Í sjöunda himni

Köngulóarmaðurinn hlýtur að vera í sjöunda himni því nýjasta kvikmyndin um hann, Spider-Man: No Way Home hefur nú verið í sjö vikur samfleytt á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans. Heildar aðsóknartekjur þokast í átt að 100 milljóna króna markinu og eru nú komnar upp í rúmlega níutíu milljónir.

Tæplega 60 þúsund manns hafa borgað sig inn til að sjá myndina.

Tvær nýjar myndir voru frumsýndar um síðustu helgi en þær náðu ekkert að velgja köngulónni undir uggum. Nýja Guillermo del Toro myndin Nightmare Alley náði einungis fimmta sæti listans og Langbesta afmælið því níunda. Betur má ef duga skal fyrir þessar tvær ágætu myndir.

Kvikmyndir.is fór í bíó í vikunni og sá Nightmare Alley og getur heilshugar mælt með henni. Myndin er sneisafull af girnilegum molum, sagan er skemmtileg, leikmyndin frábær og leikurinn oft á tíðum mjög góður.

Nú er bara að bíða og sjá hvort að Moonfall og Jackass Forever nái að stríða Spider-Man um þessa helgi, en báðar myndirnar verða frumsýndar í dag.