í hópa, þá sem hata hana og þá sem sjá ekki sólina fyrir henni. Ég er í seinni hópnum. Þeir sem fara á myndina, og búast við aulahúmor eins og þann sem Adam Sandler hefur framleitt í hræðilegum myndum sínum, munu verða fyrir ótrúlegum vonbrigðum. Það sem fólk hefði frekar átt að gera sér grein fyrir, að þetta er ekki Adam Sandler mynd, heldur Paul Thomas Anderson mynd. PTA er einfaldlega besti ungi kvikmyndargerðarmaðurinn í heiminum í dag. Hann hefur aðeins gert þrjár myndir sem hann kennir sig við, Boogie Nights, Magnolia og nú Punch Drunk Love. Þær eru allar meistaraverk, hver á sinn hátt. Punch Drunk Love er ljúfsár, sorgleg, launfyndin og hjartnæm rómantísk gamanmynd, líkt og hefur aldrei verið gerð áður. Hún líkist ekki neinni annari mynd sem ég hef séð, og er gjörsamlega frumleg á allan hátt. Ekki endilega í umfjöllunarefni, en það er jafngamalt mannkyninu, ástin sjálf, heldur í efnistökum. Persóna Sandlers, Barry Egan, er einhver albesta persóna sem ég hef séð í mynd. Með alla sína flóknu kosti og galla, bældar tilfinningar og skrítnu athafnir, þá er hann algerlega ógleymanlegur. Það fyndna er að hann er ekkert svo afskaplega ólíkur þeim persónum sem Sandler hefur leikið hingað til. Það sem gerist er að þegar hann er tekinn úr aulagrínssamhenginu, þá sér maður svart á hvítu hvað þessi persóna á virkilega bágt, og þarf á aðstoð að halda. Myndataka myndarinnar, notkun tónlistar, og þétt leikstjórn gera það síðan að verkum, ásamt leik Sandlers og Emily Watson, að hér er um að ræða hreinræktað meistaraverk fyrir þá sem það kunna að meta. Sem eins og áður sagði, verða líklega alltof fáir.
8 Mile
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég held að Eminem muni aldrei fá óskarsverðlaun fyrir besta leik, en það breytir því ekki að hann sýnir hér og sannar að hann er engu að síður betri en margir aðrir sem hafa leiklist að atvinnu. Mér finnst alltof einfalt sem margir segja, að það sé nú ekkert mál að leika sjálfan sig. Mitt svar við því er að hann er ekki að leika sjálfan sig, hann er að leika persónu sem svipar til hans sjálfs, og þó hann hefði verið að leika sjálfan sig, þá væri hann engu að síður að leika. Það er nefnilega miklu meira en að segja það, að vera trúverðugur fyrir framan myndavél, alveg sama hvaða persónu maður er með í höndunum. Ég tek því ofan hattinn fyrir honum, og finnst hann hafa staðið sig mjög vel miðað við aðstæður. Hvað varðar myndina sjálfa, þá er hún afskaplega einföld og það er kannski hennar stærsti galli. Ef hugsað er út í það, þá er hún með nákvæmlega sama söguþráð og t.d. Flashdance. Upprennandi listamaðurinn frýs á sviði á mikilvægu augnabliki í byrjun myndar, og afgangurinn af myndinni fer í uppbyggingu að atriði þar sem viðkomandi nær loksins að láta ljós sitt skína og á þá loksins möguleika á því að komast upp úr gamla farinu sem hann var fastur í. Þar sem ekkert flóknara er að gerast, þá nær myndin aldrei neinum sérstökum hæðum. Hún er hins vegar mjög traust (betri en Flashdance) í meðförum Curtis Hanson, sem nær að draga upp ímynd ömurleika þess að búa í Detroit, helvíti Bandaríkjanna. Aðrir leikarar standa sig með ágætum, fyrir utan Brittany Murphy sem gæti ekki leikið þó byssu væri miðað að höfði hennar. Þetta er vönduð kvikmynd, gerð af metnaði, og ætti að höfða til mun fleiri en bara aðdáenda kappans.
The Transporter
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jújú, Transporter er algjör þvæla. Hún er engu að síður frekar skemmtileg þvæla, sem er að sumu leyti betri en hún ætti að vera vegna þess hve skemmtilegur leikari Statham er. Hann er í fyrsta lagi afar trúverðugur sem hasarhetja, í hörkuformi og greinilega búinn að læra eitthvað kung-fu, en meira en það þá hefur hann óneitanlega mikla nærveru á skjánum. Það er einhvernveginn skemmtilegt að fylgjast með honum, og hann heldur myndinni eins mikið á jörðinni og hægt er með sinni bresku jarðtengingu. Fyrir utan hann þá er nánast ekkert að gerast í myndinni, fyrir utan háværar sprengingar, óendanlega lélega tónlist og söguþráð sem er bæði heimskulegur og einfaldur. Þetta er ekta svona heimskulegt 3 bíó, sem maður annað hvort tekur á þeim forsendum, skilur heilann eftir heima og reynir að skemmta sér eins og hægt er, eða þá maður gengur út með vonda tilfinningu í maganum. Ég tók fyrri kostinn, og þannig fékk ég ágætis skemmtun út úr myndinni. Þeir sem eru að leita að einhverju meira, er ráðlagt að halda sig fjarri.
Bowling for Columbine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Michael Moore er einhver frumlegasti og skemmtilegasti kvikmyndagerðarmaður Bandaríkjanna í dag. Það sem hann gerir hafa sumir kallað heimildamyndir, en það er nú reyndar frekar tæpt. Hann er alltof mikið fyrir sviðsetningar og einhliða fréttamennsku til þess að það sé hægt að kalla hann hlutlausan heimildamyndagerðarmann. Það sem hann gerir, og gerir frábærlega, er að finna sér eitthvað sem hann er óánægður með eða hefur vakið mikið umtal, og finna einhverjar nýjar hliðar á málinu. Hingað til hefur hann aðallega verið að berjast við stórfyrirtækin í Bandaríkjunum, líkt og hann gerði með hinum frábæru Roger & Me og The Big One, en í þetta sinn ákvað hann að takast á við byssumenninguna í Bandaríkjunum. Gerði hann það í kjölfarið á fjöldamorðunum í framhaldsskólanum í Columbine sem gerðust fyrir nokkrum árum síðan. Hann tekur viðtöl við nemendur í skólanum, Charlton Heston (formann byssusamtakanna NRA), og ótalmarga fleiri. Meðal annars talar hann við Marilyn Manson, en fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa kennt honum um morðin. Einnig veltir hann því fyrir sér hvers vegna Kanadamenn, sem eiga svipað margar byssur á íbúa og Bandaríkjamenn, nota þær samt ekki til þess að myrða hvern annan. Í einu orði sagt er þessi mynd ekki bara frábær, heldur ótrúlega tímabær á þeim tímum þegar daglega berast nýjar fréttir frá Bandaríkjunum að einhver hafi gengið af göflunum og myrt mann og annan með skotvopnum. Þrátt fyrir að myndin veki upp fleiri spurningar en hún svarar, þá fær hún mann allavega til þess að hugsa. Það er nógu sjaldgæft í dag til þess að öllum er ráðlagt að kíkja á þessa þegar þeir geta.
Treasure Planet
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég sá Treasure Planet (með ensku tali) og get því sagt að þrátt fyrir að hún sé mjög vel gerð, og vel skemmtileg, þá þarf Disney virkilega að fara að taka sig á og gera eitthvað frumlegt, því önnur teiknimyndastúdíó eins og Ghibli, eru búin að taka langt fram úr þeim. Þeir eru bara fastir í sömu gömlu formúlunni, og þora ekkert að breyta út af henni. Burt séð frá öllum skorti á frumleika, þá er í raun ekkert út á myndina að setja. Hún er björt, vel gerð, vel raddsett af góðum leikurum, og rennur ljúflega í gegn. Hún hefur bara ekkert nýtt fram að færa, og skilur nákvæmlega ekkert eftir sig. Því miður. Manni er farið að hlakka ólíkt minna til nýrrar Disney myndar en manni gerði hér áður fyrr og er það miður. Samt sem áður má vel mæla með myndinni, þó ekki nema til að drepa tvo klukkutíma eða svo.
Stella í framboði
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afskaplega var þetta nú ónauðsynlegt framhald. Stella í orlofi var nú aldrei nema svona meðalfyndin grínmynd, aðallega fræg fyrir að vera fyrsta alvöru gamanmyndin sem við Íslendingar gerðum. Við höfum nú komið langt síðan þá, og þetta framhald sýnir það hvað best. Myndin er hreinlega alls ekki vel gerð. Hún er hvorki fyndin né sniðug, og reyndar er húmorinn í henni einhvernveginn svo gamall og þreyttur að manni finnst hálfskrítið að þetta sé ný mynd. Það er reynt að koma bara með sömu gömlu brandarana og voru í gömlu myndinni, en hún er orðin 15 ára gömul og því eru þeir orðnir þreyttir allir. Einnig er myndin svo illa skrifuð, að maður skilur engan veginn hvers vegna persónur myndarinnar haga sér eins og þær gera, enda fær maður aldrei að vita hvað er að gerast í hausnum á þeim. Þetta er stór galli, vegna þess að ef maður skilur ekki persónurnar, þá getur maður varla haldið með þeim, og þá er manni einhvernveginn alveg sama hvað gerist í myndinni. Þessi mynd er tímaskekkja, og með verri íslenskum myndum sem ég hef séð undanfarin ár.
The Hot Chick
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þrátt fyrir nokkra aulabrandara í myndinni sem mátti hlæja að, þá er hér um að ræða nauðaómerkilega gamanmynd sem er varla fyrir neinn eldri en 15 ára. Hún er frekar lágkúruleg, illa leikin, og sérlega illa gerð, ásamt því að vera mjög illa skrifuð. Hún er gerð með því hugarfari, að sjá Rob Schneider sem konu sé eitt og sér nóg til þess að myndin verði fyndin, en því miður er það ekki rétt. Reyndar er það fyndið út af fyrir sig, hvað Schneider er með einhæfan húmor. Allar myndirnar hans ganga út á það að hann breytist í eitthvað annað, karlhóru, dýr nú eða konu. Hann mætti alveg fara að hugsa sinn gang og koma með eitthvað nýtt, því þetta dæmi er orðið frekar þreytt alltsaman. Allavega, þá er þetta varla nema í mesta falli eitthvað sem mætti horfa á á miðvikudagskvöldi heima í stofu, ef ekkert annað væri að gera.
Die Another Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þrátt fyrir að gefa myndinni ekki nema eina og hálfa stjörnu, þá finnst mér hún samt betri en undanfarnar tvær Bond myndir. Ég held að það segi meira um undanfarnar tvær Bond myndir, heldur en þessa. Það sem hrjáði undanfarnar tvær, þær Tomorrow Never Dies, og The World Is Not Enough, var að þær voru eins og klón hvor af annarri. Þær voru nákvæmlega eins, báðar jafn vitlausar, litlausar, illa skrifaðar og hreint út sagt leiðinlegar. Þessi nýjasta Bond mynd, Die Another Day, misheppnast einnig herfilega. Hún misheppnast þó með örlítið meiri stæl, þ.e.a.s., hún misheppnast á þann hátt að maður man þó eftir henni. Hér er um að ræða sérlega vitlausa mynd, með risastórum plottgötum, þreyttum aðalleikara, illa skrifuðum bröndurum, og einhverjum verstu tölvubrellum sem ég hef nokkurntíma séð í svona dýrri kvikmynd. Þeir sem sáu um brellurnar í þessari mynd, ættu bara að skammast sín og sækja um vinnu við eitthvað allt annað, t.d. sorphirðu. Hins vegar hafði ég lúmskt gaman af Halle Berry í þessari mynd, ásamt því að einhver mynd með John Cleese, getur ekki verið alvond. Einnig fannst mér hún byrja nokkuð vel, að sjá Bond pyntaðan og brotinn niður á annað ár, gerir hann eitthvað svo skemmtilega mannlegan. Ég fékk bara Timothy Dalton fílinginn á tímabili, svona mannlegan fíling. Hann hvarf fljótt þegar á leið. Myndin leysist fljótt upp í vitleysu, og ekki einu sinni skemmtilega vitleysu. Það er ennþá nóg líf í James Bond. Það þarf bara að hætta að einblína á brandara og sprengingar. Ef Brosnan væri með þýskan hreim, þá gætu undanfarnar Bond myndir alveg eins verið slappar Scwarzenegger myndir, nema Scwarzenegger myndir verða aldrei svona slæmar. Ég vill fá mannlegan Bond, og Bond sem er leynilegur útsendari, ekki bara tortímingarvél sem sprengir allt í tætlur. Þunnur þrettándi þessi.
The Lord of the Rings: The Two Towers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ef ég ætti að lýsa Lord Of The Rings - The Two Towers í einni setningu, þá yrði hún svona; LOTR:TTT ER HELBER SNILLD OG BESTA KVIKMYND ÁRSINS. Það kom mér reyndar ekkert á óvart, sannast sagna, þar sem LOTR: FOTR var algjör yfirburðamynd síðasta árs. Allt sem LOTR:FOTR gerði rétt á síðasta ári, gerir TTT líka, bara meira og betur. Hún nýtur þess þó óneitanlega að vera miðjumynd. Hún þarf því þarf ekki að taka allan hinn nauðsynlega tíma í það að kynna grunnpersónurnar, þó það bætist reyndar við heilmargar persónur í þessari mynd, og þarf heldur ekki að útskýra hvað það er sem er verið að reyna að koma í verk. Hún hefst ósköp einfaldlega þar sem FOTR endaði, og heldur áfram með látum. Nýjar persónur sem kynntar eru til sögunnar eru m.a. Gollum, stórkostlega gerðan tölvuteiknaðan karakter sem er svo vel gerður að eftir nokkar mínútur tekur maður ekki eftir því að hann sé tölvuteiknaður, Eomer sem kemur kannski ekki mikið við sögu en er vel leikinn af Karl Urban, Eowyn sem er reyndar frekar litlaus eins og hún er í meðförum Miranda Otto, Gríma Wormstongue sem er snilldarlega tekinn í gegn af Brad Dourif og Theoden sem Bernard Hill gerir bæði göfugan og veiklyndan á sama tíma. Leikarar fyrri myndarinnar standa sig allir aftur með prýði, og þrátt fyrir að Gandálfur/Ian McKellen sé mjög lítið í þessari mynd, þá kemur það ekki að sök því Aragorn/Viggo Mortensen fær hér mun meira að gera og tekur að sér það erfiða hlutverk að vera þungamiðjan og tekst það vel. Bæði Frodo/Elijah Wood og Sam/Sean Astin eru síðan frábærir, rétt eins og þeir voru í fyrri myndinni. Tónlist Howard Shore er hreint út sagt undursamleg að hlýða á, og á hann enn og aftur stóran þátt í því að skapa andrúmsloft og tilfinningasvið Mið-Jarðar. Allar brellur eru hreint út sagt fáránlega vel af hendi leystar, og eiga sinn þátt í því að maður lifir sig eins mikið inn í atburðarásina og maður gerir. Þá vil ég sérstaklega taka það fram að bardaginn við Helms Deep, sem er lokabardagi myndarinnar, er einhver ótrúlegasta sena sem nokkurntíma hefur verið kvikmynduð. Hvernig uppbyggingin að bardaganum er, hvernig hann spilast út, er allt hreint með ólíkindum. Peter Jackson hefur enn á ný tekist að gera hið ómögulega, hann hefur skilað af sér meistaraverki sem börnin okkar og barnabörnin munu alast upp við að horfa á. Tímalaus snilld.
Harry Potter and the Chamber of Secrets
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég man að í fyrra þá gaf ég fyrstu Harry Potter myndinni sama dóm, þ.e. þrjár og hálfa stjörnu. Það var vegna þess að innan fantasíugeirans hafa ekki verið mjög margar góðar myndir í gegnum tíðina. Ég gaf henni því nánast toppdóm, aðallega fyrir að vera vel heppnuð og skemmtileg innan þess geira sem gefur sjaldan af sér góðar myndir. Mánuði seinna sá ég síðan Lord Of The Rings, og standardinn á fantasíumyndir hækkaði allverulega. Í dag hefði ég gefið fyrstu Harry Potter myndinni þriggja stjörnu dóm, og þessari mynd gef ég því þrjár og hálfa stjörnu því mér þykir hún taka fyrri myndinni töluvert fram. Hún er öll einhvernveginn öruggari, stílískari, betur leikin og meira spennandi. Hún fylgir í fótspor fyrri myndarinnar með það að fylgja bókinni nákvæmlega eftir. Það kemur eiginlega ekkert annað til greina, enda myndu tugir milljóna Potter aðdáenda fá flogakast ef einhverju sem skiptir máli yrði breytt. Allir leikarar úr fyrri myndinni standa sig betur í þetta sinn, allir krakkarnir eru betri og öruggari í sínum hlutverkum, og nýjar leikarar koma skemmtilega inn. Kenneth Branagh er einstakur leikari, og fer á kostum í hlutverki sínu sem Gilderoy Lockhart, og Jason Isaacs rúllar auðveldlega upp hlutverki Lucius Malfoy. Það setur síðan leiðinlegan blett á myndina að Richard gamli Harris hafi dáið við gerð hennar, og mun maður sakna hans þegar maður sér næstu Potter mynd. Fyrir alla þá sem höfðu gaman að fyrri myndinni, munu hafa meira gaman af þessari. Hún er á allan hátt betur heppnuð, og verðugt innlegg í fantasíugeirann. Frábær skemmtun fyrir alla.
