Áhugaverðir költ- og hryllingstitlar á Blu

Nokkrir áhugaverðir titlar eru væntanlegir á Blu-ray fyrir hryllingsmynda- og költ unnendur.

Arrow Films í Bretlandi gefur út Lucio Fulci myndina „Don‘t Torture a Duckling“ frá árinu 1972. Fulci fékk viðurnefið „The Godfather of Gore“ eftir að hafa slegið í gegn með nokkrum uppvakningamyndum („Zombie Flesh Eaters“, „The Beyond“ og „City of the Living Dead“) á áttunda og níunda áratugnum en hann var sannkallaður þúsund þjala smiður í bransanum þar sem að á 32 ára ferli leikstýrði hann meira en 50 myndum af öllum toga. Hann gerði nokkrar „Giallo“ myndir og að margra mati var „Duckling“ hans allra besta.

Fáfræði og múgæsingur hjá fólki í dreifbýlishéraði á Ítalíu leiðir af sér hryllilegar afleiðingar þegar samfélagið er grunlaust um hver er að myrða unga drengi í þorpinu. Ung kona og blaðamaður frá stórborginni rannsaka málið sem ristir mun dýpra en nokkurn grunaði í fyrstu. „Duckling“ er ein af bestu „Giallo“ myndunum; sérlega vandað verk frá Fulci þar sem leikstjórinn skýtur föstum skotum á erindreka trúarinnar og fordóma í öllum sínum birtingarmyndum. Útgáfudagur er 14. ágúst næstkomandi.

„The Slayer“ (1982) er lítt þekkt slægja sem Arrow hefur grafið upp og veitir kóngameðferð í háskerpu. Þessari er lýst sem einhvers konar andlegum forvera „A Nightmare on Elm Street“ (1984) þar sem martraðir verða, í orðsins fyllstu, að veruleika og nokkur ungmenni verða fyrir barðinu á ófrýnilegri ófreskju. Svo gerist myndin á afskekktri eyju í þokkabót. Þessi gæti verið áhugaverð og útgáfudagur er 21. ágúst næstkomandi.

88 films í Bretlandi eru einnig á góðu róli og nokkrar slægjur eru sérlega spennandi. „Just Before Dawn“ (1981) er hátt metin og beðið hefur verið eftir með talsverðri eftirvæntingu. Enn ein „óbyggðarslægjan“ en áherslan er meira á andrúmsloft og (smá) persónusköpun frekar en háa drápstölu. Hún sækir innblástur til frægra verka á borð við „The Texas Chain Saw Massacre“ (1974) og „The Hills Have Eyes“ (1977) þó svo að leikstjórinn Jeff Lieberman segist ekki hafa séð þær áður en hann gerði myndina. Ekki sérlega trúlegt en hver veit! Þessi kemur út 24. júlí.

Seinna á árinu er svo væntanlegar frá 88 Films einnig „The House on Sorority Row“ og „Sweet 16“ (báðar 1983). Ég get heilshugar mælt með þeirri fyrrnefndu fyrir aðdáendur. Nokkrar föngulegar (og frekar illa innrættar) stúlkur í systrafélagi myrða húsmóðurina (reyndar óvart) af því að hún er frekar ströng en óvættur sem leynist uppi á háalofti hefnir fyrir hana. Það var nokkurs konar faraldur í gangi í slægjuheiminum á þessum tíma en myndir um systrafélög og meðlimi þeirra í stórhættu (sem yfirleitt voru mjög fáklæddar) komu á færibandi á nokkurra ára tímabili, s.s „Slumber Party Massacre“ og „Sorority House Massacre“ myndirnar sem ólu af sér framhöld. En „The House on Sorority Row“ er frekar stílhrein og sjónræn mynd á köflum sem þó dregur ekki úr blóðsúthellingum og hún nær að viðhalda ónotalegri stemningu (með tilheyrandi nekt og kynlífsatriðum að sjálfsögðu). Þessi kemur á óvart og gaman verður að sjá hana í háskerpu.

„Sweet Sixteen“ hef ég bara aldrei heyrt um en hún lítur vel út. Sextán ára stúlka flytur í bæ þar sem hún verður vör við mikla kynþáttafordóma og sýnilegt einelti en verra er að í hvert skipti sem hún kynnist einhverjum strák þá er hann myrtur. En hver er morðinginn? Ég er til í að komast að því. Það er óvenju góður leikarahópur í þessari; Bo Hopkins („American Graffiti“, „The Wild Bunch“), Patrick Macnee („The Avengers“ þáttaröðin), Don Stroud („Buddy Holly Story“, „The Amityville Horror“) og svo fegurðadrskvísan Dana Kimmell sem ég hélt hreinlega að hefði bara leikið í einni hryllingsmynd á sínum stutta leikferli („Friday the 13th Part III“). „Sweet Sixteen“  fær ágætis dóma bæði frá þeim fáu faglegu gagnrýnendum sem ég finn sem og notendum á IMDB.

Blu-ray útgefendur halda áfram að veita gömlum költ titlum fyrsta flokks meðferð í háskerpu og ef marka má samfélagsmiðlana þá er mikill spenningur fyrir þessum myndum.