„Epísk og alls ekki fyrir börn“

Skjáskot / Instagram

Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson fer jákvæðum orðum um hasarmyndina Mortal Kombat, þ.e. endurræsinguna sem væntanleg er í kvikmyndahús á næstu dögum. Ólafur var staddur á frumsýningu myndarinnar í Ástralíu á dögunum og birti færslu á Instagram-síðu sinni. Hann hrósar þar leikkonunni Jessica McNamee, sem fer með hlutverk Sonyu Blade, en saman léku þau í spennumyndinni The Meg frá 2018.

Ólafur Darri var þó stuttorður en fullyrðir að Mortal Kombat sé umfangsmikil og alls ekki við hæfi barna. Aðdáendur tölvuleiksins sjá þetta vissulega sem gleðitíðindi og er þetta fyrsta kvikmyndin byggð á Mortal Kombat sem er bönnuð innan 17 ára í Bandaríkjunum. Aldurstakmark myndarinnar á Íslandi er 16 ára.

Í leikjunum segir frá fornri keppni þar sem meistarar í ýmsum bardagastílum berjast hver gegn öðrum. Hér er aðaláherslan lögð á slagsmálasérfræðing að nafni Cole Young, sem leitar uppi helstu bardagalistamenn í heimi til að berjast með sér gegn óvinum sem vilja ná yfirráðum í alheiminum.

Hryllingsmyndarisinn James Wan (Saw, Insidious, The Conjuring o.fl.) er einn af framleiðendum Mortal Kombat og með helstu hlutverk fara McNamee, Lewis Tan, Josh Lawson, Tadanobu Asano, Mehcad Brooks, Ludi Lin, Chin Han, Joe Taslim og Hiroyuki Sanada.

Myndin er væntanleg í kvikmyndahús hérlendis 28. apríl næstkomandi og verður einnig gefin út á streymisveitu HBO Max vestanhafs.

Hér að neðan má sjá svokallaða rauðbandsstiklu fyrir myndina.