Jungle Cruise á Disney+

Ævintýramyndin Jungle Cruise verður aðgengileg á streymi Disney+ samhliða bíóútgáfu hennar. Til stóð upphaflega að frumsýna myndina um sumarið 2020 áður en hún var færð til júlímánaðar 2021. Verður hún þá gefin út á streymið 30. júlí en þá gegn aukagjaldi en myndin lendir í kvikmyndahúsum hérlendis þann dag.

Jungle Cruise er nýjasta myndin í röð mynda frá Disney afþreyingarrisanum, sem það gerir eftir leiktækjum í görðum sínum, en aðrar myndir í sama flokki eru The Country Bears, The Haunted Mansion, Mission to Mars, Tomorrowland og sú vinsælasta af þeim öllum; Pirates of the Caribbean.

Myndin skartar þeim Dwayne Johnson, Emily Blunt, Édgar Ramírez, Jesse Plemons og Paul Giamatti. Johnson heldur um stjórntaumana á bátskrifli sem siglir niður fljót í skóginum. Með honum á skipinu er landkönnuður (Blunt) í ætt við Indiana Jones, sem leitar að fornum grip djúpt í iðrum skógarins, sem á að hafa lækningamátt.

Jaume Collet-Serra (Run All Night, Non-Stop, Unknown, Orphan) leikstýrir eftir handriti J.D. Payne, Patrick McKay og Michael Green. Stórhljómsveitin Metallica mun eiga hlut í tónlist kvikmyndarinnar Jungle Cruise frá Disney samsteypunni. Það er tónskáldið James Newton Howard sem semur megnið af músíkinni fyrir ævintýramyndina.