Cook ráðin í He’s All That

Bandaríska leikkonan Rachael Leigh Cook mun bregða fyrir í gamanmyndinni He’s All That, væntanlegri endurgerð hinnar geysivinsælu She’s All That frá 1999. Cook fór þar með annað aðalhlutverkið.

Kynjahlutverkum verður snúið við í nýju myndinni, en sú upprunalega fjallaði um vinsælan „töffara“ á útskriftarári sem gerir veðmál við félaga sína um að hann geti breytt „skólalúðanum“ drottningu skólaballsins. Þetta virðist vera nánast óyfirstíganlegt verkefni en pilturinn fer að renna hýru auga til hennar sjálfur þegar gleraugu hennar fjúka, hárinu er breytt og nýr fatastíll tekur við.

Það var fyrrum hjartaknúsarinn Freddie Prinze Jr. sem fór með hlutverk meinta töffarans.

Með aðalhlutverkið fer TikTok-stjarnan Addison Rae Easterling, sem hefur heldur betur slegið í gegn á samfélagsmiðlinum þar sem hún er með rúmlega 60 milljónir fylgjenda. Má geta þess að Cook fer með hlutverk móður aðalpersónunnar.

He’s All That er skrifuð af sama handritshöfundi upprunalegu myndarinnar, R. Lee Fleming Jr., en líkt og áður er um að ræða nútíma útfærslu á leikriti George Bernard Shaw, Pygmalion. Sótti hin stórfræga kvikmynd My Fair Lady frá 1964 einnig innblástur í sama verk.

Við stjórnvölinn situr Mark Waters, sem hefur meðal annars leikstýrt gamanmyndunum Freaky Friday, Mr. Popper’s Penguins, Vampire Academy, Bad Santa 2 og klassíkina Mean Girls.