Hildur landar nýrri stórmynd

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir mun semja tónlistina fyrir nýjustu kvikmynd leikstjórans David O’Russell.

Ekki er enn komið heiti á myndina en áætlað er að tökur hefjist snemma árið 2021. Þau Christian Bale, Margot Robbie og John David Washington fara með helstu hlutverkin.

Fyrr á þessu ári braut Hildur blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar þegar hún varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta hin eftirsóttu Óskarsverðlaun. Þetta var hápunkturinn á ótrúlegri sigurgöngu tónskáldsins en frá því í september 2019 hefur hún unnið Emmy, Golden Globe, Grammy og BAFTA auk Óskarsins. Hefur Hildur notið mikillar hylli, þá fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl og kvikmyndinni Joker.

Má þess einnig geta að Hildur var á dögunum tilnefnd til Grammy verðlauna, sem afhend verða næstkomandi janúar, fyrir Joker í flokknum Best Score Soundtrack For Visual Media.

Leikstjórann David O’Russell ættu margir að þekkja en hann er hvað þekktastur fyrir myndirnar Flirting with Disaster, Three Kings, I Heart Huckabees, The Fighter, Silver Linings Playbook og American Hustle.