Framhald af Face/Off í bígerð

Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Adam Wingard hyggst gera framhald af einni vinsælustu og að margra mati trylltustu hasarmynd tíunda áratugarins. Aðdáendur Face/Off (’97) finnast víða og er myndin skólabókadæmi um fagmenn í sínum hæsta gír, leikstjórann John Woo og leikaranna John Travolta og Nicolas Cage í banastuði.

Wingard mun leikstýra framhaldsmyndinni og skrifar handritið ásamt Simon Barrett en saman hafa þeir áður unnið saman að kvikmyndunum You’re Next, The Guest og Blair Witch (’16).

Þegar fréttir af þessu verkefni bárust var Wingard ekki lengi að blása á kjaftasögur um að endurgerð væri á teikniborðinu. Fullyrti hann sjálfur á Instagram-reikningi sínum að það hafi aldrei komið til greina, um „beint framhald“ væri að ræða.

„Ég gæti aldrei endurgert eða tekið nýja nálgun á Face/Off. Hún er fullkomin hasarmynd,“ sagði Wingard.

Framleiðslan á Face/Off framhaldinu er enn á upphafsstigi og ríkir mikil leynd yfir innihaldinu en nýjasta mynd Wingards, Godzilla vs. Kong, er væntanleg 26. mars næstkomandi.