The Tuxedo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jackie Chan er einhver skemmtilegasti, ég hika við að segja leikari, segjum frekar skemmtikraftur í heiminum í dag. Myndir hans eru flestar fullar af ótrúlegum áhættuatriðum og bardagaatriðum þar sem Jackie fer á kostum. Maðurinn er algjör apaköttur og það sem hann getur gert, og hvernig hann gerir það vekur sífellt hjá mér undrun, gleði og hlátur. Ég held alveg afskaplega mikið upp á margar myndir sem hann hefur gert, en þetta er því miður ekki ein af hans betri. Í fyrsta lagi notar hann víra. Jackie Chan á aldrei að nota víra, ekki frekar en Jet Li. Þetta eru menn sem geta gert þetta í alvöru, og því finnst mér asnalegt þegar þeir nota víra. Fyrst að Drew Barrymore virkaði eins og hún kynni Kung Fu í Charlies Angels, þá er ennþá mikilvægara að þeir sem kunna þetta í alvöru sýni hvernig þetta á að vera gert. Í öðru lagi gleymdist alveg að leyfa honum að gera einhver svöl áhættuatriði. Maður veit að maður er ekki að horfa á alvöru Jackie Chan mynd þegar maður sér í endann að það sem misheppnaðist voru bara talatriði en engin áhættuatriði, þá var maður ekki að horfa á Jackie Chan mynd eins og þær eiga að vera. Þetta var bara ósköp venjuleg hasargrínmynd, og hefði getað verið með hverjum sem er. Það var ekkert einkennandi við hana á neinn hátt. Það vantaði allan Jackie í myndina. Endaafurðin er algjört miðjumoð, og greinilega enginn metnaður í að gera neitt sérstakt. Engin furða að Jackie Chan hatar allar bandarísku myndirnar sem hann hefur gert. Jackie Chan í vírum. Ég hef aldrei heyrt annað eins.
Hafið
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég hef aldrei skrifað undir þá stefnu að það þurfi alltaf að gefa myndum einni stjörnu hærra ef þær eru íslenskar. Tveggja stjörnu mynd annars staðar frá verður þriggja stjörnu mynd ef hún er íslensk, og þriggja stjörnu mynd verður að fjögurra stjörnu meistaraverki ef hún er íslensk. Allir eru búnir að keppast við það að hampa Hafinu sem einhverju stórkostlegu meistaraverki, en í mínum huga er það einfaldlega ekki raunhæft. Myndin er afar kröftug, það er ekki spurning. Hún er líka vel leikin fyrir það mesta, þó flestir leikarar komi reyndar greinilega beint af sviðinu í Þjóðleikhúsinu (sem býður upp á dálítinn ofleik, því það sem virkar á sviði er oft of mikið fyrir framan myndavél). Hún er einnig ágætlega skrifuð og hefur margt að segja. Allar pælingar í sambandi við kvótakerfið, og eðli fjölskyldunnar, og það hvernig syndir foreldranna koma niður á börnunum, eru vel unnar. Það sem helst hrjáir myndina hins vegar er það hvað hún er yfirdrifin. Það er ekki nóg að fólk rífist hvert við annað. Það öskrar hvert á annað. Það kallar hvert annað öllum illum nöfnum fyrir framan alla fjölskylduna, og allt er síðan gleymt fimm mínútum seinna. Það er ekki nóg að ein, tvær eða jafnvel þrjár persónur eigi við vandamál að stríða, heldur eru allir umsetnir svo gríðarlega miklum vandamálum að það er furða að fólkið drífi fram úr rúminu á morgnana. Fjölskylda þar sem meðlimirnir hafa upplifað sifjaspell, nauðgun, hræðilegan dauðdaga annars foreldris, peningavandamál, svik, pretti, hatur á milli systkina, alkóhólisma, o.s.frv. o.s.frv. Þetta verður bara allt svo ýkt að ég hætti bara að trúa á það. Þetta hefur reyndar alltaf viljað loða við íslenskar myndir, hver ein og einasta ætlar sér að breyta heiminum og reyna því yfirleitt allt of mikið. Allt verður að vera svo gríðarlega átakanlegt að það gleymist oft að oft eru það litlu augnablikin, atvikin á milli átakaatriða, sem gera myndir stórkostlegar. Ef það eru stöðug átök, þá þreytist maður fljótt og hættir að geta veitt almennilega athygli. Hafið er samt vönduð kvikmynd, unnin af miklum metnaði og með því skárra sem Íslendingar hafa gert. Balthasar er á réttri leið, og ég efast ekki um að hann eigi einhverntímann eftir að gera frábæra kvikmynd. Þetta var bara ekki hún.
Death to Smoochy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Death to Smoochy er kvikmynd sem veit ekki hvað hún vill verða. Hún er hálft í hvoru kolsvört gamanmynd, í bland við dans og söngvamynd, í bland við hasartrylli, í bland við satíru, í bland við o.s.frv. Hún hefði örugglega heppnast betur ef það hefði tekist að ákveða hvað það var sem átti að reyna að ná fram með myndinni. Einnig hefði það verið betra ef það hefði tekist að fá Robin Williams til þess að hætta að vera svona mikill Robin Williams allan tímann. Ég var að vona að þessi mynd yrði ein af þessum myndum þar sem hann er látinn leika eitthvað hlutverk, en í staðinn er hann bara Robin Williams og enginn annar. Þó hann sé fyndinn, þá hefði eiginlega þurft að vera einhver til þess að LEIKA hlutverkið. Edward Norton stendur sig með ágætum í myndinni, hann nær vel að koma til skila sakleysi og staðfestu Smoochy, og gerir hann að eftirminnilegum karakter. Aðrir leikarar eru að mestu auðgleymanlegir í sínum hlutverkum. Það sem ég hef samt mest út á myndina að setja er sú staðreynd að á hana er troðið ótrúlega asnalegur happý endir sem passar engan veginn við afganginn af myndinni. Og það hvernig sumar ónefndar persónur breyta skyndilega og án skýringa um persónuleika er eitthvað sem ég sætti mig engann veginn við. Það er samt ýmislegt vel gert í myndinni, hún er á köflum bráðfyndin, og ekki vantar hugmyndaflugið. Hún er vel unnin og á góða spretti inn á milli. Það er hins vegar heildarbragur myndarinnar sem bregst, og á endanum er ekki hægt að kalla myndina neitt annað en góða tilraun sem ekki náðist að vinna almennilega úr.
Changing Lanes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þetta er í rauninni eins mikil jaðarmynd og mainstream Hollywood mynd getur orðið. Hún er vel leikin af þeim Samuel L. Jackson sem gæti ekki leikið illa þó hann reyndi, og Ben Affleck sem mér finnst alltaf vera vanmetinn leikari. Einnig sýnir Amanda Peet alveg frábæran leik í litlu hlutverki í myndinni, og eignar hún sér alveg þau atriði sem hún er í. Plottið í myndinni er frekar sniðugt og frumlegt. Það er líka ágætlega spilað úr því, þó reyndar myndin detti niður í venjulega Hollywood klisju alveg í endann. Það breytir því ekki að mestallan tímann erum við með í höndunum vel unna og skemmtilega flækju sem þessir tveir menn festa sjálfa sig í. Tæknilega er myndin vel unnin, og það vantar aðeins einhvern neista sem hefði kveikt almennilega í myndinni. Hún er alltaf á góðu róli, en aldrei á neinu háu flugi. Ef hún hefði þorað að ganga aðeins lengra, og sleppa meira fram af sér beislinu ásamt því að sleppa Hollywood endinum, hefðum við getað endað uppi með frábæra mynd. Í staðinn erum við með mynd töluvert yfir meðallagi og vel þess virði að kíkja á.
Spirited Away
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Japanski meistarinn Hayao Miyazaki sem færði okkur hina stórkostlegu Princess Mononoke, mætir hér með nýja mynd sem er enn betri. Spirited Away er hreint út sagt ómetanlegt listaverk, og sannar Miyazaki hér í eitt sinn fyrir öll að enginn animator í heiminum kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana. Hann sannar einnig að hann er einn merkasti kvikmyndagerðarmaður sem er á lífi, og líklega einn af þeim merkilegustu allra tíma. Það er hrein unun að horfa á Spirited Away. Ekki bara er myndin sjónrænt meistaraverk, heldur birtast nýjar og ferskar hugmyndir í hverjum einasta ramma. Ímyndunarafli Miyazaki virðast ekki vera nein takmörk sett, og maður sogast inn í frábæra söguna af því hvernig stúlkan Sen er flutt yfir í töfraveröld, og þarf að frelsa foreldra sína úr prísund eigin græðgi. Að fylgjast með henni breytast úr illa upp öldum krakka í hugrakka og staðfasta unga stúlku er ævintýri út af fyrir sig, en Miyazaki stoppar ekki þar heldur kynnir okkur fyrir hverri dásamlegri persónunni á fætur annarri. Hér er um að ræða eina af albestu myndum ársins, og þeim sem hafa áhuga á að sjá myndina er bent á að hún er komin á DVD á japönsku í Laugarásvídeó. Þar má einnig finna aðrar myndir meistarans á DVD, og er sérstaklega bent á My Neighbor Totoro (ein af bestu myndum allra tíma að mínu mati, að mati Roger Eberts og að mati Akira Kurusawa, leikstjórans goðsagnakennda), Porco Rosso, Nausicaa Of The Valley Of The Wind og Laputa Castle In The Sky. Allar myndir Miyazaki eru skylduáhorf þeirra sem eru yfirhöfuð hrifnir af kvikmyndum.
Road to Perdition
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég er orðinn nískur á fjórar stjörnur í seinni tíð. Ég held að þetta sé líklega fyrsta myndin sem ég sé í bíó á þessu ári sem ég gef mína hæstu einkunn. Þar koma til nokkrir þættir. Í fyrsta lagi finn ég ekki veikan punkt þegar kemur að leikaravali í myndinni. Tom Hanks heldur áfram að leita sér að hlutverkum í gæðamyndum sem eru jafnvel ekki líklegar til vinsælda fyrirfram. Jude Law heldur áfram að vera leikari, ekki kvikmyndastjarna, og býr til alveg sérstaklega heillandi karakter í myndinni, bæði ljótan og skemmdan. Paul Newman sýnir hér enn og aftur hvers vegna hann er orðinn lifandi goðsögn. Hann er hreint út sagt frábær í myndinni, og kæmi mér ekki á óvart þá tilnefning væri í vændum fyrir hann. Aðrir leikarar, Stanley Tucci, Jennifer Jason Leigh og fleiri, gera virkilega fína hluti með minni hlutverk. Í öðru lagi má nefna að í þessari mynd er einhver besta tónlist sem ég man eftir í kvikmynd, og einhver sú alfallegasta kvikmyndataka sem sögur fara af. Myndin er hreint út sagt sjónrænt listaverk og má dást að henni aftur og aftur bara fyrir þær sakir. Allt þetta hefði samt ekkert að segja ef sagan væri ekki svona einstök. Hún snertir við manni á réttum stöðum, byggir upp gríðarlega spennu á öðrum, og er yfirhöfuð snilld. Allir þeir sem hafa gaman af góðum kvikmyndum er bent á að fara í bíó og upplifa þessa mynd, enda er hún ein af þeim myndum sem best tekur sig út á hvíta tjaldinu. Skylduáhorf.
Porn Star: The Legend of Ron Jeremy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ron Jeremy sjálfur var á staðnum og reyndist hann vera afskaplega skemmtilegur og kammó náungi. Þrátt fyrir það verður að segjast að heimildamyndin um líf hans náði ekki að kafa djúpt ofan í það hver persónan Ron Jeremy er. Hún einblínir frekar á klámkónginn Ron sem sífellt er að sækjast eftir frægðinni í alvöru kvikmyndum, heldur en manninum á bak við opinberu persónuna. Hann kemur ágætlega fyrir, og virkar frekar viðkunnalegur en einmana maður, sem finnst leiðinlegt að heimurinn taki ekki eftir því að hann hafi upp á meira að bjóða en stóran lim. Góðar heimildamyndir, t.d. Crumb, kafa mun dýpra ofan í líf viðkomandi og sýna manni bæði hinar slæmu hliðar sem og hinar góðu. Pornstar virkar frekar eins og 80 mínútna auglýsing um ævi Jeremy en rannsókn á lífi hans. Og það er þar sem henni mistekst á endanum, en hins vegar er hún ágætlega skemmtileg. Mælt með fyrir þá sem hafa áhuga á manninum og eru forvitnir um það hvernig klámbransinn virkar. Tekið er fram að myndin er ekki fyrir viðkvæma.
The Salton Sea
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Óneitanlega vönduð kvikmynd þar sem Val Kilmer sýnir loksins gamla takta, og minnir mann á hversu góður leikari hann var í gamla daga. Hann er hreint út sagt frábær í myndinni, en samt sem áður er senunni stolið af honum af Vincent D´Onofrio sem er hreint út sagt ógleymanlegur í hlutverki Pooh Bear, sadistans og dópsalans sem er búinn að missa nefið af dópneyslu. Ég yrði ekki hissa þó hann yrði tilnefndur til óskarsins næst fyrir bestu frammistöðu í aukahlutverki. Einnig má þess geta að myndin er sjónrænt séð algjört listaverk, og státar af frábærri kvikmyndatöku og tæknivinnu. Hins vegar er söguþráðurinn frekar standard, og myndin nær aldrei alveg að snerta mann. Maður svona meira dáist að henni heldur en heldur upp á hana. Hún er sigur leikaranna og tæknimanna frekar en handritshöfunda. Og það er nú einu sinni svo að á endanum er það sagan sem er verið að segja manni sem á að standa upp úr. Það er því miður ekki svo, en óhætt er engu að síður að mæla með myndinni því hún er mun betri en flest það sem er verið að sýna í bíó um þessar mundir.
Orange County
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Orange County er með skárri unglingamyndum, þeim geira sem gefur af sér hvað fæstar góðar myndir. Það þýðir samt ekki að hún sé mikið yfir meðallagi, en þó eru ákveðnir hlutir sem lyfta henni upp. Jack Black er einn af þeim, og sýnir enn og aftur hvers vegna hann er á mikilli uppleið í Hollywood. Hann hefur mikla útgeislun og geislar af lífsgleði. Hann er bara einstaklega skemmtilegur persónuleiki og lyftir upp öllum þeim myndum sem hann er í. Einnig kemur vel á óvart hvað sonur Tom Hanks, Colin Hanks, er fínn í myndinni. Hann er alveg hreint prýðilegur, og mun betri en ég átti von á. Í þriðja lagi má nefna alla hina frábæru leikara sem birtast í minni hlutverkum í myndinni. John Lithgow, Chevy Chase, Kevin Kline og fleiri gefa myndinni betra yfirbragð. Það bjargar hins vegar ekki þeirri staðreynd að söguþráðurinn fer algjörlega eftir formúlunni og ekkert er reynt að gera neitt nýtt. Þess vegna, þrátt fyrir allt, finnst manni eins og maður hafi séð þessa mynd oft áður. Og það er stærsti gallinn.
The Guru
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The Guru reynir að vera einskonar bandarísk útgáfa af Bollywood dans og söngvamynd, en misheppnast að allflestu leyti. Heather Graham sýnir enn og aftur að hún getur ekkert leikið, og heldur áfram að byggja upp feril byggðan á brjóstunum (ekki að ég kvarti). Hins vegar er Jimi Mistry alveg efni í góðan leikara, þó að þetta hlutverk hafi kannski ekki sýnt það, en hann hefur óneitanlega útgeislun og gæti í rétta hlutverkinu alveg orðið góður. Myndin er á flestan hátt frekar kjánaleg, og litlu dans og söngvaatriðin í myndinni koma eins og út úr kú. Mynd sem má alveg láta vera þangað til í einhverju hallæri á vídeó.
Red Dragon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Red Dragon hefur ekki sama áþreifanlega andrúmsloft drunga og hryllings eins og Silence Of The Lambs, eða hið gotneska stórmyndayfirbragð sem Hannibal hafði, en stendur engu að síður vel á eigin fótum, aðallega vegna frábærrar frammistöðu leikaranna. Brett Ratner er kannski ekki besti leikstjóri í heiminum, en honum til málsbóta þá gerir hann sér greinilega grein fyrir því og reynir því ekkert of mikið, heldur er hann tilbúinn til þess að bakka örlítið og leyfa öllum stórleikurunum að gera sitt án truflunar. Anthony Hopkins er frábær í myndinni, og sérstaklega fannst mér frábært að sjá hvernig hann finnur nýjan flöt á persónunni Hannibal Lecter í byrjun myndarinnar. Þar fáum við að sjá Hannibal sem hefur aldrei farið í fangelsi og hefur enga trú á því að hann muni nokkurntíma gera það. Hann virkar bara frekar mellow og hamingjusamur, þó maður geti greint geðveikina undir niðri. Hopkins heldur áfram að vera einn besti leikari samtímans. Edward Norton er einn athyglisverðasti ungi leikari í Hollywood í dag, og gerir afskaplega góða hluti í myndinni, en þó ekki í líkingu við það sem Ralph Fiennes gerir við hlutverk Tannálfsins. Hann er nákvæmlega eins og ég sá hann fyrir mér þegar ég las bókina á sínum tíma og stendur sig alveg frábærlega. Emily Watson gerir góða hluti með lítið hlutverk í myndinni, sem og Harvey Keitel. Þrátt fyrir að myndin nái aldrei sömu hæðum og Silence, þá er hér um verðugan lokakafla í Lecter þríleiknum að ræða, og verður að ég held betri þegar maður horfir á hana ekki staka, heldur sem hluta af heild.
