Skrifaði þríleik um hrunið: „Ég yrði glaður ef það tækist að gera eina“

Ágúst Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður kveðst vera að draga saman seglin í kvikmyndagerðinni en vill ólmur gera kvikmyndir um hrunið. Segist hann vera með „trílógíu“ á teikniborðinu en þetta kemur fram í viðtali við Lifðu núna.

„Mér finnst fyrsti áratugur þessarar aldar vera einhver sá merkilegasti sem ég hef upplifað af mörgum merkilegum áratugum. Það var eitthvað svo fallegt við þessa sjúklegu bjartsýni þessarar þjóðar sem yfirleitt þarf ekki mikið til að státa af ágæti sínu en þarna fór bjartsýnin á eitthvert æðra svið. Góða tímann fyrir hrun héldu allir að þeir væru að græða svo mikið og höfðu svo mikla trú á efnahagsundrinu. Ég hef verið að horfa til baka á þessa tíma og skrifað þrjú handrit,” segir Ágúst.

„Nýlega sendi ég inn umsókn í Kvikmyndamiðstöð fyrir mynd sem heitir Lúx og gerist bæði í Lúxemborg og Íslandi. Ég yrði glaður ef það tækist að gera eina af þessari trílógíu, akkúrat þessa stundina vona ég að það verði Lúx. Þetta eru þrjár mismunandi sögur sem allar greina frá því hvernig bólutíminn hafði áhrif á venjulegt fólk, ekki aðalpersónurnar í efnahagsundrinu heldur alþýðumanninn, þá sem stóðu nálægt aðalpersónunum en voru ekki aðalgerendur, fólkið sem hreifst með.“

Eftir Ágúst liggur fjöldi kvikmynda sem allar eru ólíkar en Land og synir markaði tímamót og aðstæður fyrir 40 árum. Í ofannefndu viðtali ræðir Ágúst kvikmyndagerðina, uppruna sinn, Húsavík, framtíðina og fleira en leikstjórinn varð 73 ára á dögunum og rifjar upp aðstæður íslenskrar kvikmyndagerðar á frumstæðari tímum hennar.

„Ég hefði aldrei trúað því fyrir 40 árum að kvikmyndagerð yrði svona stór atvinnugrein, segir Ágúst. Ég hefði seint trúað því að kvikmyndageirinn yrði það milljarðadæmi sem hann nú er orðinn.“

Bjargað fyrir horn

Leikstjórinn rifjar upp Land og syni og hvernig tókst að spila úr litlu og koma saman bíómynd með því takmarkaða fjármagni sem var í boði. Síðar kom Útlaginn, sem var metnaðarfullt verk og tengdist þeim áhuga sem Ágúst hafði haft á Íslendingasögum frá barnæsku. Framleiðsla myndarinnar var dýr en þegar tókst að selja hana í sjónvarp erlendis bjargaðist þá fyrirtækið fyrir horn.

Segir þá Ágúst frá tökum Með allt á hreinu, sem hann segir hafa verið unna á miklum spretti og hafi ekki allt farið eftir áætlun.

„Handritið var einungis til sem atriðahandrit, tiltölulega nákvæmt en ég tók þá stefnu að reyna ekki að skrifa samtöl ofan í þennan hóp heldur fá alla til að spinna upp textann inn í atriðin sem ég hafði skrifað. Margar hugmyndirnar urðu síðan til við tökur,“ segir Ágúst.