Nolan að vera Nolan

Christopher Nolan heldur ekki vatni yfir tímanum; hann notar tifandi klukku sem meintan stressgjafa, er heillaður af tímarúmsskekkjum, endurliti, tilraunum með strúktúr og léttum fyrirlestrum um hversu brenglað fyrirbæri um ræðir.

Nolan er í einstakri stöðu í Hollywood; hann getur vaðið í hvaða verkefni sem hann vill, skrifað hvað sem hann vill og nánast fyrir hvaða pening sem er. Það er varla hægt að kalla hann hefðbundinn leikstjóra, enda orðinn að eins manns kvikmyndabálki út af fyrir sig. Að því sögðu, þurfum við algjörlega á myndum eins og Tenet að halda, hvort sem um ræðir eitthvað tímamótaverk eða einfaldlega mátulega seðjandi poppkornsbíó. 

En þó hann sé algjörlega sá eini sinnar tegundar á bíómarkaði sem er snappfullur af endurunnum hugmyndum, hræddur við áhættu og glímir við dvínandi áhuga almennings á kvikmyndahúsum, er enginn einn maður fær um að bjarga bíóupplifuninni eins og hún leggur sig.

Til mikillar lukku er Tenet á allan veg fersk og listilega vel gerð sci-fi spennumynd; púslað saman af fagfólki við hvert horn. Hún þverneitar með stolti að vera heilalaus poppkornsmynd, daðrar af og til við skemmtilega súrar pælingar og senubyggingar. Heildarpakkinn skilar flottri og vel gerðri spennumynd. Meira þarf þessi mynd ekki að vera, en hún vill vera meira – og reynist vera í furðulegum slag við sjálfa sig. 

Í bláa horninu er hálfbakað drama um hefnd, andlegt ofbeldi og eitraða karlmennsku en í því rauða höfum við berþunna en nýstárlega spæjarasögu af gamla skólanum.

Nolan hefur reglulega verið gagnrýndur fyrir að vera “kaldur” á ákveðinn hátt með myndum sínum. Þessu hef ég ekki verið sammála, þó maðurinn sé fjarri því að vera mjúkur eða væminn. Tenet er aftur á móti, líkt og hans síðasta mynd, annars vegar of svellköld, fjarlæg og ópersónuleg fyrir minn smekk, og of klínísk, til að hægt sé að kalla hana skemmtilega, eða nógu spennandi. Það er annars vegar góður púls í henni (og tónlistin eftir Ludwig Göransson bragðbætir mikið sem og myndataka Hoyte van Hoytema, með þriðju Nolan myndina í röð) og atburðarásin heldur athygli, að mestu með þessu blæðandi kúli sínu og líflegri frammistöðu leikaranna. 

Fremstir í kúl-klúbbnum eru lykilmennirnir John David Washington og Robert Pattinson (sem líklegast hefur aldrei verið svalari, þó við eigum enn eftir að sjá hann í Batman). Hinn fyrrnefndi sækir slatta í eldri sjarma föður síns ( Denzel Washington ) og ber ráðgátuna prýðilega á herðum sér, með sinni viðkunnanlegu útgeislun og taktísku, sultuslöku einbeitingu.

Flestar persónur kasta sallarólegir frá sér hverjum öflugu one-linerunum á eftir öðrum, en hin upprennandi og ljúft hæfileikaríka Elizabeth Debicki (sem á blaði er lykilpersóna sögunnar) er þar aðeins út undan. Frammistaða hennar er án efa sú tilþrifaríkasta í allri myndinni, en fljótt sést að áhugi leikstjórans liggur síður í að skoða hennar prófíl, tengsl við það markmið sem hún þráir, en vill frekar einblína á hasarinn og töffaraskapinn. Með því litla sem líkist tilfinningaþunga í myndinni er Debicki minnisstæðust leikaranna, ef ekki er tekið með í reikninginn hvað Kenneth Branagh stendur sig vel með þessa hrútleiðinlegu staðalmynd sem hann vinnur með. Það jaðrar líka við rembingslega tilgerð að nafnlausi aðalkarakter myndarinnar heiti í raun bara “Sögupersónan,” ( e. Protagonist ) en þetta er enginn heimsendagalli. Að vísu eru stærri hnökrar sem fylgja bókstaflega ógn um heimsendi og hvernig handritið háttar lokasprettinum. 

Nolan á hér til að týna sér í eigin sýndarmennsku. Hann hefur skýra stefnu um að útbúa þrunga og dannað heilaklám og vill sýna alla peningana á skjánum, vopnaður IMAX-æði sínu og eins litlu af tölvubrellum og mögulegt er. Þyngri undirtónarnir eru þá meira upp á punt og þar af leiðandi neðar í forgangi en dýnamískur hasar, þvældar upplýsingadælur og sjónarspil ofar öllu. Í betri myndum leikstjórans eru marglaga handrit, grípandi karaktersamspil og kjarnaþemu yfirleitt framar í áhersluröðinni og verður þá sjónræna hliðin og almenna tæknivinnslan (sem er undantekningarlaus vönduð og flott) að góðum bónus sem styrkir það sem á bak við liggur. 

Þetta er eitt af því sem er oft gefandi við það að sjá Nolan myndir margsinnis og óneitanlega smella hlutirnir ögn betur saman eftir því sem Tenet er skoðuð oftar. En þegar „vá-faktorinn“ er farinn af er lítið meira kjöt eða djúpstæð skilaboð að finna en fyrirfinnast í meðalgóðri James Bond-mynd.

Leikstjórinn hefur oft staðfest ást sína á Bond-myndunum. Tenet er eins konar tilraun hans til að gera eigin útgáfu af slíkri, en á sinn máta, með sínum töfrum. Verst er að þó Nolan sé agalega flinkur í dúndurmörgu, þá er bræðandi sjarmi, kynþokki og glettni, þetta sem einkennir góða Bond-mynd, alls ekki á meðal hans styrkleika. 

Það er einkennilegur árangur að útbúa mynd sem glímir við það hvort tveggja að vera óþarflega flækt, pökkuð og löng en jafnframt fulleinföld og innantóm. Ferilskrá leikstjórans er enn glimrandi flekklaus en Tenet er á meðal hans síðri verka. En magnaði hluturinn er að ófáir kvikmyndagerðarmenn myndu allt gera til að eiga jafn metnaðarfulla, sjálfsstílíseraða, frumlega og úthugsaða mynd eins og Tenet er, undir belti sínu. Annars ætti að vera orðið nokkuð ljóst að Nolan er búinn að hámarka sína heimild með tímablætið. Klukkan er orðin.

Í styttra máli: Skemmtilegt sjónar- og púsluspil sem setur markmiðin ofar en almennt gengur að ná, en klárlega tímans og umræðunnar virði. Út og inn, afturábak og áfram.