Fjölmennt á hátíðarsýningu Dýrsins

Íslenska kvikmyndin Dýrið var frumsýnd á dögunum fyrir fullum sal í Háskólabíói við mikla hátíðarstemningu. Hermt er að viðtökur hafi almennt verið afar jákvæðar en Dýrið vakti gríðarlega athygli á frumsýningunni á Kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún fékk verðlaun fyrir frumleika í Un Certain Regard keppninni og erlendir fjölmiðlar kepptust við að ausa hana lofi.

Dýrið segir frá sauðfjárbændunum Maríu og Ingvari sem búa í fögrum en afskekktum dal og þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund en verður þeim síðar að tortímingu. Með aðalhlutverkin fara Noomi Rapace, Ingvar E. Sigurðsson, Björn Hlynur Haraldsson og Hilmir Snær Guðnason.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.
Ljósmyndirnar tók Gunnar Freyr.

Féll alveg fyrir sögunni

Í ítarlegu samtali við Morgunblaðið fjallar aðalleikkona Dýrsins m.a. um það hvernig hún fékk hlutverkið í myndinni. Hún segir í viðtalinu að leikstjórinn Valdimar Jóhannsson og kona hans og annar framleiðandi myndarinnar, HrönnKristinsdóttir, hafi heimsótt sig í London, en áður hafði hún lesið handritið. „Þegar ég las það varð ég strax hrifin og svo þegar þau komu höfðu þau meðferðis skissubók með ljósmyndum, teikningum og málverkum sem sýndu hugmyndir Valdimars um þennan heim sem hann vildi skapa með Dýrinu. Ég skoðaði þessar myndir og kvikmyndin lifnaði við í huga mér. Ég ákvað þá að ég yrði að vera með í þessari mynd. Valdimar og Sjón, sem skrifuðu handritið, fóru með mig í vegferð og ég fann strax sterka tengingu við persónuna Maríu og hennar brotna hjarta, vilja hennar og þörfina til að lifa og ná bata.

Ég féll alveg fyrir sögunni. Það var aldrei neinn vafi í mínum huga eftir það. Ég hringdi í liðið mitt og sagði þeim að ég væri búin að vera að bíða eftir svona verkefni; þarna gæti ég fundið rætur mínar aftur, farið þangað sem allt byrjaði,“ segir Noomi við Morgunblaðið en hér á Noomi við land æsku sinnar, Ísland.

Í viðtalinu kemur fram að Noomi hafi ekki hitt Valdimar áður en hann kom í heimsóknina, en þó höfðu þau unnið á sama setti eitt sinn. „Það fyndna var að hann hafði unnið á setti við tökur á myndinni Prometheus. Við vorum á Íslandi í tíu daga við tökur og hann var þar en ég hitti hann aldrei þá. En það var skrýtið en ég fann strax mikla tengingu á milli okkar og ég þekkti vel til verka Sjóns,“ segir hún og segir samstarfið hafa gengið afar vel. „Við Valdimar köfuðum með hverjum deginum dýpra ofan í persónu Maríu, að finna hver hún væri. Hver dagur var leit að sannleikanum og þetta var næstum eins og púsluspil sem við þurftum að vinna að saman.

Samstarf okkar var mjög náið og það ríkti afar fallegt jafnvægi í því, sem einkenndist annars vegar af djúpri og innilegri alvöru og leikgleði hins vegar,” segir Noomi í samtalinu við Morgunblaðið.