Óskað eftir „Deadly Friend“ viðhafnarútgáfu

Rúmt ár er síðan hryllingsmyndaleikstjórinn Wes Craven lést af völdum illkynja heilaæxlis. Það var því miður raunin með Craven að í fáein skipti voru öll völd tekin frá honum og hann var neyddur til að skila frá sér myndum sem hann var langt í frá að vera sáttur við. Ein þeirra var „Deadly Friend“ (1986) en framleiðendur og aðrir stórlaxar innan Warner Brothers kvikmyndaversins komu stöðugt með hugmyndir að því hvernig myndin gæti verið blóðugri og meira krassandi þannig að endanleg útgáfa var fjarri því sem Craven og handritshöfundurinn Bruce Joel Rubin lögðu upp með í byrjun. Í gangi er undirskriftasöfnun frá einum aðdáenda myndarinnar sem mögulega gæti kallað fram upprunanlegu sýn Cravens.

DF4

„Deadly Friend“ var hugsuð sem unglingahrollvekja sem hafði dauðadæmt ástarsamband tveggja táninga sem rauðan þráð. Meiningin var aldrei að hún yrði mjög blóðug en hún sótti meiri innblástur til gamalla hryllingsmynda eins og „Bride of Frankenstein“ (1935) og ýmissa fjölskylduvænna vísindaskáldsagna. Paul (Matthew Labyorteaux), nýi strákurinn í hverfinu verður ástfanginn af Samönthu (Kristy Swanson), stelpu sem býr ein með ofbeldisfullum og drykkfelldum föður sínum. Kvöld eitt í ölvímu byrjar hann að þreifa á dóttur sinni og til átaka kemur með þeim afleiðingum að Samantha deyr. Paul tekst að endurlífga Samönthu en þá byrjar hún, í uppvakningastandi sínu, að þurrka út þá sem voru vondir við hana með blóðugum aftökum.

DF3

Í grunninn var þetta hugmyndin að myndinni en Craven vildi leggja meiri áherslu á mannfólkið sem aðila sem búa yfir mikilli illsku og mun meiri tími fór í ástarsögu Paul og Samönthu. Þegar Samantha hefndi sín á kvölurum sínum og Pauls voru drápsatriðin leyst með minniháttar blóðsúthellingum og meira púðri var eytt í þá sorglegu staðreynd að hún var í lifandi dauðu ástandi. Craven kláraði myndina eins og hann vildi en þökk sé slæmri prufusýningu var ákveðið að ráðast í endurtökur. Honum var skipað að kvikmynda fleiri atriði sem áttu að vera mjög blóðug og ofbeldisfull og þar sem hann var samningsbundinn gerði hann það. Einnig var honum fyrirskipað að skella á myndinni endi, sem enginn aðdáandi myndarinnar kann að meta, sem er loka bregðuatriði sem ekkert vit er í og gerir lítið úr öllu sem á undan hefur gengið. Það er Craven til óendanlegs hróss að honum tókst að búa til sæmilega mynd úr „Deadly Friend“ og hún á sér slatta af aðdáendum.

DF2

Einn slíkur aðdáandi, Igor Maluf frá Brasilíu, hefur í þó nokkurn tíma reynt að safna undirskriftum fyrir viðhafnarútgáfu af „Deadly Friend“ og í dag hafa 413 manns skrifað undir. Hann er búinn að sanka að sér öllum mögulegum upplýsingum um hvernig upprunalega útgáfa Cravens var og sýnir einnig fjölda „still“ mynda sem ekki eru sjáanleg í endanlegu útgáfunni. Hann bendir einnig á nokkur atriði sem eru í sýnishorninu en ekki í myndinni. Ósk hans er að sjá fyrirtæki eins og Shout Factory í Bandaríkjunum eða Arrow Films í Bretlandi taka að sér það verkefni að púsla saman útgáfu Cravens eins og hann skilaði frá sér til að byrja með.

DF5

Það ber að hrósa svona framtaki en það eru ekki mörg ár síðan „Superman II: The Richard Donner Cut“ (2006) fékk grænt ljós eftir þreytulaust tuð frá aðdáendum um að sjá allt myndefnið sem Donner skaut. Fólk fékk þá að sjá, að mestu, hvernig „Superman II“ var hugsuð í upphafi og meira af Christopher Reeve og Marlon Brando. Það verður þó að teljast ólíklegt að „Deadly Friend“ fái sömu meðferð en rúm 30 ár eru síðan myndin var frumsýnd og leikstjóri myndarinnar látinn. Svo eru undirskriftirnar frekar fáar. En hver veit!

Fyrir forvitna er hér hlekkur á Youtube myndband sem greinir í stuttu máli frá sögu „Deadly Friend“.