Mr. Deeds
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það sem Adam Sandler hefði átt að láta ógert er að endurgera myndir eftir meistara eins og Frank Capra. Þá kemur bara í ljós svart á hvítu hvað hann er enginn leikari og myndirnar hans eru mikið miðjumoð. Mr. Deeds er á allan hátt slöpp mynd, hún er illa samsett og kjánaleg í framvindu. Hins vegar bjarga leikararnir John Turturro (sem er óborganlega fyndinn í þessari mynd. Very, very sneaky) og Steve Buschemi því sem bjargað verður. Þeir eru báðir grínsnillingar, og mun fyndnari báðir heldur en Sandler sjálfur. Fyrir utan einn og einn fyndinn brandara, sem þó eru alltof fáir og langt á milli, þá er þetta enn ein meðalmyndin úr smiðju Sandlers sem þyrfti virkilega að fara að taka sig á. Aðeins ráðlagt fyrir harða aðdáendur.
The Bourne Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The Bourne Identity er alveg merkilega góð spennumynd, og það er ekki síst Matt Damon að þakka. Hann hefur vit á því að nota þá leikhæfileika sem Guð gaf honum og skapar hér alvöru persónu í stað þess að taka auðveldari kostinn og sýna okkur einsleita hasarhetju. Í höndum hans verður Jason Bourne aldrei flöt persóna sem við skiljum ekki, heldur hræddur og ringlaður einstaklingur sem veit ekki af hverju hann kann allt þetta njósnadót þegar hann man ekki einu sinni hvað hann heitir. Franka Portente, sem flestir muna eftir úr Run Lola Run, stendur sig líka vel og nær að innblása meira lífi í aðalkvenpersónuna en títt er í svona myndum. Aðrir leikarar standa sig einnig vel, og fyndið er að sjá Julia Stiles í smáhlutverki í myndinni. Leikstjóri myndarinnar, Doug Liman, þrátt fyrir að hafa aðeins leikstýrt smærri myndum, kann að koma hasaratriðum upp á skjáinn, og keyrslan í myndinni er gríðarleg. Hvert atriði er í rökréttu framhaldi, og oft næst upp mikil spenna. Sígildir og nánast klisjukenndir hlutir sem sjaldnast eru gerðir vel, eins og bílaeltingaleikir, eru hér vel og fagmannlega af hendi leystir, og þrátt fyrir að endir myndarinnar sé örlítið hnökróttur, þá er hér engu að síður um fína spennumynd með þægilega evrópsku yfirbragði að ræða.
xXx
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
XXX tekur allar hefðir njósna/hasargeirans sem Bond myndirnar eru búnar að fastsetja, og kollvarpar þeim á grimman hátt. Enginn lítill martini drykkur, heldur heil vodkaflaska í þremur sopum. Enginn breskur hreimur í smóking, heldur massaður hrotti með húðflúr út um allan líkamann. Enginn Aston-Martin með eldflaug, heldur Fast And The Furious bíldreki með heilu vopnabúri innaní. Hér er ekki verið að tala um sérstaklega merkilega kvikmyndagerð, eða stórleikara í cameo-hlutverkum (lesist Goldmember), heldur Vin Diesel að sparka í rassgatið á öllum sem standa í vegi fyrir honum. Hann á alveg eftir að sanna sig sem einhver leikari (fyrir utan frábæra raddsetningu í Iron Giant), en hann er einstakur töffari og fer létt með að spýta út úr sér one-linerum og slátra vondu köllunum. Hann hefur óneitanlega mikla útgeislun, og eignar sér hlutverk Xander Cage. Samuel L. Jackson og Asia Argento standa upp úr meðal hinna leikaranna, en myndin snýst samt um stórar sprengingar og brjáluð áhættuatriði. Þar erum við ekki svikin, og keyrslan er geðveik með þungarokkinu í bakgrunninum. Rob Coen kann að búa til svona myndir, og þessi er ein af þeim bestu. Ég skemmti mér konunglega, og betur en á undanförnum tveimur Bond myndum samanlagt, sem segir kannski meira um Bond myndirnar en þessa mynd. Engu að síður er hér um skemmtilega hasarmynd að ræða, tvö orð sem ég var farin að halda að pössuðu ekki saman.
The Sum of All Fears
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mér hefur alltaf fundist Ben Affleck vera skemmtilegur leikari. Ég er þar í miklum minnihluta, ef ég les rétt úr öllu, en mér hefur alltaf fundist hann hafa ákveðinn sjarma og húmor fyrir sjálfum sér. Það þýðir reyndar ekki að mér finnist allar myndirnar hans vera góðar, eða að hann passi inn í þær allar, en svona er það nú samt. Mér fannst hann vera fínn í Sum Of All Fears. Varð einum of mikill töffari eftir því sem leið á myndina, en góður og ágætlega trúverðugur engu að síður. Morgan Freeman líka. Morgan Freeman gæti ekki verið ótrúverðugur sama hvað hann reyndi. Hann er einn af aðaltöffurum kvikmyndasögunnar, og einstakur leikari líka. Hinir leikarar myndarinnar, James Cromwell, Liev Schreiber o.fl. voru líka bara fínir. Það sem hins vegar gerir myndina fína er það hvað hún er nokkuð klisjulaus. Hún keyrir bara áfram, beint frá einum stað yfir á annan, án þess að flækja hlutina of mikið, nær að byggja upp spennu (með góðri hjálp frá Jerry Goldsmith sem gerir gríðarlega góða tónlist fyrir myndina) og endar síðan. Ekkert klassa eða meistarastykki, heldur solid og vel skrifuð spennumynd, og þær eru orðnar ferlega sjaldgæfar nú á dögum. Ég á í erfiðleikum með að mæla ekki með myndinni, og mæli því með henni.
Reign of Fire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Reign of Fire er á engan hátt góð kvikmynd í neinum skilningi orðsins, en hún á þó þolanlega spretti inn á milli. Það sem skemmir helst fyrir henni eru leiðinlegar aðalpersónur myndarinnar. Christian Bale finnst mér yfirleitt vera mjög skemmtilegur leikari, en í þessari mynd er hann afar litlaus og óspennandi og með versta breska hreim í heimi, sem er furðulegt miðað við það að hann er breskur. Matthew McConaughey er síðan svo óendanlega yfirdrifinn og asnalegur hér, að hann er eins og útblásin testósterónblaðra. Merkilegt að einhverjar konur í salnum hafi ekki orðið ófrískar bara við að horfa á hann. Ekki það að það hafi verið margar konur í salnum, enda er hér kyrfilega verið að róa á karlmannsmið. Þetta er ætluð sem ævintýra/hasarmynd fyrir unga karlmenn, og er að mörgu leyti ágæt sem slík. Það eru virkilega fínar brellur í myndinni, og drekarnir eru vel gerðir, sérstaklega ef haft er í huga að myndin var ekki það dýr. Hún þjáist hins vegar af því að vera of stefnulaus og út um allt, en ef menn eru að leita að heilalausri skemmtun í svo sem tvo tíma, má vissulega finna verri mynd en þessa. Algjört meðalmoð.
Austin Powers in Goldmember
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það væri synd að segja að Mike Myers rói á ný mið í þessari þriðju Austin Powers mynd. Hún er að allra mestu leyti bara hrein endurtekning úr fyrstu tveimur myndunum, en nær þó að kreista út nokkra bráðfyndna brandara úr erminni. Þeir eru hins vegar of fáir og of langt á milli til þess að myndin geti talist vera eitthvað klassa grínstykki, en kannski nóg til þess að það geti talist vera þess virði að kíkja á hana. Byrjunaratriðið í myndinni er hreint út sagt óborganlegt, og nær myndin sér aldrei á nógu mikið flug eftir það, þó að t.d. skuggamyndaatriðið með Mini-Me og atriðið með öryggisvörðunum við gosbrunninn séu bæði einstaklega fyndin. Mike Myers leikur að venju fjölmörg hlutverk í myndinni, og skapar nýjan og einstaklega ófyndinn karakter að nafni Goldmember. Þetta er eitthvert ófyndnasta sköpunarverk sem nokkurntíma hefur látið dagsins ljós, og er bara ógeðslegt. Ef einhverjum finnst Hollendingur með gulllim og slæman húðsjúkdóm sem snæðir sínar eigin húðflögur vera fyndinn, hefur sá hinn sami ekki sömu kímnigáfu og ég. Maður fær sterklega á tilfinninguna að Mike Myers sé að fá leið á þessu Austin Powers dæmi, og er kannski engin furða. Það voru ágætis sprettir í gangi í þessari þriðju mynd, en vonandi láta aðstandendur myndarinnar hér gott heita. Austin Powers 4 væri ekki góð hugmynd.
Lilo og Stitch
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Lilo & Stitch er vönduð, en á engan hátt áberandi góð teiknimynd úr smiðju músahússins Disney. Henni er beint að yngri aldurshóp en undanförnum Disney myndum, og mætti kannski segja að hún henti helst 8-11 ára börnum, þó að sjálfsögðu geti allir haft gaman af henni eins og öllum Disney myndum. Stitch kvikindið er vel hannað, og er afskaplega skemmtilegt. Mennirnir í myndinni eru hins vegar frekar auðgleymanlegar persónur, og skila litlum hughrifum. Það er samt eitt sem myndin gerir afskaplega vel, og það er að hún er kyrfilega föst í raunveruleikanum, þ.e. þeir partar sem gerast á jörðinni. Systir Lilo á í erfiðleikum með að halda vinnu, þær búa í hálfgerðu hreysi, rífast mjög mikið o.s.frv. Myndin er sem sagt ekki of sæt eða fullkomin, heldur eiga þessar persónur við alvöru vandamál að stríða. Þetta er ágætis tilbreyting fyrir Disney, og önnur tilbreyting er að það eru engin dans/söngvaatriði enda hefðu þau aldrei passað inn í þessa mynd. Kóngurinn sjálfur, Elvis Presley, sér að mestu leyti um tónlistina í myndinni, og hentar hún vel við umhverfi myndarinnar en hún gerist að mestu leyti á Hawaii. Hafi menn á annað borð gaman af Disney myndum, er upplagt að kíkja á Lilo & Stitch, en hún er samt sem áður lítið annað en meðalmynd miðað við það besta sem Disney hefur látið frá sér.
Signs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Signs er alveg sérstaklega vönduð mynd úr smiðju M. Night Shyamlan, sem sýnir hér og sannar í eitt skipti fyrir öll að hann er einn albesti sögumaður Hollywood í dag. Hann treystir aldrei á tæknibrellur eða handritsklisjur til þess að koma hlutunum til skila, heldur treystir hann á leikara, sterka leikstjórn sína og styrk handritsins. Myndin er gríðarlega spennandi, nánast óbærilega á köflum, og eftirá að hyggja, þá skilur maður ekki alveg af hverju. Það er kannski ekkert sérstakt að gerast í myndinni, en samt uppgötvar maður skyndilega að maður heldur í sætisbrúnina og er allur á nálum. Leikarar standa sig allir með mikilli prýði, Mel Gibson passar afskaplega vel í hlutverk manns sem tapað hefur trúnni, og Joaquin Phoenix er með skemmtilegri ungum leikurum í Hollywood í dag. Shyamalan er einn af þeim leikstjórum sem er hvað bestur í að vinna með börnum, og standa báðir barnaleikararnir sig alveg sérstaklega vel. Myndin er alveg sérstaklega vel unnin tæknilega, og afskaplega falleg á að líta. Það er lítil, eða nánast engin tónlist í myndinni, og virkar það mjög vel við viðfangsefni myndarinnar. Það eru ákveðnir gallar sem hrjá myndina alveg í endann, og einnig finnst mér Shyamalan gera mistök í því að gefa sjálfum sér hlutverk í myndinni, meira að segja burðarhlutverk sem skiptir miklu máli, vegna þess að maður veit alltaf að maður er að horfa á leikstjórann en ekki persónu í myndinni. Það er allt í lagi að gefa sjálfum sér lítil hlutverk sem skiptir engu máli, en hann ætti að leyfa alvöru leikurum að sjá um þau hlutverk sem bera myndina uppi. Að því sögðu er hér um að ræða eina bestu mynd ársins hingað til, og öllum sönnum kvikmyndaaðdáendum er hér með ráðlagt að skella sér í bíó og upplifa Signs.
Eight Legged Freaks
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eight Legged Freaks er prýðisgóð B-mynd, skemmtileg, tekur sjálfa sig mátulega alvarlega, og bráðfyndin í þokkabót. Hún er í anda Arachnaphobia og sérstaklega Tremors, aðrar snilldar B-myndir, og fylgir þeim nokkuð vel. Það eru sérstaklega góðar brellur í henni ef miðað er við framleiðslukostnaðinn sem var innan við 30 milljónir dollara, og kóngulærnar eru gerðar mjög skemmtilegar. Þær hafa ýmsa mannlega kosti, og er oft á tíðum óborganlegt að fylgjast með þeim. Leikarar skipta nánast engu máli í mynd eins og þessari, enda eru þeir að fara með grútþunnar línur í lapþunnu plotti. Allir skila sínu samt ágætlega, þó David Arquette sé reyndar arfaslakur leikari. Til þess að fá ánægju út úr myndinni er nauðsynlegt að skilja heilann eftir heima, því hér er um algjöra poppkornsmynd að ræða. Geri menn það, þá mega þeir eiga von á prýðisgóðri skemmtun.
Minority Report
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það vantar svo sem ekki að Minority Report sé ekki vönduð mynd. Hún er það vissulega, og reyndar er Spielberg að komast ískyggilega nálægt því að gera tæknilega fullkomnar myndir. Það vantar heldur ekki að hún veki ekki upp áleitnar, frumspekilegar spurningar um hvaða áhrif það myndi hafa á þjóðfélagið ef glæpi mætti koma í veg fyrir áður en þeir væru framdir, og hvort raunverulega væri hægt að sakfella fólk fyrir hluti sem það hefur ekki enn gert. Það vantar heldur ekki að leikararnir allir með tölu standi sig með afskaplegri prýði, enginn þó betri en Samantha Morton sem sjáandinn Agatha. Það er ekkert sem vantar í myndina, heldur þveröfugt, það er of mikið. Hún er of löng, hún útskýrir of mikið, og hún missir marks með lokafléttu sinni. Það er einnig galli að það er ekki nóg fyrir Spielberg að hafa hamingjusamlega endi, heldur verður endirinn að vera svo yfirgengilega gifturíkur og heilladrjúgur fyrir allar persónur myndarinnar, að filman nánast bráðnar undan vellunni. Hann hefur alltaf verið gjarn á þetta, og það hefur alltaf verið í lagi meðan hann hefur verið að gera hlýjar, fjölskylduvænar myndir. Hins vegar er þetta eins og út úr kú í þeirri kuldalegu og hráu veröld sem hann og kvikmyndatökumaðurinn Janusz Kaminski kalla upp fyrir okkur í myndinni. Þegar fléttan kemur síðan í ljós passar Spielberg að við, hinn heimski áhorfandi, skilji alveg örugglega allt sem búið er að gerast. Ekkert er óljóst, heldur er allt tuggið ofan í okkur. Lokafléttan var síðan svo fyrirsjáanleg að það hálfa væri feikinóg. Mjög margir hafa verið að segja að þetta sé besta mynd sem Spielberg hefur gert síðan Raiders Of The Lost Arc, en ég er ekki sammála því. Þetta er góð, vönduð og vitræn kvikmynd, spor í rétta átt fyrir kvikmyndagerðarmann sem er að reyna að fara í nýjar áttir, en engu að síður spor sem nær ekki alla leið.
Men in Black II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Men In Black II er eins auðgleymanleg kvikmynd og ég hef nokkurntímann séð. Þegar ég hugsa um hana þá get ég varla munað eitt einasta atriði sem gerðist í myndinni. Ég vil reyndar taka það fram að ég var aldrei neitt sérstaklega hrifinn af fyrri myndinni, en fannst hún reyndar vera allt í lagi sumarskemmtun. Hún var að minnsta kosti lifandi, og eitthvað var að gerast í henni, en í þessu framhaldi virka allir eins og þeim hundleiðist og þeir séu bara að gera þetta fyrir peninga. Mig grunar nefnilega að þannig liggi í málinu, að peningar og haugur af þeim séu eina ástæðan fyrir því að aðstandandur og leikarar fyrri myndarinnar hafi haft fyrir því að koma saman aftur og reyna að endurtaka leikinn. Staðreyndin er engu að síður sú að ef enginn metnaður er fyrir hendi, og ekki er reynt að finna nýjan flöt á gömlu efni, þá endarðu ekki með góða kvikmynd í höndunum. Það er einmitt það sem gerðist í þetta sinn, sama gamla formúlan reynd aftur, ekkert nýtt kemur í ljós í sambandi við persónurnar, og enginn virkar eins og hann langi til þess að vera þarna. Myndin er örstutt, rétt rúmar 80 mínútur, en þegar enginn söguþráður er til staðar, þá virkar hún frekar langdregin. Heilu plottþræðirnir hverfa út í veður og vind, og vill einhver útskýra fyrir mér afhverju Johnny Knoxville hvarf þegar kannski klukkutími var liðinn af myndinni og sást ekki aftur. Persónur sem voru fyndnar í litlum atriðum í fyrri myndinni, eru alls ekki fyndnar þegar þær fá stærri hlutverk í þessari. Talandi hundurinn var orðinn pirrandi eftir tvær setningar, og Tony Shalhoub var ekki skemmtilegur í sínu hlutverki (eins og ég elska nú manninn, hann er t.d. óborganlegur í Galaxy Quest). Sá eini sem er virkilega fyndinn í myndinni er Rip Torn, og á hann einnig fyndnasta atriði myndarinnar. Ég lýsi hér með frati á framhöld, ef engan langar til að gera þau án þess að fá borgað fimm sinnum meira en fyrir fyrstu myndina. Það þýðir bara eitt, þig langaði ekki til, en dollararnir voru of freistandi. Ekki gott.
