„Kvennaútgáfa“ Síðustu veiðiferðarinnar á leið í tökur

Síðasti saumaklúbburinn í leikstjórn Göggu Jónsdóttur er á leið í tökur næstkomandi júlí en þar er um að ræða gamanmynd í anda Síðustu veiðiferðarinnar frá sömu framleiðendum. Nýverið úthlutaði Kvikmyndasjóður Íslands styrkjum af sérstakri 120 milljón króna fjárveitingu vegna átaksverkefnis stjórnvalda í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Stærsta styrkinn hlýtur saumaklúbburinn, alls 35 milljónir króna.

Síðasti saumaklúbburinn er fyrsta kvikmynd Göggu Jónsdóttur í fullri lengd, en hún hefur starfað við tugi kvikmynda, auglýsinga og sjónvarpsþátta, bæði íslenska og erlenda framleiðslu. Var hún þar að auki einn af handritshöfundum dramedíunnar Agnes Joy, sem frumsýnd var við góðar viðtökur í fyrrahaust. Gagga, eins og hún er alltaf kölluð, er gift leikaranum Þorsteini Bachmann, sem er á meðal aðalleikara veiðiferðarinnar.

„…Þýðir ekkert annað en að nýta þessa orku“

Eftir fimmtándu sýningarhelgi (þar af níu helgar í sýningum) er Síðasta veiðiferðin enn á toppi aðsóknarlistans þar sem hún hefur verið frá frumsýningu í byrjun mars. Nú hafa yfir 24 þúsund gestir séð myndina. Myndin var gerð án opinberra styrkja og standa þeir Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson á bak við útkomuna. Áratugareynsla þeirra beggja í kvikmyndagerð kom sér því vel en á meðal verka sem þeir hafa staðið að er heimildarmyndin Ham: lifandi dauðir frá árinu 2001.

Í samtali við Kvikmyndir.is segir Örn Marinó að Síðasti saumaklúbburinn verði á allan veg sjálfstæð kvikmynd og séu myndirnar lítið tengdar nema í anda. „Þessi mynd verður eflaust miklu betri en okkar,“ segir hann hress.

Þeir Þorkell og Örn Marinó.

„Eftir að við frumsýndum veiðiferðina í mars kom Gagga til okkar, liggur við daginn eftir, og sagðist ætla að gera kvennaútgáfuna af þessu. Hún fékk mánuð til að skrifa þetta og vann að handritinu með Snjólaugu Lúðvíksdóttur uppistandara.

Þær kláruðu handritið, okkur fannst það frábært og síðan kom þessi COVID-sjóður, sem við sóttum um í og þetta passaði mjög vel inn í það. Við fengum styrk og ákváðum þá að kýla á þetta. Það þýðir ekkert að hanga og bíða endalaust. Það þýðir ekkert annað en að nýta þessa orku sem er til staðar í stað þess að hanga yfir öllu og ofhugsa þetta.“

Örn Marinó segist vera heilt yfir ánægður með velgengni veiðiferðarinnar og telur það jákvætt að meira af gríni fái að tilheyra flóru íslenskra kvikmynda.

Leikstjórar veiðiferðarinnar hafa sjálfir gefið upp að myndin sé byggð lauslega á sönnum veiðisögum. Undirritaður komst þá ekki hjá því að spyrja hvort þeir félagarnir hafi fengið einhver kostuleg boð í veiðiferðir í kjölfar frumsýningarinnar. Örn Marinó svarar þessu játandi og tekur fram að veiðitúr með Eggerti Skúlasyni fjölmiðlamanni hafi staðið upp úr.

Hófí handan við hornið

Um þessar mundir eru þeir Þorkell og Örn Marínó að undirbúa frumsýningu gamanmyndarinnar Amma Hófí, með Eddu Björgvinsdóttur og Þórhalli (Ladda) Sigurðssyni í aðalhlutverkum.

Á bakvið myndina stendur stór hluti teymisins sem vann að veiðiferðinni. Það er Gunnar B. Guðmundsson (Astrópía, Gauragangur) sem leikstýrir og skrifar handrit, en Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson framleiða í samvinnu við RÚV og Myndform/Laugarásbíó.

Auk þeirra Eddu og Ladda fara Sveppi, Steindi Jr, Anna Sava Knútsdóttir, Gríma Kristjánsdóttir, Pétur Jóhann, Steinn Ármann Magnússon, Halldór Magnússon, Þorsteinn Guðmundsson og Gísli Rúnar Jónsson með hlutverk í myndinni.

Áætluð frumsýning Síðasta saumaklúbbsins er í kringum febrúar-mars á næsta ári. Ekki hefur enn verið tilkynnt hvaða leikarar fara með helstu hlutverkin í myndinni en fullyrðir Þorkell að það verði gert á næstu dögum.