Nýjasta mynd Baltasars komin með fjárfesta

Sannsögulega dramað Arthur the King í leikstjórn Baltasars Kormáks hefur náð að tryggja sér framleiðslufjármagn, en frá því var greint í Variety nú á dögunum. Segir þar að myndin hafi fengið fullan styrk fyrr en búist var við en ekki var reiknað með að þessi fasi kæmi fyrr en á Virtual Market ráðstefnunni í Cannes sem fer fram í næstu viku.

Nú er þó útlit fyrir að fyrirtækin Entertainment One og Tooley Entertainment, bæði þekkt á sviði indí-kvikmynda, muni sjá um framleiðslu myndarinnar hans Baltasars. Til stóð upphaflega að Paramount sæi um dreifinguna á myndinni en nú hefur kvikmyndaverið Lionsgate tekið við því kefli, að minnsta kosti hvað vestrænan markað varðar.

Arthur the King er þriðja samstarfsverkefni þeirra Baltasars og stórleikarans Mark Wahlberg. Kvikmyndin segir frá götuhundinum Arthur sem vingast við fyrirliða sænsks liðs sem tók þátt í Adventure Racing World Championship árið 2014 í Amazon-skóginum. Umræddur fyrirliði er Mikael Lindnord, höfundur bókarinnar Arthur: The Dog Who Crossed the Jungle to Find a Home. Myndin er byggð á bókinni og segir hún frá sambandi höfundarins við Arthur, sem Lindlord tók að sér eftir ævintýraför þeirra um Ekvador.

Þeir Baltasar og Wahlberg unnu fyrst saman að kvikmyndinni Contraband (2012) og síðar 2 Guns (2013). Tökurnar á Arthur the King eru sagðar eiga að fara fram fyrri hluta næsta árs. Ekki er vitað meira um fleiri leikara myndarinnar að svo stöddu en handritshöfundurinn Michael Brandt skrifar handritið að myndinni og á hann að baki bíómyndir á borð við Wanted, 3:10 to Yuma og 2 Fast 2 Furious.