The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The Mothman Prophecies er með betri hrollvekjum sem ég hef séð undanfarin ár. Hún nær því takmarki sínu með því að falla ekki í tvær gryfjur sem svo margar hrollvekjur falla í. Sú fyrri er að sýna of mikið. The Mothman Prophecies gefur allt í skyn, en sýnir nánast ekki neitt, þannig að ímyndunarafl áhorfandans er virkjað til hins ýtrasta. Við fáum aldrei alveg að sjá Fiðrildamanninn, en hann lifir engu að síður heilbrigðu lífi í hausnum á mér. Sú seinni er að svíkja ekki áhorfandann þegar búið er að byggja upp spennu. Allar unglingahrollvekjur og hryllingsmyndir undanfarinna ára eru sífellt að reyna að byggja upp spennu og magna upp hrylling, en á endanum er áhorfandinn sífellt svikinn á ódýran hátt (það var bara kötturinn, það var bara besta vinkonan inni í fataskáp, það var bara síminn að hringja o.s.frv. ). Ég persónulega þoli ekki þetta bragð, og sem betur fer er þetta aldrei notað í þessari mynd. Þess í stað treystir leikstjóri myndarinnar, Mark Pellington, áhorfandanum til þess að halda athyglinni án þess að sífellt sé verið að bregða honum til einskis, og þegar manni bregður og hryllingurinn sýnir sig, þá er búið að vinna fyrir honum og óhugnaðurinn situr eftir í manni löngu eftir að myndinni er lokið. Aðalleikarar myndarinnar, þau Richard Gere og Laura Linney, standa sig mjög vel, og er gaman að sjá silfurrefinn svona frískan. Tónlist, kvikmyndataka og önnur tæknileg atriði eru virkilega til fyrirmyndar, og ef myndin væri ekki svona eins og 20-25 mínútum of löng, og ef nokkrir plottpunktar væri ekki skildir eftir opnir, þá myndi ég segja að myndin væri á góðri leið með að teljast vera einstök. Þess í stað segi ég að hér sé á ferðinni frábær hrollvekja, sem öllum kvikmyndaáhugamönnum er bent á að sjá í bíó.
Bad Company
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jerry Bruckheimer og Joel Schumacher saman, tvö nöfn sem eru nóg til þess að hræða líftóruna úr kvikmyndaunnandanum, snúa hér bökum saman til þess að búa til einhverja misheppnuðustu buddy/cop mynd sem sögur fara af. Myndin er gott dæmi um það sem ég álít að sé að eyðileggja Hollywood. Það er þegar þú færð ofurframleiðandann + formúluleikstjórann, nærð þér í ofvirkan svartan grínista + virtan skapgerðarleikara sem leikur einmana löggu, blandar saman slöppum one-liner bröndurum + byssuhasar, rússneskum glæpamönnum + kjarnorkusprengju = sumarsmell ársins. Það að búa til kvikmynd eftir formúlu, án þess að neinn aðili sem kemur að myndinni hafi metnað í að gera eitthvað sem eitthvað vit er í, getur aldrei skilað af sér neinu nema sálarlausri vitleysu. Myndin er gjörsamlega ofunnin, stefnulaus, lapþunn, vitlaus og hávær. Chris Rock verður sífellt meira óþolandi, Anthony Hopkins á margfalt betra skilið og nennir varla að vera með, og aðrir leikarar sem eru ekkert annað en andlit. Enginn annar nær að vera persóna í myndinni, og því veltur allt á þessum tveimur. Annar er hávær og þreytandi, hinn er eins og svefngengill með dollaramerki í augunum. Allt þetta er ekki ávísun á góða mynd, og því brást ekki að hér er um einhverja misheppnuðustu sumarmynd allra tíma að ræða. Bruckheimer skilur þetta ekki, fólk á skilið að fá gæði og eitthvað með innihaldi, ekki formúlur með tómahljóði.
Scooby-Doo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þetta verður nú varla lélegra en þetta. Scooby Doo er ein af þessum myndum sem maður skilur engan veginn hvers vegna var gerð. Fyrirfram hefði ég aldrei trúað því að framleiðendur hefðu verið tilbúnir til þess að kasta 84 milljónum dollara í svona arfaslakt handrit, en það sýnir bara hversu vitlaus ég og afgangurinn af heiminum er. Myndin er nefnilega margbúin að borga sig og það er framhald á leiðinni. Það er ekki neitt sem er í lagi hérna nema Matthew Lillard. Ég hefði aldrei trúað sjálfum mér til þess að segja að hinn slappi Lillard væri það besta við einhverja mynd, en það er engu að síður satt í þetta sinn. Hann er sá eini sem gerir eitthvað af viti hér. Freddie Prinze Jr. ætti bara að vera rekinn úr Hollywood, enda er hann hæfileikalausasti maður sem sögur fara af. Sarah Michelle Gellar er úti á þekju (og ég held mikið upp á Buffy), og hefði bara átt að sleppa þessu. Hinir leikararnir eru sömuleiðis eins og hálf týndir í allri vitleysunni, og enginn stendur upp úr. Söguþráðurinn er mæta heimskulegur, myndin er merkilega illa gerð miðað við allt fjármagnið og ofan á allt, þá er hún alveg grútleiðinleg. Ég skal viðurkenna að ég hef aldrei haft gaman af teiknimyndaþáttunum, enda fannst mér þeir alltaf vera eins. Hins vegar get ég ekki séð að aðdáendur þáttanna fái nokkuð fyrir sinn snúð. Myndin er einfaldlega ein stór mistök frá byrjun til enda, og öllum með greindarvísitölu yfir stofuhita er bent á að sleppa því að sjá þessa mynd.
About a Boy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
About A Boy er fyndin, skemmtileg og umfram allt hlý og manneskjuleg gamanmynd. Maður getur ekki annað en hlegið yfir óförum Hugh Grants í myndinni og innantómri, sjálfselskri tilveru hans. Ég hef aldrei verið hrifinn af honum sem gamanleikara, en hann á hér fínan leik og hefur líklega aldrei verið betri. Hann fellur þó í skuggann af hinum unga Nicholas Hoult, sem fer á kostum í hlutverki drengsins sem ákveður að taka Hugh Grant upp á sína arma. Maður hefur ekki séð betri barnastjörnu frá því að maður sá Haley Joel Osment í fyrsta skipti. Þetta er ein af þessum fáu gamanmyndum þar sem maður hlær vegna þess að manni þykir vænt um persónurnar, frekar en af því að þær séu svo afkáralegar eins og vaninn er í bandarískum gamanmyndum. Það er eiginlega merkilegt að myndinni skuli vera leikstýrt af sömu könunum og leikstýrðu American Pie, vegna þess að þeir sýna bæði skilning á persónusköpun, aðstæðum og skilning á breskum veruleika. Bretar virðast núorðið eiginlega hafa einkarétt á því að búa til góðar gamanmyndir, og þessi er enginn undantekning. Öllum er hér með ráðlagt að skella sér í bíó og sjá þessa mynd, því hún kemur verulega á óvart.
Cheers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hvers konar mynd er Donnie Darko? Hún er vísindaskáldsaga, hún fjallar um tímaflakk, hún veltir fyrir sér mörkunum milli geðheilsu og geðveiki, hún rannsakar fjölskyldutengsl, hún er persónustúdía, og þar fyrir utan er hún svo margt annað. Það sem hún er meira en nokkuð annað, er frábær. Hún er alveg sérstaklega vel leikin af aðalleikurum myndarinnar, Jake Gyllenhaal og Jena Malone. Aðrir leikarar, svo sem Drew Barrymore, Patrick Swayze og Noah Wyle koma skemmtilega á óvart í minni hlutverkum. Hún er vel gerð tæknilega, allar brellur eru fínar og þá sérstaklega ef tekið er með í reikninginn hversu lítið fjármagn var til staðar. Hún inniheldur ýmis ógleymanleg atriði, og einhvern magnaðasta endi á kvikmynd sem ég hef séð, og frábæra notkun á tónlist. Það er með ólíkindum að þetta skuli vera fyrsta mynd leikstjórans Richard Kelly, og sýnir hann sérstaklega góð tök á myndmáli, litasamsetningu, staðsetningu myndavélar og hvernig eigi að skapa persónur á hvíta tjaldinu. Þetta er skylduáhorf fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.
Waking Life
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi nýjasta kvikmynd Richard Linklaters er svo einstaklega frumleg, reynir svo á heilabúið, er svo falleg áferðar, að hún fór að sjálfsögðu framhjá öllum nema gagnrýnendum. Waking Life er allt annað en sama gamla formúlan. Hún er kvikmynduð á stafrænar myndavélar, og teiknað ofaní eftirá. Þetta gefur myndinni draumkennda og sérstaklega lifandi áferð. Maður er sífellt að uppgötva eitthvað nýtt í því hvernig myndin er gerð. Enginn hefðbundinn söguþráður er í myndinni, heldur fjallar hún um strák einn, sem flakkar um í draumheimum og verður vitni að ýmsum heimsspekilegum samræðum á milli fólks, á í nokkrum sjálfur, og þó nokkrar eiga sér stað án þess að hann sé viðstaddur. Spurningin er síðan sú, hvern er að dreyma drauminn, og hversu mikið af þessu öllu er draumur. Samræðurnar/tilgáturnar eru misáhugaverðar, en allar nógu áhugaverðar til þess að vekja upp spurningar og samræður á milli þeirra sem á horfa. Þær sem eru áhugaverðastar opna síðan fyrir manni nýjan heim og nýja sýn á lífið. Myndin er sérstaklega heillandi og grípur mann sterkt, og þar fyrir utan hefur hún þann eiginleika að maður getur horft á hana aftur og aftur, og uppgötvað eitthvað nýtt í hugmyndum myndarinnar í hvert sinn. Þetta er ekki svo mikið kvikmynd í hinum klassíska skilningi orðsins, heldur frekar sjálfstætt listaverk sem neitar að falla í einhvern ákveðinn flokk. Hún er hins vegar yfirburða snilld, og ein af þeim myndum sem maður er viss um að maður muni aldrei gleyma.
Queen of the Damned
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er því miður ósköp fátt til þess að mæla með í þessari útþynntu nauðgun á annars fínum bókum Anne Rice. Það er í raun varla hægt að segja að þessi mynd sé á nokkurn hátt byggð á bókunum hennar, enda er nánast öllum persónum og atburðum breytt svo mikið að óþekkjanlegir verða. Þess utan þá virkar þessi kvikmynd alls ekki. Stuart Townsend er fínn leikari, og mun betri en hann nær að sýna í þessari mynd. Þess vegna er synd að sjá hvað hann virkar hallærislegur, en hann er svo sem ekki einn um það. Allir leikarar í myndinni, og sérstaklega Aalyah heitin, eru gjörsamlega úti á þekju. Það sem er nefnilega svo hættulegt við það að kvikmynda svona Gothic skáldsögur, er að það er alltaf hætta á því að þær verði svona einum of eitthvað. Það er einmitt það sem gerist í þessari mynd, en náðist svo vel að forðast í Interview With The Vampire. Maður flissar frekar en eitthvað annað, þegar leikararnir standa þarna með lélegar vampírutennur, í leikrænum búningum, að reyna að fara með mishallærislegar línur. Myndin nær engan vegin þeim epíska fíling sem Interview náði. Önnur stór mistök eru notkunin á þungarokkinu í myndinni. Tónlistin dregur myndina niður úr því að vera Gothic yfir í að vera Goth, sem er alls ekki sami hluturinn og passar engann veginn við í þessu tilviki. Hvað varð um hina mikilfenglegu tónlist sem var í Interview og afhverju er þungarokkshljómsveitin Korn komin í staðinn? Myndin þjáist einnig fyrir það að vera gerð fyrir of lítinn pening, enda sést það greinilega á allri tæknivinnu sem er langt fyrir neðan meðallag. Það eina sem stendur í raun upp úr, er hvað mörg settin í myndinni eru smekklega valin og falleg. Því miður er afgangurinn af myndinni verulega lélegt fóður og er fólk hérmeð varað við því að eyða 800 krónum í þessa mynd.
Resident Evil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þetta er ein af þessum myndum sem maður skilur ekki alveg hvers vegna var gerð. Hún hefði bara átt að vera áfram tölvuleikur og vera sátt við sitt hlutskipti í lífinu. Óþarfa metnaður þegar maður hefur ekkert að spila úr kemur manni bara í koll. Söguþráður myndarinnar er arfaslappur og lapþunnur. Persónusköpun kallar á tvær tegundir manneskja, harðjaxlanna og taugaveikluðu harðjaxlanna. Fyrri tegundin er Milla Jojovich og Michelle Rodriguez, sem eru báðar harðjaxlar dauðans, hræðast ekki neitt og geta ekki leikið. Seinni tegundin eru einhverjir aulaleikarar sem svitna mikið og eru taugaveiklaðir, en þrátt fyrir það standa þeir sig í stykkinu þegar á hólminn er komið. Þeir geta heldur ekki leikið. Myndin er samansafn af slæmum klisjum, óviðeigandi tónlist, lélegri tölvugrafík, einhverjum versta leikstjóra sem starfar í Hollywood í dag, asnalegu (og eldfimu) endaskrímsli sem virkar nákvæmlega eins og svona End Of Level Boss (svo maður sletti). Það er einnig í myndinni ótrúlegt magn af gervibregði. Það er þegar myndavélin fer alveg ofan í andlitið á leikaranum þannig að maður sér ekkert hver eða hvað er að læðast að honum. Síðan magnast smám saman tónlistin þangað til allar stelpur í salnum eru farnar að hrína af spenningi og síðan nær þetta hámarki þegar okkur er reynt að láta bregða við það að þetta var bara köttur/besti vinurinn/hurð að opnast/síminn að hringja/o.s.frv. Miðað við viðbrögð fólksins í myndinni mætti halda að það hefði aldrei heyrt símann hringja áður. Myndin endar síðan á skoti sem undirbýr óhjákvæmlegt framhald sem ég persónulega ætla ekki að sjá. Þessa mynd má líta á sem tímasóun og peningasóun en ekki hæfileikasóun. Það var nefnilega ekkert hæfileikaríkt fólk sem vann við þessa mynd, og sem betur fer. Forðist fyrir alla muni.
Star Wars: Attack of the Clones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það má segja að ég hafi beðið þessarar myndar með einkonar blöndu af eftirvæntingu og kvíða. Ég er gamall Star Wars aðdáandi og hef séð allar gömlu myndirnar oftar en hollt getur talist. Þrátt fyrir að hafa upphaflega fundist Phanton Menace vera frábær (finnst hún ennþá hafa verið óþarflega dregin í svaðið), þá hefur smám saman komið upp í mér sú tilfinning að hún hafi ekki verið raunverulegur kafli í Star Wars sögunni. Eftir að hafa séð Attack Of The Clones hinsvegar, þá get ég sagt að hér er um að ræða alvöru Star Wars mynd, og einstaklega góðan kafla í sögunni. Mín persónulega tilfinning er að AOTC sé líklega næst besta myndin hingað til, næst á eftir Empire Strikes Back. Hér fellur meira og minna allt saman eins og flís við rass. Hún er þétt skrifuð og engir óþarfa kaflar sem ekkert gera fyrir söguna eru til staðar. Sagan sjálf er ákaflega spennandi og veit maður aldrei hvert hún ætlar næst. Ástarsambandið á milli Anakin og Padme er miklu betur af hendi leyst en við hefði verið að búast. Hún er að sjálfsögðu nánast óaðfinnanleg tæknilega, og flestir leikarar standa sig með prýði. Hayden Christiansen stendur sig afskaplega vel sem Anakin, mun betur en trailerinn gefur til kynna. Natalie Portman er góð, og báðir þeir Ewan McGregor og sérstaklega Christopher Lee (nánast í guðatölu hjá mér eftir LOTR:FOTR) fara báðir á kostum. Sá sem eignar sér myndina hins vegar, er Yoda karlinn. Það er búinn að byggjast upp sá fílingur frá því 1983 þegar hann birtist fyrst í Empire, að við yrðum einhverntímann að fá að sjá hvað það er sem gerir hann svona öflugan Jedi meistara. Það fáum við að sjá í þessari mynd, og Yoda er stórfenglegur í einu orði. Ég hef sjaldan fengið jafngóðan fíling eins og þegar hann dregur upp geislasverðið og býr sig undir að sýna okkur hvers vegna göngustafurinn hans er bara til sýnis. AOTC er samt ekki gallalaus. George Lucas virðist enn ekki hafa náð tökum á því að skrifa samtöl sem hljóma raunveruleg. Það koma einnig stöku atriði þar sem leikararnir virka hálf vandræðalegir, enda eru þeir yfirleitt að tala við bolta í snæri fyrir framan Bluescreen. Slíkt er yfirleitt alltaf hægt að skella á leikstjórann, enda virðist Lucas oft hafa meiri áhuga á tæknilegri hlið mála heldur en að draga fram stjörnuleik úr leikaraliði sínu. Þau eru hins vegar öll fagmenn, og geta að mestu leyti bjargað sér sjálf og þar sem engin born eru í myndinni, þ.e. einstaklingar sem þurfa á mikilli leikstjórn að halda, kemur þetta minna við mann heldur en í Phantom Menace. Þegar í heildina litið geta Star Wars aðdáendur tekið gleði sína á ný því hér er um alvöru Star Wars mynd að ræða. Og Yoda er með geislasverð.
