Netflix hefur áhuga á Stephen King

Maðurinn á bakvið vefsíðuna Netflix, Ted Sarandos, segir í nýlegu viðtali að það sé áhugi fyrir því að gera sjónvarpsþætti eftir bókaseríu Stephen King.

Sarandos og Ron Howard, framleiðandi og sögumaður Arrested Development hafa báðir áhuga á Stephen King og þá sérstaklega bókaseríunni The Dark Tower, sem fjallar um síðasta byssu-riddarann Roland Deschain.

„Ég og Ron höfum rætt um að gera The Dark Tower seríu og þegar við erum búnir að kynna Arrested Development þá höldum við áfram að ræða um þetta.“ er haft eftir Sarandos.

Vefsíðan virðist verða stærri með hverjum deginum sem líður. Í fyrstu var Netflix aðeins tengiliður sem keypti myndmiðla og hlóð þeim upp til notenda. Nú er vefsíðan orðin framleiðslufyrirtæki og hafa þættirnir House of Cards, með Kevin Spacey í aðalhlutverki, fengið mjög góðar viðtökur.

Vegna höfundarréttarákvæða verður Netflix ekki lögleg þjónusta á Íslandi fyrr en fyrirtækið kaupir réttinn til að dreifa og sýna efni hér á landi.