Apparat opnar pólska kvikmyndadaga

Apparat Organ Quartet mun opna hátíðina Perlur úr kvikmyndasögu Póllands með lifandi undirleik í Bíó Paradís við myndina Harðjaxl, fimmtudaginn 12. nóvember.

Hljómsveitin kemur sjaldan fram opinberlega og því er um spennandi tónlistarviðburð að ræða, en Apparat mun spila frumsamda tónlist við myndina.

apparat

Á hátíðinni verða sýndar í Bíó Paradís perlur úr kvikmyndasögu Póllands, alls 15 kvikmyndir, en pólsk kvikmyndalist á sér langa og ríka sögu. Um er að ræða samstarfsverkefnið Ultima Thule: At the End of the World, sem Kvikmyndasafn Póllands, Bíó Paradís og Reykjavík Film Academy standa að.

Verkefninu er ætlað að auðga skilning og vitund á milli pólskrar og íslenskrar kvikmyndamenningar. Á undan hverri sýningu mun Michal Chacinksi reifa sögulegt samhengi hverrar myndar fyrir sig.

Tveir viðburðir verða í boði fyrir börn og unglinga, annars vegar vinnusmiðja þar sem nokkrar sniðugar leiðir til að gera hreyfimyndir án myndavélar og sýningar á költ klassíkinni Mr. Blot´s Academy.

Aðgangur að öllum viðburðum er opinn öllum og ókeypis. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu hátíðarinnar.