Neeson verður þvottabjörn

Eins og allir vita hefur Liam Neeson blómstrað núna síðustu ár sem grjóthörð hasarmyndahetja en í nýrri glæpa-gaman -teiknimynd, The Nut Job, mun hann snúa við blaðinu og leika illmenni.

Í myndinni mun Neeson verða í hlutverki ills þvottabjarnar.

Myndin er byggð á stuttmyndinni Surly Squirrel, sem hægt er að horfa á neðst í þessari frétt.

Í myndinni er sagt frá geðstirðum íkorna, Surly,  sem búið er að reka úr almenningsgarði af því hann er svo fúllyndur og leiðinlegur. Til að lifa veturinn af þá þurfa hann og aðrir sem gerðir hafa verið brottrækir úr garðinum, að fremja hættulegt rán, en þeir hyggjast ræna Maury´s hnetubúðina.

Myndin er fyrsta myndin í fullri lengd sem leikstjórinn Peter Lepeniotis leikstýrir, en hann leikstýrði einmitt stuttmyndinni Surly Squirrel.

Auk Neeson leika í myndinni þau Will Arnett, sem leikur Surly, Brendan Fraser, Jeff Dunham, Katherine Heigl, Stephen Lang og Sarah Gadon.