Eddie Redmayne kemur J.K. Rowling til varnar: „Ógeðslegt“

Breski leikarinn Eddie Redmayne virðist standa með höfundinum og áhrifavaldanum J.K. Rowling, að minnsta kosti á vissum grundvelli í ljósi mikillar gagnrýni vegna skoðanna hennar um kynvitund. Að sögn Redmayne hefur hatrið í garð rithöfundarins gengið fulllangt.

Rowling er auðvitað þekktust fyrir að hafa skrifað bækurnar um Harry Potter, og hefur síðustu árin verið heldur virk á Twitter og ítrekað reitt fólk til reiði með tístum sem gera lítið úr kynsegin og transfólki. Á meðal allmargra umdeildra ummæla hefur Rowling haldið fram að líffræðileg kyn sé eingöngu tvö, karlar og konur. Rowling hafði einnig lýst yfir stuðningi við rannsóknarkonuna Mayu Forstater sem missti starf sitt eftir að hún sagði á Twitter-síðu sinni að transkonur gætu ekki breytt líffræðilegu kyni sínu.

Segir þetta óásættanlegt á báða vegu

Í nýlegu samtali við Daily Mail segir Redmayne að fólk sem áreitir Rowling með hatursorðræðum, hótunum og annars konar aðkasti sé engu skárra en rithöfundinn sem verið er að gagnrýna. Segir hann að þessi hegðun sé hreinlega „ógeðsleg.“

Leikarinn tekur þó skýrt fram að fordómar í garð transfólks eru óásættanlegir og er hann almennt ósammála ummælum Rowling. Kveðst Redmayne eiga marga vini og samstarfsmenn úr transsamfélaginu.

„Á hverjum degi er skorað á mannréttindi þessa fólks og beitt því fordómum. Það er hryllilegt hvernig svona ofbeldi gagnvart transfólki heldur áfram um allan heim,“ segir leikarinn í viðtalinu.

Eins og flestum er kunnugt fer Redmayne með aðalhlutverkið í Fantastic Beasts kvikmyndunum, sem koma úr smiðju Rowling – og stendur þriðja myndin í undirbúningi um þessar mundir. Vakti leikarinn einnig athygli fyrir Óskarstilnefnt hlutverk í kvik­mynd­inni The Danish Girl þar sem hann túlkaði Lili Elbe, en Elbe var meðal þeirra fyrstu sem geng­ust und­ir kyn­leiðrétt­ing­ar­ferli.