Frailty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Vandaður og metnaðargjarn þriller sem stundum færist kannski fullmikið í fang. Myndin er jafnframt leikstjórnarfrumraun leikarans skemmtilega Bill Paxton. Hann fer sjálfur með aðalhlutverk myndarinnar, og tekst honum ágætlega til bæði fyrir framan og aftan myndavél. Það er eitthvað svo innilega heilsteypt við manninn, sem gerir það að verkum að manni finnst í myndinni að hann hljóti að hafa rétt fyrir sér. Matthew McConaughey (fáránlega erfitt nafn að stafa) er hann sjálfur að vanda, en er samt sem áður ágætur. Báðir drengirnir sem leika bræðurna í myndinni koma ágætlega út. Vel er unnið með vafaatriðið um hvort atburðir myndarinnar eigi sér raunverulega stað eða ekki. Það er hægt að færa sannfærandi rök fyrir báðum möguleikum og er það kannski helsti kostur myndarinnar, hversu tvíræð hún er. Myndin er afar spennandi á köflum, og fellur Paxton ekki í þá gryfju að sýna of mikið. Mestallt ofbeldi og blóð gerist utan ramma, og gerir það að verkum að ímyndunaraflið fer á fullt. Myndin veit reyndar ekki alveg hvar hún á að enda. Hún heldur áfram aðeins of lengi en ekki þannig að það sé óþægilega klaufalegt. Einnig er kannski aðeins of auðvelt að sjá fyrir lokatwist myndarinnar og skiptingar á milli atriða eru stundum dálítið klaufalegar, en það breytir því ekki að hér er um að ræða gæðakvikmynd sem skilur þónokkuð eftir sig. Hún vekur mann að minnsta kosti til umhugsunar um ýmsa hluti, og maður veltir óneitanlega fyrir sér hinum ýmsu möguleikum sem lausn myndarinnar bíður upp á. Meira en segja má um flestar myndir í dag. Vel þess virði að kíkja á og töluvert fyrir ofan meðallag.
Panic Room
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hér er um að ræða afar trausta og vel gerða spennumynd úr smiðju David Fincher, sem fært hefur okkur slíkar gæðamyndir sem Fight Club og Se7en. Aðalsmerki hans sem kvikmyndagerðarmanns eru fagmannleg vinnubrögð, góð senuuppbygging og stílfærð atriði. Allt þetta er í miklum mæli í myndinni, og eru fáar feilnótur slegnar. Jodie Foster sýnir hér og sannar enn einu sinni hversu mikil yfirburðaleikkona hún er, og færir okkur enn einn stjörnuleikinn. Stúlkan sem leikur dóttur hennar er einnig afar sannfærandi og er sjaldgæft að svo ung leikkona búi yfir slíkri breidd. Forest Whitaker er traustur sem endranær í frekar vanþakklátu hlutverki, en Jared Leto er öllu síðri. Sá sem kemur hins vegar mest á óvart er sveitavargurinn Dwight Yoakam sem leikur verstu manneskjuna í myndinni, og er ótrúlegt hversu miklu hann nær að koma til skila þrátt fyrir að allt andlit hans sé þakið lambhúshettu næstum alla myndina. Það eina sem má setja út á í myndinni er skortur á uppbyggingu og karaktergrunni. Næstum því engin persónusköpun á sér stað í handritinu sjálfu, en því er reyndar að mestu bjargað með góðum leik þeirra sem að komu. Einnig líða ekki nema nokkrar mínútur frá því að myndin hefst og þangað til hasarinn byrjar. Fyrir suma er það kannski plús, en persónulega vill ég kynnast karakterum mynda vel áður en þeim er steypt í einhverjar ógöngur því ég á erfitt með að halda með einhverjum sem ég þekki ekki. Reyndar fann ég fyrir því allan tímann að ég hélt í raun og veru alveg eins með illmennum sögunnar eins og hetjunum. David Fincher með aðstoð sinna færu kvikmyndatökumanna og tækniliðs, færir okkur myndavélahreyfingar sem er ekki hægt að framkvæma í raunveruleikanum, en gerir það svo vel að maður sér hvergi skil milli raunverulegrar töku og þegar brelluvinna hefst. Þetta veldur því að manni finnst húsið sjálft vera einn af karakterum myndarinnar og á Finhcer hrós skilið. Einnig skilur Fincher það sem margir aðrir virðast ekki skilja, og það er það að spenna byggist yfirleitt upp þegar ekki er hávaði og hasar á skjánum, heldur þegar þögn ríkir á undan og maður veit ekki alveg hvað er að fara að gerast. Mörg atriði myndarinnar eru kennslubókardæmi um það hvernig maður byggir upp atriði þannig að sem mest adrenalínflæði náist út úr því. Howard Shore, nýkominn úr Lord Of The Rings, mætir hér til leiks og færir okkur topp kvikmyndatónlist sem á sérlega vel við og ýtir undir spennu frekar en að kalla athygli að sér og enn og aftur sést að hann er einhver sá besti í bransanum. Hér er um að ræða verulega þéttan og vel gerðan trylli sem ætti ekki að valda neinum vonbrigðum. Einhvern neista vantaði til þess að lyfta myndinni upp á næsta plan, en engu að síður er sérlega vel hægt að mæla með því að fólk skelli sér í kvikmyndahúsið.
Spider-Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mig langar afskaplega mikið til þess að gefa myndinni fjórar stjörnur, einfaldlega vegna þess að ég er gamall aðdáandi og fanboy og mér fannst myndin alveg æðislega skemmtileg. Hins vegar verður maður að reyna að vera nokkuð hlutlaus í gagnrýni, og til þess að vera sanngjarn, þá er hér um að ræða þriggja stjörnu mynd. Tobey Maguire er afskaplega góður í myndinni, og það er eftir á að hyggja, erfitt að ímynda sér einhvern annan í hlutverki lúðans Peter Parker. Willem Dafoe skilar af sér afskaplega góðri frammistöðu og nær hann að gera karakter Green Goblin, sem á blaði hefði getað verið flatur og hlægilegur, að einhverju sem maður getur óttast. Brotinn maður með brotna sál, en afskaplega sterkur og með mikla hefniþörf. Hættuleg blanda og Dafoe skilar öllu þessu með sínu frábæra andliti og rödd. Kirsten Dunst fær lítið að gera sem Mary Jane, en hún kemur líklega til með að fá fleiri línur í framhöldunum (og þau verða gerð), en hún gerir engu að síður ágæta hluti með það litla sem hún hefur úr að moða. Aðrir leikarar myndarinnar komast ágætlega frá sínu og litlu er yfir að kvarta í þeirri deild. Handrit myndarinnar bíður upp á frábærar fyrstu 45 mínútur, dálítið sundurlausar næstu 45 mínútur, og sterkan síðasta hálftíma. Allt í allt, þá hefði mátt vinna örlítið meira með handritið og hefði þá kannski þéttari mynd orðið til. Leikstjórn Sam Raimi er afskaplega hentug fyrir þennan karakter. Ef einhverntímann hefur verið nauðsynlegt að maður finni nánast fyrir vindinum í andlitinu, þá er það núna. Sjónrænn og hreyfanlegur leikstjórnarstíll Raimi er einmitt það sem þurfti, og ást hans á persónunum skín alls staðar í gegn. Hann hefur staðið sig með prýði með þessa mynd, og vonandi verður honum haldið sem leikstjóra fyrir framhöldin. Brellurnar eru að mínu mati frábærar. Auðvitað getur maður séð að þær séu brellur, og maður getur séð að Spiderman er tölvuteiknaður þar sem hann sveiflar sér um borgina, en hins vegar er ekki hægt að gera þetta betur í dag og sérstaklega ekki fyrir þann pening sem var til staðar. Það má ekki gleyma því að mannsaugað og mannsheilinn eru með háþróað skyn sem segir okkur hvenær við erum að horfa á mannveru hreyfa sig og hvenær ekki, og tölvubrellur eru ekki ennþá nógu háþróaðar til þess að blekkja. Fólk verður bara að nota ímyndunaraflið, og þá er ekki hægt að kvarta yfir neinu, enda eru brellurnar gríðarlega vel af hendi leystar. Í heildina litið er hér um að ræða hágæða sumarmynd. Hún er fyndin, vel gerð, vel leikin og afskaplega skemmtileg. Hvað meira getur maður beðið um?
Mulholland Drive
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég vil taka það fram strax í byrjun að þeir sem eru að leita sér að kvikmynd þar sem hvert atriði er rökrétt framhald af því sem kom á undan, og leiðir mann smám saman að einhverjum fyrirfram ákveðnum endi, ættu að róa á önnur mið. Þeir sem aftur á móti eru hrifnir af kvikmyndum sem listformi frekar en afþreyingu finna hér nóg af safaríku efni sem nærir bæði hug og hjarta. Mulholland Drive er kvikmynd sem gengur næstum því fullkomlega upp, hún er sett upp sem hálfsannleikur og hálfdraumur og liggur raunveruleikinn einhversstaðar þar á milli. Maður dáleiðist smám saman af sterku myndmálinu og vali á þemum og samsetningu, og enn og aftur sannar David Lynch það að hann er einn af örfáum kvikmyndagerðarmönnum í heiminum í dag sem getur státað af því að vera að gera eitthvað sem er fullkomlega frumlegt á allan hátt. Hann virðist einnig hafa sérstakt lag á því að fá stórkostlegan leik út úr leikurum sínum og er einn af þeim sem skapar hvað bestu kvenhlutverkin í Hollywood í dag. Naomi Watts, leikkona sem ég hef ekki séð áður, stendur upp úr í myndinni og er leikur hennar einhver sá besti sem ég hef séð í áraraðir. Aðrir leikarar skila sínu einnig með prýði þó hlutverk þeirra bjóði kannski ekki upp á sömu tilþrif. Í heildina litið má segja að þetta sé eitt heilsteyptasta verk sem Lynch hefur látið frá sér, og linnulaus leit hans að innri sannleika sem finnst aðeins í gegnum drauma og hálfráðnar gátur verður einnig að okkar leit. Það eina sem við þurfum að gera er að slaka örlítið á og leyfa honum að leiða okkur í gegnum undirheima þess hugarheims sem hann hefur skapað með óendanlegu ímyndunarafli sínu. Kvikmynd fyrir þá sem þora að hugsa sjálfstætt.
The Royal Tenenbaums
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ekki hægt að neita því að The Royal Tenenbaums olli mér mjög miklum vonbrigðum. Ég átti von á mjög miklu, þar sem í myndinni er bæði einvalalið leikara, og eru þetta sömu aðilar og færðu okkur hina frábæru Rushmore. Þessi mynd er töluvert slakari en hún og allan damp vantar í myndina. Hún er nokkuð skemmtilega skrifuð, en persónur myndarinnar eru eins og þær séu hannaðar til þess að vera skrítnar, frekar en að þeim sé leyft að vera skrítnar af sjálfu sér. Það er kannski erfitt að útskýra muninn, en maður finnur hann strax og maður sér myndina. Hún er einnig frekar ójöfn í byggingu, og fullmargar persónur eru til staðar fyrir mynd sem er ekki lengri en þetta. Það veldur því að hver og ein fær ekki nógan tíma til þess að þróast, og verða þær því of grófar og óljósar fyrir vikið. Það veldur því að samúð manns með þeim er ekki eins mikil og hefði annars kannski verið. Þetta er afar slæmt, því allur grunnur myndarinnar byggist á því að manni sé ekki sama um þessa furðulegu Tenenbaum fjölskyldu. Hins vegar eru ljósir punktar inni á milli. Allir leikarar standa sig með prýði, enda varla annað hægt því þeir eru hver öðrum betri. Góð og fyndin augnablik koma á stundum, en þau eru því miður of fá og langt á milli þeirra. Það er varla hægt að mæla með þessari kvikmynd nema fyrir harða Wes Anderson/Owen Wilson aðdáendur en víst er að þessi mynd stendur bæði Rushmore og Bottle Rocket langt að baki hvað varðar frumlegheit og handritasköpun.
Blade II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sko, ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir sem fíluðu fyrstu Blade myndina, komi flestir til með að fíla þessa mun betur. Þeir sem fíluðu ekki fyrstu Blade myndina koma til með að finnast þessi enn lélegri. Þetta stafar af því að það sem gerði fyrstu Blade myndina góða, brjálaður hasar og fínar brellur, er hér til staðar sinnum tveir og hálfur. Það sem dró niður í Blade, skortur á söguþræði og persónusköpun, er í enn minna magni í þessari mynd. Hins vegar er þessi mynd B-meistaraverk. Mynd getur eiginlega ekki orðið miklu betri án þess að hafa neinn alvöru söguþráð eða neina persónusköpun. Hins vegar er keyrslan alveg gríðarleg. Myndin er ótrúlega þétt, aldrei dauður kafli og bardagaatriðin eru með þeim flottari sem maður hefur séð. Brellurnar eru alveg frábærar og ekkert er reynt að fela þær heldur er myndin öll ótrúlega over the top and in your face svo maður sletti. Ég get ekki að því gert að mér fannst Blade II alveg æðisleg, eins skemmtileg og nokkur önnur mynd og helmingi blóðugri. Svona leyniflipp skulum við segja. Þeir sem búast hins vegar við mannlegu drama og djúpum pælingum leiti eitthvert annað.
Monster's Ball
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er sjaldan sem kvikmynd nær að sýna svo hreinar og sannar tilfinningar eins og Monster´s Ball gerir, og ennþá sjaldgæfara að mynd nái að forðast allar klisjur eins vel og þessi gerir. Hún gjörsamlega neitar að fara auðveldu leiðina, heldur leyfir persónum sínum að vera eins og þær vilja sjálfar, frekar en að láta þær fylgja einhverri staðlaðri hegðun sem færir plottið frá A til B. Það er svo margt í þessari mynd sem er frábært, fyrir það fyrsta er hún allt að því óaðfinnanlega leikin af þeim Billy Bob Thornton og Halle Berry. Þau eru bæði hreint út sagt ótrúleg og áttu bæði skilið að fá óskarinn, þó á endanum hafa bara Berry fengið hann. Annað sem er magnað og það er það hvernig myndin sýnir það að fólk getur gert slæma hluti en samt verið gott fólk. Þau eru bæði t.d. afar vondir foreldrar í myndinni, en það breytir því ekki að í eðli sínu eru þau ekki slæmar manneskjur heldur frekar afsprengi uppeldis og aðstæðna. Hið þriðja sem er frábært í myndinni, og það er hinn fullkomni og gjörsamlega klisjulausi endir myndarinnar. Mér hefðu dottið í hug 10 leiðir til þess að enda myndina á klisjukenndan hátt, og allt hefðu það verið ódýrar og auðveldar lausnir, en í staðinn leysir myndin endinn á stórkostlegan og einfaldan hátt. Endirinn einn og sér hækkar myndina upp í þær fjórar stjörnur sem hún á svo vissulega skilið. Ein af fáum myndum sem komið hafa undanfarna mánuði sem virkilega stendur undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. Mannlegt drama eins og það gerist best. Algjört skylduáhorf fyrir sanna kvikmyndaunnendur.
Ali
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ótrúlegt hvernig hinum ágæta kvikmyndagerðarmanni Michael Mann gat mistekist að gera frábæra mynd um ævi Muhammed Ali, frægasta boxara kvikmyndasögunnar. Hann tekur þann ranga pól í hæðina að einblína á 10 ár í ævi Ali, frekar en að reyna að fá heildstæða mynd af ævi mannsins. Annað sem er rangt gert í myndinni er að hafa sífellt tónlist undir. Ekki kvikmyndatónlist heldur svertingjatónlist frá tímanum sem myndin á að gerast á. Ég meina ekki eitt eða tvö lög, heldur stanslaust allan tímann. Manni finnst maður vera horfa á langt tónlistarmyndband og kemst aldrei í snertingu við persónur myndarinnar. Myndin er einnig alltof löng, og þá meina ég langdregin. Hún er 156 mínútur en hefði átt að vera kannski 125. Til dæmis kemur atriði í myndinni þar sem Ali er að skokka í Afríku, og fylgjumst við með því í um það bil korter. Maður er farinn að iða í sætinu, enda enginn sjáanlegur tilgangur með atriðinu. Fleiri svona augnablik eiga sér stað, og fær maður á tilfinninguna að Mann hafi viljað gera langa stórmynd en ekki verið með söguþráðinn tilbúinn. Það er synd og skömm, því að ævi þessa merka manns er afar forvitnileg og leiðinlegt hversu lítið af henni komst til skila á þessum tæpu 3 tímum. Will Smith stendur sig með mikilli prýði sem Ali, og erfitt er að sjá fyrir sér einhvern annan í hlutverkinu. Hann átti tilnefninguna vissulega skilið, og leiðinlegt fyrir hann að myndin skildi ekki hafa heppnast betur. Á heildina litið get ég ekki annað sagt en að myndin hafi ollið mér sárum vonbrigðum.
