Depardieu ákærður fyrir kynferðisbrot

Gerard Depardieu, einn frægasti leikari Frakklands, hefur verið ákærður fyrir að brjóta gegn leikkonu á þrítugsaldri fyrir þremur árum. Málið var fellt niður fyrir tveimur árum vegna skorts á sönnunargögnum en tekið síðar upp að nýju.

Leikkonan segir Depardieu hafa nauðgað sér í tvígang í íbúð hans í 6. hverfi Par­ís­ar­borg­ar. Þetta átti sér stað í ágúst 2018 og eru þau sögð hafa verið að æfa atriði fyrir leikrit þegar brotið átti sér stað. Lög­maðurinn Harvé Temime greindi frá því við fréttamiðilinn AFP að Depar­di­eu hafni á­sökuninni al­farið og er hann ekki í haldi lög­reglu.

Depardieu hefur lengi þótt umdeildur og alræmdur fyrir hegðun sína, bæði í einkalífi og atvinnulífi. Á meðal dæma má nefna atvik árið 2005, þegar leikarinn komst í fréttirnar fyrir að ráðast á ljósmyndara sem reyndi að taka mynd af honum í Flórens. Árið 2011 kastaði hann af sér þvagi í flösku í miðju flugtaki eftir að flugfreyja neitaði honum ferð á salernið. Tveimur árum seinna var hann gagnrýndur í heimalandi sínu fyrir að sækja um rússneskan ríkisborgararétt og hafa átt kvöldverð með Vladímir Pútín, forseta landsins.