Kóngurinn hylltur í Cannes

Kvikmyndin Elvis, sem fjallar um rokkkónginn Elvis Presley, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi fyrr í vikunni og var öllu tjaldað til til að gera viðburðinn sem allra glæsilegastan. Aðkoma frumsýningargesta var með skemmtilegasta móti og stilltu þeir sér margir hverjir upp til myndatöku á rauða dreglinum. Þá var efnt til frumsýningarpartís eftir sýningu myndarinnar þar sem mörg frægðarmenni mættu á svæðið.

Hér fyrir ofan má sjá gesti mæta til sýningarinnar en neðar í fréttinni er fjöldi ljósmynda af rauða dreglinum sem og úr eftirpartíinu þar sem evróvisjónsigurvegararnir 2021, Maneskin, léku og sungu af mikilli list.

12 mínútna klapp

Bíósýningin sjálf gekk að óskum og hlaut hún hvorki meira né minna en tólf mínútna lófaklapp.

Elvis er eftir ástralska Moulin Rouge! leikstjórann Baz Luhrmann, en hann er frægur fyrir glyskennd verk þar sem tónlistin er oftar en ekki í stóru hlutverki.

Ásamt leikstjóranum voru aðalstjörnur myndarinnar viðstaddar sýninguna. Má þar Austin Butler, sem fer með hlutverk kóngsins sjálfs, Tom Hanks, sem leikur umboðsmann hans, og Olivia DeJonge, Alton Mason, Natasha Barrett og Catherine Martin.

Drónar mynduðu nafn Elvis

Að lokinni sýningu myndarinnar var kvikmyndagerðarfólkinu og leikurum boðið til Palais Stéphanie Beach þar sem gríðarleg ljósadýrð birtist á himnum er fleiri hundruð drónar svifu um loftið og bjuggu til Elvis form.

Gestir sýningarinnar fengu einnig að hlýða á tónlist Grammy verðlaunahafans Diplo og Eurovisionsigurvegarana Maneskin eins og fyrr sagði, en ítalska rokkbandið tók nokkra ódauðlega Elvis-slagara auk eigin laga.

Elvis verður frumsýnd hér á landi þann 24. Júní.

Priscilla Presley mætti á svæðið í glysgalla.
Austin Butler stillir sér upp.
Baz Luhrmann spenntur fyrir frumsýningunni.
Caylee Cowan og Casey Affleck komu saman á sýninguna.
Alton Mason var kampakátur.
Damiano David söngvari Maneskin.