Ice Age
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mjög skemmtileg tölvuteiknimynd sem þó nær aldrei þeim hæðum sem Pixar hefur sett með Monster´s Inc eða PDI með Shrek. Hún er ekki jafn fyndin og Shrek, ekki jafn hjartnæm og Monster´s Inc og verr gerð en þær báðar og með krakka sem langar afskaplega til að vera jafnsætur og Boo í Monster´s Inc en gat það ekki. Myndin er samt ágætlega fyndin, ágætlega hjartnæm, og ágætlega gerð. Raddirnar í henni eru góðar, og fínt var að sjá hvernig bæði Ray Romano og Denis Leary reyndu hvorugir að vera með neinar hundakúnstir heldur voru nokkuð hreinir og beinir. Þetta var að mínu mati góð ákvörðun, enda hefði myndin auðveldlega getað breyst í vitleysu. Það sem stelur senunni í myndinni, er þessi stórkostlega skepna sem er litli íkorninn sem allir eru búnir að hlægja að í meira en ár. Hann birtist öðru hvoru í myndinni og eru það langbestu kaflarnir. Það vantar heila mynd sem fjallar bara um hann og ævintýri hans. Ice Age olli mér hvorki vonbrigðum né fór fram úr vonum mínum. Hún er fín mynd sem stendur prýðilega fyrir sínu og allir ættu að geta skemmt sér vel.
The Time Machine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er kannski ekki sérlega mikið vit í þessari endurgerð á hinni klassísku Time Machine, en ágætlega skemmtileg er hún. Ef hún væri ekki bara svona vitlaus, og ef Samantha Mumba passaði ekki svona hrikalega illa inn í hana þá væri hún eflaust betri. En þannig er heimurinn og við fáum víst ekki alltaf það sem við viljum. Það sem er í raun og veru stærsti gallinn við þessa mynd fram yfir þá klassísku er það að aðalpersóna myndarinnar, prýðilega leikinn af Guy Pierce, hefur ekkert gaman af því að ferðast um í tíma. Í gömlu myndinni fann prófessorinn upp tímavélin bara af því að hann gat það og langaði til þess. Góður fílingur og undrun ævintýrinu öllu saman var alltaf til staðar. Í þessari endurgerð er prófessorinn að reyna að breyta fortíðinni og lífga látna konu sína aftur til lífsins. Hann er sífellt súr á svipinn og má ekkert vera að því að skoða öll þau undur sem fyrir honum verða. Einnig passar Jeremy Irons einstaklega illa inn í myndina, sem Uber-Morlokkinn og verður hann að passa sig ef hann ætlar sér ekki að skola gifturíkum ferli niður í vaskinn. Brellurnar í myndinni eru verulega vel af hendi leystar, og afskaplega er myndin áferðarfalleg að sjá. Ef bara hún leysti vandamálin á skemmtilegri hátt og væri ekki alveg svona full af plottgötum, þá væri hún alveg hreint stórfín.
Black Hawk Down
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Black Hawk Down verður að teljast vera mikil vonbrigði. Ég átti von á því að þetta yrði ein af sterkari myndum ársins, en því miður reyndist það ekki á rökum reist. Vandamálið liggur ekki í því að hér sé ekki um að ræða fagmannlega gerða og ágætlega framsetta mynd, heldur liggur vandamálið í þeirri staðreynd að um enga persónusköpun er að ræða í myndinni. Þegar engin persónusköpun er til staðar í stríðsmynd, er mér nákvæmlega sama hvort hermennirnir lifa eða deyja þegar hasarinn hefst. Einnig er myndin ótrúlega einhæf, þegar skothríðin hefst eftir ca 40 mínútur eða svo, þá linnir ekki bardögum í rúman einn og hálfan tíma eftir það. Það sem þetta þýðir í raun er að í einn og hálfan tíma er ekkert að gerast í myndinni annað en Sómalir að fá skot í sig, vélbyssuskothríð og hermönnum í klípu. Sómalarnir birtast skyndilega bak við hól, brak, uppi í glugga, bak við bíl o.s.frv. og eru jafn skyndilega skotnir niður og smám saman finnst manni maður vera að spila tölvuleik. Ekkert mannlegt drama á sér stað í myndinni, engin tengsl myndast við aðalsöguhetjur og of margir leikarar berjast um of lítinn tíma (eða þann litla tíma sem eytt er í samtöl og persónusköpun). Það sem eftir stendur er vel gerð, en á endanum innantóm og hávaðasöm sprengjuárás sem skilur lítið sem ekkert eftir sig.
The Count of Monte Cristo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hér er á ferðinni stórskemmtileg ævintýramynd þar sem spenna, ást, undirferli, svik og prettir og allt annað sem góða slíka mynd má prýða er að finna í vænum skömmtum. Guy Pearce fer gjörsamlega á kostum sem illmennið í myndinni og er sífellt að sanna sig sem einstaklega skemmtilegur leikari. Aðrir leikarar standa sig einnig með prýði, og er sérstaklega skemmtilegt að sjá Luiz Guzman í myndinni því að þar er snillingur á ferð. Annars er myndin verulega þétt, engu er ofaukið og hvert atriði er rökrétt framhald af því fyrra. Hún rennur ljúflega og hratt í gegn og vel er haldið á spöðunum. Vel má mæla með þessari mynd fyrir alla þá sem hafa gaman af góðum, gamaldags ævintýramyndum eins og sjaldan eru gerðar í dag. Stórfín skemmtun.
Collateral Damage
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ahnuld er snúinn aftur og sem betur fer er þessi kvikmynd stórt stökk fram á við frá End Of Days. Ahnuld fer hér á kostum sem slökkviliðsmaðurinn Gordon Brewer (Goodon Bruua, eins og Ahnuld segir) sem fer til Kólumbíu til þess að hefna sín á hryðjuverkamönnum sem drápu son hans og konu. Myndin er frekar í alvarlegri kantinum, lítið fer fyrir gríni og one-linerum eins og Ahnuld er frægastur fyrir en það er allt í lagi. Af einhverjum orsökum fengust skemmtilegir leikarar í aukahlutverk, eins og John Turturro og John Leguziamo og lífga þeir óneitanlega uppá. Ahnuld gerir sér grein fyrir því að hann er að eldast og því fer minna fyrir ofurhetjutöffarastælum en áður, og Gordon er því manneskjulegri persóna en Ahnuld hefur oft áður leikið. Mér finnst Ahnuld alltaf verða betri leikari með hverju árinu, og bráðum kemur að því að hann verður tilnefndur til Óskarsverðlauna. Ég fann tár læðast í augnkrókinn þegar hann brotnaði niður eftir að fjölskyldan hans dó og er það merki um það hversu góður og dramatískur leikari Ahnuld í rauninni er. Ahnuld að eilífu, Ahnuld sem forseta. Heilagur Ahnuld er snúinn aftur, fagni lýður.
A Beautiful Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þó að A Beautiful Mind hafi verið tilnefnd til 8 óskarsverðlauna, fengið fjöldann allan af Golden Globe verðlaunum og einróma lof gagnrýnenda, þá get ekki annað sagt en að ég hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Ég hélt fyrirfram að þetta yrði ein af betri myndum ársins, en því miður fékk ég lítið annað en ósköp venjulega Hollywood klisju. Russell Crowe og Jennifer Connelly leika reyndar frábærlega í myndinni, en því miður ná þau ekki að skapa samúð með persónunum, einfaldlega vegna þess að efnið sem þau hafa að vinna úr er ekki nógu sterkt. Akiva Goldsman er ekki einn af betri handritshöfundum Hollywood og sú taktík hjá honum að láta okkur komast að því þegar myndin er hálfnuð, að meira og minna allt sem gerst hefur var ímyndunin ein, kemur út eins og hálfgerð sölubrella. Öllum á að finnast það vera ofsalega sniðugt eins og í Sixth Sense, en í raun þýðir það aðeins að við erum búin að fylgjast með einhverju sem skiptir engu máli. Þessum tíma hefði verið betur varið í að leyfa okkur að sjá eitthvað af æsku Nash, eða uppeldi sonar hans en þetta eru hlutir sem alveg er sleppt í myndinni. Myndin er öll hálf stefnulaus og skortir dramatískan þunga, hún fer frá einum stað yfir á annan, frá einum áratug til næsta, og maður nær lítið að tengjast efninu. Þetta er afskaplega miður, því ævi þessa manns er afar áhugaverð og á betri kvikmynd skilið. Einnig verður að segjast að það er hálfgerð móðgun við þá sem þjást af geðklofa að gefa það í skyn, eins og gert er í myndinni, að það sé nóg að leiða skynvillurnar hjá sér og þá hálfpartinn læknist maður (eða geti a.m.k. lifað nokkuð eðlilegu lífi). Það vita allir sem eitthvað hafa nálægt geðklofa komið, að málið er alls ekki svona einfalt. En þannig er hugsunarhátturinn í Hollywood í dag, þeir bjóða upp á einfaldar lausnir fyrir það sem þeir álíta að séu einfaldir áhorfendur. Því miður virðist það vera satt, eins og fjöldi verðlauna og tilnefninga fyrir þessa mynd gefur til kynna. Það sem lætur mann mæla með þessari mynd eru tveir leikarar að sýna og sanna ótvíræða hæfileika sína, ekkert annað.
Hearts in Atlantis
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sterk og áhrifamikil mynd úr smiðju Stephen Kings. Kannski ekki allra besta mynd eftir hann í þessum dúr (Stand By Me ber af) en er góð mynd engu að síður. Anthony Hopkins finnur sig virkilega vel, og í fyrsta sinn í langan tíma reynir hann verulega á sig og er frábær. Drengurinn sem leikur á móti honum stendur sig einnig ótrúlega vel. Hann er ekki þessi týpíski sæti Hollywood krakki sem kann ekki að fara með línurnar sínar. Einnig má sérstaklega hrósa stelpunni, sem fer með tvö hlutverk í myndinni og stendur sig afskaplega vel. Hlutverk mömmunnar er vanþakklátt, hún er flatasta persóna myndarinnar og fær enga dýpt, og leikkonan sem leikur hana nær ekki að skapa neina samúð. Þrátt fyrir að myndin sleppi sér stundum út í of mikla væmni, þá eru mörg afar sterk atriði inn á milli sem hreyfa við manni og á heildina er hér um gæðakvikmynd að ræða. Hún er kannski ekki meistaraverkið í ár, en vel þess virði að sjá í bíó.
Gemsar
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Aldrei hélt ég að ég myndi sjá verri íslenska kvikmynd heldur en Nei Er Ekkert Svar. Það gerðist þó þegar ég fór að sjá kvikmynd Mikaels Torfasonar, Gemsar. Myndin er svo frámunalega léleg, samhengislaus, illa leikin, illa gerð og leiðinleg að það nær engu tali. Persónur myndarinnar segja eitt, og gera annað. Tökum dæmi: Doddi er annaðhvort fínn strákur (samkvæmt viðtölunum á milli atriða) , eða hann er barinn fyrir að vilja ekki drekka. Þeir spila hlutverkaspil í bílskúrnum hjá honum, eða senda hann í partí sem er ekki til. Bíddu nú hægur, þetta passar ekki saman. Kristín ætlar að sofa hjá einum stráknum, en þegar hann er ekki með smokk, þá þolir hún hann ekki og kallar hann öllum illum nöfnum og hatar hann það sem eftir er af myndinni. Af hverju? Hún hleypur burtu úr apóteki af því að mamma stráks sem hún þekkir varla vinnur þar. Síðan býður hún þessum dreng sem hún þekkir varla að sofa hjá sér. Af hverju? Öll hegðun persóna í myndinni er gjörsamlega óskiljanleg. Gamli perrinn ýmist fiktar við unga stráka eða nauðgar ungum stúlkum. Hvað er hann? steríótýpa fyrir alla ógeðslega kalla kannski. Hann er að minnsta kosti ekki gerður að persónu. Allt er svo ódýrt í þessari mynd, og hún hefur í raun engan söguþráð og ekkert upp á að bjóða nema sóðalegar samræður í boði Hr. Torfasonar. Forðist þessi ömurlegheit fyrir alla muni.
Vanilla Sky
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég skal viðurkenna að ég hef ekki séð Abre Los Ojos sem þessi mynd er gerð eftir. Hins vegar veit ég að þrátt fyrir að vera mjög nákvæm endurgerð, þá er hún 40 mínútum lengri. Hvers vegna veit ég ekki, enda ekki dauðan punkt að finna í myndinni. Henni er alveg sérlega vel leikstýrt (enda Cameron Crowe við stjórnvölinn, sá gæðadrengur) og flæðir afskaplega vel. Illa gekk að markaðssetja þessa mynd, enda afar erfitt að setja hana í einhvern einn flokk, því hún inniheldur ákveðin element úr mörgum kvikmyndageirum. Undir það síðasta verður hún þó vísindaskáldskapur, og þrátt fyrir að ég vilji meina að það geri henni ekki illt þannig séð, þá er það sá kafli sem kemur verst út. Mér persónulega finnst sú óljósa og draumkennda áferð sem komin var á myndina vera alltof töfrandi til þess að láta of miklar útskýringar spilla henni. Þannig er nefnilega endirinn, hann útskýrir allt en útskýrir þó ekkert. Þrátt fyrir að lokakafli myndarinnar hefði getað verið betur unninn, þá er hér um gæðamynd að ræða. Cameron Diaz sýnir hér og sannar að hún er meira en hasarkroppur, heldur getur hún virkilega leikið og gerir það vel. Cruise er metnaðargjarn og velur sér orðið hlutverk af kostgæfni og ber að virða hann fyrir það, og hann gerir sitt allra besta við að gera hlutverki sínu skil og tekst það skammlaust. Það er hins vegar Penelope Cruz sem kemur verst út úr myndinni, og furðulegt hvers vegna Tommi gamli dömpaði Nicole Kidman fyrir þessa spænsku pissudúkku. Ég trúði aldrei á það að einhver gæti sparkað Cameron Diaz út úr rúminu fyrir fröken Cruz, og það skemmir fyrir manni tálsýnina. Tónlist myndarinnar er vert að minnast, enda er hér um samansafn af frábærum tónum að ræða (þ.á.m 3 lög með Sigur Rós). Allt í allt má segja að hér sé um athyglisverða tilraun að ræða sem heppnast á flestan hátt, en ekki allan.
Monsters, Inc.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Enn og aftur sýnir Pixar fyrirtækið að þeir eru bestir í bransanum. Þeir virðast vera algjörlega ófærir um að framleiða neitt annað en snilld, og í þetta sinn fara þeir svo langt fram úr sjálfum sér að það er erfitt að sjá hvernig þeir ætla að bæta sig næst. Myndin er hreint tækniundur að sjá, og stórstígar framfarir hafa verið gerðar tæknilega séð. Það myndi þó ekki skipta neinu máli ef um lélegan söguþráð væri að ræða, en því er ekki að flíka hér. Nei, sagan er þvert á móti ómótstæðilega góð með frábæru gríni, þéttum þræði og góðum boðskap sem öllum er hollt að heyra. Eins frábær og Shrek var, þá verð ég að segja að þessi mynd tekur henni fram og mun til lengri tíma litið eldast mun betur. Þetta er á allan hátt stórkostleg mynd sem óhætt er að mæla með fyrir alla fjölskyldumeðlimi, sama á hvaða aldri þeir eru. Ps - stuttmyndin með fuglunum sem sýnd er á undan, er aðgangseyrisins virði ein og sér.
Shallow Hal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ekki hægt að segja að þessi nýjasta mynd Farelli bræðranna sé mjög merkileg. Þeir gerðu eina fyndnustu mynd allra tíma sem var Kingpin en síðan þá hefur leiðin legið hægt niður á við. Þeir eiga alltaf spretti inn á milli, en í heildina litið má segja að myndin sé tiltölulega miðlungs, sérstaklega ef maður tekur með í reikninginn afskaplega illa hugsaðann og væminn endakafla. Hann einn og sér fer langt með að eyðileggja myndina, en tekst það sem betur fer ekki að fullu og eftir stendur að í myndinni eru nokkrir gullmolar sem gera það að verkum að manni finnst ekki tímasóun að hafa séð hana. Jack Black er frábær gamanleikari, og fer eins vel með aðalhlutverkið og hægt er, Jason Alexander (úr Seinfeld) er einnig frábær sem lúða félaginn hans sem klúðrar öllu. Gwyneth Paltrow er bara hún sjálf enda getur hún ekkert leikið blessunin, en hún er ekki meira óþolandi en venjulega. Þegar öllu er á botninn hvolft er hér um að ræða miðlungsmynd, og í raun helst fyrir þá sem eru hrifnir af húmor þeirra Farelli bræðra, sem getur verið mjög kvikindislegur og neðanbeltis á köflum.
Heist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afskaplega vel skrifuð og leikin mynd úr smiðju Mamet. Hann hefur áður gert hinar frábæru myndir The Spanish Prisoner og State and Main ásamt fleirum. Hann er helst þekktur fyrir vel skrifuð handrit sín sem innihalda frábærar, grófar og (oft) furðulegar samræður. Þær má finna í þessari mynd og afskaplega góða leikara til þess að fara með þær. Gamli garpurinn Gene Hackman stendur sig afskaplega vel, eins og endranær, og Delroy Lindo kemur einnig sterkur inn. Aðra leikara má telja Rebecca Pidgeon og Sam Rockwell sem gera góða hluti. Senunni stelur þó naggurinn Danny DeVito og hefur hann sjaldan verið betri. Plottið er þykkt og bragðmikið, og sífellt er manni komið á óvart. Myndin er gerð á frekar hráan hátt, og kemur það ágætlega út. Í heildina litið er hér um að ræða gæðamynd sem stendur prýðilega fyrir sínu.
