Héraðið og Hvítur, hvítur dagur á lista yfir 50 bestu myndir ársins

Kvikmyndagagnrýnendur breska miðilsins The Guardian hafa tekið saman lista yfir 50 bestu myndir ársins 2020 og eiga þar tveir íslenskir titlar góðan sess. Annars vegar er það Héraðið eftir Grím Hákonarson og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason. Óhætt er að fullyrða að báðar kvikmyndir hafa vel fallið í kramið hjá gagnrýnendum um allan heim.

Í samantektinni segir The Guardian Héraðið vera kröftugt „spillingardrama“ og er íslenska landslaginu hrósað óspart. Fyrr á árinu ritaði Peter Bradshaw dóm um myndina og líkti hana í jákvæðu samhengi við verk leikstjórans Elia Kazan. Hann gaf Arndísi Hrönn Egilsdóttur glimrandi umsögn og myndinni fjórar stjörnur.

Bradshaw hafði einnig skrifað um Hvítan, hvítan dag fyrr á árinu og fór fögrum orðum um Ingvar E. Sigurðsson. Myndin hlaut fjórar stjörnur og sagði gagnrýnandi myndina takast að koma áhorfandanum úr jafnvægi en jafnframt halda honum á sætisbrúninni.