40 ára afmælisútgáfa Grease sýnd í næstu viku

Hinn sívinsæla söngva- og dansmynd Grease frá 1978 er mörgum í fersku minni en þar fóru Olivia Newton-John og John Travolta á kostum og það meira. Nú eru liðin yfir 40 ár frá því þau léku kærustaparið Danny og Sandy og sungu af innlifun um sumarástina.

Félagslíf þeirra Danny og Sandy virðist ekki vera flekklaust frekar en margt annað á menntaskólaárunum. Þegar klíkuheimur gagnfræðiskólans Rydell er umturnaður á svipstundu neyðist leðurklæddi, bílaóði gúmmítöffarinn til að (skulum við segja…) greiða úr því hvort þröngsýnu skólafélagarnir eða sumarástin hafi vinninginn. Sandy neitar þó að gefast upp án þess að setja sig í baráttustellingar, eða ganga þá leið sem þarf til að fanga athygli vitleysingsins vinsæla. Fyrir henni er þetta allt sama tóbakið.

Í tilkynningu frá Senu segir að þessi dúndrandi hressa söngvamynd muni prýða stærri sali Smárabíós, þrjá daga í röð í glæsilegri (stór)afmælisútgáfu og sýnd af 4K laser-myndvarpa. Fjörið fer af stað í byrjun næsta mánaðar, eða dagana 2.-4. júlí nánar til tekið og má búast við nánari upplýsingum um sýningartíma á allra næstu dögum.

Allir syngja með…

Aðeins þessar þrjár sýningar verða í boði og fengin verður sérstök „sing-along“ útgáfa og hefur myndin sjálf verið endurbætt frá upprunalegu hljóð- og myndgæðum. Sýnd verður 40 ára afmælisútgáfa sem var sérstaklega unnin og slípuð fyrir sérsýningar vestanhafs fyrir nokkrum árum.

Áhorfendur mega þá ekki vera feimnir við að taka funheita ‘50s fílinginn alla leið, dusta rykið af gamla leðurjakkanum og dansa með fjörinu þangað til máninn verður blár.


Bjóddu þínum vinahópi á söngsýningu Grease

Kvikmyndir.is ætlar að bjóða einum heppnum einstaklingi tækifæri til að bjóða fimm manns úr sínum vina- eða fjölskylduhópi – sex talsins – en að sjálfsögðu þarf fyrst að svara fáeinum fisléttum spurningum.

Þær hljóma svo…

  1. Á hvaða ári gerist Grease?

a) 1952
b) 1955
c) 1958

  1. Hvert er skírnarnafn Rizzo?
    a) Donna
    b) Betty
    c) Veronica

3. Hver af neðangreindum Íslendingum hefur EKKI leikið Sandy í íslenskri sviðssetningu á Grease?

a) Selma Björnsdóttir
b) Birgitta Haukdal
c) Svala Björgvinsdóttir

  1. Kláraðu textann við erindið á laginu:

    “Beauty school dropout…”

a) “…Missed your mid-terms and flunked shampoo.”
b) “…You’ve got the dream but not the drive.”
c) “… What’s left of your career now?“

  1. Hvað heitir sjónvarpsstjarnan fræga sem Edd Byrnes leikur?

a) Michael Carrington
b) Vince Fontaine
c) Goose McKenzie

Svör mega sendast á netfangið tommi@kvikmyndir.is með yfirskriftinni “Koppafeiti”.

Dregið verður úr hópi þeirra sem senda inn rétt svör og verður stóri vinningshafinn tilkynntur á vefnum á mánudaginn 29. júní.