From Hell
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þeir sem hafa lesið myndasöguna From Hell eftir Alan Moore sem þessi mynd er byggð á, gera sér grein fyrir hvers konar nauðgun hér er um að ræða. Öll mystík, spenna, karaktersköpun og snilli sem býr í bókinni er fokin fyrir veður og vind, og eftir stendur hræðilega leiðinlegur gauragangur eftir þá Hughes bræður. Þeir eru ekki slæmir leikstjórar, þannig séð, en þeir skilja greinilega ekki hvaða efni þeir voru með í höndunum. Það sem þeir höfðu til þess að moða úr var ekkert annað en snilldarlegasta tilgáta um tilvist Kobba kviðristu sem komið hefur fram síðan morðin áttu sér stað árið 1888 í Whitechapel í London. Þeir héldu greinilega að þeir væru að gera enn eina hood myndina, en þar skjátlaðist þeim hrapallega. Johnny Depp og Heather Graham eru algjörlega úti á þekju og standa þarna ráðþrota með lélega breska hreima og eiga alls ekki heima þarna. Ian Holm er betri, en þó hefði ég viljað sjá meiri tilþrif frá honum. Sá eini sem stendur fyrir sínu af leikurunum er Robbie Coltraine, enda er hann orðinn það góður að hann getur ekki annað en verið frábær í hverju sem hann er í. Myndin er bara öll svo tilgangslaus, við fáum að sjá ægilegar limlestingar, en aldrei ástæðuna á bak við þær. Við fáum skot, eins og í Seven, þar sem allt er hrátt og ógeðslegt með flugum svífandi um allt, en ekkert til þess að tengjast við tilfinningalega. Hryllingurinn þjónar því engum tilgangi, hann er bara þarna til þess að fylla upp í götin sem skilin eru eftir af leikstjórunum. Með öðrum orðum, þá er hér um að ræða lélegustu mynd sem ég hef séð á þessu ári og vona ég að þær verði ekki verri héðanaf.
K-PAX
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afar traust og vel leikin mynd sem þó vantar ákveðinn neista sem myndi gera hana frábæra. Kevin Spacey sannar enn og aftur að hann er einn albesti leikarinn í bransanum í dag, og Jeff Bridges nær loksins að draga sig upp úr þeirri ládeyðu sem hann hefur verið staddur í árum saman. Samleikur þeirra í myndinni er hrein unun að fylgjast með og nær að sumu leyti að hylja þá staðreynd að myndin er frekar götótt. Það koma afar dauðir kaflar í myndinni inn á milli og endirinn gengur frekar brösulega fyrir sig. Þetta er engu að síður með skárri myndum sem hafa komið frá draumaverksmiðjunni í ár, og er tæknilega afar vel unnin. Hún er afar vel tekin og rennur frekar ljúflega áfram. Ég verð engu að síður að segja að tónlistin í myndinni er ekki góð, einhvers konar synthapopp fílingur er í gangi, og passar hann engann veginn við þá stemmingu sem reynt er að skapa í myndinni. Einnig verður að segjast að Mary McCormack, þrátt fyrir að vera í afar litlu hlutverki, veldur því samt engann veginn og getur alls ekki leikið stúlkan. Þrátt fyrir þessa galla er hér um að ræða vel gerða mynd, frekar á vitrænum nótum, þar sem tveir leikarar fara á kostum. Þetta nægir til þess að vel er hægt að mæla með myndinni.
Atlantis: The Lost Empire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi nýjasta afurð Disney er ójöfn án þess að meira sé sagt. Hún byrjar nokkuð vel, það er vel gert og spennandi að sjá hvernig Atlantis eyjan var áður en hún sökk í sæ, og sjá með eigin augum þá atburði sem leiddu til þess að hún hvarf niður á hafsbotn. Endirinn er einnig nokkuð spennandi og vel gerður, og kemur ekkert illa út. Það er hins vegar miðjukafli myndarinnar, skyldukaflinn svokallaði, þar sem hinar ýmsu persónur myndinnar segja sögu sína og tengjast innri böndum, sem er alveg hreint skelfilegur. Það koma svona um það bil 25 mínútur inni í miðri mynd sem manni finnst að eigi alls ekki heima þar. Myndin dofnar öll, sagan stöðvast nánast alveg, og manni hreinlega leiðist. Einnig eru tvær persónur, moldvörpumaðurinn og spænski vélvirkinn, sem eru virkilega misheppnaðar. Þær eiga að vera þarna til þess að hlæja að, en þær eru svo yfirnáttúrulega ófyndnar og óþolandi að þær ná á köflum að skemma fyrir manni myndina. Myndin er samt prýðisvel gerð, hún er bæði tölvuteiknuð og handteiknuð og heppnast sú blanda afskaplega vel. Hún er svipuð að gerð og Tarzan var um árið, og eins og allt frá Disney þá er fagmannsbragur á. Hér er á ferðinni ágætist ævintýri fyrir börn og fullorðna, með nokkrum fyrirvörum þó. Ágæt skemmtun.
Ocean's Eleven
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég hafði tiltölulega gaman að þessari nýjustu kvikmynd Steven Soderberghs. Einvalalið leikara fer með aðalhlutverk, og af þeim standa sig einna best Brad Pitt, George Clooney og Matt Damon. Aðrir leikarar fá minna til þess að spila úr, enda ljóst að hverjum karakter er ekki gefinn mikill tími til þess að þróast þegar um svo mörg hlutverk er að ræða. Til að byrja með er myndin afar klisjukennd, það er ekkert sem kemur manni á óvart og manni finnst eins og maður hafi séð þetta allt milljón sinnum áður. Það er síðan ekki fyrr en ránið sjálft hefst, að myndin fer á flug, enda er þetta eitthvað flóknasta, skemmtilegasta og mest spennandi rán sem ég hef séð á hvíta tjaldinu. Það er á þessum síðustu 45 mínútum sem myndin stendur virkilega fyrir sínu og verður alveg prýðisskemmtun. Það má virkilega mæla með myndinni fyrir þá sem hafa gaman af góðri fléttu og óvæntum atburðum.
Amelie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þetta er ein af þessum fáu myndum sem ná virkilega að snerta mann. Hún er yndisleg á einhvern óútskýranlegan hátt, en þannig að manni líður vel bara við að hugsa til baka og rifja upp langsóttasta ástarævintýri allra tíma. Þetta er líka ein af þeim myndum þar sem söguþráðurinn er ekki það sem skiptir mestu máli, heldur að maður finni fyrir persónunum, hvernig þeim líður og hvað þær eru að hugsa. Með öðrum orðum, ekki áfangastaðurinn heldur ferðin sjálf. Hún er alveg ofboðslega vel gerð, og ein af fáum myndum þar sem tæknibrellur eru notaðar til þess að bæta söguna, en ekki vekja á sér athygli. Sum skotin í þessari mynd eru hreint mögnuð og listaverk út af fyrir sig, og það kæmi manni ekki á óvart þótt eitt og eitt atriði myndu teljast vera sígild þegar á líður. Audrey Toutou á hér leiksigur sem Amelie, og aðrir eru ekki síðri og það verður að segjast að þetta er ein af best leiknu myndum á árinu. Þetta er allra besta mynd sem Jeunet hefur gert, og er spennandi að sjá hvort hann getur fylgt svona meistaraverki eftir. Það kæmi mér verulega á óvart ef þessi mynd myndi ekki fá óskarinn fyrir bestu erlendu myndina, hún á það svo sannarlega skilið. Ein af 5 bestu myndum ársins, um það er engin spurning.
Zoolander
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hún er ekkert sérlega góð, en hún er svosem ekkert sérlega slæm heldur. Það er synd að slíkur hæfileikamaður sem Ben Stiller er, sé að sóa þeim hæfileikum í svona aulahúmor. Þegar honum tekst vel upp, fær maður hárbeittan svartan húmor eins og sást í The Cable Guy. Þessi mynd, þrátt fyrir að eiga sína spretti, er alls ekki í þeim flokki, og virðist helst vera gerð með það fyrir höndum að geta fengið sem flesta fræga leikara í cameo hlutverk og láta ljós sitt skína. Hún þjáist einnig áberandi mikið af því að vera svona one-joke hugtak. Mér skilst að þessi Zoolander karakter hafi verið skapaður fyrir VH-1 verðlaunahátíð og einhverja stuttmynd af því tilefni. Þar hefði gamninu átt að ljúka því þetta ber alls ekki upp heila mynd og hún endurtekur sig óneitanlega mikið á köflum. Þó er einn og einn brandari sem hittir í mark (helst sá með finnsku dvergana og furðudýrin úr Afríku) en þeir eru of fáir og langt á milli. Því er varla hægt að mæla með þessari mynd nema fyrir harða Stiller aðdáendur (eða harða Billy Zane aðdáendur ef þeir eru til).
The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þvílík yfirnáttúruleg, fáránleg og epísk snilld sem hér er á ferð. Þvílík ferð, rússibani inn í aðra veröld. Peter Jackson hefur hér með tryggt sér stórt og mikið sæti í kvikmyndasögunni með því að taka bækurnar sem átti ekki að vera hægt að filma, og filma þær með þvílíkri innsýn, snilli og metnaði að George nokkur Lucas má fara heim og skammast sín. Ég á hreinlega engin orð, engin nógu sterk lýsingarorð, sem koma til skila þeirri tilfinningu sem ég finn fyrir núna (nýkominn af myndinni), vitandi það að hér hafi ég orðið vitni að einhverju sögulegu og stórkostlegu sem muni standast tímans tönn. Allur leikur er í hæsta gæðaflokki, og valinn maður í hverju rúmi, brellurnar í einhverjum gæðaflokki sem maður hefur hreinlega aldrei séð áður og tónlist Howard Shore hljómar undir bæði falleg og ógnvekjandi eftir því sem við á. Undir öllu liggur síðan leikstjórn Peter Jackson og ódauðlegt meistaraverk Tolkiens sem Hringadróttinssaga óneitanlega er. Nötrandi þriggja tíma snilld, og Guð minn góður, þetta er aðeins fyrsti hlutinn. Ef þú ætlar þér einhverntímann að sjá einhverja mynd í bíó, þá er þetta myndin sem ég myndi segja að væri algjör skylda að sjá. Besta mynd ársins, engin spurning og enginn vafi.
Harry Potter and the Philosopher's Stone
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sem kvikmynd í heild sinni er Harry Potter mjög góð, allt að því frábær. Sé hún tekin innan síns geira, fantasíugeirans, nær hún alveg upp undir topp. Því miður eru ekki til mjög margar góðar ævintýra/fantasíumyndir, en Harry Potter sýnir það og sannar að ef rétt er haldið á spöðunum eru bæði áhorfendur og gagnrýnendur með á nótunum. Chris Columbus leikstýrir myndinni, og var hann fenginn aðallega vegna þess að hann er þekktur fyrir að gera góða hluti með barnaleikara og tókst það vel upp í þetta sinn. Hann er reyndar einnig þekktur fyrir að gera myndir sínar einum of sykursætar, en þar sem hann þarf að fylgja til hlítar efni bókanna og getur lítið sem ekkert farið út fyrir þær þá er lokaútkoman merkilega á beinu brautinni hvað þetta varðar. Krakkarnir sem leika aðalhlutverkin standa sig merkilega vel, sem og allir aðrir leikarar, og gaman er að sjá hvað mikið af góðum breskum leikurum koma fram og skemmta sér greinilega konunglega. Myndin er drekkhlaðin brellum (enda gerð fyrir 125 milljónir dollara) og þjóna þær allar sögunni, frekar en öfugt eins og oft er í Hollywood. Myndin er mjög löng, en alltaf eitthvað að gerast, þannig að ég sé ekki fyrir mér að börnunum leiðist í þá 2 1/2 tíma sem myndir tekur sér í að segja söguna. Engum öðrum ætti að leiðast heldur, því hér er um gæðaefni að ræða sem á erindi við fólk á öllum aldurshópi. Í stuttu máli sagt, þá er ekki annað en hægt að mæla með myndinni fyrir alla þá sem vilja láta töfraheim Harry Potter galdra sig á brott.
Jeepers Creepers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Einhverntímann í fyrndinni hefði mér líklega þótt þessi mynd góð, þegar ég var kannski 12 ára eða svo. Í dag aftur á móti geri ég ákveðnar kröfur til kvikmynda, ég ætlast til þess að aðalpersónurnar hagi sér ekki eins og algjörir hálfvitar (þau verða vitlausari með hverri mínútunni), ég ætlast til þess að grundvallarlögmálum eðlisfræðinnar sé hlýtt og ég ætlast til þess að sagan hafi eðlilega framvindu og eitthvert vit á bak við sig. Þessa mynd skortir allt að framanverðu og verður því hvorki fugl né fiskur (frekar eitthvað úr steinaríkinu). Hún er flöt, líflaus (fyrir utan fyrstu 20 mínúturnar sem voru góðar), illa leikin, alvarlega illa skrifuð og með einhvern heimskulegasta endi sem sést hefur í kvikmynd hin síðari ár. Því ráðlegg ég öllum nema alhörðustu hryllingsmyndaaðdáendur að halda sig fjarri.
The One
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég sem hélt að hér yrði um að ræða skemmtilega testósterónmynd sem maður gæti verulega haft gaman af, þó maður vissi fyrirfram að myndin yrði slöpp. Það sem gerðist hins vegar, er að myndin er ekki bara slöpp heldur frekar leiðinleg og jafnvel dálítið langdregin þrátt fyrir að vera aðeins um 80 mínútur að lengd. Jet Li fellur í þá ormagryfju einu sinni enn, að nota tæknibrellur í bardagaatriðum sínum. Þetta eru gríðarleg mistök, vegna þess að maðurinn er ótrúlegur bardagasnillingur og með því að nota brellur þá er hann að gera lítið úr eigin hæfileikum. Það gæti hver sem er verið að gera það sem hann gerir í þessari mynd, þessvegna þú. Ekki það að bardagarnir séu illa gerðir, alls ekki, heldur dáist maður að þeim sem geta gert þessar listir í alvöru, eins og Jackie Chan. Maður sér ekki mynd með Jackie Chan þar sem hann notar tölvubrellur til þess að hlaupa upp vegg, hann finnur einfaldlega leið til þess að hlaupa upp vegginn upp á eigin spýtur (ég hef oft séð hann gera það, það er ótrúlegt). Þar fyrir utan er handrit myndarinnar í molum og lítið vit er í framvindunni. Hún er hins vegar ágætlega gerð, tæknilega séð, og gaman er að sjá loksins einhvern nota Bullet-Time slow-motion eins og maður sá í Matrix og bæta einhverju við. Myndinni í heild sinni er ekki hægt að mæla með fyrir neinn nema hörðustu Jet Li aðdáendur, aðrir ættu að halda sig fjarri.
Training Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Denzel Washington þarf í eitt skipti fyrir öll að gera sér grein fyrir því að það er ekki magnið sem skiptir máli, það eru gæðin. Hann reynir svo mikið (í endalausri leit sinni að herra Óskar) að hann er við það að fá kviðslit. Hann ofleikur gríðarlega, og reynir að yfirskyggja alla aðra leikara, þar á meðal stórgóðan Ethan Hawke sem er mun betri í sínu hlutverki. Myndin sjálf er mikil útlits, hún er ábúðamikil að sjá og ágætlega gerð á allan hátt. Það nær þó ekki að hylja hversu innantóm og formúlukennd myndin er á allan hátt. Ótrúlega stór göt í plottinu gera það að verkum að maður andvarpar af gremju yfir hugsunarleysi handritshöfundanna (t. d. hvernig í andsk. gat mafían vitað að Washington yrði staddur í bílnum á einmitt þessum ljósum c.a. korteri eftir að hann átti að vera búinn að skila peningunum, eða hvernig meðvitundarlaus Ethan Hawke uppi á þaki komst á fimm sekúndum niður á götu ofan á húddið á bílnum hjá Washington, hin ótrúlega tilviljun hvernig mennirnir sem voru ráðnir til þess að drepa Hawke gera það ekki því þeir finna í vasanum hjá honum veskið hjá frænku eins mannsins en Hawke hafði bjargað henni frá nauðgun fyrr um daginn o. s. frv o. s. frv). Myndin er full af steríótýpum, allir svertingjar í myndinni eru með byssur, húðflúr, selja eiturlyf, hata löggur og kalla hvern annan ''nigger''. Washington karakterinn er mesta steríótýpa sem ég hef séð (og ég hef séð þær margar), hann er ekki aðeins vond lögga, hann er VERSTA LÖGGA ALLRA TÍMA (tm) og spilltari en andskotinn. Einnig er fáránlegt hvernig Ethan Hawke breytist á nokkrum klukkutímum frá heiðarlegustu löggunni í bænum, yfir í mann sem tekur eiturlyf, lemur mann og annan í stað þess að handtaka þá, tekur þátt í ráni, morði, fjárkúgun og guð má vita hverju án þess að blikna. Persónusköpun myndarinnar er ekki til fyrirmyndar. Ég skil ekki þá sem hafa haldið því fram að hér sé um að ræða eina bestu mynd ársins, því það er hún vissulega ekki. Ekki láta blekkja ykkur, hæst bylur í tómri tunnu.
Sexy Beast
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ben Kingsley gerir meira en að fara á kostum í þessari mynd, hann á hér leiksigur einn svo gríðarlegan að sjaldan hefur annað eins sést. Hann hreinlega eignar sér myndina þegar hann er fyrir augum manns, jafnvel svo mjög að maður sér varla hversu góður Ray Winston, sem leikur á móti honum, er. Þetta tvíeyki, ásamt vel uppbyggðu handriti, skemmtilegri leikstjórn og kvikmyndatöku, gera það að verkum að hér er á ferðinni mynd sem allir ættu að sjá. Hún er hreint frábær, og heldur manni föstum alveg fram á lokamínútu. Breskir krimmar hreinlega verða ekki betri, og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í þessari kvikmynd.
