Mætir fjölda persóna úr fyrri seríum

Köngulóarmaðurinn mun mæta góðkunnum karakterum í næstkomandi Spider-Man mynd, verða þetta karakter úr fyrri seríum.

Þessi þriðja (enn ótitlaða) Spider-Man mynd verður sú síðasta í bili sem unnin er af Sony í samstarfi við Marvel Studios, en það er auðvitað Tom Holland sem gengur með grímuna. Myndin er þar af leiðandi framhald myndanna Spider-Man: Homecoming og Far From Home.

Eins og aðdáendur tóku eftir í myndinni Far From Home skaut J.K. Simmons skaut upp kollinum í gestahlutverki sem J. Jonah Jameson og stendur til að endurtaka þann leik; að þessu sinni sem tvær mismunandi útgáfur persónunnar. Verður það þessi sem sást í áðurnefndri mynd og sú útgáfa sem birtist í þríleiknum frá Sam Raimi.

Undanfarnar vikur hefur hver tilkynningin borist á fætur annarri um ráðningu leikara sem hafa áður brugðið fyrir; til að mynda Jamie Foxx (sem fór með hlutverk Electro í The Amazing Spider-Man 2) og Alfred Molina (Doc Ock úr Spider-Man 2).

Samkvæmt vef Collider er einnig líklegt að fyrrum Köngulóarmennirnir Andrew Garfield og Tobey Maguire komi fram, auk þeirra Kirsten Dunst (Mary Jane Watson) og Emmu Stone (Gwen Stacy) en ekki er búið að ganga frá öllum samningum.

Jon Watts mun leikstýra þriðju mynd sinni um þessa ofurhetjuna. Auk Holland má bú­ast við að þau Zendaya, Marisa Tomei, Tony Revolori og Jacob Batalon snúi aftur.