Richard Donner látinn

Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Richard Donner lést í dag, 91 árs að aldri. Framleiðslufyrirtæki Donners staðfesti andlát hans við Variety en dánarorsök er enn ókunn.

Ferill hans spannaði rúmlega fimmtíu ár sem leikstjóri og framleiðandi en hann var einna þekktastur fyrir allar fjórar Lethal Weapon-myndirnar ásamt The Omen, The Goonies, Ladyhawke og fyrstu tvær (innan gæsalappa) Superman-myndirnar. Fyrstu skref Donners í leikstjórn voru í sjónvarpi en hann leikstýrði meðal annars þáttum af The Twilight Zone, The Man From U.N.C.L.E og Get Smart.

Donner skilur eftir sig eiginkonu sína Lauren Shuler Donner en þau giftu sig árið 1986. Hún er einnig kvikmyndaframleiðandi.