The Brotherhood Of The Wolf
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hér er á ferðinni sérstaklega skemmtilegur bræðingur. Þessi mynd sameinar kung-fu mynd, hryllingsmynd, spennumynd, búningadrama og pólitískan trylli. Flest er vel gert, kvikmyndatakan er frábær, tónlistin til fyrirmyndar, og allt útlit myndarinnar er glæsilegt. Myndin er reyndar örlítið of löng, og manni finnst að kannski hefði mátt skera hana niður um kannski um það bil 20 mínútur. Einnig virtist sem leikstjórinn hefði haft um að velja fimm mismunandi enda, og í staðinn fyrir að velja einn, þá lét hann þá alla fylgja með. Þrátt fyrir það er um að ræða einhverja athyglisverðustu kvikmyndina í ár, og einnig er þetta fyrsta almennilega kvikmyndin sem B-myndahetjan Mark DeCascos hefur leikið í á öllum sínum lélega ferli.
Osmosis Jones
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Osmosis Jones er furðulega flöt mynd. Hinum leikna hluta er leikstýrt af Farrelli bræðrum sem eru þekktir fyrir grófan húmor sinn, en í þetta sinn er þeim haldið föngnum af þeirri staðreynd að myndin varð að vera börnum leyfð ef það átti að vera möguleiki á því að ná peningunum til baka. Þó Bill Murray reyni sitt besta (og það er fjandi gott) þá er leikni hlutinn hálf vanaður og daufur á allan hátt. Teiknaði hlutinn er ekki mikið betri, og miðað við allt það fjármagn sem fór í myndina (hún var rándýr) þá er hann ferlega illa teiknaður. Það var allt svo formúlukennt við það sem gerðist. Enginn metnaður virtist vera fyrir hendi að gera eitthvað spennandi, heldur fær maður það sem maður hefur milljón sinnum séð áður. Ég get ekki annað sagt heldur en að þessi mynd sem ég bjóst við frekar miklu af, hafi ollið mér sárum vonbrigðum. Þó hún sé kannski ekki neitt alvarlega léleg, þá er hún ferlega flöt og fyrirsjáanleg og ekkert sem vekur neinn sérstakan áhuga. Aðeins fyrir harða Bill Murray aðdáendur.
The Others
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The Others er verulega góð spennumynd/hrollvekja sem allir ættu að láta verða af því að sjá. Ég bjóst við mjög miklu af myndinni (hún er á topp 250 á IMDB yfir bestu myndir allra tíma) og þrátt fyrir að hún hafi kannski ekki alveg staðið undir því, þá er hún sérlega vel af hendi leyst. Hún er vel leikin, Kidman og krakkarnir tveir gera góða hluti, og vel leikstýrt. Öll tæknivinna er vel af hendi leyst, og sérstaklega má benda á hvað hljóðrásin er góð og eykur gríðarlega á spennuna í húsinu. Myndin tekur sér góðan tíma í að byggja upp spennu, og áður en maður veit af er maður svo niðursokkinn að maður stekkur upp á nef sér við minnsta hljóð. Það er síðan í endann þar sem myndinni fatast örlítið flugið. Stóri sjokkerinn í endann er tiltölulega fyrirsjáanlegur, og leikstjórinn virtist ekki alveg vita hvar hann vildi láta myndina enda og því fáum við fleiri en einn. Engu að síður er myndin mjög góð og fólki bent á að skella sér í bíó því þetta er ein af þeim myndum sem best nýtur sín á stóra tjaldinu.
Joy Ride
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Nokkuð traust spennumynd. Myndin er verulega stílísk, og spennandi á köflum, en er á endanum of órökrétt til þess að falla í flokk bestu spennumynda. Paul Walker getur reyndar ekki leikið, og Leelee Sobieski á hér flatan og tilbreytingarlausan leik sem heillar ekki en Steve Zahn stelur senunni og er frábær í sínu hlutverki. Myndin rennur nokkuð ljúflega áfram og er vel af garði gerð tæknilega séð, en maður getur ekki litið framhjá ótrúlega stórum götum í framvindu myndarinnar sem á endanum draga myndina niður í meðalmennsku. Leikur Zahn er þó einn og sér nægilegur til þess að hvetja fólk til þess að sjá myndina, hann er alveg frábær drengurinn.
The Musketeer
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Myndir verða varla mikið verri en þetta. Ég bjóst alls ekki við að myndin yrði góð, en ég hélt þó að hún yrði skemmtilega léleg. En í staðinn fáum við ótrúlega lélega mynd, ofboðslega illa leikstýrt og hrikalega illa klippta. Tónlistin er ömurleg, hasarinn er lélegur og leiðinlegur. Leikararnir eru ömurlegir (allir nema Tim Roth, hann gæti ekki verið lélegur þó hann reyndi af öllum krafti) og sérstaklega er Mena Suvari alveg eins og fábjáni í myndinni. Meira að segja creditarnir í byrjun eru hallærislegir, í gulu letri með einhvern fáránlegan mósaík effect í gangi. Maður gæti þurft að losa sig við morgunmatinn eftir að hafa látið sig hafa að glápa á þessa vitleysu. Eins og það er hægt að gera góða hluti með söguna um skytturnar eftir Alexander Dumas, en nei, gerum eitthvað vonlaust í staðinn. Það er varla vonarglætu að sjá í allri þessari hörmung en þó verð ég að smella hálfri fyrir Tim Roth. Forðist þessan hrylling eins og heitan eldinn.
America's Sweethearts
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
America´s Sweethearts gengur ekki alveg upp sem kvikmynd. Hún er á sinn hátt nokkuð sjarmerandi og skemmtileg en hún hangir ekki saman. Allir þessir góðu leikarar, Seth green, John Cusack, Stanley Tucci og Billy Crystal (takið eftir því að ég taldi ekki upp Zeta-Jones eða Juliu Roberts) fá nánast ekkert til þess að vinna með. Öllum þeirra talent er sóað í mynd sem á að vera ádeila á grunnhygginn Hollywood iðnað, en er sjálf grunnhygginn Hollywood iðnaður. Þetta virkar talsvert hallærislegt og maður getur varla varist brosi þegar leikstjórinn heldur að hann sé að koma með eitthvað gríðarlegt innsæi á kvikmyndaiðnaðinn þegar hann er greinilega sjálfur grafinn í honum upp fyrir hársrót. Burt séð frá því, og burtséð frá þeirri staðreynd að myndin fylgir klisjunni 100% og hvikar hvergi frá því sem maður hefur þúsund sinnum séð áður, þá á myndin sín augnablik þar sem maður brosir út í annað og manni leiðist í rauninni aldrei. Hún rúllar svona áfram, og hefði jafnvel verið betri ef hún hefði ekki reynt svona mikið að vera merkilegri en hún í rauninni er.
The Score
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þeir góðu leikarar Robert De Niro og Edward Norton, ásamt hinum góða leikstjóra Frank Oz ( sem gerði hina frábæru Bowfinger ) gátu ekki lífgað upp á þessa mynd. Hún olli mér sárum vonbrigðum því ég bjóst við traustri, vel gerðri og spennandi kvikmynd. Það sem ég fékk var formúlukennd, föl og litlaus eftirlíking að góðri spennumynd. Hún nær aldrei að lyfta sér upp á neitt almennilegt plan, heldur er í hálfgerðri ládeyðu allan tímann. Lognmolla liggur yfir leikurunum þar sem þeir fara þreytulegir með línurnar sínar, Marlon Brando þeirra verstur. Hann á bara að vera á eyjunni sinni og hætta að reyna að leika því hann getur það ekki lengur. Engar tengingar voru í myndinni sem hefði gert manni kleyft að skilja ástæður hegðunar persónanna, og því kom hið óvænta (ekki mjög óvænt) lokatvist alveg eins og skrattinn úr sauðaleggnum því engin fyrirvari eða tilgangur var með því. Reyndar skemmir þriðji hluti myndarinnar alveg það sem hafði gerst á undan, og skilur eftir súrt bragð í munninum. Það verður að flokka þessa mynd sem mistök hjá öllum aðilum þó hún sé á engan hátt hræðileg. Hún er bara ekki spennandi, og alls ekki það sem maður hefði búist við af þeim aðilum sem að myndinni standa.
Moulin Rouge!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Í glænýju og glæsilegu Smárabíói þann 10. 10 ´01 horfði ég á töfrum slungna mynd. Eina af þeim örfáu myndum sem maður getur séð á fyrsta hálftímanum að eigi eftir að verða taldar klassíkar um ókomna tíð. Moulin Rouge er ótrúleg kvikmynd að öllu leyti, hún er tæknilega nánast fullkomin því kvikmyndataka, tæknibrellur, klipping og tónlist er á svo háu stigi að maður hefur nær aldrei séð annað eins. En allt slíkt skiptir ekki nokkru máli ef manni er sama um fólkið sem sagan segir frá og því er ekki að skipta hér. Ewan McGregor og Nicole Kidman eiga hér það sem ég vil kalla stórleik af hæstu gráðu, og er sérstaklega gaman að sjá þau bæði syngja því þau syngja sjálf í myndinni. Þau eru hreint ótrúleg, sem og allir aukaleikarar en þar ber John Leguziamo fyrstan að telja. Maður lifir sig inní drauma, vonir og þrár þessa fólks, finnur til með þeim þegar þau þjást og brosir þegar þeim gengur vel. Hrífandi dans- og söngvaatriði eru í myndinni, því þetta er jú fyrsta dans- og söngvamyndin í langan tíma sem virkilega hefur hrifið áhorfendur með sér, og eru þau öll stórkostlega af hendi leyst. Í stað þess að nota frumsamin lög í myndinni, tók leikstjórinn Baz Luhrman þann pól í hæðina að láta leikarana syngja gömul og ný dægurlög og smellpassa þau í myndina á hátt sem maður hefði fyrirfram aldrei trúað. Það læddist hrollur upp bakið í mörgum atriðanna, og þegar leikstjórinn gengur alla leið með söguna og teflir fram öllu því sem hann á í bakhöndinni og það gengur upp sem aldrei fyrr, þá hreinlega táraðist ég yfir því hversu mikla gersemi er hægt að smíða úr þeim grófa demandi sem kvikmyndalistin er. Hafir þú einhvern áhuga á því að láta einfalda og tímalausa sögu í meðförum meistara hrifsa þig upp á hnakkadrambinu og gefa þér nýja og ferska sýn á þá fallegu veröld sem við búum í þá skaltu gefa þér tíma og heimsækja Rauðu Mylluna, gleðihús í hjarta Parísar.
Jay and Silent Bob Strike Back
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég veit svo sem ekki við hverju fólk bjóst þegar það fór að sjá Jay and Silent Bob, en ég veit að ég fékk nákvæmlega út úr henni sem ég vildi fá. Ég vildi fá einhvers konar endalok, endalok þeirra persóna og aðstæðna sem snillingurinn Kevin Smith er búinn að vera að vinna með í mörg ár. Myndir hans hafa verið misgóðar, Clerks þeirra síst að mínu mati, Chasing Amy þeirra best. Hvort fólk er mér sammála eða ekki um það er algjört smekksatriði. Aðalatriðið er það, að Kevin Smith var búinn að segja að þessa mynd ætti enginn að taka alvarlega enda ætti hún bara að gleðja fólk og þá helst hans dyggustu aðdáendur því þeir eru þeir einu sem koma til með að fatta allar tilvísanirnar í fyrri myndir Smiths, og einnig átti hún að sýna flestallar persónur hans og klippa á alla lausa þræði. Þetta var nefnilega síðasta Askewniverse myndin hans Smiths, og átti ekki að takast alvarlega. Því miður virðast sumir hafa átt von á einhverju mikilfenglegra og hafa kvartað og kveinað eins og litlar stelpur, en það er þeirra tap og gróði okkar hinna. Jay og Silent Bob eru óborganlega fyndnar persónur og átti ég oft erfitt með að hemja mig úr hlátri meira og minna alla myndina. Smith sýnir hér enn og aftur hversu snjall handritshöfundur og húmoristi hann er, þrátt fyrir að vera í raun afleitur leikstjóri. Myndir hans hafa allar verið meira upp á talmál en myndmál að gera, en í þetta sinn voru ýmsar visual hugmyndir reyndar, sumar gengu upp en aðrar ekki. Það skiptir ekki máli, það sem skiptir máli er að skemmta sér, því Jay og Silent Bob voru skapaðir sérstaklega fyrir þá sem taka lífið ekki of alvarlega og vilja bara hlæja að lágkúrulegum (en samt vitsmunalegum) og einstökum húmor Kevin Smiths. Ef þú ert einn af þeim, skemmtu þér vel. Ef ekki, skaltu halda þig heima og halda áfram að leika þér með barbídúkkurnar þínar og væla eins og lítil stelpa.
American Pie 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eins og framhaldsmyndir eru nú yfirleitt slappar, og þá sérstaklega að unglinga- og gamanmyndum, þá er þessi alls ekki í verri kantinum. Reyndar mundi ég ganga svo langt að segja að hún gefi forvera sínum ekkert eftir. Það sem handritshöfundarnir hafa greinilega haft í huga var, að ef það virkar þá áttu ekki að breyta því. Því má kannski segja að sami húmor ríki í þessari mynd og þeirri fyrri, en kannski er að sumu leyti gengið lengra en áður. Mörg atriði eru óborganlega fyndin, og þær persónur sem voru hvað fyndnastar í fyrri myndinni eru jafnvel fyndnari nú. Þannig fær pabbi hans Jims að blómstra í þessari mynd sem aldrei fyrr, og Michelle (Alyson Hannigan úr Buffy) stelur senunni eins og alltaf. Ef maður fer á þessa mynd og býst ekki við neinu nema því sem maður fékk úr fyrri myndinni, verður maður ekki fyrir vonbrigðum og má raunar segja að manni komi lúmskt á óvart hversu vel það hefur tekist að halda í hinn sanna bökuanda.
A.I. Artificial Intelligence
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Artificial Intelligence er ein sú mynd sem ég hef beðið með hvað mestri eftirvæntingu. Þetta er nefnilega væntalega síðasta myndin sem við fáum að sjá þar sem nafn meistarans Stanley Kubricks kemur við sögu. Hann hafði gengið með þessa sögu í hausnum í mörg ár og beið eftir því að tæknin yrði nógu mikil til þess að hann gæti gert sögunni nægjanleg skil. Því miður kom sá tími of seint því hann lést áður en hann gat hafist handa. Féll því heiðurinn af því að gera myndina á herðar Steven Spielbergs og má segja að hér sé um að ræða mynd sem hefði alveg örugglega orðið allt öðruvísi ef Kubrick hefði ráðið ferðinni. Myndin er að öllu leiti vel gerð, sjónrænt er hún afskaplega vel af hendi leyst og tónlistin sem hljómar undir er prýðileg. Hún er einnig ágætlega leikin, Osment sannar hér enn og aftur hversu fjölhæfur hann er þrátt fyrir ungan aldur. Engu að síður finnst manni Jude Law stela senunni og er alveg frábær, þó maður velti maður því orðið fyrir sér hvort William Hurt hafi púls lengur því hann er orðinn eins og lifandi lík og hljómar meira eins og vélmenni heldur en öll vélmenni myndarinnar. Varðandi innihald myndarinnar, þá vekur hún upp ýmsar áhugaverðar spurningar varðandi ábyrgð okkar gagnvart vélum sem við höfum skapað svo nálægt mannsmynd að ekki er lengur á auðveldan hátt hægt að sjá muninn. Ef vélmennin eru skyldug til þess að elska okkur, hvað skuldum við þeim í staðinn fyrir þjónustuna og ástina sem þau veita okkur. Ýmsar vangaveltur eiga sér stað í kollinum á manni eftir að myndinni lýkur og er það vel. Sýnir það kannski að myndinni hefur á einhvern hátt tekist það sem hún ætlaði sér, en einn stóran varnagla verður að setja á. Þegar um það bil hálftími er eftir af myndinni, hefst einhver væmnasti og verst hugsaðasti kafli í sögu mynda Spielbergs. Fram að því er myndin búin að vera frekar klínísk og kuldaleg í anda Kubricks, en þegar þarna er komið við sögu er eins og Spielberg hugsi með sér að hann geti einfaldlega ekki látið áhorfendur koma út af mynd eftir hann á einhvern hátt með tvíræðar og/eða óleystar spurningar. Honum finnst á einhvern hátt að hann verði að spila á tilfinningar áhorfenda og fá þá til þess að fljóta með í vellu sem á engan sinn líka. Ekki bara er farið út fyrir öll velsæmismörk, heldur á þessi kafli engan veginn við afganginn af myndinni, og kemur því manni algjörlega í opna skjöldu. Alveg er ég tilbúinn til þess að veðja ærunni upp á það að Kubrick er núna að velta sér við í gröfinni, því hans aðalsmerki var að skilja við myndir sínar á köldum, tvíræðum nótum (sbr. Clockwork Orange og 2001: a space oddyssey) og hefði hann aldrei sleppt sér út í þvílíka væmni sem Spielberg gerir. Að lokum sitjum við uppi með kvikmynd sem er á margar hátt vel gerð og hefur vitsmunalegt innihald (þ. e. a. s. Kubrick hlutinn) og hins vegar Spielberg hlutann sem er verri en orð fá lýst. Blandaður pakki, en þó þess virði að taka utan af.